02.04.1963
Efri deild: 66. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

222. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Á árinu 1961 var ákveðið að hefja endurskoðun á l. um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og var sú endurskoðun falin stjórn sjóðsins, en hana skipa þeir Hákon Guðmundsson hæstaréttarritari, Guðmundur Guðmundsson tryggingafræðingur og Sigtryggur Klemenzson ráðuneytisstjóri. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er árangur þessarar endurskoðunar.

Það lágu ýmsar ástæður til grundvallar því, að rétt þótti að endurskoða l. um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Er þess fyrst að geta, að þó að l. um lífeyrissjóð séu talin frá 1955, þá eru þau raunverulega og að öllum stofni til og meginatriðum frá 1943. Á þeim voru gerðar nokkrar breyt. á árinu 1955, en ekki þannig, að grundvallarreglum laganna væri breytt, en þessar breyt. voru svo felldar inn í hin eldri lög og gefin þannig út sem l. nr. 64 1955, um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Síðan hefur einnig verið gerð breyt. á lögunum, en meginefnið í löggjöfinni var sem sagt orðið, þegar endurskoðunin var ákv eðin, um 18 ára gamalt. Sú reynsla, sem fengizt hafði af starfsemi sjóðsins, gaf tilefni til þess að endurskoða löggjöfina í heild. Í öðru lagi hafði það gerzt, að 1960 ákvað Alþ. að fella niður með öllu svokölluð skerðingarákvæði almannatryggingalaganna, og gaf það að sjálfsögðu tilefni til þess einnig að endurskoða 1. með það fyrir augum, að starfsmenn ríkisins fengju nú full lífeyrisréttindi hjá almannatryggingunum, sem þeir höfðu ekki haft, og yrði þá lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins viðbótartrygging við almannatryggingarnar. Í þriðja lagi höfðu borizt nokkrar áskoranir frá tveimur félagasamböndum um breyt. á lögunum. Var þar annars vegar Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og hins vegar Kvenréttindafélag Íslands. Í fjórða lagi þótti svo rétt að kanna löggjöf og reynslu nokkurra nágrannalandanna í þessu efni, og var höfð við samningu þessa frv. hliðsjón af lögum um eftirlaunamál ríkisstarfsmanna í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Englandi. Þessar voru meginástæður þess að ráðizt var í þessa endurskoðun.

En í sambandi við þetta og að sjálfsögðu sú ástæða, sem ekki hefur vegið hvað minnst, er sú, að lífeyrir eða eftirlaun skv. lífeyrissjóðslögunum voru engan veginn fullnægjandi. Lágu til þess ýmsar ástæður, en fyrst og fremst sú verðbólga, sem hér hefur verið að verki í landi voru lengst af þeim tíma, sem liðinn er, síðan l. voru sett 1943. Vegna verðbólgunnar og um leið með hliðsjón af ákvæði l. um 10 ára meðaltal launa var lífeyririnn oft mjög ófullnægjandi. En þetta 10 ára meðaltal er í því fólgið, að þegar opinber starfsmaður lætur af starfi, þá skal miða eftirlaun hans eða lífeyri við ákveðna hundraðstölu af meðaltalslaunum þeim, sem hann hefur haft í því starfi síðustu 10 árin. Og að sjálfsögðu dró þessi regla í flestum tilfellum mjög niður þann launagrundvöll, sem lífeyririnn skyldi reiknast af.

Eins og hv. þm. er manna bezt kunnugt um, hefur alloft verið gripið til þess að bæta upp hinn nauma lífeyri á tvennan hátt, annars vegar með því, að Alþ. hefur með sérstökum l. eða þál. ákveðið uppbót á lífeyri og sú uppbót þá verið greidd að öllu af ríkissjóði, og hins vegar með því að ákveða í 18. gr. fjárl, ár hvert uppbætur á eftirlaun ýmissa ríkisstarfsmanna. Nú hefur hámark lífeyrisins verið 60% af launum, en hin síðari ár hefur fjvn, oftlega lagt til og fengið samþ., að veitt væri uppbót þannig, að heildarlífeyririnn að meðtöldu framlagi á 18. gr., færi upp undir 80%.

