27.03.1962
Efri deild: 72. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. hefur nú haldið hér alllanga og á ýmsa lund athyglisverða ræðu. Hún minnti mig á sögu af einum ágætum alþingisframbjóðanda, að vísu Alþfl.-frambjóðanda, sem bjó sig mjög vel að heiman í framboðsfundareisu, hafði ekki aðeins skrifaðar frumræðurnar, sem hann ætlaði að halda á hverjum fundi, heldur og svarræðurnar. Svo þegar á framboðsfundina kom brá að vísu út af því stundum, að þeir, sem á móti honum mæltu, höguðu máli sínu á þá lund, sem þessi hv. Alþf1.-frambjóðandi hafði gert ráð fyrir, en eigi að síður þuldi hann þær skrifuðu ræður, sem hann hafði verið búinn að undirbúa.

Hæstv. viðskmrh. hafði það hlutverk hér áðan að mæla fyrir frv. um staðfestingu á brbl. um flutning gengisskráningarvaldsins af löggjafanum í hendur Seðlabankans. En í stað þess að rökstyðja nauðsyn þeirra brbl. eyddi hann langmestu máli sínu í að svara aths., sem hafa komið fram annars staðar en hér í þessari hv. d., eða ímynduðum aths., sem hann hefði getað vel látið bíða, þangað til eitthvað var búið að ræða málið hér og sjá, hvað fram kæmi í aths. við það. Og í þriðja lagi ræddi hann svo aðallega um það frv., sem fylgir í fótspor þessa frv., hinn svokallaða gengislækkunarkálf, en gerði lítið að því að rökstyðja þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr., heldur ræddi stjórnmálin að ýmsu leyti vítt og breitt. Honum fór því að ýmsu leyti eins og þessum gamla Alþfl.-frambjóðanda, sem ég minntist á hér áðan.

Það má segja, að kjarninn í hans ræðu, hæstv. viðskmrh., og það atriðið, sem hann lagði mesta áherzlu á og allan þunga í flutningi sinnar ræðu, það var að sýna fram á, hvílík nauðsyn það hefði verið að kippa aftur af íslenzkum verkalýð og launastéttum þeirri kauphækkun, sem þær fengu á s.l. sumri, — afstýra, eins og hann orðaði það, því tilræði, sem hinar óhóflegu kauphækkanir hefðu verið s.l. sumar. Ég verð nú að segja, að það hefði einhvern tíma þótt fyrirsögn, ef ráðh. Alþfl. hefði komið í ræðustól hér á hv. Alþ. og haldið því fram, að kjarabætur til handa launþegum væru tilræði við þjóðarhaginn. Og ég verð að segja, að ég held, að það geti varla hjá því farið, að íslenzk alþýða hlýtur að sjá, að slíkur hæstv. ráðh. getur ekki verið málsvari fyrir alþýðuna í þessu landi.

Ég hafði hugsað mér að ræða fyrst og fremst það frv., sem hér liggur fyrir til umr., en hæstv. ráðh, hefur með sinni ræðu gefið tilefni til þess, að málið allt sé rætt á nokkru víðtækari grundveili. Mun ég því síðar nokkuð víkja að þeim atriðum sumum hverjum, sem hann talaði um, enda þótt þau eigi frekar heima í sambandi við annað mál, eins og ég áður sagði.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er, eins og þegar hefur verið tekið fram, til staðfestingar á brbl. frá 1. ágúst s.l. Efni þeirra brbl. er það — og það eitt — að ákveða, að Seðlabankinn ákveði að fengnu samþykki ríkisstj. stofngengi íslenzku krónunnar gagnvart erlendum gjaldeyri og gulli, og breyta þau þá um leið 18. gr. seðlabankalaganna, nr. 10 1961. M.ö.o.: efni þessa frv. er það og það eitt, — og brbl., sem þau eiga að staðfesta, — að flytja gengisákvörðunarvaldið til, úr höndum löggjafans og í hendur Seðlabankans. Það er að vísu athugandi og aðfinnsluvert, að í formála fyrir þessum brbl. er gefið í skyn, að efni þeirra sé annað en þetta, sem ég nú hef drepið á. Í formála fyrir brbl. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Viðskiptamálaráðherra hefur tjáð mér, að vegna hinna miklu kauphækkana, sem átt hafa sér stað að undanförnu, séu fyrirsjáanlegir miklir erfiðleikar í efnahagsmálum, ef ekkert sé að gert. Áhrif kauphækkananna muni á skömmum tíma breiðast um allt hagkerfið og valda almennri hækkun framleiðslukostnaðar og aukinni eftirspurn eftir gjaldeyri, en þetta muni svo á hinn bóginn hafa í för með sér versnandi afkomu útflutningsatvinnuveganna og alvarlegan greiðsluhalla þjóðarbúsins út á við. Til þess að koma í veg fyrir þessa þróun og atvinnuleysi og gjaldeyrisskort, sem henni mundi fylgja, beri nauðsyn til að endurskoða gengisskráninguna í samræmi við breytt viðhorf.“

