29.03.1962
Efri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég ætlaði að gera örfáar athugasemdir út af ræðu hæstv. viðskmrh. og vildi nú eindregið óska þess, að hann gæti orðið hér við, svo framarlega sem hann hefði tök á því, ef einhver vildi athuga, hvort hann er í húsinu.

Hæstv. ráðherra talaði hér áðan og lét þá skoðun í ljós, að ástæðan til þess, að hann hefði ekki viljað fela seðlabankanum gengisskráningarvaldið 1950, væri sú, að þá hefðum við í raun og veru ekki átt neinn seðlabanka. Út af fyrir sig er það virðingarvert af hæstv. ráðherra að kannast við það að hafa haldið fram þeirri skoðun, að gengisskráningarvaldið ætti áfram að vera hjá Alþingi, enda erfitt fyrir hann að flýja frá því, þar sem það er nú margstaðfest í Alþingistíðindum. En ég lít ekki sömu augum á þetta og hæstv. ráðherra. Ég tel ekki, að það hafi orðið sú mikla skipulagsbreyting á Seðlabankanum með þeirri nýju löggjöf, sem sett var í fyrra, að það ráði úrslitum í þessu efni. Og á það vil ég benda, að þeir hagfræðingar, sem undirbjuggu gengisfrv., sem var til meðferðar 1950, og lögðu til, að skráningarvaldið yrði fært til seðlabankans, þeir hafa áreiðanlega litið þannig á, að seðlabankinn þá væri nægilega sterk stofnun til að fara með það vald.

En þótt hæstv. ráðherra viðurkenni að hafa beitt sér fyrir því 1950, að gengisskráningarvaldið væri áfram í höndum Alþingis, þá , er sú skýring, sem hann ber fram nú fyrir þeirri afstöðu sinni, ekki í samræmi við þau rök, sem hann þá flutti fram og staðfest eru í Alþingistíðindunum, því að hæstv. ráðherra beitti ekki þeim rökum þá í umr., að hann teldi þá skipan óeðlilega og óheppilega vegna þess, að Landsbankinn væri ekki nægilega sterk stofnun til að fara með valdið, heldur þvert á móti þeim rökum, að það væri ekki viðeigandi og yrði illa séð af alþýðusamtökunum í landinu, að þessi breyting yrði á gerð. Það hafa nú verið lesnar fyrr í þessum umr., líklega að ráðherranum fjarstöddum, tilvitnanir, sem taka af öll tvímæli í þessu efni. Og Alþingistíðindin eru svo örugg heimild og vitnisburður um þau rök, sem beitt var 1950, að það getur ekki farið neitt á milli mála, hvað um þetta var þá sagt. Ég hefði gjarnan viljað lesa hér nokkur orð enn að nýju þessu til staðfestingar, ef hæstv. ráðherra væri kominn, en ég sé ekki ástæðu til að gera það að honum fjarstöddum.

En hæstv. ráðherra vék einnig að því, hvaða ástæður hefðu legið því til grundvallar, að ákvæði um að fela Seðlabankanum gengisskráninguna hefðu ekki verið sett í hina nýju löggjöf um Seðlabankann, þegar hún var til meðferðar og afgreiðslu hér á hv. Alþingi í marzmánuði 1961. Mér fannst þær ástæður, sem hæstv. ráðherra reyndi að bera fram í þessu sambandi, vera léttvægar og að sumu leyti furðulegar, eins og t.d. sú ástæðan, að Alþb. hefði orðið á móti þessu ákvæði og m.a. af þeim ástæðum hefði ekki þótt gerlegt að hreyfa þessu, þegar seðlabankalögin voru til meðferðar á síðasta þingi. Þetta finnst mér nú, miðað við margt annað, sem fram kemur hér á hv. Alþingi, vera heldur léttvæg röksemd og furðuleg. Önnur ástæðan, sem ráðherrann færði til í þessu sambandi, var sú, að hefði Alþingi fjallað um þetta í sambandi við heildarlöggjöf um Seðlabankann, þá kynni það að hafa vakið ugg um það meðal almennings, að í vændum væri gengislækkun, og það mundi hafa leitt af því margar fsp. til alþingismanna og ríkisstj. í þessu sambandi. En ráðherrann tók fram, að þá hefðu ekki verið fyrirhugaðar neinar breytingar á skráningu krónunnar.