Aðalbreytingarnar, sem þetta frv. hefur í för með sér, má segja að séu þessar, — tilgangurinn er auðvitað sá að tryggja sjóðfélögum, þ.e.a.s. ríkistarfsmönnum, viðhlítandi lífeyri, og aðalbreyt. má segja að séu þessar:

Í fyrsta lagi, að starfsmenn fái fullan lífeyri hjá almannatryggingunum, sem þeir hafa ekki notið. Það var svo, þegar lífeyrislögin voru sett 1943, að þá voru í gildi alþýðutryggingalögin frá 1937, og skv. þeim voru í gildi skerðingarreglur, en þær voru í meginatriðum á þá lund, að réttur til þess að fá fullan ellilífeyri eða örorkulífeyri var bundinn því skilyrði, að aðrar tekjur manns færu ekki fram úr 1/3 hluta lífeyrisins. Ef aðrar tekjur hans voru meiri en þriðjungur árlegs lífeyris, þá skyldi draga frá lífeyrinum 60% af því, sem tekjurnar voru umfram þennan þriðjung. Þar sem þessi ákvæði voru í gildi 1943, þótti ekki líklegt, að starfsmenn ríkisins eða félagar í lífeyrissjóði mundu geta notið þessa lífeyris frá almannatryggingunum, og var því það ákvæði alþýðutryggingalaganna látið óbreytt, að sjóðfélagar í lífeyrissjóði embættismanna skyldu standa utan við alþýðutryggingarnar, að því er tæki til elli-, örorku- og barnalífeyris. En hina vegar hafa þeir aðeins greitt hluta af persónugjöldum til alþýðu- eða almannatrygginganna, og sú regla hefur verið í gildi, að tryggingaráð mun hafa, ár hvert metið það, hversu mikils sjóðfélagar í lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna mundu njóta af réttindum almannatrygginganna, en það er að sjálfsögðu fyrst og fremst í sambandi við sjúkratryggingarnar. Og nú alllengi hefur það verið metið með hliðsjón af þeim réttindum, sem ríkisstarfsmenn nytu hjá almannatryggingunum, að þeir skyldu greiða um það bil 1/3 af hinum venjulegu persónugjöldum til trygginganna.

Þessar skerðingarreglur hafa tekið nokkrum breytingum síðan alþýðutryggingalögin voru sett 1937. Með l. um almannatryggingar frá 1946 var dregið talsvert úr þessum skerðingarreglum, þannig að frá lífeyri skyldi draga helming í stað 60% þess, sem aðrar tekjur næmu umfram jafngildi lífeyrisins, í stað þess að áður var miðað við það, sem aðrar tekjur færu fram úr 1/3 lífeyris. 1956 var enn dregið úr þessum skerðingarreglum, þannig að einstaklingar máttu þá hafa 150% og hjón 200% af einstaklingslífeyri á 1. verðlagssvæði án skerðingar, en af því, sem umfram væri, skyldu dragast 60%. En eins og ég gat um áðan, þá var svo ákveðið 1960, að skerðingarreglurnar skyldu alveg falla niður frá og með 1. jan. 1961. Það er því í rauninni fyrsta meginbreyt. í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, að sjóðfélagar í lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna skuli fá fullan lífeyrir skv. almannatryggingalögunum. Nú eru þeir sem sagt orðnir fullgildir aðilar að almannatryggingunum og munu þá greiða full persónugjöld til þeirra eins og aðrir borgarar, og lífeyrissjóðurinn starfar því sem viðbótartrygging.

Önnur aðalbreyt. frv. er sú að fella niður 10 ára regluna, sem ég minntist á hér áður, og ákveða í þess stað, að eftirlaun lífeyrissjóðsins skuli miðast við þau laun, sem fylgdu og fylgja síðast því starfi, sem sjóðfélagi var í, þegar hann lét af starfi. Þetta er að sjálfsögðu einnig til mikilla hagsbóta fyrir sjóðfélaga, a.m.k. ef gert er ráð fyrir því, að kaupgjald fari hækkandi ár frá ári hér á landi, að maður tali ekki um, ef kaupgjald tekur þeim stökkbreytingum, sem oft hafa orðið á síðustu 20 árum.