Allar þessar ástæður, sem þarna eru taldar, eru ástæður fyrir því að breyta genginu, lækka gengið. Þær eru alls ekki ástæður fyrir því að flytja sjálft gengisskráningarvaldið til. Þessar ástæður, sem þarna eru færðar fram fyrir brbl., eru því vægast sagt villandi og óviðeigandi. Í því, sem ég segi þar um, felst ekki gagnrýni á forseta Íslands, þó að lögin séu gefin út í hans nafni og hann geri þessar aths. Þannig að sínum, því að eftir þeim stjórnarháttum, sem fylgt hefur verið hér, hefur verið gengið út frá því, að forseti yrði í einu og öllu við tilmælum þess ráðh., sem hverju sinni ber ábyrgð á stjórnarathöfn. En auðvitað eru slíkir stjórnarhættir engin stjórnskipuleg nauðsyn hér, og á þessu fyrirkomulagi þyrfti að mínum dómi að verða breyting, þannig að það væri ákaflega æskilegt, að forseti hefði sér við hönd einhverja stofnun eða stjórnarskrárnefnd, sem hann gæti vísað málum til og fengið álitsgerð um þau málefni, t.d. brbl., sem ráðh. leggur fyrir hann, og fengið þannig umsögn sérfróðra manna um það, hvort brbl. t.d. brytu í bága við stjórnarskrána, áður en hann veitti atbeina sinn til þeirra. Ég held, að það gæti verið öllum aðilum til góðs, að það væri þannig fyrir fram fengið álit um það og umsögn, hvort fyrirhuguð lagasetning bryti í bága við stjórnarskrána eða ekki.

En það er nú einmitt þannig, að í stjórnarskránni eru sérstök ákvæði um brbl., ákaflega einföld og auðskilin. Eitt meginskilyrðið til útgáfu brbl. er skv. 28. gr. stjórnarskrárinnar, að brýna nauðsyn beri til lagasetningarinnar. það er að vísu svo, að þetta skilyrði um brýna nauðsyn er ákaflega matskennt og teygjanlegt skilyrði. Og það er vafalaust, að stundum hefur verið gengið nokkuð langt í því efni hér á landi að grípa til brbl., og sjálfsagt má finna þess ýmis dæmi, að það hafa ekki verið gerðar mjög strangar kröfur til þeirrar brýnu nauðsynjar, sem fyrir hendi þyrfti að vera.

Með þessum brbl., sem hér liggja fyrir til staðfestingar, er, eins og þegar hefur verið tekið fram, gengisákvörðunarvaldið flutt úr höndum löggjafans í hendur Seðlabankans. Samkvæmt 28. gr. stjórnarskrárinnar er slík aðgerð því aðeins heimil með brbl., að til hennar hafi borið brýna nauðsyn. Ég held, að því verði ekki haldið fram, og ég hef ekki heyrt, að hæstv. ráðherrar reyndu í raun og veru að halda því fram, að það hafi borið brýna nauðsyn til þess að færa sjálft gengisákvörðunarvaldið úr höndum löggjafans og í hendur annarri stofnun, Seðlabankanum, þannig að ég held, að það geti varla orðið skiptar meiningar um það, að þessu skilyrði stjórnarskrárinnar um brýna nauðsyn var ekki fullnægt í þessu tilfelli. Ég veit, að einn af hæstv. ráðherrum, hæstv. dómsmrh., er manna fróðastur um útgáfu brbl. og framkvæmd í þeim málefnum hér á landi. Ég efast ekki um, að hann geti bent á ýmis dæmi þess, þar sem hafi verið farið á fremsta hlunn í þessu efni, teflt á nokkuð tæpt vað, og þar sem kannske megi eitthvað vefengja það, að brýn nauðsyn hafi verið fyrir hendi við útgáfu brbl. En ég leyfi mér að fullyrða, að hann muni ekki geta bent á eitt einasta dæmi úr þeirri sögu, sem sé nokkuð í líkingu við þetta dæmi, sem hér liggur fyrir, og þar sem það liggur jafnaugljóslega fyrir, að það er alveg útilokað, að brýn nauðsyn sé fyrir hendi fyrir þeirri aðgerð, sem gerð var með þessum brbl. Ég veit, að ef hæstv. ráðh. hefur slík dæmi á takteinum, muni þau koma fram hér í þessum umræðum.