Ég verð nú að álíta, að það hefði einmitt verið sjálfsagt, er það vakti fyrir ríkisstj. að koma þessari breytingu í gegn, að fjalla um það á Alþingi, þegar ekki stóð fyrir dyrum gengislækkun. Og fyrst það var nú svo, að hæstv. ríkisstj. hafði það ekki í hyggju að sögn hæstv. viðskmrh. að breyta skráningu krónunnar s.l. vetur, þegar fjallað var um löggjöfina um Seðlabankann, þá hefði áreiðanlega verið óhætt að taka þetta ákvæði upp af þeirri ástæðu.

En það, sem gaf mér aðallega tilefni til að segja hér fáein orð nú að þessu sinni, voru þær skýringar, sem hæstv. viðskmrh. flutti nú fram í ræðu sinni í sambandi við gengislækkunina og áhrif hennar í þjóðfélaginu og ástæður hjá atvinnuvegum þjóðarinnar og í fjárhagskerfinu, áður en til þessarar ráðstöfunar var gripið.

Hæstv. ráðherra sagði í þessu sambandi, að þáð mætti ekki tala um sjávarútveginn einan, því að sjávarafli er um það bil 1/4 af heildarverðmæti þjóðarframleiðslunnar, sagði hæstv. ráðherra. Ég hef ekki aðstöðu til þess á þessari stundu að bera tölur, sem að þessu lúta, saman og skal því engan dóm á það leggja, hvort þetta hlutfall er nákvæmt eða ekki. En ég skal til gleggra yfirlits skipta atvinnuvegunum að þessu leyti í tvo flokka og athuga fyrst atvinnuvegina í heild, aðstöðu þeirra og viðhorf til gengisbreytingarinnar og síðar sérstaklega aðstöðu sjávarútvegsins.

Þegar litið er til atvinnuveganna í heild, vaknar þessi spurning: Höfðu atvinnurekendur óskað eftir því við hæstv. ríkisstj., að genginu væri breytt, eins og gert var s.l. sumar? Ég hef það fyrir satt, að svo hafi ekki verið, enda munu þeir ekki hafa verið spurðir ráða, forsvarsmenn atvinnuveganna, og á þeim tíma, þegar gengisskráningunni var breytt, munu ekki hafa legið fyrir hjá hæstv. ríkisstj. sérstakar kröfur frá hálfu atvinnurekenda. Og ég endurtek það, sem ég hef áður sagt í þessum umr., að landbúnaðurinn hefur ekki hag af þessari gengislækkun og forsvarsmenn þess atvinnuvegar hafa ekki óskað eftir henni, að því er ég bezt veit.

Um iðnaðinn er það að segja, að ég hef það fyrir satt, að verðlagseftirlitið hafi ekki leyft iðnfyrirtækjum að hækka verðlag vöru sinnar til þess að mæta hinum auknu kauphækkunum, heldur einungis sem svarar hækkun kostnaðar og verðlags vegna gengisfellingarinnar sjálfrar. — Ég fagna því, að hæstv. ráðherra er kominn, því að ég er að gera fáar athugasemdir við ræðu hans, og ég held ég leyfi mér, hæstv. forseti, að endurtaka örfáar setningar, vegna þess að ráðherrann er kominn.

Aðalástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs nú að nýju í þessum umr., voru þær skýringar, sem hæstv. ráðherra flutti fram í síðustu ræðu sinni um aðstöðu atvinnuveganna um það leyti, sem gengisskráningunni var breytt s.l. sumar, og nauðsyn þess að hans dómi að gera þá ráðstöfun. Hæstv. ráðherra sagði í því sambandi, að það mætti ekki líta eingöngu á sjávarútveginn, þegar þetta væri metið, vegna Þess að sjávaraflinn er um það bil 1/4 hluti af heildarverðmæti þjóðarframleiðslunnar, — ég held ég hafi tekið rétt eftir þessu. Nú endurtek ég það, sem ég hafði sagt, áður en ráðherrann kom, að ég hef ekki við höndina tölur til að bera þetta saman, en ég vil til gleggra yfirlits í þessum athugasemdum skoða annars vegar áhrif gengisbreytingarinnar á atvinnuvegina sem heild og hins vegar sjávarútveginn sérstaklega.

