29.03.1962
Efri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. nema lítið eitt. En það hafa fáein atriði komið fram í ræðum hv. stjórnarandstæðinga, sem virðist ástæða til að fara um nokkrum orðum.

Ég ætla ekki að ræða meir það atriði, hvort um stjórnarskrárbrot hafi verið að ræða, þegar brbl. voru gefin út 1. ágúst s.l. Af hálfu ríkisstj. og af hálfu stjórnarandstæðinga hafa skoðanir um þetta efni komið glöggt fram, og er í sjálfu sér engu við það að bæta. Það er aðeins sú athugasemd hv. síðasta ræðumanns, hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ), þau ummæli hans, að engir lögfræðingar hefðu verið látnir um útgáfu brbl. fjalla, sem gefa mér tilefni til að láta þess getið, sem raunar öllum hv. þdm. er kunnara en frá þurfi að segja, að í ríkisstj. eiga sæti þrír lögfræðingar og tveir þeirra meira að segja fyrrv. prófessorar í stjórnlagafræði, fyrirrennarar hans í því embætti, sem hann nú gegnir. Þeir voru báðir sannfærðir um, að útgáfa brbl. væri í fullkomnu samræmi við stjórnarskrána. Og að hv. 3. þm. Norðurl. v. algerlega ólöstuðum, ber ég engu minni tiltrú til lögfræðiþekkingar Bjarna Benediktssonar og Gunnars Thoroddsens og Guðmundar I. Guðmundssonar heldur en lögfræðiþekkingar hans sjálfs og tel mig því í fullum rétti að taka ekki minna mark á orðum og ummælum þeirra og skoðunum þeirra en þeim skoðunum, sem hann hefur gert sig að talsmanni fyrir hér í þessari hv. deild. En þetta var raunar aukaatriði.

Það, sem fyrst og fremst gaf mér tilefni til að standa upp, var, að hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ) gerði mikið úr því í ræðu, sem hann flutti um þetta mál í gær, að ég hefði á þinginu 1950 mælt fastlega gegn því, að gengisákvörðunarvaldið væri flutt úr höndum Alþingis í hendur Landsbanka Íslands. Og það er rétt, ég talaði gegn því þá og er enn þeirrar skoðunar, að þá hefði verið rangt að flytja gengisákvörðunarvaldið úr höndum Alþingis í hendur Landsbanka Íslands. En þá spyr hv. þm., og svo hafa fleiri spurt: Hvernig getur það þá nú verið orðin skoðun mín, að eðlilegt hafi verið á þessu ári að flytja gengisskráningarvaldið úr höndum Alþingis í hendur Seðlabanka Íslands? Á þessu er ofur einföld og augljós skýring. Árið 1950 höfðu Íslendingar engan seðlabanka, þeir höfðu engan seðlabanka og hafa ekki haft seðlabanka fyrr en nú á síðasta vori. Höfuðástæðan fyrir því, að rangt var 1950 að flytja gengisákvörðunarvaldið frá Alþingi, var sú, að sá aðili, sem til greina kom að fengi valdið, var stærsti viðskiptabanki þjóðarinnar, Landsbanki Íslands. Þó að hann hafi að vísu haft seðlaútgáfurétt, var hann fyrst og fremst viðskiptabanki og langstærsti viðskiptabanki þjóðarinnar. Ég þekki ekkert, bókstaflega ekkert dæmi þess úr nokkru landi og er þess næstum fullviss, að slíkt dæmi fyrirfinnst ekki, að viðskiptabanka sé falið að fara með gengisskráningarvaldið. Í nálægum löndum, Evrópu og Ameríku, eru a.m.k. áreiðanlega engin dæmi um slíkt. Þeir menn, sem stjórna viðskiptabanka, eru ekki til þess fallnir að fara með slíkt vald sem það að skrá gengi gjaldeyris þjóðarinnar. Það voru því ekki skilyrði til þess, að Alþingi afsalaði sér þessu valdi, fyrr en seðlabanka hafði verið komið á fót, en það var gert á s.l. vori, og eftir að Seðlabankanum hafði verið komið á fót, var fullkomlega eðlilegt og í samræmi við það, sem á sér stað í flestum nálægum löndum, að þessum nýja seðlabanka yrði falið gengisákvörðunarvaldið.

Þá mætti spyrja, eins og raunar hv. 3. þm. Norðurl. v., Ólafur Jóhannesson prófessor, spurði í ræðu sinni: Hvers vegna var Seðlabankanum þá ekki fengið gengisskráningarvaldið, þegar hin nýju lög voru sett? Þetta er mjög eðlileg spurning, sem sjálfsagt er að svara með nokkrum orðum.

