14.02.1963
Neðri deild: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

144. mál, heimild til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Svo sem hæstv. kirkjumrh. sagði frá, er með þessu frv., ef að lögum verður, ákvarðað að afhenda þjóðkirkjunni Skálholtsstað til eignar og umráða og jafnframt að leggja fram árlega nokkurt fé úr ríkissjóði til framhaldandi uppbyggingar í Skálholti og til þeirrar starfrækslu, sem þar kann að verða ákvörðuð. Ég fyrir mitt leyti fagna því, að þessi ákvörðun skuli nú vera tekin og Skálholtsstaður, sem í aldaraðir var önnur miðstöð menningar- og trúarlífs og raunar má einnig segja miðstöð athafnalífs í landi okkar, skuli nú aftur vera lagður til kirkjunnar og falinn í umsjá hennar. Það kemur ekki fram í þessu frv. né heldur í þeirri grg., sem frv. fylgir, hvert skuli vera framtíðarhlutverk Skálholts. Og eins og skýrlega kom fram í ræðu hæstv. kirkjumrh. og hv. 1. þm. Vestf., eru skoðanir um þetta efni mjög skiptar og ekki aðeins, eins og á var drepið, meðal þjóðarinnar, heldur einnig meðal prestastéttarinnar.

Ég ætla ekki að fara út í það að ræða þessar ýmsu skoðanir, sem uppi eru um þetta atriði, en ég vænti þess fastlega, og ég veit, að við væntum þess öll, að þetta frv. stuðli að því, eins og segir í grg. þess, að þessi verðmæta alþjóðareign megi ávaxtast á komandi tímum til sem mestra nytja fyrir íslenzku þjóðina í andlegu og menningarlegu tilliti. Og ég vil láta þá von mína hér í ljós, að svo giftusamlega takist, að það þyki sjálfsagt, áður en langt um liður og þegar tímabært er, að sama ákvörðun eða áþekk verði tekin að því er varðar hinn sögufræga og fornhelga biskupsstól okkar Norðlendinga á Hólum í Hjaltadal.

Þið megið ekki, hv. dm., taka það svo, þó að ég nefni Hóla í Hjaltadal, að ég vilji með nokkrum hætti spilla fyrir þessu frv. En það er nú svo, að þegar á Skálholt er minnzt, þá getur ekki hjá því farið, að Hólar í Hjaltadal komi einnig upp í hugann, ekki sízt í huga okkar Norðlendinga. En vitaskuld má á milli þessara tveggja staða enginn reipdráttur vera. En það er skoðun mín, að þjóðkirkjan eigi að fá þessa staði tvo til eignar og umsjár, og ég vænti þess, að hún beri giftu til að fara vel með það hlutverk, sem henni er falið með slíkri ráðstöfun.