29.03.1962
Efri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. 2. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. fjhn., 11. þm. Reykv., hélt hér langa og fræðilega ræðu um nauðsyn gengisfellingarinnar, og það var vissulega virðingarvert hjá honum að reyna að rétta nokkuð hlut hæstv. viðskmrh. hér frá því við 1. umr. málsins, er hann gafst algerlega upp við að verja gengisfellinguna og ráðstafanirnar í kringum hana. Ég hafði hugsað mér að taka þessa fræðilegu ræðu að nokkru til athugunar í sambandi við það mál, sem hér er næst á dagskránni, og vil þess vegna nú ekki svara þessari ræðu mikið. Ég get þó ekki stillt mig um að nefna sem dæmi um málflutning þessa hv. þm. það, sem hann sagði um breytingar á kaupmætti verkamannalauna, þar sem hann taldi, að ég hefði farið hér með mjög rangt mál í mínu nál. um það, að kaupmátturinn, sem stóð í 84 stigum, þegar gengisfellingunni var dembt yfir, væri nú kominn í 83 stig. Og hann taldi, að þetta gæfi ekki rétta hugmynd af þeim breytingum, sem orðið hefðu á kaupmættinum, vegna þess að þarna væri aðeins miðað við kaupmáttinn gagnvart vörum og þjónustu, en ekki tekið inn í þar margt, sem máli skipti, eins og húsnæðisliður vísitölunnar, fjölskyldubætur og annað slíkt.

Ég held nú, að ef aðrar röksemdir hv. þm. standast álíka vel og þessi fullyrðing hans, þá sé ekki gefandi mikið fyrir þá fræðimennsku. sem hann var hér að halda að hv. þingdeild, því að staðreyndin er sú, að það kemur sízt hagstæðara út úr dæminu, þó að allir þessir liðir, sem hann nefndi, séu teknir með, þ.e.a.s. þótt miðað sé við breytingar á sjálfri framfærsluvísitölunni, þar sem búið er að taka inn í allar skattalækkanir, sem hafa orðið, og fjölskyldubætur og annað slíkt, sem ekki var áður inni í vísitölunni, en nú hefur verið tekið inn í hana. Þessi vísitala, sem miðaðist ekki aðeins við vöru og þjónustu, heldur við byggingarkostnað, við opinber gjöld, útsvör, skatta og fjölskyldubætur og reiknað út frá því, hún hefur hækkað, frá því að gengisfellingin var framkvæmd, úr 104 stigum í 116, þ.e.a.s. hún hefur hækkað um 11.6%, á sama tíma og kaupgjald verkamanna hefur hækkað um 10–11.

Ég fæ því ekki séð annað en út úr þessu dæmi komi nákvæmlega eða svo til nákvæmlega það sama og það er reiknað eftir aðferðum Torfa Ásgeirssonar. Það stendur sem sagt óhaggað og algerlega óhrekjanlegt, að kaupmættinum, hvaða aðferðum sem beitt er við útreikninga, hefur hrakað,frá því að verkalýðsfélögin gerðu sína samninga. Það er algerlega sama, hvaða aðferð er viðhöfð.

Það er svo auðvitað annað mál, að hvor leiðin sem valin er til útreiknings gefur ekki fullkomna hugmynd um það, hvað kaupmættinum hefur raunverulega hrakað, hvernig lífskjörunum hefur raunverulega hrakað í tíð núv. ríkisstj. Það er margt, sem kemur þar til greina, t.d. það, að húsnæðiskostnaðurinn er ekki kominn inn í vísitöluna nema að mjög litlu leyti. Ég hef nú ekki Hagtíðindin fyrir framan mig, en mig minnir, að það sé reiknað með hækkun húsnæðiskostnaðar upp á örfá hundruð krónur. Nú vita náttúrlega allir, að þarna er aðeins örlítið brot af hinum gífurlega þunga, sem lagður hefur verið á launamenn og alveg sérstaklega þá, sem hafa þurft að standa í því að byggja yfir sig hús, borga vexti af íbúðum og öðru slíku, þannig að þessir útreikningar, hvor aðferðin sem notuð er, gefa mjög takmarkaða hugmynd um það, hver þróunin í þessu efni hefur orðið. En það er alveg víst, að hvor aðferðin sem notuð er gefur miklu vægari mynd af þessu en það í raun og veru er. Og það er þess vegna furðulegt, að jafnágætur fræðimaður og þessi hv. þm. vafalaust er skuli svo misnota þekkingu sína á þessum efnum sem þessi málflutningur ber vott um.