Rök hæstv. ríkisstj. eru á þá lund, að gengislækkun hafi verið nauðsynleg. Nú er því að vísu mótmælt af hálfu stjórnarandstöðunnar, að það hafi verið nokkur brýn nauðsyn fyrir hendi til þess að grípa til gengislækkunar, en það má þó fyrst um sinn láta það atriði liggja á milli hluta, því að það er sitt hvað, að ástæða hafi verið til gengislækkunar, og hitt að taka ákvörðunarvaldið úr höndum löggjafans og þá fyrst og fremst Alþingis, sem farið hefur með það um langt skeið, og fá það í hendur stofnun — Seðlabankanum. Og um leið og ríkisstj. stóð að þessari bráðabirgðalagasetningu, afsalaði hún sér þar með sem bráðabirgðalöggjafa ákvörðunarvaldi um gengið og gat ekkert um það sagt, hvort bankastjórn Seðlabankans mundi líta sömu augum á nauðsyn gengisfellingar og hæstv. ríkisstj. M.ö.o.: um leið og hæstv. ríkisstj. gaf þessi brbl. út, hafði hún enga vissu eða tryggingu fyrir því, að gengisbreytingin mundi verða gerð, eins og hún hafði talið nauðsynlegt. Það má að vísu vel vera, að ríkisstj. hafi verið búin að ræða við bankastjóra Seðlabankans og kynna sér þeirra afstöðu fyrir fram. Um það skal ég ekkert dæma, en það liggur ekkert fyrir um það, og ekkert er komið fram um það í þessari lagasetningu.

Ég fæ því ekki betur séð en það sé alveg útilokað að halda því fram, að brýna nauðsyn hafi borið til þess að taka gengisskráningarvaldið úr höndum bráðabirgðalöggjafans og fá það í hendur stofnun, sem var algerlega óskuldbundin til þess að taka nokkra ákvörðun um gengisbreytingu. Og það er þetta, sem er kjarni þessa máls, sem hér er um að ræða, að það er útilokað að rökstyðja það, að skilyrði stjórnarskrárinnar um brýna nauðsyn samkvæmt 28. gr. hafi verið fyrir hendi við útgáfu þessara brbl.

Hæstv. ráðherra gerði, sem vonlegt var, eina litla tilraun til þess að rökstyðja það, að hér hefði ekki verið brotið í bága við stjórnarskrárákvæðið. Og hans röksemdafærsla var á þessa lund: Það er óumdeilt, að ríkisstj. sjálf hafði vald til þess að lækka gengið á þessum tíma, sem hér er um að ræða. Og þegar hæstv. ráðherra talar þarna um ríkisstj., þá á hann að sjálfsögðu við bráðabirgðalöggjafans. Úr því að ríkisstj. hafði þetta vald, þá var henni heimilt, samkv. kenningu ráðherrans, að fela annarri stofnun að fara með þetta vald, og hafði hún til þess frjálsar hendur, eins og ráðherrann orðaði það, að mig minnir. Hann sagði, hæstv. ráðherra: Fyrst Alþingi gat breytt genginu, þá hlaut bráðabirgðalöggjafinn líka að hafa óskoraða heimild til þess að breyta genginu. (Gripið fram í) þetta er ekki rétt, þetta er mikill misskilningur. Vald bráðabirgðalöggjafans er allt annað en Alþingis eða almenna löggjafans. Það er takmarkað. Hann má því aðeins grípa inn í, að brýn nauðsyn sé fyrir hendi. Og því aðeins mátti bráðabirgðalöggjafinn gefa út brbl. um gengislækkun, að brýna nauðsyn bæri til þeirrar gengislækkunar. Löggjafinn getur hvenær sem er tekið ákvörðun um gengið, En bráðabirgðalöggjafinn gat það ekki, nema til þess bæri brýna nauðsyn. En hitt er auðvitað alger fjarstæða að halda því fram, að þar sem bráðabirgðalöggjafinn hafi haft þetta vald, þá geti hann sett annan í sinn stað, falið honum að fara með það vald, án þess að gefa honum nokkur fyrirmæli um það, hvernig með það ætti að fara. Ef þessi kenning hefði nokkra stoð, hefði átt að haga brbl. að minnsta kosti á þá lund, að Seðlabankanum hefði verið falið að gera þetta og um leið tekið fram, á hverja lund hann ætti að breyta genginu. En það er ekki gert með þessum brbl., heldur er Seðlabankanum, sérstakri stofnun, fengið valdið, án þess að það sé nokkuð nánar kveðið á um, hvernig hann skuli með það fara. Nú er það svo, að það er langt frá því, að handhafi opinbers valds megi framselja sitt vald almennt, fela einhverjum öðrum að fara með það. Þvert á móti er viðurkennt, að það séu miklar skorður settar almennt við því. Og jafnvel löggjafinn má ekki framselja sitt vald og fela öðrum að fara með það vald, sem honum er fengið, nema innan vissra takmarka, og því síður má bráðabirgðalöggjafinn auðvitað gera það.

