14.02.1963
Neðri deild: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

144. mál, heimild til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað

Unnar Stefánsson:

Herra forseti. Mér þótti hæfa að lýsa ánægju minni með þetta framkomna frv. frá ríkisstj., sem ég vænti að geti orðið til þess að efla þann stað, Skálholt, sem ríkisstj. væntir nú að Alþ. samþykki að afhenda þjóðkirkjunni til umráða.

Ég vildi, að það kæmi fram hér á Alþ. við upphaf umr. um þetta mál, að hinn 25. jan. s.l. var boðað til fundar í Skálholti af þeim mönnum í nágrenni staðarins í Suðurlandsumdæmi, sem forgöngu hafa haft um þetta málefni þar á slóðum, þ. á m. prófastinum í héraðinu ásamt tveim öðrum sóknarprestum.

Á þessum fundi var samþ. ályktun, sem ég tel viðeigandi að komi fram á Alþ. í umr. um þetta mál. Á fundinum var gerð svo hljóðandi ályktun:

„Fundurinn telur, að endurreisn Skálholtsstaðar sé ekki lokið, fyrr en biskupsstóll er þar einnig endurreistur, og ályktar að kjósa sjö manna nefnd til að vinna að framgangi þess máls.”

Í þessari n. eiga sæti 2 fulltrúar fyrir Arnessýslu, 2 fulltrúar fyrir Rangárvallasýslu, 2 fulltrúar úr Skaftafellssýslu og 1 fulltrúi úr Vestmannaeyjum. Í umr. um þetta mál tóku til máls ekki færri en 10 menn, og fundurinn var eftir atvikum fjölmennur, þeim atvikum, að veður var alveg sérstaklega óhagstætt til ferðalaga og fundarhalds á þessum tíma, er fundurinn var haldinn.

Ég vil taka undir þá skoðun, sem kom fram hjá einum ræðumanni hér áðan, Sigurði Bjarnasyni, að ég tel, að þetta þjóðlegasta og elzta embætti landsins, biskupsembættið, fengi aukið sjálfstæði í Skálholti. Ég vona, að þau kirkjulegu yfirvöld, sem eiga eftir að fjalla um ráðstöfun Skálholts, taki til alvarlegrar íhugunar, hvort ekki yrði til eflingar kirkjulífi í landinu að færa biskupssetur frá Reykjavík til Skálholts. Persónulega tel ég, að það mundi vega allmikið í hugum manna, sérstaklega varðandi kröfur og óskir fólks um. aukið jafnvægi í byggð landsins, m.a. með dreifingu landsstjórnarinnar og framkvæmdavaldsins, að biskupinn yrði fluttur úr Reykjavík að Skálholti. Ég tel litlu örðugra fyrir biskup að eiga sæti í Skálholti en fyrir forseta Íslands að vera búsettan á Bessastöðum.

Ég vil einnig, að það komi fram sú hugmynd hér, sem áður hefur verið rædd, að guðfræðideild háskólans yrði einnig flutt að Skálholti, það álít, að guðfræðingar, þeir sem nema guðfræði, mundu af ýmsum ástæðum hafa betri aðstöðu til þess í Skálholti en við háskólann í Reykjavik. Þessi atriði vildi ég, að kæmu fram hérna, um leið og ég lýsi yfir ánægju minni með fram komið frv. Og ég má segja með hliðsjón af ályktun þess fundar, sem haldinn var í Skálholti í fyrra mánuði, að íbúar þess héraðs, næsta nágrennis Skálholts, þrátt fyrir reynslu undangenginna kynslóða og alda, mundu mjög fagna raunhæfri endurreisn Skálholtsstaðar og mundu einnig fylgja því, að sú endurreisn hefði í för með sér eflingu kirkjulífs, m.a. með flutningi biskupsstóls og e.t.v. guðfræðideildar einnig að Skálholti, eftir því sem kirkjulegum yfirvöldum þætti bezt við eiga.