En ég ætlaði sem sagt ekki að gera þessa ræðu frekar að umtalsefni núna. Ég tel að ýmsu leyti, að umr. um þetta eigi eins vel heima í sambandi við frv. um ráðstafanir vegna gengisbreytingarinnar, og mun geyma mér að ræða frekar þau mál sérstaklega.

Þá ætla ég að snúa mér aðeins örlítið að því frv., sem hér liggur fyrir. En það er eins og margoft hefur komið fram í þeim umr., sem um þetta frv. hafa orðið hér á hv. Alþingi, að þá er hið eina formlega efni þess það að staðfesta Þau brbl., sem út voru gefin 1. ágúst s.l. og kváðu svo á, að valdið yfir skráningu gengisins skyldi verða tekið af Alþingi og fengið í hendur stjórn Seðlabankans. Gengisfellingin sjálf, sem var þó sú athöfn, sem stefnt var að með þessum brbl., er að forminu til alls ekki á dagskrá hér á hv. Alþingi, eins og hún hefði verið, ef hún hefði verið ákveðin með brbl. Og ég tel einmitt þá staðreynd, að gengisfellingin sjálf er alls ekki til umr. að formi til hér á hv. Alþingi, vera eina af vísbendingunum um það, að útgáfa brbl. hafi ekki verið í samræmi við stjórnskipunarlög. Alþingi hafði síðast með löggjöfinni um Seðlabanka Íslands samþykkt þá skipan mála, að gengisskráningarvaldið skyldi vera í þess höndum, en ekki í höndum Seðlabankans. Þessi skipun var að vísu yfirveguð við þá lagasetningu, sem sett var um Seðlabankann á síðasta Alþingi, en var þá hafnað bæði af ríkisstj. og af Alþingi, sem staðfesti þá höfnun ríkisstj. á þessu fyrirkomulagi. Þetta vita allir. Þess vegna var engum fært að breyta gengi gjaldmiðilsins nema löggjafanum, þ.e.a.s. annaðhvort ríkisstj. með brbl. þar um eða þá Alþingi sjálfu. En samt stöndum við nú frammi fyrir þeirri furðulegu staðreynd, að það er Seðlabankinn, sem nú hefur skráð gengið, en hvorki bráðabirgðalöggjafinn né sjálft Alþingi. Það, sem hér hefur gerzt, er í raun og veru alveg hliðstætt því, að t.d. ríkisstofnun eins og Tryggingastofnun ríkisins væri með brbl. fengið vald til þess að breyta lögum um almannatryggingar eftir vild sinni eða öðrum stofnunum væri að meira eða minna leyti falið af ríkisstj. raunverulegt löggjafarvald, eða kannske öllu heldur falið vald, sem löggjafinn einn hefur haft áður. Það getur vafalaust staðizt fyllilega, enda mörg fordæmi hægt að finna vafalaust fyrir því, að opinberum stofnunum sé falið nokkurt vald í málefnum, sem Alþingi hefur áður kveðið á um. En það hefur þó, held ég, alltaf verið gert með lögum frá Alþingi, þ.e.a.s. Alþingi sjálft hefur afsalað sér því valdi, sem um var að ræða. Hins vegar hef ég ekki a.m.k. heyrt nefnd fordæmi fyrir því, að nokkur ríkisstj. hafi með útgáfu brbl. beinlínis tekið vald af Alþingi og þannig framið valdsviptingu gagnvart því, eins og núv. hæstv. ríkisstj. hefur óumdeilanlega gert.

Það hefur enginn vefengt það, að ríkisstj. hefði haft fullt vald til þess að fella gengið með brbl., þótt því verði ekki neitað, að svo örlagarík ákvörðun fyrir þjóðina alla, fyrir afkomu almennings og alla þróun efnahagsmála, hlaut alltaf að vera hæpin, að ekki sé meira sagt, án þess að Alþingi væri kallað saman og það látið fjalla um málið. En samt sem áður hefði það ekki sætt ákæru á hendur ríkisstj. fyrir það alvarlegasta athæfi, sem ein ríkisstj. getur framið, þ.e.a.s. að brjóta skýlaus ákvæði stjórnarskrárinnar.