En jafnvel þó að það yrði litið svo á, að gengisskráningin væri ekki eitt þeirra atriða, sem löggjafanum væri óheimilt að afsala sér og fela öðrum í hendur, þá gildir þó skilyrði 28. gr. stjórnarskrárinnar alveg ótvírætt, að slíkt getur ekki átt sér stað, nema brýna nauðsyn beri til. Og nú liggur það í hlutarins eðli, að það er heldur ólíklegt, að slíkar aðstæður beri að höndum, að brýna nauðsyn beri til að taka þetta vald úr höndum löggjafans. Og það er yfirleitt heldur ólíklegt, að þær aðstæður beri að höndum, að bráðabirgðalöggjafinn þurfi að fara að afsala almenna löggjafanum valdi, enda mundi slíkt auðvitað í mesta máta verða talið óþingræðislegt.

Það geta að sjálfsögðu verið skiptar skoðanir um það, hvar gengisskráningarvaldið sé bezt komið, hvort það sé heppilegra almennt séð, að það sé í höndum löggjafans eða í höndum þjóðbankans. Og það er bent á ýmsar ástæður, sem mæla með því, að þetta vald sé betur komið í höndum þjóðbankans. Aðrir benda aftur á ýmis rök, sem mæla fremur með því, að þetta vald sé í höndum löggjafans og Alþingis, þjóðfulltrúasamkomunnar. Þetta sé svo mikilvægt og þýðingarmikið vald og það sé eðlilegt, að Alþingi hafi það í sinni hendi. Nú veit ég vel, að það má nefna þess mörg dæmi frá öðrum löndum, að þetta vald — gengisskráningarvaldið — sé hjá þjóðbanka, og ég skal í sjálfu sér ekkert dæma um það almennt, hvort þetta vald er betur komið hjá þjóðbanka eða löggjafarsamkomunni. En ég vil þó aðeins undirstrika það, að ef þetta vald á að vera hjá þjóðbanka, þá verður sá þjóðbanki að vera sjálfstæður, en má ekki að mínum dómi vera háður ríkisstj. með þeim hætti, sem Seðlabanki Íslands er nú, samkv. þeirri löggjöf, sem þar um var sett á síðasta Alþingi.

En það skiptir í þessu sambandi alls engu máli, þegar verið er að ræða um þessi brbl., sem hér liggja fyrir til staðfestingar, hvort menn almennt eru með því eða móti, að gengisskráningarvaldið sé í höndum þjóðbankans eða löggjafans. Það eitt skiptir hér máli, hvort það var stjórnskipuleg heimild til þess á s.l. sumri að taka gengisskráningarvaldið með brbl. úr hendi löggjafans og fá það í hendur Seðlabankanum. það út af fyrir sig snertir ekki kjarna málsins, hvort skipulagið er betra eða verra almennt séð. Þó að það skipulag væri betra, að þetta væri hjá Seðlabankanum, yrði auðvitað að gera þá breytingu með stjórnskipulegum hætti, svo að það fullnægði þeim skilyrðum, sem sett eru fyrir því.

Það er nú svo, að bráðabirgðalöggjafi er að vísu staðgengill löggjafans, en hann er þó aldrei annað en varaskeifa fyrir almenna löggjafann. Og eins og ég áðan sagði, getur það ekki talizt þingræðislegt, að bráðabirgðalöggjafinn fari að afsala öðrum í hendur því valdi, sem heyrir undir almenna löggjafann. Hann getur gripið inn í og tekið ákvörðun, þegar brýna nauðsyn ber til og almenni löggjafinn er ekki viðlátinn, — ákvörðun, sem á svo að leggja undir Alþingi síðar. En hitt er í alla staði óeðlilegt, að hann fari að afsala og það til frambúðar að formi til valdi, sem almenni löggjafinn hefur haft.

Það felst í þessari bráðabirgðalagasetningu, sem tekur þannig valdið af Alþingi og færir það í hendur annarri ríkisstofnun, mikil lítilsvirðing á Alþingi, og sú framkoma í garð Alþingis verður í raun og veru enn harkalegri og óeðlilegri og enn augljósara en ella, að höggvið er of nærri stjórnarskránni með útgáfu þessara brbl., þegar þess er gætt, að á s.l. Alþingi voru sett ný heildarlög um Seðlabanka Íslands. Og hæstv. ríkisstj. og stjórnarstuðningsmenn voru sérstaklega hrifnir af þessari lagasetningu um Seðlabankann á s.l. þingi, og þeir létu sér margir hverjir mjög tíðrætt um það, að sú löggjöf væri óvenjulega vel og rækilega undirbúin. Því til sönnunar mætti nefna mýmörg dæmi úr umr. um seðlabankafrv. frá síðasta Alþingi. Ég læt aðeins nægja að minna á fáein orð, sem hæstv. viðskmrh. lét þá falla, þegar hann fylgdi þessari löggjöf úr hlaði. Þá sagði hæstv. viðskmrh., með leyfi forseta:

