25.03.1963
Neðri deild: 59. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

215. mál, Tækniskóli Íslands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið til þess að lýsa eindregnum stuðningi mínum við að koma hér upp tækniskóla og tel það stórkostlegt framfaraspor að stofna til hans. Ég hef ekki getað kynnt mér þetta frv. í einstökum atriðum, en ég vil vona, að það sé þannig úr garði gert, að við megi hlíta í aðalatriðum.

Það hljóta allir að sjá nauðsyn þess að koma atvinnumálum og vinnumálum landsins í það horf, að menn geti unnið fyrir sér á venjulegum vinnudegi, en til þess að svo megi verða, þurfa æðimiklar breytingar að eiga sér stað, og enginn vafi leikur á því, að einn allra veigamesti þátturinn varðandi velmegun manna framvegis er ekki bara aukin framleiðsla, heldur aukin framleiðni, og til þess að hún megi nást, verður vitaskuld að leggja höfuðáherzluna á tækni og sem fullkomnasta hagræðingu allra vinnubragða, vélvæðingu og allt, sem verða má til að auka framleiðsluna. Jafnframt þurfi svo vitaskuld að vinna að því að færa tekjuskiptinguna í hagfelldara horf, en það er annar þáttur en fjallað er um í frv. eins og þessu, sem varðar tækniskóla á Íslandi. En stofnun tækniskóla ætti að mínu viti að geta orðið mikil hjálp við að koma í framkvæmd þeirri stórsólm í tæknilegum efnum, sem þarf að eiga sér stað. Þess vegna lýsi ég eindregið stuðningi mínum við þetta frv. um stofnun tækniskólans.

Ég vil einnig nota tækifærið til að láta í ljós þá skoðun, að nauðsynlegt sé að endurskoða og kveðja til þess færustu menn, endurskoða allt, sem varðar framkvæmd tæknimála, og vil ég í því sambandi m.a. minna á þáltill., sem liggur hér fyrir hv. Alþ. frá hv. 4. þm. Norðurl. e., Ingvari Gíslasyni, og hv. 4. þm. Reykn., Jóni Skaftasyni, varðandi fiskiðnaðarskóla. Það er þáttur, sem er áreiðanlega mjög þýðingarmikið að taka föstum tökum, t.d. í eins konar framhaldi af því máli, sem hér er á dagskrá. Enn fremur vil ég benda á, að það þyrfti enn að efla verkstjórnarkennslu í landinu stórlega frá því, sem nú er, og endurbæta hana. Loks vil ég benda á. að það er lífsnauðsyn að endurskoða allt iðnnámsfyrirkomulagið, eins og hefur komin fram hjá fleirum, að ógleymdri vélstjóramenntun og annarri hliðstæðri menntun, sem hæstv. ráðh. fjallaði um áðan í sínu máli. Ég vil leggja áherzlu á það, jafnframt því sem ég vil styðja frv. til l. um Tækniskóla Íslands, að öll tæknimenntun í landinu verði endurskoðuð frá rótum og efld með öllu hugsanlegu móti að beztu manna yfirsýn.