Í þeim umr., sem hér hafa farið fram um þetta mál, hefur meðal margs annars komið fram og reynst algerlega óhrekjanlegt í fyrsta lagi, að við útgáfu brbl. var ekki fullnægt því höfuðskilyrði 28. gr. stjórnarskrárinnar, að brbl. megi ekki gefa út, nema brýn nauðsyn sé. Þessi staðreynd ein fyrir sig er nægjanleg til Þess að sanna ákæru stjórnarandstæðinga, og hún er svo augljós, að jafnvel talsmenn hæstv. ríkisstj. hafa ekki treyst sér til að neita henni. í öðru lagi, að brbl. voru gefin út aðeins 4–5 mánuðum eftir að Alþingi hafði samþykkt lög, sem ákváðu þveröfuga skipan mála við þá, sem brbl. kváðu á um. Þessari staðreynd hafa talsmenn ríkisstj. ekki heldur getað neitað, en hún er annað úrslitaatriðið í málinu og svo mikilvægt, að fræðimenn, þar á meðal núv. hæstv. dómsmrh., hafa rætt þetta atriði stjórnskipunar sem fræðimenn, en ekki sem stjórnmálamenn, varað alveg sérstaklega við því, að bráðabirgðalöggjafarvaldinu sé beitt, þegar svo stendur á eins og hér stóð á um óvefengjanlega afstöðu Alþingis. í þriðja lagi, að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og vafalaust fullkomna leit að fordæmum þess, sem hér hefur verið gert, hefur talsmönnum hæstv. ríkisstj. ekki tekizt að finna nokkurt dæmi þess, að ríkisstj. hafi beitt bráðabirgðalöggjafarvaldinu á hliðstæðan hátt og gert var með lögunum frá 1. ágúst.

Enn hefur það gerzt í þessari hv. deild, sem ég tel ekki lítilvægt, ofan á allt annað, að einn helzti sérfræðingur í stjórnlagafræði, prófessor Ólafur Jóhannesson, hv. 3. þm. Norðurl. v., hefur hér í mjög málefnalegri og fræðilegri ræðu kveðið skýrt og ótvírætt upp úr með þá skoðun sína, að hér sé um hreint stjórnarskrárbrot að ræða. Hv. 3. þm. Norðurl. v. er auðvitað stjórnarandstæðingur og því kannske ekki unnt af þeirri ástæðu að skoða hann sem algerlega hlutlausan dómara í þessu máli. En ég held þó, að ræða hans hér í hv. d. við 1. umr. málsins hljóti að vega nokkuð þungt, þegar þess er gætt, hver fræðimaður hér á í hlut. Og þetta verður svo enn augljósara og þyngra á metum, þegar þess er gætt, að engin tilraun hefur verið til þess gerð að hnekkja þeim rökum, sem bæði hann og aðrir hafa stutt þær þungu ásakanir á hendur ríkisstj., að hún hafi brotið stjórnarskrá lýðveldisins með útgáfu þessara margnefndu brbl.

Eins og hér hefur komið fram og raunar er alkunnugt, höfum við enga þá stofnun eða dómstól í íslenzku þjóðfélagi, sem fær er um að dæma í slíku ágreiningsmáli sem því, sem hér er um að ræða. Hér hefur því hæstv. ríkisstj. skákað í því hróksvaldi m.a., að ákvæðin um landsdóm eru vegna notkunarleysis algerlega dauður bókstafur, sem ekkert gildi hefur. Meðan svo er ástatt, virðist ekki óeðlilegt, að um slíkt ágreiningsmál sem hér er um að ræða sé leitað álits þeirrar stofnunar, sem nokkurs hlýtur að vera metin sem ráðgjafi í lögfræðilegum efnum, þ.e.a.s. lagadeildar Háskóla Íslands. Það er ekki svo að skilja, að ég telji, að álit þeirrar stofnunar væri algildur mælikvarði á stjórnlagagildi brbl. og óumdeilanlegt. En á hinn bóginn hlyti t.d. einróma álitsgerð slíkrar stofnunar, á hvora sveifina sem hún snerist, að þykja harla mikilvæg. Ég lagði þess vegna til í fjhn., að leitað væri álits lagadeildar háskólans um þetta mál. En þá skeði hið furðulega, að tveir af hv. stuðningsmönnum ríkisstj. vildu ekki eiga neitt undir því, hver niðurstaða lagadeildarinnar yrði í málinu, og var þessi till. mín felld með jöfnum atkv., en hv. 9. landsk. þm. (JÞ) sat hjá við atkvgr. Því var að vísu borið við, að andstaðan stafaði af því, að álitið mundi ekki liggja fyrir fyrr en svo seint á þinginu, að bagi væri að. En tæplega þykir mér unnt að taka þá afsökun alvarlega, þegar þess er gætt, að auðvelt er að afgreiða málið á örskömmum tíma við þær tvær umr., sem eftir eru hér í þessari deild. Ástæðan fyrir þessari andstöðu við þessa till. mína getur því engin önnur verið en sú, að þeir, sem að því stóðu að fella hana, hafi óttazt, að álitsgerð lagadeildarinnar gengi gegn þeim og með henni bættist enn við þann röksemdaforða, sem fyrir er gegn því, að Alþingi eigi eða geti staðfest brbl. og þar með lagt blessun sína og samþykki við því stjórnlagabroti, sem hæstv. ríkisstjórn hefur framið. En það er vissulega líka nokkurs virði að sannfærast um það á þennan hátt, að sannfæring þeirra hv. stjórnarsinna í þessu máli er ekki alveg eins sterk og þeir vilja vera láta.