Þetta var mikið rætt í ríkisstj. og af hálfu þeirra sérfræðinga, sem undirbjuggu hina nýju seðlabankalöggjöf um næstsíðastliðin áramót. Vorum við í ríkisstj. og allir sérfræðingarnir, sem um málið fjölluðu, á einu máli um, að í sjálfu sér væri eðlilegast, að Seðlabankinn, þegar honum væri komið á fót, fengi jafnframt gengisskráningarvaldið. Og sérfræðingarnir mæltu mjög eindregið með því, að lögin yrðu höfð á þann veg. Engu að síður varð það niðurstaða í ríkisstj. að gera þetta ekki, og til þess lágu tvenn rök fyrst og fremst.

Í fyrsta lagi taldi ríkisstj., að það að hafa ákvæði um gengisskráningarvald Seðlabankans í þessum lögum kynni að gefa hugmyndum byr undir vængi, að í vændum væri einhver breyting á gengi krónunnar. Gengi krónunnar hafði verið breytt í febrúar árið áður eða um það bil 12 mánuðum áður en seðlabankalögin voru til meðferðar hér á hinu háa Alþingi. Það er mjög nauðsynlegt, að gengi gjaldeyris sé breytt sem allra sjaldnast, og það á ekki að gera, nema brýnustu nauðsyn beri til, og það er mjög mikilsvert, að traust sé á gjaldeyrinum, að menn bæði innanlands og utan treysti því, að gengi gjaldeyrisins sé stöðugt. Þess vegna ber að forðast allt, sem getur gefið hugmyndum um, að gengisbreyting kunni að vera yfirvofandi, byr undir báða vængi. Þetta er stefna, sem allar ríkisstjórnir fylgja og allir seðlabankar fylgja undantekningarlaust, að forðast allt það, sem getur vakið umtal um óstöðugleika gjaldeyrisins, og það þykir sjálfsögð regla í peninga- og gjaldeyrispólitík að forðast allt slíkt og kveða niður orðróm, sem upp kann að koma af einhverjum ástæðum. En á því er lítill vafi, að ef í hinu nýja seðlabankafrv. hefði verið ákvæði um, að Seðlabankinn skyldi fara með gengisskráningarvaldið, hefði þetta leitt til endalausra getgátna hér í Alþingi og af hálfu stjórnarandstöðunnar um, hvort í vændum væri einhver breyting á gengi krónunnar, sem ekki var, vegna þess að þá hafði ekkert það gerzt, sem gerði gengisbreytingu að knýjandi nauðsyn. Og það er mjög hætt við því, að það hefði einu gilt, hversu ákveðið ríkisstj. hefði neitað því, að nokkur gengisbreyting væri fyrirhuguð. Það hefði verið spurt: Hvers vegna er þá verið að gera breytingu á því, hvernig tilhögun á gengisskráningunni er, hvað ástæða er til þess? Þetta hefði gefið bollaleggingum hér innanlands og utan byr undir báða vængi og hefði getað skaðað álit þjóðarinnar út á við og lánstraust hennar mjög verulega og getað haft veikjandi áhrif á það traust, sem var að skapast innanlands mjög óðfluga á gengi krónunnar og gengi gjaldmiðilsins. Þess vegna vildum við ekki gefa tilefni til slíks, og það var ástæðan til, að þessi ákvæði voru ekki höfð í frv., en ekki hin, að ríkisstj. og hennar sérfræðingar væru ekki á einu máli, að fyrst við hefðum fengið seðlabanka, væri gengisskráningarvaldið bezt komið hjá honum, að vísu þó þannig, að samþykki ríkisstj. þyrfti til að breyta genginu.

Seinni ástæðan var svo sú, sem hv. 9. landsk. gat um í sinni ræðu áðan, að nokkur orðrómur var kominn á kreik um það, að verkalýðsfélög hygðust segja upp kaupgjaldssamningum. Það er enginn vafi á því, að verkalýðsfélögin hefðu talið, að að sér væri kastað stríðshanzka, ef gengisákvörðunarvaldið hefði verið flutt úr höndum Alþingis til Seðlabankans, og þá sérstaklega með hliðsjón af umr., sem um þetta höfðu farið fram árið 1950, og með tilliti til þeirra eindregnu óska, sem verkalýðshreyfingin lét þá í ljós um, að gengisskráningarvaldið yrði ekki flutt. Ríkisstj. vildi líka forðast, að hægt væri að segja um ráðstafanir hennar, að þær hefðu að einhverju leyti orðið tilefni til þess, að verkalýðsfélögin segðu upp kaupgjaldssamningum sínum.

Þetta voru ástæðurnar fyrir því, að seðlabankafrv. var haft eins og það í raun og veru var og var afgreitt eins og það var. Þriðju ástæðu get ég enn fremur nefnt.