Ríkisstj. hefur undirbúið þetta frv. vandlega. Hún gerir sér þess ljósa grein, að nauðsynlegt er, að skipulag bankamálanna sé í sem föstustum skorðum. Tíðar breytingar á bankalöggjöf eru ekki heppilegar. Af þessum sökum hefur ríkisstj. viljað leggja áherzlu á að koma nú bankalöggjöfinni og stjórn bankakerfisins í slíkt horf, að hvort tveggja gæti orðið til frambúðar.“

Og hv. þm. Jóhann Hafstein sagði m.a.: „Mér er kunnugt um það, eins og ég sagði áðan, að undirbúningur þessa máls hefur verið mjög vandaður.“

Það er því engum blöðum um það að fletta, að frá sjónarmiði hæstv. ríkisstj. og eftir hennar sögn og hennar stuðningsmanna var mjög vel vandað til setningar seðlabankalöggjafarinnar á síðasta Alþ., og ekki þarf að efa, að þeir, sem að þeirri löggjöf stóðu og hana undirbjuggu, hafi kynnt sér rækilega, hvernig löggjöf um slíkar stofnanir hafi verið fyrir komið í öðrum löndum. Það þarf því sjálfsagt ekki að efa, að fyrir hafi legið þá þær upplýsingar, sem nú hafa verið gefnar, að í 11 nálægum löndum séu það þjóðbankarnir, sem fari með gengisskráningarvaldið. En þrátt fyrir það að seðlabankafrv. á sínum tíma væri svo rækilega undirbúið og þrátt fyrir það að þessar upplýsingar hafi sjálfsagt allar legið fyrir hæstv. ríkisstj. og stuðningsmönnum hennar, var hvergi vikið að því í frv. né athugasemdum þeim, sem fylgdu því, né í umr. um það, að það væri meiningin að breyta til í þessu efni og færa gengisskráningarvaldið úr höndum Alþ. og í hendur Seðlabankans. Það er þvert á móti tekið skýrum stöfum fram og undirstrikað í athugasemdum við 18. gr. seðlabankafrv., að það skuli standa óbreytt skipan áfram í þessu efni, að gengið skuli framvegis ákveðið með lögum, Seðlabankinn fara með gengisskráninguna, að því leyti sem hún er ekki ákveðin eða bundin í lögum.

Með seðlabankalöggjöfinni, sem sett var þannig á síðasta Alþ., staðfesti því hæstv. ríkisstj. og Alþ. þann vilja sinn, að gengisskráningarvaldið, ákvörðunarvaldið um gengi ísl. krónu, skyldi áfram og framvegis vera í höndum löggjafans, í höndum Alþ. Og það var hvergi, eins og ég áðan sagði, imprað á því í sambandi við það mál, að það væri nokkur ástæða til, hvað þá nauðsyn, að taka það vald úr höndum Alþ. þegar þessa er gætt og öll þessi atriði eru virt, verður alveg sérstaklega ljóst, hve óeðlilegt það var og óþingræðislegt gagnvart Alþ. að taka svo þetta vald rétt á eftir úr höndum þess og fela það annarri stofnun. Og þegar þess er gætt, sem ég hef hér lítillega rakið, að það bar enga brýna nauðsyn til þess að taka gengisákvörðunarvaldið úr höndum Alþ.,ríkisstj. og Alþ. hafði rétt áður staðfest það, að þetta vald skyldi vera áfram í höndum löggjafans, þá er það alveg ljóst, að það hljóta allir, sem athuga þetta mál í ró og án fyrir fram ákveðinna skoðana, að viðurkenna, að það skortir á við þessa lagasetningu, að það skilyrði 28. gr. stjórnarskrárinnar, að brýna nauðsyn beri til, sé fyrir hendi.

Það er auðvitað eðlilegt, að menn spyrji eftir þann formála, sem hafður er á brbl., og eftir það, sem síðar gerðist, að gengið var fellt, hvaða ástæður hafi legið til þess, að þessi krókaleið var valin í stað þess að fella gengið beint. Ég skal ekkert fullyrða um það, hverjar ástæður hafa til þess legið. En mér hefur dottið í hug, að það hafi þó a.m.k. einhverjir þm. stjórnarliðsins verið heldur ófúsir á að fallast á gengislækkunarleiðina beint, þeir hafi þá heldur viljað fella sig við þessa aðferð, sem farin var, að láta afhenda valdið í hendur Seðlabankanum og láta svo bankastjórana þar fella gengið og geta svo sagt á eftir: Við stóðum ekki að þessari gengisbreytingu beinlínis, við höfum aldrei sagt, að þessi ákveðna gengisbreyting væri nauðsynleg. Það voru bankastjórar Seðlabankans, sem athuguðu þetta og töldu, að svona mikla gengisbreytingu þyrfti til þess að taka aftur þær kauphækkanir og kjarabætur, sem fengust á s.l. sumri. — Mér finnst ekki ósennilegt, að þessar ástæður hafi legið þarna til grundvallar, þegar höfð eru í huga ýmis ummæli, sem hv. þm. Alþfl. hafa látið falla fyrr og síðar um gengisbreytingar. En þar er af ýmsu að taka, og það væri hægt að rifja upp ýmis ummæli, sem þeir hafa látið falla á undanförnum árum um þau mál og þ. á m. hæstv. viðskmrh., reyndar ekki bara um gengislækkun, heldur alveg sérstaklega um það atriði, sem er nú einmitt hér til umræðu, flutning gengisákvörðunarvalds úr höndum löggjafans í hendur þjóðbankans.