Þá er í þriðja lagi gert ráð fyrir því í þessu frv., og fjallar um það 25. gr. frv., að ef almenn hækkun verður á launum opinberra starfsmanna, þá skuli elli-, örorku- og makalífeyrir einnig hækka í sama hlutfalli, og að ríkissjóður endurgreiði lífeyrissjóði þá hækkun, sem þannig verður á lífeyrisgreiðslum. Þetta ákvæði má segja að sé í samræmi við þá venju, sem hér hefur skapazt, en hér er sett inn almennt ákvæði um þetta í stað þess að þurfa hverju sinni að bera það undir Alþ. og fá sérstök lög eða sérstaka þál. eða fjárlagaheimild í þessu skyni.

Í 2. og 3. gr. frv. segir um það, hverjir eru sjóðfélagar, og eru sjóðfélagar skv. hinni almennu skilgreiningu í 2. gr. þeir, sem skylt er að greiða iðgjald í sjóðinn og eiga rétt á lífeyri úr honum. Í 3. gr. er það nánar tiltekið í þremur flokkum. Í fyrsta lagi eru það allir þeir, sem skipaðir eru, settir eða ráðnir í þjónustu ríkisins, ríkisstofnana eða atvinnufyrirtækja ríkisins, eins og það er orðað, til ekki skemmri tíma en eins árs eða með minnst 3 mánaða uppsagnarfresti, enda sé það starf þeirra aðalstarf og hlutaðeigandi taki ekki minna en hálf þau laun, er slíku starfi fylgja fyrir fullan vinnutíma. Aðalbreyt. með þessu ákvæði er sú, að starfsmenn við ríkisstofnanir, sem hafa sérstakan fjárhag, eru nú skyldutryggðir skv. þessu frv. Allir almennir ríkisstarfsmenn eru nú skyldutryggðir hjá sjóðnum, en varðandi starfsmenn ríkisstofnana, sem hafa sérstakan fjárhag, er nú í l. aðeins heimild til að taka þá í tölu sjóðfélaga. Sú heimild hefur að vísu yfirleitt verið notuð, en oft hefur verið svo um nýjar ríkisstofnanir, sem settar hafa verið á fót, að inntökubeiðni hefur dregizt á langinn. Það hefur bæði valdið sjóðnum nokkrum óþægindum, en þó einkum starfsmönnum þessara stofnana og stofnununum sjálfum, því að þá hefur vegna dráttar á inngöngu alloft þurft að borga iðgjöld mörg ár aftur í tímann.

Með 3. gr. I. a. er því slegið föstu, að starfsmenn ríkisstofnana skuli nú að þessu leyti eins settir og almennir ríkisstarfsmenn, að þeir skuli skyldir að verða sjóðfélagar strax. Í b-lið 3. gr. segir, að starfsmenn þeirra stofnana, sem aðild hafa fengið að sjóðnum skv. eldri lögum, skuli verða sjóðfélagar með nánari skilyrðum. Hér er um að ræða stofnanir, sem ekki eru beinar ríkisstofnanir. En svo er mál með vexti, að í I. var fram til 1955 heimild til þess að taka ýmsar sjálfseignarstofnanir inn í lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og var það gert um nokkrar slíkar stofnanir, og vil ég hér nefna 3 þeirra. Það er Brunabótafélag Íslands, Íslenzk endurtrygging og Alþýðusamband Íslands, að því er snertir skrifstofufólk þess. Þessi heimild hefur ekki verið í I, síðan 1955, en með þessu ákvæði 3. gr. er því slegið föstu, að starfsmenn slíkra stofnana, þó að ekki séu það ríkisstofnanir, sem voru búnar fyrir þennan tíma að fá inngöngu í sjóðinn, skuli áfram vera sjóðfélagar. Í þriðja lagi segir svo í 3. gr., að ekki sé skylt að taka í tölu sjóðfélaga þá starfsmenn, sem a-liður tekur til, þ.e.a.s. starfsmenn í þjónustu ríkisins, ef þeir eigi rétt á lífeyri úr öðrum sjóðum, sem stofnaðir eru annaðhvort með sérstökum l. eða skv. reglugerð, sem staðfest hefur verið af ráðh. Hér er átt við, að því er fyrra tilvikið snertir, lífeyrissjóði stofnaða með lögum, þá er átt við t.d. lífeyrissjóði barnakennara, hjúkrunarkvenna og ljósmæðra, enda er það eðlilegt, að þar sem sérstakir sjóðir eru fyrir þessa starfsmannahópa skv. sérstökum lögum, þá er ekki ástæða til, að þeir séu teknir í lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Hinn flokkurinn eru lífeyrissjóðir, sem starfa skv. reglugerð, sem staðfest hefur verið af ráðh., og er þar um að ræða fyrst og fremst lífeyrissjóði bankastarfsmanna og raunar nokkra fleiri. Starfsmenn þessara sjóða er ekki skylt að taka í lífeyrissjóðinn, enda ekki ástæða til þess, þó að þeir sem sagt teljist til ríkisstarfsmanna.

