14.02.1963
Neðri deild: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

144. mál, heimild til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. 4. þm. Sunnl., að mér þykja þessar umr. ánægjulegar og lýsa áhuga fyrir mikilvægu málefni, og er ekki nema gott, að menn láti uppi um það skoðanir sínar. Og sízt ætla ég að finna að, þó að þær séu nokkuð á mismunandi veg, eins og ætið hlýtur að verða, þar sem menn reyna að hugsa sjálfstætt um þau verkefni, sem fyrir liggja. Hins vegar get ég ekki að því gert, að ég verð að benda á, að umr. hafa nokkuð farið út fyrir það verkefni, sem fyrir liggur, þetta frv., hvort sem menn telja það merkilegt eða ekki, þar sem jafnvel hv. 4. þm. Sunnl. vék að því, sem er fróðlegt að heyra og engin ástæða til þess að láta fram hjá sér fara, að það væri enginn, sem kæmi til þess að segja, að Íslandi þyrfti að stjórna frá Reykjavík.

Þetta er merkileg yfirlýsing og harla athyglisverð. Það er spurningin um það, hvort menn telja, að Ísland hafi gott af því, eins og önnur þjóðlönd, að hafa öflugan höfuðstað, sem geti orðið einn meginásinn í sjálfstæðri tilveru þjóðarinnar. Það var engin tilviljun, að Jón Sigurðsson gerði það að einni aðaluppistöðunni í stjórnmálaskrifum sínum hinum fyrri að benda Íslendingum á það, að án slíks höfuðstaðar væri mjög erfitt að halda uppi sjálfstæðu ríki, því að ein meginástæðan til þess, hversu báglega gekk hér um margar aldir, var, að menn höfðu ekki eignazt neinn einn höfuðstað. Jón Sigurðsson, sá mikli stjórnmálamaður, kom auga á þetta, benti á það, ef ekki fyrstur, þá manna skýrast, og reynslan hefur margfaldlega sannað, að hann hafði rétt fyrir sér. Það voru margir, sem töldu þá, að það mundi verða íslenzku þjóðinni til ófarnaðar, ef hinir æðstu embættismenn og Alþ. yrði sett niður í hinni hálfdönsku Reykjavík. Það varð ekki langt þangað til Reykjavík varð eins íslenzk og nokkur annar staður á landinu. Og tilvera og vöxtur Reykjavíkur sem höfuðstaðar er vissulega eitt af því, sem hefur mest stuðlað að sjálfstæði íslenzku þjóðarinnar og alhliða — ég legg áherzlu á: alhliða vexti þjóðlífs hér á undanförnum áratugum.

Að svo miklu leyti sem umr. eða óskirnar um flutning biskupsdæmis úr Reykjavík byggjast á slíkum hugsunarhætti, sem hv. 4. þm. Sunnl. hér hreyfði, verð ég því mjög eindregið að mótmæla og telja, að stórt skref sé stigið aftur á bak. Hitt má vel vera, að hagkvæmniástæður og tilfinningaástæður geti farið saman í þessum efnum og ágreiningur þurfi ekki að verða eins mikill í framkvæmd um þetta og sumir vilja nú vera láta. Ég drap á það í minni síðustu ræðu og þarf ekki að endurtaka það. Það má vera, að ég hafi misskilið, en þegar hv. 4. þm. Sunnl. gat þess, að við þyrftum að fá okkar Kantaraborg, þá hef ég þá hugmynd, að embættissetur erkibiskupsins af Kantaraborg sé í London, en ekki Kantaraborg. Ég hygg, að hann hafi stóra höll sem embættissetur í London. Það má vel vera, að hann hafi aðsetur í Kantaraborg líka, eins og hv. 1. þm. Vestf. vildi láta biskupinn yfir Íslandi hafa aðsetur á báðum stöðum, en þetta stendur svona fyrir mér. Það má vera, að þetta hafi skolazt, en ég hygg, að það dæmi, sem hv. 4, þm. Sunnl. þarna vitnaði til, afsanni gersamlega hans kenningu. En það er algert aukaatriði og skiptir ekki neinu máli.