Þegar litið er á atvinnuvegina sem heild, vaknar þessi spurning: Höfðu atvinnurekendur óskað eftir því, að genginu væri breytt á þeim tíma, sem ríkisstj. gaf út brbl. Ég hef það fyrir satt, að svo hafi ekki verið og þá hafi ekki legið fyrir hjá hæstv. ríkisstj. neinar sérstakar kröfur af hálfu atvinnuveganna um nýjar ráðstafanir í efnahagsmálum. Og ég hef það fyrir satt, að landbúnaðurinn telji sig ekki hafa hag af þessari gengislækkun, þvert á móti.

Um iðnaðinn er það að segja, að iðnaðarfyrirtækjum mun ekki hafa verið leyft að hækka verðlag á framleiðsluvörum sínum til þess að mæta auknum kauphækkunum, heldur einungis sem svarar auknum kostnaði og hækkuðu verðlagi sem afleiðingu af gengisfellingunni. Þetta þýðir m.ö.o. það, að iðnfyrirtækin yfirleitt bera sjálf þá kauphækkun, sem varð á s.l. sumri.

Þegar litið er á sjávarútveginn sérstaklega, verður að hafa það í huga, að ríkisstj. lagði sjálfri sér upp í hendur hagfræðilegan grundvöll til að miða gengisskráninguna við á miðju s.l. ári. Um þetta er birt grg. af hálfu ríkisstj. í blöðum, m.a. í Morgunblaðinu 14. sept. 1961. Það gengur eins og rauður þráður í gegnum þessa grg. að bera saman afkomu sjávarútvegsins annars vegar 1959 og hins vegar á miðju ári 1961. Og háð er í mörgum atriðum dregið fram í þessari grg., að sjávarútvegurinn standi miklu verr á miðju ári 1961 en 1959, aflamagnið minna, verðfall hafi orðið o.s.frv. Það virðist ekki hafa ríkt bjartsýni hjá hæstv. ríkisstj., þegar hún samdi þessa grg. sína fyrir gengislækkuninni, þvert á móti. Og í þessari grg. er birt tafla, sem er þannig, að vísitala framleiðslumagns sjávarafurða er sett 100 1959, 92.6 1960 og 96.8 1961. Tölurnar fyrir 1959 og 1960 munu vera raunverulegar, því að þá hafi niðurstaðan legið fyrir, en talan fyrir 1961 er sú áætlun, sem ríkisstj. sjálf lagði sér í hendur og notaði sem hagfræðilegan grundvöll undir gengislækkunarfrv. Og þá áætlar hún, að vísitala framleiðslumagns sjávarafurða verði 96,8 miðað við 100 1959. Bjartsýnin var nú ekki meiri en þetta í herbúðum hæstv. ríkisstj. á miðju ári 1961, þrátt fyrir það að sjávarútvegurinn, t.d. síldveiðin, stóð þá með hinum mesta blóma og svo mikil uppgripaveiði t.d. fyrir Austurlandi, að það eru alveg ótrúlega mikil verðmæti, sem þar fóru forgörðum beinlínis vegna skorts á tækjum til þess að hagnýta þau verðmæti, sem flutu þar fyrir landi. En það var ekki það, sem jók áhyggjur hæstv. ríkisstj., að því er virtist, hve skortur væri mikill á vinnslutækjum til að vinna sjávarafurðirnar, a.m.k. í sumum landshlutum, heldur settist hún niður og tók að reikna og fékk niðurstöður reikningsdæmisins á þennan veg.

Nú liggur það hins vegar fyrir, að þessir reikningar fá alls ekki staðizt, sem betur fer. Nú eru nýjustu tölur um þetta hér í skýrslu Seðlabankans, og þar er það skýrt fram tekið, að samkv. bráðabirgðatölum hafi heildarfiskaflinn numið 634 þús. tonnum á móti 514 þús. tonnum 1960. Þetta þýðir það, að í stað þess að vísitala framleiðslumagnsins átti að lækka samkv. dæmi hæstv. ríkisstj. í sumar, hefur aflinn aukizt á árinu 1961 um rúmlega 23% miðað við árið áður. Vísitala framleiðslumagnsins verður því alls ekki 96.8, heldur að mér skilst a.m.k. 110–112.

