14.02.1963
Neðri deild: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

144. mál, heimild til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Hér hafa farið fram mjög ánægjulegar umr. um þetta mikilsverða mál, sem ríkisstj. hefur lagt fram til afgreiðslu hér á hv. Alþ. Mér er það gleðiefni að mega taka þátt í því að afgreiða frv. eins og þetta. Skálholtsstaður er nágranni minn, og mér er þess vegna eðlilega mjög hlýtt til þess staðar. Ég hef einnig nokkuð skýra mynd af sögu staðarins, og ég veit það og það vitum við öll jafnvel, að saga þjóðarinnar og saga Skálholtsstaðar fara nokkurn veginn saman og vart hægt að hugsa sér, að þar sé hægt að greina á milli í höfuðatriðum. Eðlilega er þetta mál, að vísu ekki það, sem nú liggur fyrir sérstaklega, heldur hitt málið, sem borið hefur hér á góma, en birtist ekki í frv., bað er flutningur á biskupsstóli Íslands til Skálholtsstaðar, fyrst og fremst tilfinningamál, eins og hæstv. dómsmrh. gat um. En ekki er nema ánægjulegt til þess að vita, að það eru fleiri mál, sem ber á góma hér á hv. Alþ., heldur en efnahagsmál. Þess vegna er það gleðiefni, að eitt af slíkum málum, sem í raun og veru heyra ekki undir efnahagsmál, skuli vera tekið fyrir og rætt með þeim hætti, svo sem hér hefur gerzt í dag, og margir þm. rætt það og flestir á einn veg.

Ég vil taka það strax fram, að ég mun fylgja þessu frv. eins og það er að efni til. En hitt er annað, að mér þykir á skorta, að ekki er með einhverjum hætti að því vikið, að biskupsstóll skuli jafnframt fluttur verða úr Reykjavík á sinn gamla stað, Skálholtsstað. Það má vel vera, að það séu ekki full tök á því að koma slíku ákvæði fyrir í þessu frv., en þá væri hægt að hugsa sér, að það atriði máls væri hægt að bera upp hér í hv. Alþ. með öðrum hætti. Mér er það ekki alveg ljóst, hvort hæstv. ríkisstj. gæti af sjálfsdáðum flutt biskupsstólinn til Skálholts úr Reykjavík án tilkomu ákvörðunar Alþ. Hitt þykist ég vita, að með konunglegri tilskipan frá því rétt fyrir 1800 var biskupsstóll fluttur til Reykjavíkur frá Skálholtsstað.

Það er ekki ástæða til þess að ræða þetta mál miklu meira. Hér hefur á flest verið drepið, sem nokkru máli skiptir, og ljóst er það enn fremur, að mikill meiri hl. þeirra hv. þm., sem rætt hafa frv., er þeirrar skoðunar, að æskilegast sé og í raun og veru óhjákvæmilegt eftir eðli málsins að flytja biskupsstól jafnframt að Skálholtsstað.

Mér þykir það meira en leitt að hugsa til þess, að kirkjulegir leiðtogar, kirkjuþing, kirkjuráð og aðrar slíkar stofnanir, skuli ekki hafa fyrir löngu verið búnir að ákveða og staðfesta þann vilja sinn, að flutningur biskupsstóls skyldi fram fara. Og ég sé ekki betur en nauðsynlegt sé og tel það enga goðgá, að Alþ. taki beinlínis af skarið um flutning biskupsstóls og ákveði, að biskupsstóllinn skuli fluttur að Skálholti. Þegar málið væri komið á það stig, að ljóst væri, að Alþ. væri ákveðið í því að styðja slíka till., er ég ekki í vafa um það, að kirkjuráð og aðrar slíkar kirkjulegar stofnanir mundu sætta sig vel við slíka tilhögun. Við vitum það, að prestastéttinni, eins og mörgum eða flestum öðrum stéttum í þessu landi, er mjög gjarnt að kasta á milli sín stórum og alvarlegum málum og hafa að bitbeini, með þeirri afleiðingu, að engin eða óveruleg niðurstaða hefur fengizt, og mér skilst, að þetta mál, flutningur biskupsstóls, sé eitt þeirra, svo að ég nefni nú ekki það deiluefni, hverjar aðferðir eigi að hafa við kosningu á prestum.

Eins og ég drap á í upphafi, á flutningur biskupsstólsins sér megin- og full rök í sögu staðarins og sögu þjóðarinnar. Hitt er svo annað atriði, hvern veg á að fara til þess að koma þessu fram. Ég er einn af 7 mönnum í nefnd, sem kjörin var af áhugamönnum á Suðurlandi fyrir svo sem eins og 4 vikum til þess að vinna að því, svo sem auðið er, að koma biskupsstól á sinn gamla stað í Skálholti. Það er ekki um það að villast, að Sunnlendingar eru svo að segja einhuga um þetta mál, og ég er alveg viss um það, að svo má segja um íbúa í hinum tveim fjórðungum landsins, sem lágu undir leiðsögn Skálholtsbiskups. Þetta mundi fljótt koma fram, ef tekin væri upp ákveðin stefna í þessu mikilsverða tilfinningamáli hinnar íslenzku þjóðar. Svíar eiga í sinni kristni uppáhaldsstað, þ.e. Uppsali. Englendingar eiga sína Kantaraborg. Hvorug þessara borga er höfuðborg í viðkomandi landi. Getum við ekki hugsað okkar Skálholt vera svipaðan stað í framtíðinni og þessir tveir merku staðir eru hinum erlendu þjóðum? Ég vil álíta það, að Skálholt gæti orðið okkar Kantaraborg, okkar Uppsalir, þegar tímar liða. Ég legg ekki eyra að því, að það sé svo erfitt fyrir presta að ná fundi biskups í Skálholti. Ég tel miklu fremur, að þangað ættu þeir vissulega erindi og mættu gjarnan að Skálholtsstað koma oftar en einu sinni á ári. Þeir hefðu gott af því og staðurinn enn fremur.

Þannig er það ekki til óhægri verka prestum á Íslandi í framtíðinni að ganga á fund biskupsins að Skálholti. Meira að segja mætti vel hugsa sér það, að ríki okkar væri um fleira stjórnað frá öðrum stöðum hér í landi en Reykjavík.

Ég ætla svo ekki að viðhafa fleiri orð um málið að þessu sinni, en vafalaust mundi það gleðja mikinn meiri hluta íslenzku þjóðarinnar, ef sú ákvörðun væri til staðar á vígsludegi Skálholtskirkju á næsta sumri og lýðum ljós, að biskupsstóll skyldi jafnframt flytjast að Skálholti.