Varðandi það, sem hann sagði og lét hníga að, að það kynni að vera á valdi ríkisstj. að flytja biskupsdæmið til Skálholts án atbeina Alþ., þá skal ég játa, að þetta hef ég ekki kannað til hlítar. Það er rétt hjá honum, að biskupssetrin voru hingað flutt með ákvörðun konungs á sínum tíma, en hann var þá einvaldskonungur og þurfti ekki að leita til annarra stjórnarvalda. En ég er ekki örugglega viss um, hvort það er nokkurs staðar beinlínis bundið í lögum, nema með þessum gömlu konungstilskipunum, að biskupssetur skuli hér vera. Hitt vil ég benda á, að í 1. um kirkjuráð frá 3. júní 1957 segir í 14. gr.:

„Kirkjuþing hefur ráðgjafaratkvæði og tillögurétt um öll þau mál, er kirkju, klerkastétt og söfnuði landsins varða og heyra undir verksvið löggjafarvaldsins eða sæta forsetaúrskurði. Það hefur og rétt til þess að gera samþykktir um innri málefni kirkjunnar, guðsþjónustu, helgisiði, fermingar, veitingu sakramenta og önnur slík. Þær samþykktir eru þó eigi bindandi, fyrr en þær hafa hlotið samþykki kirkjuráðs, prestastefnu og biskups.“

Ég hygg, að það sé alveg ljóst samkv. þessu, að flutningur biskupsdæmís úr Reykjavík, hvað þá fjölgun biskupa, sem alls ekki verður gerð nema með lagabreytingu, — en flutningur biskupsstóls úr Reykjavík, hvert sem væri, mundi óheimill samkv. þessum ákvæðum, nema áður væri búið að bera það mál undir kirkjuþing. Það er þess vegna algjör fjarstæða, að ríkisstj. geti gert þetta upp á sínar eigin spýtur, en það væri að vísu formlega löglegt, ef Alþ. setti lög um það nú. Það getur gert það, en þá væri gengið gegn því heitorði, sem þjóðkirkjunni var gefið með setningu kirkjuþingslaganna á árinu 1957. Ég held þess vegna, að við getum sparað okkur að mestu leyti umr. um flutning biskupsdæmis á þessu stigi málsins. Þótt það væri formlega heimilt með löggjöf, þá væri það gegn því heitorði, sem gefið hefur verið, ef það væri nú gert, nema þá með því að kalla kirkjuþing saman og fá þess samþykki. Og ég vil játa, að það kynni vel að breyta minni skoðun á þessu máli, ef kirkjuþing, kirkjuráð og biskup óskuðu eftir flutningi biskupsdæmis til Skálholts. Ef þessir aðilar, sem þarna hafa nánast samband við þá, er mest eiga í húfi, óska eftir slíkri breyt., þá tel ég, að við, sem erum henni andvígir, mest af hagkvæmniástæðum, eigum að endurskoða okkar afstöðu og íhuga málið að nýju. Ég hef enga slíka fyrirframfordóma í þessu máli, jafnframt því sem ég tek fram, að ég var ekkert að víta, að það væru tilfinningar manna, sem réðu í þessu máli, þó að hv. 3. þm. Norðurl. e. liti þannig á. Ég bara sagði það sem staðreynd, að það virðast vera tilfinningar og jafnt á báða bóga, sem þarna ráða ákaflega miklu. Þess vegna hafa rökræður um málið kannske ekki svo mikið að segja. (Gripið fram í.) Tilfinningaleysi? Ja, það er dómur þessa tilfinningaríka manns. Ég skal ekkert um það ræða frekar.

Hv. 3. þm. Norðurl, e. fannst litið til koma þess sjálfstæðis, sem kirkjan fengi með samþykkt þessa frv. Ég segi ekki, að þetta frv. valdi þar miklum aldahvörfum. Mér hefur aldrei dottið í hug að halda því fram. Ég tel hins vegar, að það sé spor í þá átt að efla sjálfstæði kirkjunnar, m, a. með því, að það er verið að fara eftir till. kirkjuþings í þessu máli. Kirkjuþingið hefur ekki borið fram till. um endurreisn biskupsdæmis í Skálholti, heldur um þá ráðstöfun, sem hér liggur fyrir. Hin löglegu yfirvöld kirkjunnar hafa óskað eftir þessari meðferð, en ekki annarri. Og það er hlálegt að tala um að vilja auka sjálfræði þeirrar stofnunar, en fara svo með þau mál, sem hún telur mjög miklu máli skipta, þvert ofan í þær till., sem hún hefur borið fram, og reyna að gera eins litið úr þeim á allan veg og hægt er, eins og hv. 3. þm. Norðurl. e. óneitanlega hefur hér gert.