Það var vitað um mjög harða andstöðu a.m.k. annars stjórnarandstöðuflokksins gegn því að hafa slíkt ákvæði í frv., en einmitt sá flokkur, þ.e. þingflokkur Alþb., studdi seðlabankafrv. við afgreiðslu málsins í báðum deildum. Það var von ríkisstj., að þetta frv. gæti gengið gegnum Alþingi með stuðningi allra þingflokka. Framsfl. reyndist að vísu ekki vilja styðja það, en Alþb. studdi frv. Það var fyrir fram vitað, að ef slíkt ákvæði hefði verið í frv., hefði Alþb. ekki viljað styðja það. Einnig þetta hafði sitt að segja við þá ákvörðun, að þetta mikla deiluefni var ekki haft í seðlabankafrv. Ég skal líka segja það alveg hreinskilnislega, að ég átti von á því eða hafði leyft mér að vænta þess, að Framsfl. mundi einnig styðja seðlabankafrv. Mér var kunnugt um stuðning Alþb., áður en frv. var lagt fram, en mér urðu það vonbrigði, að Framsfl. skyldi ekki vilja styðja það. En um það tjáir ekki að sakast, enda útrætt mál.

Þá var það eitt atriði í síðustu ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., þar sem hann sagði, að reynslan hafi leitt í ljós, afkoma ársins 1961 hafi leitt í ljós, að gengislækkunin hafi verið óþörf. Og rökin, sem hann vitnaði til í því sambandi, voru þau, að það hefði komið í ljós í byrjun þessa árs, að afkoma ársins 1961 hafi verið miklu betri en ríkisstj. gerði ráð fyrir, um það leyti sem Seðlabankinn og hún tóku ákvörðun um gengislækkunina. Það er rétt, að við í ríkisstj. þorðum ekki að gera okkur von um jafngóða afkomu ársins 1961 og raun hefur á orðið. Þegar ég lagði þetta frv. fyrir hv. Nd. í upphafi þings, gerði ég grein fyrir áætlunum um afkomu ársins 1961, miðað við það, að afli og ýmis önnur atriði yrðu svipuð á þeim mánuðum, sem eftir voru ársins, eins og hann hafði orðið á árinu 1960. Reynslan varð, sem betur fer, önnur. Afkoman varð mun betri, fyrst og fremst eða nær eingöngu vegna hinnar miklu og góðu vetrarsíldveiði. En til þess getur auðvitað enginn ætlazt af mér eða nokkrum öðrum, hvorki stjórnmálamönnum né embættismönnum, að við gætum séð fyrir þá miklu og óvæntu og alveg óvenjulegu vetrarsíldveiði, sem átti sér stað á síðustu mánuðum ársins. En það er fyrst og fremst hún, sem hefur breytt myndinni svo mjög, að í stað þess, að ýmis rök bentu til, að verðmæti sjávarafla mundi á árinu 1961 verða nokkru minna en hafði verið 1960, hefur það nú reynzt nokkru meira, og ber að sjálfsögðu að fagna því.

Hitt er alger misskilningur, sem kom fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að sú aukning sjávarafla, sem varð á árinu 1961, hafi verið svo mikil, að gengisbreytingin hafi þess vegna verið óþörf. Hann gat þess, að sjávaraflinn hafi aukizt um 14–15%, miðað við árið 1960, og þetta er rétt. En dettur nokkrum manni í hug, að 14–15% aukning sjávaraflans geri kleift að standa undir 14–15% almennri kauphækkun í landinu yfir höfuð að tala? Þó að úr sjávarútvegi komi um 90% af útflutningsverðmæti þjóðarinnar, er sjávarútvegurinn miklu minni hluti af heildarframleiðsluverðmæti þjóðarinnar og varla meira en fjórðungur af heildarframleiðsluverðmætinu, — milli fjórðungur og þriðjungur. Það gefur auga leið, að þó að sjávarútvegurinn og framleiðsluverðmæti hans, sem er milli fjórðungs og þriðjungs af heildarframleiðsluverðmæti þjóðarinnar, vaxi um 14–15%, gerir það atvinnuvegunum í heild ekki kleift að standa undir 14–15% kaupgjaldsaukningu, eins og hinir nýju kjarasamningar höfðu í för með sér. Þetta ætti að vera alveg augljós staðreynd hverjum, sem um hana vill hugsa af sanngirni og skynsemi.

