28.03.1962
Efri deild: 73. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég kann því að vísu illa, að hæstv. viðskmrh. skuli ekki vera hér við, vegna þess að ég kvaddi mér að mestu hljóðs til þess að gera aths. við það, sem hann hafði hér sagt. En þar sem mér er sagt, að hann sé ekki heill heilsu, þá fer ég þó ekki fram á það, að umr. sé frestað, en vona, að sá hæstv. ráðh., sem hér er mættur, telji sig vera mættan sem fulltrúa hans og færi honum það, sem hann telur nauðsyn á að hann fái að vita úr minni ræðu og því, sem ég sérstaklega beini til hans.

Þar sem ég á sæti í þeirri nefnd, sem kemur til með að fjalla um þetta frv., og mun væntanlega síðar hafa tækifæri til að ræða það frekar en ég geri nú, mun ég ekki hafa orð mín mjög mörg um þetta, allra sízt þar sem svo stendur á, að hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur í mjög ýtarlegri og merkri ræðu gert þessu frv. næsta tæmandi skil og þó alveg sérstaklega því efnisatriði þess og raunverulega því eina efnisatriði, sem það inniheldur, þ.e.a.s. að staðfesta ákvæði brbl. ríkisstj. frá 1. ágúst s.l. um, að valdið yfir gengisskráningunni skyldi tekið af Alþingi og fengið í hendur stjórnar Seðlabankans. Ég tel, að ræða hv. 3. þm. Norðurl. v., einkum að því er snertir þetta eina efnisatriði frv., sé enn ein sönnun og hún ekki lítilvæg fyrir því, að útgáfa brbl. þeirra, sem hér eru til umr., hafi verið hreint og ómengað stjórnarskrárbrot, eins og ég tel raunar, að allur almenningur í landinu hafi fyrir löngu gert sér fulla grein fyrir.

Ákvæði 2.–3. gr. stjórnarskrárinnar og þau tvö skilyrði, sem þar eru sett fyrir því, að brbl. megi gefa út, eru svo skýr og ótvíræð, að raunar á hverju meðalgreindu fermingarbarni að vera auðvelt að ganga úr skugga um, að í þessu tilviki, sem hér um ræðir, hefur aðeins öðru þessara skilyrða verið fullnægt, þ.e.a.s. því, að Alþingi sat ekki að störfum, þegar lögin voru gefin út. En fram hjá hinu skilyrðinu, sem stjórnarskráin setur, þ.e.a.s. því, að brbl. megi því aðeins gefa út, að brýna nauðsyn beri til, hefur svo kirfilega verið gengið fram hjá, að jafnvel sá hæstv. ráðh., sem undirritaði lögin, reyndi ekki einu sinni að rökstyðja það í sjálfri grg. fyrir lagasetningunni, eins og stjórnarskráin þó beinlínis krefst að gert sé, þ.e.a.s. að til hennar bæri brýna nauðsyn, heldur segir aðeins í grg fyrir lögunum, að efnisatriði frv. verði að teljast æskilegt eða eðlilegt. Þessi sami hæstv. ráðh. kom svo hér og fjölyrti um það, alveg eins og í grg fyrir sjálfu frv., að brýna nauðsyn hefði borið til breytinga á genginu, þó að það kæmi þessu frv. bókstaflega ekkert við. Og ráðh. lét sér nægja að reyna að færa líkur fyrir því, að sú valdsvipting, sem framkvæmd var gagnvart Alþingi og þetta frv. á að staðfesta, hafi verið eðlileg eða skynsamleg, en vogaði sér aldrei út í þá sálma að fullyrða eða reyna að færa fram líkur fyrir því, að nein nauðsyn og allra sízt brýn nauðsyn hafi verið á lagasetningunni. En gallinn er bara sá, að þetta nægir alls ekki.

Nú kann að vera, að ákvæði 28. gr. stjórnarskrárinnar, svo skýr sem þau þó eru, nægi ekki til þess að opna augu stjórnarsinna fyrir því, hvert athæfi útgáfa þessara brbl. var, og vafalaust ekki heldur röksemdir andstæðinga stjórnarinnar, eins og t.d. hv. 3. þm. Norðurl. v., hversu greinargóðar sem þær eru. En það vill svo til, að hægt er að leiða þau vitni í þessu deilumáli, sem hv. stjórnarsinnar hljóta að meta nokkurs. Fyrrv. prófessor í stjórnlagafræði, Bjarni Benediktsson, núv. dómsmrh., segir svo orðrétt í kennslubók, sem hann hefur samið um þessa fræðigrein sína:

„Í 28. gr. stjórnarskrárinnar er það annað höfuðskilyrði fyrir útgáfu bráðabirgðalaga, að brýna nauðsyn beri til hennar. Það er því ekki nóg, þótt löggjöf kunni að vera æskileg eða skynsamleg eða þótt nauðsyn sé til löggjafar, ef hún er ekki brýnni en svo, að vel má bíða reglulegs Alþingis.“