Þá gerði hæstv. ríkisstj. annað dæmi um framleiðsluverðmæti sjávarafurðanna á föstu verði. Og niðurstöður þess dæmis eru þannig, að 1959 var heildarframleiðsluverðmæti sjávarafurðanna 2511.6 millj., 1960 2325.6 millj, og 1961 segir hæstv. ríkisstj. það munu verða 2431.3 millj. kr. Nú munu Þessar tölur vera miðaðar við gengi 38 kr. móti 1 dollar. Í skýrslu Seðlabankans kemur hins vegar fram, að heildarframleiðsluverðmæti sjávarafurða á árinu 1961 hefur numið um 3000 millj. kr. miðað við gengi 43 á móti dollar. Ef hinar eldri tölur eru umreiknaðar þannig, að miðað sé við sama gengi, þá verður það 2628 millj. kr. 1960 og 2838 millj. kr. 1959. Síðan segir í skýrslu Seðlabankans: „og eru þá allar tölurnar umreiknaðar til sama verðs og þess gengis, sem nú er í gildi: Ég vildi nú gjarnan skjóta Því hér inn í, að ef hæstv. ráðh. sér sér fært að skýra fyrir hv. þdm., hvað í þessum orðum felst: „allar tölurnar umreiknaðar til sama verðs,“ þá vildi ég gjarnan fá að heyra þá skýringu hans.

Af Þessu sjáum við, að sá hagfræðilegi grundvöllur, sem hæstv. ríkisstj. bjó sjálfri sér í hendur með þessum útreikningum á miðju ári 1961, fær alls ekki staðizt. Hann er ekki í samræmi við staðreyndirnar, þá niðurstöðu, sem orðið hefur. Nú er ég ekki að ásaka hæstv. ríkisstj. út af fyrir sig fyrir það að fá ekki út aðrar tölur úr sínu dæmi. Ég skal láta það liggja milli hluta. En það er að mínum dómi ámælisvert af hæstv. ríkisstj. að hlaupa til á miðju ári, þegar atvinnuvegirnir voru í bezta gengi, bæði til lands og sjávar, og búa sjálfri sér til svona hagfræðigrundvöll og byggja svo á honum án nokkurrar nánari athugunar eða reynslu af afkomu atvinnuveganna á árinu Þá afdrifaríku og alvarlegu ráðstöfun, sem gerð var með gengisskráningarlögunum. Það er það, sem ég tel ámælisvert af hæstv. ríkisstj., og með því er brotið í bága við eldri venju, Þegar genginu hefur verið breytt.

En meginatriði þessa máls að dómi hæstv. ríkisstj, er það, áð með hinum almennu kauphækkunum, sem gerðar voru s.l. sumar, hafi launatekjur í þjóðfélaginu hækkað svo mikið, að af því hefði leitt gjaldeyrisskort, ef engar nýjar ráðstafanir hefðu verið gerðar. Þetta er meginröksemd hæstv. ríkisstj., og þetta er í sjálfu sér ekki ný röksemd, því að hún hefur oft verið færð fram áður í sambandi við gengislækkanir. Það er því, þegar málið er skoðað allt frá rótum, einmitt þess vert að gera sér glögga grein fyrir þessu atriði annars vegar og hins vegar heildaraflamagni og heildarverðmæti sjávaraflans, vegna þess að sjávaraflinn gefur gjaldeyristekjur í þjóðarbúið. Hann skilar auknum gjaldeyri fyrir þjóðarbúið, og eftir því sem gjaldeyristekjurnar vaxa, þeim mun minni hætta er á því, sem hæstv. ríkisstj, færir fram, að ofþensla verði í peningakerfinu innanlands. Í þessu sambandi hefur hæstv. ráðherra flutt fram þær tölur og styðst þar við álit Framkvæmdabankans, að heildarlaunatekjur Þjóðarinnar á ári nemi um 3500 millj. kr. og 14–15% hækkun á þeim samsvari um 500 millj. kr. aukningu á peningatekjum innanlands. Við þetta bætir hæstv. ráðherra síðan 300 millj., sem hann segir að komi fram vegna tilfærslu fólks úr lægri launaflokkum í hærri launaflokka. Og einmitt í sambandi við þetta atriði lét hæstv. ráðherra í ræðu sinni áðan þau orð falla, að þegar við framsóknarmenn ræddum um þetta atriði, gætti nokkurs misskilnings, vegna þess að við tækjum með inn í þessa tölu áhrif vegna fólksfjölgunar í landinu, en hæstv. ráðherra viðurkenndi, að mér virtist, að það væri ekki ástæða til að taka slíkt til greina í sambandi við breytta gengisskráningu.

