02.04.1963
Efri deild: 66. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

144. mál, heimild til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem þegar hefur hlotið samþykki hv. Nd., er flutt skv. ósk síðasta kirkjuþings, sem mæltist til þess, að þjóðkirkjunni yrðu fengin umráð yfir Skálholtsstað með þeim hætti, sem ráðgert er í 1. gr. frv. Efnislega verður sú breyt. á ráðstöfun staðarins frá því, sem verið hefur, að í stað þess að segja má, að nú lúti hann ráðstöfun ríkisstjórnarinnar, ráðherra og eftir atvikum Alþ., þá er ætlazt til þess, að biskup og kirkjuráð taki við staðnum fyrir hönd þjóðkirkjunnar og hafi þar forræði um framkvæmdir og starfrækslu. Sú starfræksla, sem þar kynni að verða ákveðin af þessum aðilum, hlýtur eðli málsins samkvæmt að verða í samræmi við landsins lög og innan þess ramma, sem þau setja á hverjum tíma. En til þess að gera þjóðkirkjunni mögulegt að hafa þar þann rekstur, sem hún ákveður samkv. fyrirmælum 1. gr., er ætlazt til, að ríkissjóður greiði árlega í sjóð 1 millj. kr., og verði því fé varið til áframhaldandi uppbyggingar í Skálholti og síðan eftir atvikum væri það jafnframt rekstrarfé þeirrar starfrækslu, sem biskup og kirkjuráð komi þarna upp.

Að meginstefnu varð þetta frv. ekki ágreiningsmál verulegt í hv. Nd., þó að einn þdm. væri að vísu málinu algerlega andvígur og sumir létu það hlutlaust. A milli hinna varð frekar skoðanamunur um það, hvort nú þegar ætti að ákveða eða gera ráð fyrir, að biskupssetur væri sett í Skálholti. Það er skoðun mín, og ég hygg meiri hluta hv. Nd., að ekki sé tímabært að taka ákvörðun um það, fyrr en þjóðkirkjan sjálf óskar eftir því, að biskupssetur verði í Skálholtí, þó að það sé líka óþarfi að áskilja, að þá verði staðurinn til þeirra nota, eins og till. kom fram um, vegna þess að ef biskupssetur verður þar ákveðið, þá verður það því aðeins gert, að þjóðkirkjan sjálf óski eftir því, og þá mun hún að sjálfsögðu ætla staðinn til þeirra nota, eftir því sem þörf er á.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um málið frekar á þessu stigi, heldur legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.