Og síðar segir þessi sami fyrrv. lagaprófessor: „Sýnu varhugaverðara en ella er þó að gefa út brbl. um efni, sem Alþingi hefur nýlega tekið afstöðu til, einkum ef ljóst er, að Alþingi hafi eigi viljað fallast á þá lausn, sem brbl. velja.“

Þannig farast fræðimanninum Bjarna Benediktssyni orð, þegar hann er að uppfræða nemendur sína í Háskóla Íslands. Og hvað skyldu menn svo halda, að sé óljúgfróðara, þau fræði, sem hann þar kennir, eða það. sem hann og núv. hæstv. samráðh. hans halda að okkur hér á Alþ.?

Nú vill líka svo til, að Alþingi hafði fyrir aðeins fjórum eða fimm mánuðum, áður en brbl. voru gefin út, tekið skýlausa afstöðu til þess efnisatriðis brbl., sem um gengisskráningarvaldið fjallar, og það þveröfuga við þá leið, sem brbl. völdu. Útgáfa brbl. var þess vegna samkv. dómi fræðimannsins Bjarna Benediktssonar sýnu varhugaverðari en ella hefði verið og brotið þeim mun alvarlegra, þegar svo stóð á.

Spurningin um það, hvort sá háttur, að Seðlabankinn fari með gengisskráningarvaldið, sé eðlilegur, æskilegur eða skynsamlegur, kemur svo að sjálfsögðu til álita, þó að svörin við þeirri spurningu skipti í rauninni ekki neinu um stjórnlagagildi þeirrar athafnar, sem hér er um að ræða. Ég ætla mér ekki að fara langt út í það mál nú. En hitt er alkunnugt, að a.m.k. einn hæstv. ráðh. hafði þegar fyrir 12 árum sannfærzt um það, að algerlega óhæft, hættulegt og óeðlilegt og jafnvel óskynsamlegt líka væri að fela Landsbankanum, sem þá var jafnframt seðlabanki, þetta vald. Og ég ætla, að ummæli þessa ráðh., sem að þessu lutu í sambandi við gengisfellinguna 1950, hafi verið lesin hér upp, og ég ætla ekki að endurtaka þau. En þessi maður er sem sagt núv. ráðh. bankamála. Og eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, taldi ráðh. þá alveg sérstaklega óhæft og svívirðilegt, að því væri gefið undir fótinn í löggjöf, að hringla ætti með gengið, þó að kaupbreytingar yrðu. Nú er það svo, eins og þjóðfrægt er orðið, að þessi hæstv. ráðh., viðskmrh., hefur a.m.k. á síðari árum sjaldan haldið fram skoðun í nokkru máli, þar sem ekki hefur verið auðvelt að leiða hann sjálfan sem vitni þeirri sömu skoðun til falls. Þó að megi segja, að það sé furðulegt, að honum skuli hafa enzt þessi sannfæring í 12 ár eða a.m.k. til þingloka 1961, þegar litið er til þess, þá má segja, að þetta hafi e.t.v. ekki mikið gildi nú. En einhvern veginn finnst mér samt, að í þessu eins og mörgu öðru hafi hin fyrri sannfæringin verið sanni nær og trúverðugri, enda ólíku saman að jafna um röksemdirnar þá og nú. Ég tel það þess vegna þrátt fyrir allt til tekna fyrir okkur, sem andæfum gegn þeirri valdsviptingu, sem beitt hefur verið gagnvart Alþingi í þessu máli, að hafa þingmanninn Gylfa Þ. Gíslason og fræðimanninn Bjarna Benediktsson með okkur í andófinu, þótt óneitanlega sé dálítið grátbroslegt að sjá þá þannig kljást við núv. valdsmennina, hæstv. dómsmrh. og hæstv. bankamrh.

En eins og ég sagði áður, fjallar þetta frv. raunar ekki um sjálfa gengisfellinguna, og það er reyndar ein af afleiðingum valdsviptingarinnar s.l. sumar, að sjálf gengisbreytingin er formlega séð alls ekki á dagskrá hér á Alþingi. Hæstv. viðskmrh. sagði, að þetta frv. væri hér til umr. vegna þess, að Alþingi hefði vald til þess að skrá gengið. En ég segi: Gengisfellingin er hér á dagskrá vegna þess, að Alþingi hefur verið svipt valdinu til þess að skrá gengið. Ég tel að sjálfsögðu, að þm. hafi fulla heimild til þess að ræða sjálfa gengisfellinguna, þótt að ýmsu leyti sé jafneðlilegt eða eðlilegra, að það sé gert með hinum svokallaða gengislækkunarkálfi, þ.e.a.s. því máli, sem nú í kvöld var verið að vísa til nefndar. En hæstv. viðskmrh. gaf alveg sérstakt tilefni til þess hér í umr. og reyndar án nokkurs tilefnis frá þm., að það sé nokkuð rætt, og ég tel a.m.k., að það sé ekki hægt að láta ýmislegt af þeim fjarstæðum og fullyrðingum, sem hæstv. ráðh. fór hér með, algerlega fram hjá sér fara, án þess að þeim sé mótmælt.