Þá segir í 4, gr., að stjórn sjóðsins sé heimilt að taka í tölu sjóðfélaga starfsmenn bæjar-, sýslu- og hreppsfélaga og stofnana, er þeim heyra til og sérstakan fjárhag hafa, enda fullnægi þeim skilyrðum, sem greinir í 3. gr., um ráðningartíma og aðalstarf. Nú er það þannig, að sum sveitarfélög hafa sína eigin lífeyrissjóði, og er náttúrlega langstærstur þeirra lífeyrissjóður Reykjavíkurborgar, en ef einhver sveitarfélög eða stjórnir lífeyrissjóða á þeirra vegum óskuðu eftir inngöngu í Lífeyrirssjóð starfsmanna ríkisins, þá er sjóðssjóninni heimilt að veita þeim viðtöku skv. 4. gr.

Eins og ég gat um, er eitt meginatriði þessara laga það, að starfsmenn ríkisins fái hér eftir bæði lífeyri úr lífeyrirssjóði og lífeyri frá almannatryggingunum. Hins vegar er ekki einfalt mál að leysa þetta, þar sem hér er í rauninni verið að fella saman tvö óskyld kerfi; annars vegar lífeyrissjóð, sem byggður er á almennu tryggingakerfi, og hins vegar skyldur og réttindi gagnvart almannatryggingum, þar sem um er að ræða fast persónugjald borgaranna til stofnunarinnar. Þetta mál hefur verið leyst eins og nánar greinir í frv., og gerir það að verkum, að iðgjöldin til lífeyrissjóðsins verða nokkru margbrotnari en áður. Hingað til hafa ríkisstarfsmenn greitt 4% af launum sínum í lífeyrissjóðinn, en nú verður sú breyt. á, að þeir greiða misjafna hundraðstölu eða, eins og segir í 10. gr., frá 21/4 af hundrað til 41/4 hundraðshluta af launum sinum, sem er mismunandi eftir launaflokkum. Þessi breyt. er óhjákvæmileg til þess að samræma þessi bæði kerfi.

Til nánari skýringar á þessu má geta þess, að í fyrsta lagi greiða sjóðfélagar lífeyrissjóða nú 4% af launum sínum til sjóðsins, en auk þess greiða þeir um það bil 1/3 af persónugjaldi til almannatrygginganna. Það verður að sjálfsögðu mjög mismunandi prósentutal af launum eftir því, hversu há launin eru. Ef tekinn er sá launaflokkur, sem er almennastur, og um leið það gjald, sem mætti heita jafnaðargjald, þá mun það vera um 0.75% af launum, sem ríkisstarfsmenn greiða til almannatrygginganna. Nú er það meginreglan, að eftir 30 ára starfstíma verði lífeyrisgreiðslur frá sjóðnum og almannatryggingunum um 25% hærri en greiðsla lífeyrissjóðsins var. Og ef við leggjum nú saman 4% til sjóðsins og 0.75% sem meðaltalsgreiðslu til almannatrygginganna og leggjum svo 25% ofan á hvort tveggja, fáum við út rétt tæplega 6%. Og niðurstaðan er sú, að gert er ráð fyrir, að samanlögð iðgjöld ríkisstarfsmanna til sjóðsins og almannatrygginga ættu að vera um 6 % af launum.