Þegar lögin um gengisskráningu o.fl. voru til umr. á Alþ. 1950, hélt hæstv. viðskmrh. langa ræðu, og m.a. sagði hann þá þetta, með leyfi hæstv. forseta, — en áður en ég les ummælin, er rétt að geta þess, að í því frv., sem þá var upphaflega lagt fyrir, var ákvæði á þá lund, að ákvörðunarvald um gengi skyldi fengið í hendur ríkisstj. og Landsbankanum, — en þá og um það atriði alveg sérstaklega sagði hæstv. viðskmrh. svo:

„Þá er gert ráð fyrir því í 2. gr., að Alþ. afsali sér þýðingarmiklu valdi, sem það hefur haft allt frá 1924 til að ráða gengi krónunnar, og Landsbankanum fengið það í hendur. Ég álít, að það komi ekki til mála, að Alþ. afsali sér þessum rétti. Sérstök ástæða er og til að gagnrýna, hvernig komizt er að orði í niðurlagi þessarar greinar, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Landsbanka Íslands er skylt að taka sérstaklega til athugunar gengisskráningu ísl. krónu, þegar almenn breyting verður á kaupgjaldi, önnur en sú, sem kveðið er á um í lögum þessum.“ Nú er hagfræðingum þeim, sem undirbjuggu þetta frv., auðvitað ljóst, að kaupgjald getur haft áhrif á gengi, en þeim hlýtur líka að vera ljóst, að þar er aðeins um að ræða einn þátt af mörgum, sem áhrif hafa á gengið, og alls ekki hinn mikilvægasta, heldur eru það markaðsskilyrði og framleiðslugeta þjóðarinnar í heild. En hvað á það þá að þýða að nefna kaupgjaldið eitt? Með þessu er verið að hóta launþegasamtökunum í landinu. Það er ekki verið að tala um að breyta genginu, ef verðlag breytist erlendis, en því er hótað, að gengisbreyting skuli verða framkvæmd, ef kaupgjald hækkar. Það hafa engin samráð verið höfð við launþegasamtökin í sambandi við þetta frv., og er það illt. Hitt er þó enn þá verra, að í því skuli vera slíkar hótanir í garð launþegasamtakanna. Ég hef af þessum ástæðum leyft mér að bera fram á þskj. 429 brtt. um, að þessi grein skuli felld niður.“

Þetta sagði hæstv. viðskmrh. árið 1950. Þá var hann þeirrar skoðunar, að það næði ekki nokkurri átt að færa gengisskráningarvaldið úr höndum Alþ. í hendur Landsbankans, — ekki með brbl., því að það datt engum í hug, heldur með almennum lögum. Hann var algerlega andvígur því þá, og hann var algerlega andvígur því að láta skína í það árið 1950, að gengislækkun gæti komið til mála eða það ætti að hóta gengislækkun, þó að kauphækkanir ættu sér stað. En sumarið 1961 stendur hann að því að setja þessi brbl. um að taka ákvörðunarvaldið um gengi úr höndum Alþ. og fela það Seðlabankanum og búa þannig undir með þeim hætti þær ráðstafanir, sem á eftir fóru um gengisbreytinguna, sem rökstudd er af stjórnarinnar hálfu eingöngu með þeim kauphækkunum, sem átt hafa sér stað. Þá var ekki talað um markaðsskilyrðin erlendis eða framleiðslugetu þjóðarinnar, en þau atriði taldi hæstv. viðskmrh. árið 1950 skipta verulegu máli í sambandi við gengisákvarðanir, en ekki kaupgjaldið eitt.