Það er þá einnig á það að líta, sem hv. 7. þm. Reykv, einnig kom inn á, að kirkjan hefur ekki svo ýkjamiklu fé yfir að ráða, að það sé alveg tómt mál fyrir hana, hvort hún fær til ráðstöfunar 1 millj. kr. á ári, þótt bundið sé við tiltekinn stað, en 1 millj., sem hún gæti ráðstafað án fyrirsagnar Alþ. og ríkisstj. Til allra kirkjulegra málefna nú er á fjárl. ekki varið nema eitthvað 161/2 millj. kr., og þar af eru 800 þús. kr. til byggingar Skálholts og nær 131/2 millj. kr. til embætta sóknarpresta og prófasta. Og hitt féð er fyrir utan biskupsdæmið liðað niður í 15 smáliði eftir fyrirsögn Alþ., þannig að þótt við skulum ekki gera of mikið úr þessu, og ég segi ekki, að þetta valdi neinum aldahvörfum, þá er hér verið að ræða um mál, sem hefur töluverða þýðingu fyrir kirkjuna og engan veginn ómerkilegt atriði, hvernig til tekst. Og ég hef ríka ástæðu til að ætla, bæði vegna ummæla kirkjuþingsmanna og eins ummæla hv, þm. hér allra nema hv. 3. þm. Norðurl. e., að þeir telji þetta vera töluvert merkilegt mál einmitt fyrir kirkjuna, þó að það sé ekki eitt af þeim, sem úrslitum ráða um landssögu. Það skulum við allir játa fúslega.

Svo óviðkomandi málinu sem það er, hvort við viljum flytja þennan eina biskup til Skálholts eða ekki, þá er hitt enn þá annað mál, sem hv. 7. þm. Reykv. aðallega gerði að umræðuefni, hvort við teljum ástæðu til þess að hafa hér einn biskup eða þrjá, og skal ég þó ját:a, að ég hef vikið að því í mínum orðum. Það má vafalaust margt um það segja. Ég lít þannig á og segi það að gefnu þessu tilefni, að ég tel, að kirkjuna vanti ekki endilega þrjú höfuð, þótt það geti verið gott að vera þríhöfðaður að vísu fyrir þá, sem upp á slíka gripi halda, heldur vanti kirkjuna starfsmenn á fjölmennustu stöðunum. Það er það, sem kirkjuna vantar. Það er vel séð fyrir kirkjulegri þjónustu í strjálbýli landsins, og við skulum ekki vera að hræsna með það, að viða er sóknarskipun nú slík, að þessir menn eiga erfitt með að finna sér fullt verkefni við kirkjuleg störf, eftir að fækkað hefur í byggðarlögum og samgöngur eru orðnar miklu greiðari en áður og kennslumál eru að mestu leyti komin úr höndum þeirra og þeir hafa viðast látið af búskap. Þetta vitum við allir, að margir prestar hafa ekki ýkjamiklum störfum að gegna dagsdaglega, þótt hitt kunni að vera rétt, að þeir menn, sem nægum andlegum áhuga eru gæddir, geti ætið fundið sér nóg verkefni og æskilegt væri, að þeir væru sem allra flestir.