Ráðh. sagði m.a., að það hefði verið skylda ríkisstj. að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að láta fella gengið til þess að forða þjóðinni frá því tilræði, sem falizt hefði í hinum óhóflegu kauphækkunum. Hann sagði líka, að Seðlabankinn hefði reiknað út, hvaða gengi væri hæfilegt. Og loks kvað hann það vera reginfjarstæðu, að verkafólk hefði verið svipt allri kauphækkuninni, sem það fékk og samdi um á s.l. sumri, og las tölur, sem hann taldi styðja þá fullyrðingu. Hæstv. viðskmrh. virðist vera ákaflega trúaður á tölur, og maður fann greinilega, þegar hann hélt hér sína framsöguræðu, að það fylgdi mikill sannfæringarhiti, þegar hann var að lesa upp nýjustu tölurnar, sem hann hafði fengið úr efnahmrn. sennilega. En mjög alvarlegan galla verður það að telja á þeim tölum og töflum, sem þessum hæstv. ráðherra eru fengnar í hendur, að þær eru iðulega að breytast. Og auðvitað fylgist sannfæring hæstv. ráðh. alltaf með þeim breytingum, sem tölurnar taka. En það er enn þá verra, þegar breytingarnar verða svo hraðar, að sömu tölurnar endast ekki út umr. um eitt og sama málið. En verst er það þó, þegar farið er að byggja aðgerðir í efnahagsmálum, aðgerðir, sem eiga að móta afkomu meginþorra þjóðarinnar og þróunina í framkvæmdum og framförum í Þjóðfélaginu, á ímynduðum eða fölsuðum talnaflækjum, sem enga stoð eiga í veruleikanum.

11.6 er ákaflega athyglisverð tala. Og hún hefur orðið örlagarík fyrir þróunina í öllu þjóðfélagi okkar. Það er sú tala, sem ræður því að mjög verulegu leyti, hvað íslenzkur verkamaður, sjómaður eða bóndi ber úr býtum fyrir erfiði sitt og hvað íslenzkar fjölskyldur hafa til þess að bíta og brenna. Þetta er sú tala, sem strikaði yfir gerða kaupsamninga s.l. sumar og gerði að engu vonir verkamanna um það, að þeir gætu ofur lítið rétt hag sinn eftir margar og langvarandi kauplækkunaraðgerðir. Þessi tala var sú hárnákvæma niðurstaða úr því dæmi, hvað rétt gengi væri á íslenzkri krónu. 11.6% skyldi gengislækkunin vera, hvorki meira né minna. Hún var útreiknuð, að því er talið var, af færustu kunnáttumönnum og var nákvæm og óskeikul, og þjóðinni og öllu vinnandi fólki var ætlað að beygja sig í duftið í trú á þessa tölu.

En það vill svo fara, að alltaf eru einhverjir, sem eru vantrúaðir, og vantrúin byrjaði strax á þeim fundi í stjórn Seðlabankans, þar sem gengisfellingin var ákveðin. Þá gerðist það, að Ingi R. Helgason, fulltrúi Alþb., krafðist þess, að útreikningarnir, sem leiddu til þessarar útkomu á því flókna dæmi, sem um var að ræða, yrðu lagðir fram. En því var neitað. þessir útreikningar, sem áttu að móta lífskjör vinnustéttanna á Íslandi, reyndust vera leyndarmál, sem jafnvel æðstu stjórnendur Seðlabankans máttu ekki sjá, — þeirrar stofnunar, sem falið hafði verið æðsta vald í þessum efnum og jafnvel vald úr hendi sjálfs löggjafans. Og þeim var meinað að kynna sér, hvernig þessi eina rétta niðurstaða væri fengin. Úr þessu hefur ekki verið bætt síðan. Þjóðinni hefur ekki verið birtur sá útreikningur, sem fullyrt er að hafi verið framkvæmdur af Seðlabankanum og ríkisstj. og gengisfellingin á að hafa verið byggð á og hæstv. viðskmrh. vitnaði til í sinni frumræðu fyrir þessu máli. Og Alþingi hefur ekki heldur verið birtur þessi útreikningur. Það hefði þó óneitanlega verið harla æskilegt fyrir stjórnarliðið að geta stutt gengisfellingarathæfi sitt á þann hátt, þ.e.a.s. ef það sjálft trúði þá sínum eigin útreikningum. En það hefur það líklega tæpast gert, ef þessir útreikningar eru þá nokkrir til eða hafa nokkru sinni verið gerðir.