Reyndar sagði hæstv. viðskmrh. margt fleira um þessi efni 1950, en ég skal nú ekki tímans vegna tilfæra fleiri ummæli eftir honum. Og ég skal ekki heldur tilfæra ummæli eftir öðrum Alþfl.-þm. á því þingi, 1950, þar sem þeir lýsa því yfir, að Alþfl. sé almennt andvígur gengislækkun. Það hefur náttúrlega ýmislegt skeð síðan, og Alþfl. hefur, eins og kunnugt er, skipt um skoðun í ýmsum málum frá 1950, svo að það er ekki vert að vera að gera sérstakar athugasemdir við það. Ég ætla aðeins að leyfa mér að vitna hér í ummæli, sem þáverandi formaður Alþfl., Stefán Jóh. Stefánsson, lét falla í þessu sambandi og einmitt um þetta atriði, sem sérstaklega er hér um að ræða, hvar ákvörðunarvaldið um gengið skuli vera. Hann sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Því er haldið fram af hæstv. fjmrh. og í grg., að þetta vald sé víða í höndum ríkisstj. og þjóðbankans, og vefengi ég það ekki. En það er nokkuð annað, þegar valdið hefur um tugi ára verið hjá Alþ., þá er það mikil og alvarleg breyting að fá það í hendur ríkisstj. á hverjum tíma, og ekki sízt af því, að stjórnmálabaráttan hér er harðari, óvægari, miskunnarlausari en víðast hvar annars staðar og ríkisstj. gæti dottið í hug að nota þetta vald, þótt hún vissi sig með því ganga á móti meiri hl. fólksins í landinu. Þar sem stjórnmálahættir eru þroskaðir og þar sem ríkisstj. gera sér fulla grein fyrir ábyrgð sinni og þar sem enn fremur stjórnarandstaðan gerir sér eigi síður grein fyrir sinni ábyrgð, þar er síður hætta á, að þetta vald verði misnotað. Ég óttast meir, að það verði misnotað hér í hinni óvægnu flokkabaráttu, og í huga verkalýðsins og launastéttanna mundi það vekja ugg um það, að hverri þeirra tilraun til betri kjara yrði svarað með gengislækkun þegjandi og hljóðalaust. En slíkt gæti leitt til baráttu, sem orðið gæti afdrifarík og hættuleg íslenzku þjóðlífi. Ég vil því mjög gagnrýna ákvæði 2. gr. og tel ákvæði hennar óskynsamleg hér á landi og ólíkleg til þess að leggja varanlegan grundvöll að viturlegum ráðstöfunum til úrlausnar á verðbólgu og dýrtíðarmálum þjóðarinnar.“

Þessi var afstaða hv. Alþfl.-manna 1950 um það, hvar gengisskráningarvaldið væri bezt komið. Það er svo vægast sagt einkennileg tilviljun, að það skuli svo einmitt vera ráðh. Alþfl., sem fer með það hlutverk hér á Alþ. 1962 að mæla fyrir því, að þetta ákvörðunarvald sé tekið úr höndum löggjafans og fengið í hendur þjóðbankanum, ekki með löglegum hætti, þ.e.a.s. með ákvörðun almenna löggjafans sjálfs, heldur með brbl. og án þess að nokkur nauðsyn ræki þar til.

Það var vitaskuld fjarstæða, — það er ekki hægt að hafa vægara orð um það, — sem hæstv. ráðh. hélt hér fram í sinni frumræðu, að ákvörðunarvaldið um gengið hefði alls ekki verið tekið úr höndum Alþingis, ríkisstj. hefði haft þetta vald, á meðan Alþ. sat ekki, og hún hefði aðeins fengið Seðlabankanum það vald, sem hún hafði, en nú sé það aftur lagt í hendur Alþingi að ákveða, hvort valdið skuli vera hjá Seðlabankanum til frambúðar eða í höndum löggjafans. Það var eins og hæstv. ráðh. hefði alveg gleymt því, að nokkuð hefði gerzt í millitíðinni. Það var eins og hann héldi, að það mundi allt vera ógert, bara ef Alþ. vildi nú taka þetta ákvörðunarvald aftur í sínar hendur. Hann gleymdi því eða virtist ekki jafnframt því, sem hann var að segja þetta, hafa það í huga, að á grundvelli þessara brbl. var genginu breytt. Það er vitaskuld allt annað fyrir Alþingi — og þá ekki sízt stjórnarflokkana — að standa andspænis því að staðfesta eða fella brbl., sem gefin hafa verið út, eða taka til meðferðar málefni, sem engin lagasetning hefur átt sér stað um áður. Það væri náttúrlega allt annað fyrir hæstv. ríkisstj. að þurfa að leggja fyrir Alþ. frv. um að taka þetta ákvörðunarvald af Alþ. og fela það Seðlabankanum, ef hún hefði gert það, áður en nokkur brbl. voru gefin út um það efni. Þá hefði aðstaða alþm. verið í reyndinni allt önnur en hún er, þegar búið er að setja brbl. og þau eru lögð fram til staðfestingar eða synjunar, því að reynslan sýnir, sem reyndar er ekki óeðlilegt, að það er næsta sjaldgæft og að ég hygg algert einsdæmi, að brbl., sem stjórn hefur staðið að því að gefa út, séu ekki staðfest. Þannig er náttúrlega ekki hægt um það að deila, að með brbl. var valdið tekið af Alþ. og fengið í hendur Seðlabankanum, sem þegar fór að fara með það, þó að það sé að vísu hægt að segja, að það sé að formi til ekki til frambúðar að því leyti, að Alþ. fær nú að segja til um, hvort það vill láta þessa skipan haldast eða ekki.

