28.03.1963
Neðri deild: 61. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

144. mál, heimild til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Ég kem nú aftur í ræðustólinn aðallega vegna þess, að mér fannst hv. 3. þm. Reykv. hafa að nokkru leyti annaðhvort misskilið mig eða viljað rangtúlka ræðu mína. Ég réðst hvergi að hinum heiðnu forfeðrum okkar eða þeirra þætti í okkar sögu. Ég veit, að það var margt stórmerkilegt í þeirra menningu og þeir skópu hér stórmerkilegt þjóðfélag. En þeir, sem varðveittu þessa sögu, geymdu hana og varðveittu, svo að við nútímamenn hefðum hennar not, það voru þeir, sem fluttu hingað ritlistina, og ég hygg, að það hafi verið fyrst og fremst að þakka því, að Íslendingar tileinkuðu sér kristna trú, að þeir tileinkuðu sér ritlistina svo snemma sem raun varð á og beittu henni eins og þeir gerðu. Þess vegna tel ég, að við eigum fyrst og fremst kristninni það að þakka, hver bókmenntaþjóð við urðum og gátum geymt sögu okkar frá fornum tímum, með því að forfeður okkar rituðu hana.

Hin heiðna menning forfeðra okkar er vitanlega eins og allt annað, það er ýmislegt í henni gott og líka illt. Við vitum það, að þeir drápu hér hverjir aðra og brenndu inni o.s.frv., svo að það var margt ljótt í þeirra fari, eins og er enn í dag í fari manna. En sagan er jafnverðmæt fyrir því, og það er það, sem ég var að leggja áherzlu á í minni ræðu áðan og þóttist hafa tekið greinilega fram, að ég vildi umfram allt varðveita söguna, kenna hana og tengja fortíðina nútíðinni, og það tök ég greinilega fram, að hvort sem sagan væri ljót eða falleg, það skiptir ekki máli, það er aðeins hitt, að við eigum og verðum að varðveita þessa sögu okkar sem bezt við getum og þá sögustaði, sem við eigum fræga frá fornum tímum.

Ég kom í sumar sem leið í land, þar sem kommúnistar ráða lögum og lofum, og ég sá ekki betur en þeir hefðu mikið stolt af sögulegum minjum í sínu landi, ekki sízt þeim minjum, sem eru frá tímum kirkjunnar þar í landi. Þeir varðveita þar sínar frægu og fögru kirkjur og sýna þær gestum sínum sem hina dýrustu helgidóma sína. Mér finnst þetta ósköp eðlilegt, og ég hygg, að þetta muni vera mjög sterkt í þeirra uppeldi og þeir muni með þessu móti efla og styrkja þjóðerniskennd sinna afkomenda. Þetta er það, sem ég álít að við þurfum einnig að gera. Ég veit ekki betur en t.d. flestar þær þjóðminjar, sem við eigum hér á söfnum, séu að einhverju leyti tengdar kirkju- og trúarlífi landsmanna. Og við teljum þetta okkar mestu dýrgripi og gerum allt, sem við getum, til þess að varðveita þá. Það er af því, að við höfum skilning á því, að þetta eru hlutir, sem tilheyra lifi og starfi þeirra kynslóða, sem gengnar eru á undan okkur, og það sé gagnlegt fyrir nútíð og framtíð að læra af þessu og hafa af þessu not á þann hátt.

Ég mælti hér ekki fyrir því að fjölga biskupum, ég talaði hér ekki á vegum neins flokks. Ég talaði hér sem einstaklingur og túlkaði aðeins mínar persónulegu skoðanir á þessu máli. Hv. 3. þm. Reykv. vildi svo vera láta, sem ég vildi fjölga embættismönnum, og taldi, að það væri eitthvað nýtt hjá Framsfl., ef væri gengið inn á slíkt. Ég var ekki að túlka það, að ég vildi fjölga embættismönnum, heldur taldi ég, að það væri nóg að hafa einn biskup yfir landinu enn sem komið væri. En ég taldi, að hann ætti að flytjast í Skálholt, og það er óbreytt skoðun mín frá því, sem áður hefur verið um það mál.

Það var margt skemmtilegt í ræðu hv. 3. þm. Reykv. Ég veit, að hann er mjög sögufróður maður, en ég finn hins vegar, að um niðurstöður af þessu getum við ekki orðið sammála. Ég hef aðrar skoðanir um það. Ég hef vitanlega mjög mikinn metnað fyrir hönd bændastéttarinnar, bæði í nútíð og fortíð. En mér dettur ekki í hug að vera að halda því fram, að það hafi verið bændur fyrst og fremst, sem iðkuðu hér ritlistina og varðveittu söguna á þann hátt. Það voru fyrst og fremst hinir menntuðu menn. Það voru þeir einir, sem höfðu möguleika til þess að festa söguna á spjöldin, aðrir gátu það ekki. (EOI: Voru það menntamenn í Evrópu.) Einstakir afreksmenn hafa vitanlega alltaf verið til í bændastétt og eru sennilega enn í dag. En sem stétt var það klerkastéttin og munkarnir, sem iðkuðu ritlistina aðallega, og á þann hátt björguðu þeir sögu okkar. Það er minn skilningur á málinu.