01.04.1963
Neðri deild: 63. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

144. mál, heimild til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Ég hef nú leyft mér að flytja hér ásamt þremur öðrum hv. alþm, brtt. á þskj. 492 við frv., þ.e.a.s. við 1. gr. þess, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Staðurinn afhendist með þeim skilmálum, að ríkið fái þar hæfilega lóð á hentugum stað undir biskupsbústað án endurgjalds, ef þar verður ákveðið biskupssetur.“

Efni þessarar till. skýrir sig að vísu sjálft og er þess vegna óþarft að fara um það nema örfáum orðum.

Með þessari till., ef hún yrði samþ., yrði það tryggt, að ef einhvern tíma verður ákveðið að stofna nýtt biskupsembætti og aðsetur biskups yrði ákveðið í Skálholti, þurfi ekki um slíkt að semja við kirkjuráð, sem á að fá umráð staðarins, heldur væru þá fyrir hendi samkv. lögum full réttindi fyrir slíkan biskup til þess lands, sem nauðsynlegt væri frá staðnum undir byggingar og þá starfsemi, sem embætti hans væri nauðsynlegt að hafa. Mér og okkur flm, öllum finnst, að sjálfsagt sé að tryggja þetta, og vona ég, að aðrir hv. alþm. geti á það fallizt. Ég mun svo ekki hafa um þetta fleiri orð.