10.04.1963
Neðri deild: 70. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

222. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Núgildandi lög um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eru að stofni til frá 1943. Að vísu hafa þau verið endurskoðuð síðan með smávægilegum breytingum. Það þótti af ýmsum ástæðum rétt að hefja endurskoðun á þessum l., bæði vegna þeirra breyt., sem orðið hafa í þjóðfélaginu á marga vegu, breyttra launagreiðslna almennt og mikilla breyt. á almannatryggingalögunum, síðan þessi 1. voru sett. Haustið 1961 var því stjórn lífeyrirsjóðsins falin endurskoðun þessara laga, og er það frv., sem hér liggur fyrir, árangur þeirrar endurskoðunar.

Meginbreytingar með þessu frv, frá núgildandi ástandi eru tvær. Önnur er sú, að samkv. því á lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins að veita viðbótarlífeyri við lífeyri frá almannatryggingunum, eða m.ö.o., ef frv. verður að lögum, eiga sjóðfélagar í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins að fá lífeyri frá almannatryggingunum ásamt með lífeyri úr lífeyrissjóði, en svo hefur ekki verið hingað til. Hins vegar hafa sjóðfélagar í lífeyrissjóði greitt hluta af almannatryggingasjóðsgjaldinu, eða um það bil 1/3, fyrir þau fríðindi, sem þeir þar hafa notið, sem er aðallega á sviði sjúkratrygginganna. Hámark lífeyris samkv. gildandi l. er 60% af launum, en mundi verða eftir þessu frv. frá 85–95%. Vegna þess að lífeyririnn hefur ekki verið hærri en 60%, hefur í mjög mörgum tilfellum verið veitt viðbót í 18. gr. fjári., en ef þetta frv. verður að lögum og lífeyririnn nær þessari upphæð, sem ég nefndi, þá er gert ráð fyrir, að uppbætur á 18. gr. fjárl, til sjóðfélaga í lífeyrissjóði falli niður. Þetta er önnur aðalbreytingin. Hin er sú, að í stað þess að nú er lífeyririnn miðaður við hundraðshluta af meðaltalslaunum 10 síðustu ára, sem starfsmaðurinn hefur haft, skal samkv. frv. miða lífeyrinn við þau laun, sem hann hafði, þegar hann lét af störfum. Vegna þeirrar verðbólgu og miklu launabreytinga, sem hér hafa verið á undanförnum tveimur áratugum, hefur þessi 10 ára meðaltalsregla dregið mjög niður þann lífeyri, sem ríkisstarfsmenn hafa fengið, og er hér um verulega réttarbót að ræða og í samræmi við þær óskir, sem samtök opinberra starfsmanna hafa fram borið. Þess má einnig geta, að gert er ráð fyrir ekki aðeins að lífeyrir, bæði ellilífeyrir og makalífeyrir, sé miðaður við þau laun, sem starfsmaður hafi, þegar hann lét af starfi, eða varðandi makalífeyri, þegar hann féll frá, heldur fylgi lífeyririnn svo þeim launum áfram, sem fylgja því starfi, sem sjóðfélagi var í.

Að öðru leyti fylgir frv. mjög ýtarleg grg., sem sjóðsstjórnin hefur samið, þar sem breyt. samkv. frv. eru ýtarlega skýrðar, og tel ég ekki þörf á að gera það hér frekar.

Ég vænti þess, að hv. d. fallist á að afgreiða þetta mál nú á þessu þingi. Það var lagt fyrir Ed. og samþ. þar óbreytt.

Ég legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.