Sú skoðun okkar stjórnarandstæðinga, a.m.k. okkar Alþb.- manna, að útgáfa brbl. hafi verið stjórnarskrárbrot, er ekki eina ástæðan fyrir afstöðu okkar til þessa frv. Þar kemur hvort tveggja til, að við höfum verið og erum algerlega andvígir þeirri skipan mála, að Seðlabankinn hafi gengisskráningarvaldið, og höfum frá því fyrsta barizt fyrir því, að það héldist í höndum Alþingis, og einnig hitt, að við erum andstæðir gengisfellingunni sjálfri og hefðum verið, þótt hún hefði verið með lögmætum hætti til komin. Afstöðu okkar til hins fyrra atriðisins bar nokkuð á góma hér við 1. umr. málsins hjá þeim flokksbræðrum, hv. 9. landsk. þm. og hæstv. viðskmrh. Sagði hæstv. viðskmrh., að aðalástæðan fyrir því, að ekki hefði á síðasta þingi verið ákveðið að færa gengisskráningarvaldið í hendur Seðlabankanum, hefði verið sú, að við Alþb: menn hefðum verið því andvígir, en talið hefði verið mikilsvert að fá sem víðtækasta samstöðu um hina nýju seðlabankalöggjöf. Þannig vildi hæstv. ráðherra leiða líkur að því, að raunverulega hefði vilji meiri hl. Alþingis ekki verið sá, sem löggjöfin sýndi, heldur þveröfugur, sem sé sá, að valdið yrði í höndum Seðlabankans. Hv. 9. landsk. þm. hafði áður sagt og hæstv. ráðh. staðfesti það, að ástæðan fyrir þessu hefði verið sú, að ef það hefði verið gert s.l. vetur, sem nú hefur verið gert með þessum brbl., þá hefði reynzt auðvelt fyrir stjórnarandstæðinga að sá tortryggni meðal launafólks um það, að gengið yrði fellt, ef til kauphækkana kæmi. Ég tel þetta vera töluvert athyglisverðar upplýsingar, — eða kannske öllu heldur ætti maður að kalla það uppljóstranir, — upplýsingar bæði um heiðarleik og hugsunarhátt hv. stjórnarsinna, ef sannar eru. En þessum hv. stjórnarsinnum hefur ekki aðeins orðið það á að skrökva upp á sig vömmum til að reyna að bjarga sér út úr slæmri klípu. Menn skulu bara hugsa sér heilindin, sem hér liggja að baki, í fyrsta lagi í því að leita stuðnings Alþb. við seðlabankalöggjöfina á þeim grundvelli, sem gert var, þ.e.a.s. að hann hefði ekki gengisskráningarvaldið í sinni hendi, hafandi það í huga að breyta þessu strax með brbl., þegar stuðningurinn væri fenginn og þingið farið heim. Þetta er dáfalleg lýsing á eigin vinnubrögðum — eða hitt þó heldur. Og launafólk mátti auðvitað ekki víta það fyrir fram, að gengið ætti að lækka, ef kaupið yrði hækkað. Það varð að leyna þeirri ákvörðun ríkisstj., þangað til hún tæki gildi fyrirvaralaust fyrir launþegana, og beita brögðum, til þess að engar líkur yrðu leiddar að því, að gerðir samningar yrðu eyðilagðir fyrirvaralaust með Þessum hætti. Fyrst áttu verkalýðssamtökin að gera samninga, helzt til tveggja ára, eins og hæstv. ríkisstj. hefur alltaf talið mikla nauðsyn á, í góðri trú, og síðan átti að bregða rýtingi gengisfellingarinnar og gera þá að engu. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta, en ég hlýt að óska hv. stjórnarflokkum til verðskuldaðrar hamingju í tilefni þessarar greinargóðu lýsingar á þeim siðareglum, sem hæstv. viðskmrh. og hv. 9. landsk. þm. hafa upplýst að stjórnarflokkarnir vinni eftir.