En það gat þó varla farið hjá því, að hæstv. viðskmrh., svo mikla ánægju og trú sem hann hefur á tölum, reyndi að styðja gengisfellinguna með tölulegum rökum hér á hv. Alþingi. Þetta gerði hann líka við 1. umr. málsins í hv. Nd., og af tilviljun fór ég að blaða í þeirri ræðu, eftir að hann hafði mælt fyrir málinu hér. Mér varð strax ljóst, að ræðan hafði verið frá orði til orðs sú sama, en það var sleppt úr henni einum kafla, og af hverju skyldi það hafa stafað? Þennan ræðukafla fyllti hann svo aftur upp með nýjum samanburðartölum um, hvernig gengisafkoman hefði verið á árunum 1958 og 1961, sem raunverulega kom þessu máli ekkert við á nokkurn hátt. En það verður e.t.v. ljósara, þegar tölurnar, sem ráðh. las í þessum ræðukafla, sem hann sleppti hér í Ed., eru athugaðar, hvers vegna hann sleppti þessum kafla úr sinni ræðu, þessum mikilsverða kafla um sjálfan útreikninginn, sem hann taldi, að gengisfellingin væri byggð á, eða a.m.k. lét skína í. Í þessari ræðu ráðh. fullyrti hann það sama, sem hér kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að hefði einnig verið í grg. ríkisstj., sem birt var um miðjan septembermánuð. Þá sagði hann, að verðmæti sjávarafurða á árinu 1961 mundi verða 2431 millj. kr., ef miðað væri við sama verðlag og 1959. Þá sagði hann einnig, að áhrif verðlækkunar og minni afla yllu því, að ársframleiðslan yrði 170 millj. kr. minni en 1959. Rekstrarkostnaður báta og togara ykist á sama tímabili um 150 millj., og skerðing sjávarútvegsins til þjóðarbúsins yrði því 320 millj. kr. minni en 1959, en það svaraði til 13% af framleiðslu sjávarútvegsins og 4–5% af þjóðarframleiðslunni. Með því að endurtaka þessar tölur aftur og aftur, þóttist hæstv. ráðh. svo sanna réttmæti og nauðsyn gengisfellingarinnar.

En það fór hér svo, að hæstv. ráðh. og þeim öðrum, sem byggðu að því er bezt verður séð gengisfellinguna á þessum tölum, auðnaðist ekki að halda trú sinni á þær í jafnlangan tíma og hefur tekið fyrir hæstv. ríkisstj. að koma málinu í gegn hér á Alþingi. Eftir skýrslu Seðlabankans um þróun efnahagsmála, sem þm. hafa allir í höndum, hefur reyndin orðið sú, að framleiðsluverðmæti sjávarafurða hefur reynzt, eins og þar segir, um 3000 millj. kr. Og ég hygg, að nú sé fullsannað, að sú tala eigi eftir að hækka nokkuð og jafnvel svo að verulegu skipti, þ.e.a.s. hún varð 200 millj. kr. meiri en 1959, sem var metaflaár fram að þeim tíma og það langmesta í sögunni, — það var 200 millj. kr. meira, en ekki 170 millj. kr. minna, eins og ráðh. hafði fullyrt. Mismunurinn var þannig á þessum tveim árum á raunveruleikanum og því, sem hæstv. ráðh. fullyrti, þegar hann lagði málið fyrir hv. Nd., einar litlar 370 millj. Og enn hefur það komið í ljós, að framleiðsluverðmætið reyndist 400 millj. kr. meira á árinu 1961 en á árinu 1960, eða sem sagt, að framleiðsluverðmæti sjávarafurðanna einna af öllum atvinnugreinum reyndist álíka miklu meira en ráðh. fullyrti, sem svarar þeirri kauphækkun allri, sem launamenn fengu.

Og það skyldi enginn halda, að þróunin hafi verið sérstök fyrir sjávarútveginn. Í skýrslu Seðlabankans um þróun efnahagsmálanna, — og maður ætti í þessu tilfelli að geta tekið það trúanlegt, sem þaðan kemur, — segir, að ljóst sé, að um verulega framleiðsluaukningu sé að ræða í landbúnaði, og jókst mjólkurframleiðslan um 8% og framleiðsla kindakjöts um 13%. Einnig bendir allt til þess, að framleiðsla í iðnaði hafi verið jafnmikil eða jafnvel heldur meiri en árið 1960 o.s.frv. (Forseti: Á ekki hv. þm. eftir nokkuð af ræðu sinni enn þá?) Það er nú ekki nema svo sem kortér. (Forseti: Ég hafði hugsað mér að slíta fundi, ef hann vildi fresta ræðunni.) [Frh.]