Nú verð ég að segja hæstv. ráðherra, að þó að honum kunni að falla það miður, að hér er ekki um misskilning að ræða af minni hálfu eða flakksbræðra minna, því að þetta er beinlínis sótt í grg. ríkisstj. — opinbera grg, ríkisstj. sjálfrar fyrir gengislækkuninni s.l. sumar, en sú grg. er birt í Morgunblaðinu 14. sept. 1961. En í þessari grg. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Samkvæmt útreikningum Framkvæmdabankans þýðir 1% launahækkun, er þannig dreifist til nær því allrar þjóðarinnar, 30–40 millj. kr. hækkun heildartekna. Launahækkanirnar hlutu því von bráðar að leiða til 500–600 millj. kr. aukningar tekna í landinu. Í viðbót við þetta kemur svo sú tekjuaukning, sem stafar frá auknum fjölda vinnandi fólks og flutningi frá verr launuðum til betur launaðra starfa, sem sífellt á sér stað. Þetta tvennt samtals er varla undir 300 millj. kr. á ári.“ Hér er þetta sett fram í opinberri grg. ríkisstj. svo skýrt, að ekki verður um villzt, að það er þetta tvennt, sem samtals gerir varla undir 300 millj. kr.: áhrif vegna fólksfjölgunar og áhrif vegna tilfærslu í launaflokkum, enda verð ég að segja, að án tillits til talna virðist ótrúlegt, að tilfærsla milli launaflokka hafi ein út af fyrir sig þau áhrif, að það muni 300 millj. kr. á ári, því að þeir, sem fara frá störfum fyrir aldurs sakir eða af öðrum ástæðum, færast aftur niður í lægri launaflokka, koma á tryggingarfé o.s.frv. í stað þeirra, sem færast upp í hina hærri launaflokka.

Ég verð því að byggja á þessari opinberu grg. ríkisstj., sem hún stendur öll að og þar með hæstv. viðskmrh., um þetta atriði. Ég hef ekki fyrir mér sundurliðun á þessu, en ég tel líkur til, að meiri hlutinn af þessari fjárhæð, sem hér um ræðir, sé sprottinn af aukningu vinnandi manna í landinu og eigi því ekki að taka til greina í þessu sambandi.

En þá kemur að hinum þættinum, þ.e. annars vegar gjaldeyristekjum þjóðarbúsins og þó sérstaklega af sjávarafurðum og þeirri aukningu peningatekna, sem hæstv. ráðherra gerir að meginmáli í sinni röksemdafærslu að hefði valdið ofþenslu í þjóðfélaginu, ef ekki hefði verið gripið til gengislækkunarinnar. Og þá lítur dæmið þannig út, að ef þessar tölur eru umreiknaðar á hið nýja gengi, og ég skal vera svo sanngjarn að gera það í þessu sambandi, þá eru gjaldeyristekjurnar af sjávaraflanum alls ekki á árinu 1961 2431 millj., eins og ríkisstj. sagði í sumar að þær mundu verða, þær eru ekki heldur 2628 millj., eins og þær voru miðað við nýja gengið 1960, heldur 3000 millj. M.ö.o.: aukning aflamagnsins frá því, sem ríkisstj. áætlaði, hún skilaði í hreinum gjaldeyristekjum 372 millj. kr. miðað við núverandi gengi. Og þegar tillit er tekið til þess, verður bilið þarna á milli alls ekki svo breitt, að það hafi gefið ástæðu til að ráðast í þá gengisfellingu, sem gerð var með brbl. s.l. sumar.

Þegar málið er skoðað í þessu ljósi, er alveg auðsætt, að hagfræðilegan grundvöll undir þessa gengisbreytingu vantar gersamlega, og hann var frá öndverðu tilbúinn að miklu leyti af hæstv. ríkisstj. og hefur brostið í höndum hennar. Það gefur náttúrlega enn nýja ástæðu til að standa gegn samþykkt þessa frv.