En það er svo aftur íhugunarvert út af fyrir sig, að engir aðrir talsmenn hæstv. ríkisstj. hafa í öllum þeim umr., sem eru búnar að vera um þessi mál, allt frá því að hv. Alþingi hóf starf sitt á s.l. hausti, talið sér hentugt að skýra vinnubrögðin á þennan hátt, sem þessi hv. þm. og hæstv. ráðh. hafa gert.

Það hefur að sjálfsögðu verið deilt um það, hvort eðlileg og skynsamleg sé sú skipan mála, að gengisskráningarvaldið sé falið í hendur öðrum aðila en löggjafanum. Einu rökin, sem fram hafa komið til stuðnings því, að þetta vald eigi að vera í höndum Seðlabankans, eru þau, að gengisbreytingu þurfi að gera með skjótum hætti og helzt án alls fyrirvara, til þess að forðast megi ýmsa spákaupmennsku. Ekki finnst mér nú, að þessi rök séu sérlega þung á metum, þegar þess er gætt, að unnt er að afgreiða lög, hvort sem er um gengi eða annað á mjög skömmum tíma á Alþingi, ef áherzla er á það lögð, og auðvelt, án þess að bagi sé að, að stöðva gjaldeyrissölu, á meðan þingið hefur slíkt mál til meðferðar. En á hinn bóginn er auðvitað öllum ljóst, að gengisskráningarvaldið er bókstaflega úrslitavald um efnahagslífið, efnahagsþróunina og lífskjör flestra stétta í þjóðfélaginu. Þeim aðila, sem þetta vald hefur í höndum, er í lófa lagið jafnvel að taka fram fyrir hendur Alþingis í flestum veigamestu athöfnum þess á sviði efnahagsmálanna. Hann getur með einu pennastriki eyðilagt hinar veigamestu aðgerðir Alþingis í efnahagsmálum, og hann getur skammtað almenningi að verulegu leyti þau kjör, sem hann á við að búa.

Það er vissulega nógu illt, þegar löggjafarvaldinu er misbeitt til þess að rýra almenn lífskjör, eins og gert hefur verið á tímabili viðreisnarinnar. En hitt er þó sýnu verra, ef aðilum, sem eru ábyrgðarlausir gagnvart kjósendum landsins, er fengin aðstaða til þess að ráðskast með afkomu og efnahagslega velferð þegnanna eftir vild sinni. Með því er verið að brjóta niður lýðræðislega stjórnskipun og mannréttindi.

Um sjálfa gengisfellinguna, þ.e.a.s. þá fyrstu athöfn, sem stefnt var að með brbl., ætla ég ekki, eins og ég sagði áður, að ræða að þessu sinni. En það má segja, að athöfnin hafi verið í samræmi við málsmeðferðina. Gengisfellingin var fyrst og fremst tilefnislaus hefndarráðstöfun gagnvart íslenzkri verkalýðshreyfingu, vegna þess að hún vildi ekki una kjaraskerðingarstefnu hæstv. ríkisstj. Á þessa hefndarráðstöfun var verið að reyna að setja stimpil hagfræðilegra útreikninga og eitthvert svipmót hlutlauss úrskurðarvalds með því að láta aðra stofnun en sjálfan löggjafann framkvæma hana að forminu til. Ég tel, að umr. hér á hv. Alþingi hafi svipt þessari gæru af gengisfellingunni og sannað, að engin efnahagsleg rök, sem stoð áttu í veruleikanum, hafi stutt þessa ráðstöfun, heldur var stjórn Seðlabankans notuð sem verkfæri til þess að rifta kjarasamningunum. Með því hugðist ríkisstj. firra sig nokkru af þeirri ábyrgð gagnvart þjóðinni og jafnvel gagnvart Alþingi, sem hún ein átti að bera. Og þannig hyggst hún í framtíðinni reyna að losa sig frá því að bera fulla ábyrgð á meðferð gengisskráningarvaldsins, þegar henni kynni að þóknast að beita því á líkan hátt og hún gerði 1. ágúst s.l.

Af þeim þremur höfuðástæðum, sem ég hef nú nefnt: í fyrsta lagi vegna þess, að brbl., sem staðfest yrðu með samþykkt þessa frv., eru hreint brot á stjórnarskránni, í öðru lagi vegna þess, að engum öðrum en löggjafanum, Alþingi, ber að fara með það mikla efnahagslega vald, sem gengisskráningarvaldið er, og í þriðja lagi vegna þess, að ég tel, að Alþingi beri að rifta sjálfri gengisfellingunni, legg ég til, að þetta frv. verði fellt. Með því eina móti ber að snúast gegn öllu því gerræði, sem hæstv. ríkisstj. hefur framið gagnvart Alþingi, gagnvart stjórnarskránni og gagnvart íslenzkum almenningi.