Ellilífeyrir er nú að hámarki 60% samkv. gildandi lögum. En samkv. frv. mundi ellilífeyrir úr sjóðnum og almannatryggingunum til samans verða 75% fyrir einhleypan mann, sem starfað hefur 30 ár í þjónustu ríkisins, en fyrir hjón, þar sem bæði hafa lífeyrisréttindi, þ.e.a.s. bæði komin á þann aldur, mundi ellilífeyririnn samanlagt verða 85-95% af launum manns, þegar hann lætur af störfum. En ef við tökum meðaltal, er gert ráð fyrir, að það mundi verða um 80%. Flestir mundu fá nokkru hærri heildarlífeyri eftir nýju reglunum samkv. þessu frv. en eftir þeim gömlu. Þó eru nokkrir aðilar, þ.e.a.s. þeir, sem hæstar uppbætur hafa fengið samkv. 18. gr. fjári., sem mundu fá hærri heildarlífeyri eftir gömlu reglunum en þeim nýju. En ákvæði er um það í 24. gr. frv., að þessir lífeyrisþegar skuli einskis í missa, heldur fá áfram sama heildarlífeyri og áður. En þar segir svo: „Þeim lífeyrisþegum, er fengu greiddan lífeyri samkv. 18. gr. fjárl. og höfðu að honum meðtöldum hærri lífeyri eftir gömlu reglunum en hinar nýju mundu veita þeim, skal greidd uppbót þannig, að þeir halda sama heildarlífeyri og þeir höfðu áður.“

Þetta var varðandi ellilífeyrinn, og er þá rétt að minnast næst á örorkulífeyrinn, en um hann eru ákvæði í 13. gr. frv. Þar eru nokkrar breyt. á gerðar, og þar er einkum að geta þess nýmælis, að örorkulífeyrir á samkv. frv. að verða fleiri hundraðshlutar af hámarksörorkulífeyri en örorkan er metin, ef hún er yfir 50%. Nú er það þannig, að þegar örorka er metin í prósentum, þá greiðist öryrkja sú sama prósenttala af hámarksörorkulífeyrinum. En hins vegar virðist reynsla bæði hér og erlendis benda til þess, að mönnum með mikla örorku gangi tiltölulega verr að nýta þá starfsorku, sem þeir eiga eftir, heldur en þeim, sem hafa lítið skerta starfsgetu. Þess vegna er svo ákveðið í 13. gr., að ef örorka sjóðfélaga er á milli 10 og 50%, skuli örorkulífeyrir hans vera sami hundraðshluti af hámarkslífeyrinum. Ef örorka manns er t.d. metin 40%, mundi hann fá 40% af hámarksörorkulífeyrinum. En ef hann hefur misst meira en helming af orku sinni, breytist þetta þannig, að fyrir hvert 1% örorkunnar yfir 50% greiðast 2% af hámarksörorkulífeyrinum. Ég skal skýra þetta með dæmi. Ef maður er 60% öryrki, fær hann ekki 60% af hámarksörorkulífeyri, heldur 70%, vegna þess að út á 50% örorkunnar fær hann fyrst 50% af hámarkinu, en fyrir þessi 10% til viðbótar fær hann 20% af lífeyrinum. Og sá, sem er metinn 75% öryrki eða meira, á rétt á hámarksörorkulífeyri.

Í þriðja lagi vil ég nefna makalífeyrinn, sem um eru ákvæði í 14. gr. Og þar eru verulegar breyt. á, einkum á þá leið, að makalífeyrir er hækkaður og að sjálfsögðu til samræmis við annað, að makalífeyririnn skal fylgja launum í því starfi, er sjóðfélaginn gegndi síðast. Afnám 10 ára meðaltalsreglunnar kemur hér að sjálfsögðu einnig fram.

Eftir 30 ára starfstíma verður makalífeyrir nú 50% af launum hins látna og fylgir svo sömu prósenttölu af þeim launum, sem fylgja því starfi framvegis. Og þetta er sama hundraðshlutahækkun, 25%, eins og á ellilífeyrirnum. Er sérstök ástæða til að minnast á nýmæli í 6. mgr. 14. gr., en þar segir svo:

„Þegar sjóðfélagi deyr, sem verið hefur tvígiftur, og lætur eftir sig tvo maka á lífi, skiptist makalífeyririnn milli þeirra í beinu hlutfalli víð þann tíma, sem hvor þeirra hefur verið giftur hinum látna sjóðfélaga á þeim tíma, er hann ávann sér lífeyrisréttindi og/eða naut lífeyris úr sjóðnum. Ef annar hinna eftirlifandi maka giftist að nýju, fellur allur lífeyririnn til hins, en skiptist aftur, sé því hjónabandi slitið, enda veiti síðara hjónabandið ekki rétt til lífeyris úr sjóðnum eða öðrum hliðstæðum sjóði. Hliðstæð regla gildir, séu rétthafar makalífeyris fleiri en tveir.“