Á hinu stendur, að fá nægan prestafjölda, t.d. hér í Reykjavík og ég mundi ætla viðar, þangað sem fólkið er komið. Og þá skiptir engu máli, hvort við teljum það æskilegt, að fólkið þyrpist hingað, eða ekki. Við skulum bara játa, að við lifum í því þjóðfélagi, að fólkið dvelst hér, og þá verður að sjá því fyrir nauðsynlegri þjónustu. Það gilda ákveðnar lagareglur um fjölgun presta hér í Reykjavík. Það skal játað, að undanfarandi stjórnir og þ. á m. ég fram á síðasta ár sem kirkjumrh. fylgdum þessum reglum ekki til hlítar eftir. Það var ekki veitt fé á fjárl. til prestafjölgunar, eins og lög sögðu þó fyrir um. Ég ásaka engan fyrir vanrækslu í þessum efnum, bara bendi á, hvernig ástandið er í raun og veru. Eftir till. kirkjuráðs og biskups beitti ég mér fyrir því á s.l. ári, að nauðsynlegar fjárveitingar yrðu teknar upp í þessu skyni, og mæltist til þess við safnaðarstjórnir hér í Reykjavík, að gerðar yrðu till. um breytta safnaðarskipun í samræmi við þessi lög, svo að þeim yrði framfylgt. Enn hafa þessar till, ekki fengizt fram vegna einhverrar — ég vil segja nánast óskiljanlegrar mótstöðu sumra aðila og misskilnings á því, sem fyrir liggur. Mér dettur ekki í hug, að það vaki nokkuð illt fyrir neinum þeirra, sem þarna hafa haft andstöðu í frammi, og þeir hyggja sig vafalaust hafa rétt mál að verja og sjá ýmsa örðugleika, ef fleiri prestar koma. En ef við höfum trú á því, eins og ég hef, að prestar geti gert mikið gagn, og ég tek undir það með hv. 7. þm. Reykv., að það getur orðið mikilvægur þáttur í að hindra hér margs konar spillingu og það, sem verr fer í þjóðfélaginu, að prestastéttin fái að njóta sín, þá er það fyrsta, að nógur prestafli sé til og hafi aðstöðu til að starfa í fjölmennustu byggðarlögunum. Og það eru ekki nein tengsl við gamla staði eða háar hugsjónir um það, hvernig þetta ætti að vera, sem geta ráðið úrslitum, heldur það raunverulega, daglega starf á milli fólksins, þess lifandi fólks, sem lifir í landinu. Og slík fjölgun á starfsliði kirkjunnar er auðvitað ólíkt mikilsverðari en það að láta sér detta í hug, að þrír biskupar á Íslandi hefðu miklu hlutverki að gegna í bráð.

Og þegar hv. 7, þm. Reykv. talar um það, að áður fyrr hafi tveir biskupar verið hér í landi og haft ærin störf, þá er það rétt, þeir voru lengst af tveir og höfðu ærin störf. En þá voru þeir um leið forstjórar yfir mesta auðsafni, sem til hefur verið á Íslandi bæði fyrr og siðar. Það var eins og biskupinn hefði það þá sem aukaverk að vera forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga. Þeir voru síður en svo eingöngu andlegir embættismenn. Þeir höfðu mesta auðsafn, forstjórn mesta fjársafns, sem hlutfallslega hefur verið saman komið á Íslandi, og þeir höfðu stórkostlegt veraldarvald að auki, og margir hinna mikilhæfustu þeirra voru einnig helztu forsjármenn og forustumenn landsins í baráttu þjóðarinnar við hið erlenda vald, og fyrir utan hin eiginlegu kirkjumál voru þeir þá einnig forstjórnarmenn allra fræðslumála í landinu.

Við skulum horfa á þetta alveg raunhæft, að þessi verkefni eru nú komin á ótalmargra annarra hendur. Það er ekki vegna þess, að það sé ástæða til að gera lítið úr starfi biskups, það er síður en svo. En það er orðið með allt öðrum hætti, annars eðlis en áður var, og verður þess vegna að gera sér grein fyrir, að þegar talað er um, að tveir biskupar hafi verið áður, þá eru það allt önnur störf en nú er um að ræða. Það má segja, að þeir höfðu þá samsvarandi störf, eins og ég segi, sem þeir hefðu SÍS undir einum verndarvængnum, hálft stjórnarráðið, alla valdstöðu fræðslumálastjóra, og við getum talið upp meginhluta af embættisbákni landsins. Mér finnst í þessu efni eins og öðrum, þá séu auðvitað háleitar hugmyndir og góðar hugsjónir ómetanlegar, en fyrst og fremst er að leysa úr þeim raunhæfu verkefnum.

Ég vil mega treysta því, að þó að menn játi, að heimurinn sé ekkí frelsaður með þessu frv., þá fái það þó notið velvildar og fái greiðan framgang. Og ég tel það að vísu einnig góðs vita og meðmæli með frv., að það hefur orðið til þess að koma á stað þessum umr. hér í dag, sem eru utan við þetta daglega stjórnmálaþvarg, en eru þó vissulega um mikilvægt efni, sem við allir eigum að hugsa um og reyna að gera okkur einhverja grein fyrir, hver eftir beztu getu.