Ég hef nú rætt þetta frv., sem hér liggur fyrir, frv. um staðfestingu á brbl., og ég hef sýnt fram á það, að því fer fjarri, að það hafi komið fram nokkur rök fyrir því, að það hafi borið brýna nauðsyn til að svipta löggjafann og þar með bráðabirgðalöggjafann valdi til þess að ákveða, hvert skuli vera gengi íslenzku krónunnar, og fá það í hendur annarri stofnun, sem er ríkisstjórninni að vísu háð, en fer þó að formi til með sjálfstætt ákvörðunarvald. Og ég hef sýnt fram á það, að þetta er sérstaklega vítavert vegna forsögu málsins, vegna þess að þetta mál var til meðferðar á síðasta Alþ. og þar kom fram skýrt vilji Alþingis, að þetta vald skyldi framvegis vera í þess höndum, vera í höndum löggjafans. Þetta er mjög alvarlegt mál auðvitað, að setja þannig og gefa út brbl., án þess að fullnægt sé fyrirmælum stjórnarskrárinnar.

Að sjálfsögðu leggja menn þó misjafnlega mikið upp úr því, hve strangt á að fara í sakir í þessu efni, og sennilega hefðu ýmsir verið til með að sjá í gegnum fingur með þetta, ef það hefði legið ljóst fyrir, að raunverulega hefði verið ástæða til gengisfellingar, þegar gripið var til þessara brbl. Og það er vafalaust í augum ýmissa í raun og veru enn alvarlegra mál, að það skyldi vera gripið til gengisfellingar og gengið fellt með þeim hætti og um þá upphæð, sem gert var samkv. ákvörðun Seðlabankans. En það mál á, eins og ég drap á í upphafi míns máls, í raun og veru allt eins vel og öllu fremur heima í sambandi við það fylgifrv., sem fer á eftir þessu frv., þ.e.a.s. frv. um staðfestingu á brbl. um ráðstafanir í sambandi við gengisbreytingu. En hæstv. ráðh. fór vítt yfir í sinni frumræðu, þar sem hann mælti ekki aðeins fyrir því frv., sem hér liggur fyrir, heldur ræddi efnahagsmálin á víð og dreif og vildi rökstyðja þá nauðsyn, sem hann taldi að hefði verið á gengisfellingu, og af þeim ástæðum er rétt að víkja nokkuð að því, hvort það hafi verið nokkur ástæða og hvort það hafi verið nokkur óhjákvæmileg ástæða til þess að grípa til gengisfellingar s.l. sumar og til þeirrar gengisfellingar, sem þá var gripið til. En fyrst vil ég þó segja það, að allir hljóta að vera sammála um, að gengislækkun, gengisskerðing er það alvarleg röskun, að til hennar ber ekki að grípa, nema nauðsyn sé til. Gengisskerðing hefur svo víðtæk áhrif og kemur við svo marga þjóðfélagsþegna með tilfinnanlegum hætti, að það hljóta allir að játa, að það sé ekki réttmætt að grípa til hennar, nema raunverulegar og mikilvægar ástæður liggi til þess. Og hún hefur svo mikla röskun í för með sér á mörgum sviðum, að það er ekki réttmætt að beita því úrræði, nema ekki séu tiltæk önnur úrræði, sem koma betur við, en ná svipuðum tilgangi.

Ég er ekki með þessu að fordæma gengisbreytingar almennt, það getur vitaskuld staðið svo á, að það sé réttmætt og nauðsynlegt að grípa til þeirra. Ég er aðeins að undirstrika það, að til gengislækkunar má aldrei grípa, nema séu fyrir hendi verulegar ástæður, sem geri gengisstýfinguna nauðsynlega. Það hlýtur þá eðli málsins samkvæmt að hvíla á þeim, sem beitir sér fyrir gengislækkun hverju sinni, að sýna fram á, að þær ástæður séu fyrir hendi. Það ætti því að vera hlutverk hæstv. ríkisstj. í þessu máli að sýna fram á, að svo hafi verið komið á s.l. sumri, að það hafi verið óhjákvæmilegt að grípa til gengisstýfingarinnar. Það skal játað, að hæstv. viðskmrh. reyndi að rökstyðja það að nokkru í ræðu sinni hér áðan. En ég verð hins vegar að álíta, að því fari fjarri, að honum hafi tekizt að sanna, að það hafi ekki verið hægt að komast hjá því að grípa til þessarar gengisfellingar. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni?) Ja, það getur orðið eitthvað. (Forseti: Ég hafði hugsað mér að ljúka fundi núna kringum hálffimm og vera ekki lengur í dag.) Þá vildi ég heldur eiga þetta inni og ljúka máli mínu síðar. [Frh.]