Að síðustu var eitt atriði í ræðu hv. 1. þm. Vesturl. (GGuðbj), sem ég vildi nefna. Hann sagði, að algerlega rangt hefði verið af mér að láta þess getið í sambandi við nauðsyn gengisbreytingarinnar á s.l. ári, að tekjur launþega í þjóðarbúskapnum hefðu aukizt um 300 millj. kr. vegna flutnings úr verr launuðum stöðum í betur launaðar stöður til viðbótar þeim 500 millj. kr. tekjuauka, sem leiddi af kaupgjaldssamningunum á s.l. sumri, og spurði í þessu sambandi, hvort okkur dytti virkilega í hug, að alltaf ætti að lækka gengið, þótt fólkinu fjölgaði. Svipaður misskilningur á þessum tölum kom fram í hv. Nd., og leiðrétti ég hann þar, svo að ég er hissa að sjá Þennan grundvallarmisskilning ganga aftur hér í hv. Ed. Ég man ekki betur en að frá orðaskiptum um þessi efni milli okkar hv. 1. þm. Austf. (EystJ) hafi verið skýrt í blöðum. Það er alger misskilningur, að þessi 300 millj. kr. tekjuauki, sem ég gat um að sigldi á heilu ári í kjölfar flutnings fólks úr verr launuðum stöðum í betur launaðar stöður, standi í einhverju sambandi við fólksfjölgunina. Hann er því máli algerlega óskyldur. Tekjuauki vegna fólksfjölgunar gengur alls ekki inn í þessa tölu, heldur er hér um að ræða eingöngu tekjuauka, kjarabætur, sem vinnandi fólk hefur fengið, vegna þess að það flyzt á milli starfa, og slík breyting er alltaf að eiga sér stað. Og það ber ríka nauðsyn til að undirstrika, að slíkar kjarabætur eru sem betur fer alltaf að eiga sér stað ár frá ári, þó að taxtakaup sé óbreytt, af því að fólk flyzt úr störfum. Þar sem taxtar eru lægri, í störf, þar sem taxtar eru hærri. Þetta er þjóðfélagsþróun, sem hefur verið að eiga sér stað hér á landi og í öllum iðnaðarlöndum, öllum löndum, þar sem iðnaður og úrvinnsla skiptir vaxandi máli, sem leiðir glögglega í ljós, að kjarabætur geta átt sér stað og eiga sér stað í ýmsu öðru formi en með beinni breytingu á taxtakaupi. Þetta er ekkert einsdæmi fyrir Ísland. Með þessu móti gerast kjarabreytingar jafnvel fyrst og fremst hjá flestum okkar nágrannaþjóðum. En þess vegna er sjálfsagt að geta um þetta, að til viðbótar þessari 300 millj. kr. tekjuaukningu kom nú vegna hinna nýju kjarasamninga 500 millj. kr. tekjuaukning. Mér hefur ekki annað komið til hugar en hægt væri að standa undir þessari 300 millj. kr. tekjuaukningu, enda er það atriði, sem atvinnuvegirnir sjálfir semja um við sína launþega og gerist ekki með heildarsamningum við launþegana, heldur semur atvinnurekandi við hvern einstakan launþega. Og það er engin ástæða að ætla annað en atvinnuvegirnir geti með eðlilegum hætti staðið undir þessum kjarabótum, þessari kaupgjaldsaukningu, sem þeir semja um af fúsum og frjálsum vilja. En einmitt vegna þess, að um slíka kaupmáttaraukningu er að ræða, einmitt vegna þess, að um slíka kjarabót er að ræða, sem er raunveruleg kjarabót og veldur ekki verðhækkun og veldur ekki verðbólgu, hlaut það að stefna gjaldgetu atvinnuveganna inn á við og út á við í algeran voða, þegar við þessar 300 millj. bættust 500 millj. samkv. hinum nýju kjarasamningum. Það er einmitt þessi staðreynd, sem gerði það að verkum, að kaupmáttaraukningin var svo mikil, að gersamlega var ógerlegt fyrir atvinnuvegina að standa undir þessu, án þess að kæmi til hallarekstrar og jafnvel atvinnuleysis innanlands og nýs greiðsluhalla gagnvart útlöndum. Ef slík kaupmáttaraukning vegna flutnings á milli starfa ætti sér ekki stað, hefði geta atvinnuveganna verið meiri til að standa undir hinum nýju kjarasamningum. En einmitt vegna þess, að þessi útgjaldaauki og tekjuaukning á sér stað og hefur sannarlega átt sér stað undanfarin ár og numið um 200–300 millj. kr. á ári, þeim mun minni var geta atvinnuveganna, því miður, til að standa undir útgjaldaaukanum, sem hinir nýju kjarasamningar höfðu í för með sér. Það er því á algerum misskilningi byggt, sem hv. 1. þm. Vesturl, sagði, að tölurnar um tekjuauka vegna flutnings á milli starfa séu óviðkomandi því dæmi eða því vandamáli, sem ég hafði bent sérstaklega á, eða þeim atriðum, sem ég hafði bent sérstaklega á sem meginsönnun fyrir því, að nauðsyn hafi verið á gengisbreytingunni í ágústbyrjun 1961.