Þetta ákvæði er sett inn sumpart eftír fyrirmynd í dönskum og norskum lífeyrissjóðslögum og sumpart eftir eindreginni áskorun Kvenréttindafélags Íslands, en á 7. fulltrúafundi þess, sem haldinn var 20. og 21. júní 1962, ályktaði Kvenréttindafélagið að beina þeirri áskorun til þeirrar n., sem vann að endurskoðun 1., að réttur maka til lífeyris eftir fráfall sjóðfélaga eigi ekki að falla niður, þótt hjúskap sé slitið að lögum og sjóðfélagi hafi stofnað til nýs hjúskapar. Lífeyrissjóðsgreiðslur ættu að skiptast hlutfallslega milli eftirlífandi maka sjóðfélaga. Þetta ákvæði er því algert nýmæli í 1., en hliðstæð ákvæði, þó að þau séu ekki alveg samhljóða, eru bæði í dönskum og norskum lögum um eftírlaunasjóði ríkisstarfsmanna.

Þá er í fjórða tagi barnalífeyrir, og um hann eru ákvæði í 16. gr. frv. Þar segir, að börn eða kjörbörn, sem sjóðfélagi lætur eftir sig, þegar hann andast, og yngri eru en 18 ára, skuli fá árlegan lífeyri úr sjóðnum, þangað til þau eru fullra 18 ára að aldri o.s.frv. Þar er einnig í 2. mgr. ákveðið, að ef barnið á foreldra eða kjörforeldra á lífi, er sjá um framfærslu þess, þá skuli samanlagður lífeyrir þess frá almannatryggingum og lífeyrissjóðnum vera 50% hærri en barnalífeyrir almannatrygginga. Nú er hins vegar árlegur barnalífeyrir 25% hærri en barnalífeyrir almannatrygginganna, en verður sem sagt nú 50% hærri.

Í 3. mgr. 16. gr. er einnig nýmæli, en það er um, að börn ellilífeyrisþega skuli fá barnalífeyri, sem sagt barnalífeyri fái ekki aðeins börn, þegar foreldri er látið, heldur einnig ef foreldri, sem verið hefur starfsmaður hjá ríkinu, er komið á elli- eða örorkulífeyri. Þetta er nýmæli.

Ég ætla, að ég hafi gert grein fyrir helztu breytingum, sem gerðar eru á eldri l. samkv. þessu frv. og miða mjög í þá átt að veita sjóðfélögum hærri og meiri lífeyri og réttindi en nú er. Um ýmsar aðrar breyt. skal ég ekki ræða hér nánar, en vísa til hinnar ýtarlegu grg., bæði um frv. almennt og hinar einstöku greinar.

Varðandi kostnaðinn af þessu frv. er þess fyrst að geta, að ætlazt er til, að sjóðfélagar beri kostnaðinn að sínum hluta eins og verið hefur, þ.e.a.s. 40% af lífeyrisgreiðslum. Það hlutfall er gert ráð fyrir að verði óbreytt. Ríkissjóður greiðir einnig sinn hluta kostnaðarins, en hann hefur staðið undir 60% af kostnaðinum auk hinna sérstöku uppbóta, sem hvað eftir annað hafa verið veittar vegna launahækkunar. Ríkissjóður stendur undir sínum hluta kostnaðarins, og kemur það m.a. fram í hækkuðu framlagi ríkissjóðs til almannatrygginganna; svo sem gerð var grein fyrir hér af hæstv. félmrh. í sambandi við frv. til almannatryggingalaga. Hins vegar er svo gert ráð fyrir því, að þeir sjóðfélagar lífeyrissjóðsins, sem nú fá uppbót eða viðbót samkv. 18. gr. fjárl., fái hana ekki áfram, heldur gangi hún inn í þær hækkanir, sem verða á lífeyri almennt.

Ég skal svo láta þessi orð nægja, en aðeins geta þess að lokum, eins og ég minntist raunar á í upphafi máls míns, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur borið fram ýmsar óskir í sambandi við endurskoðun þessara laga, og hafa fulltrúar bandalagsins fylgzt með endurskoðuninni, og er í öllum meginatriðum gengið til móts við og teknar til greina óskir bandalagsins.

Ég legg svo til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.