25.03.1963
Neðri deild: 59. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

215. mál, Tækniskóli Íslands

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki hefja neinar almennar umr. um þetta mál. Ég get tekið undir með þeim hv. ræðumönnum, sem hafa talað á undan mér og fagnað því, að þetta mál skuli fram komið. En það eru viss atriði í þessu frv., sem mig langar til að mega vekja athygli á við 1. umr., eftir að hafa lesið frv. aðeins mjög lauslega og hlustað á framsöguræðu hæstv. ráðh.

Fyrsta atriðið, sem mig langar til þess að minnast á, er í sambandi við 6. gr., þar sem talað er um deildaskiptinguna. Þar er gert ráð fyrir fiskideild með öðrum deildum. Nú langar mig til að spyrja hæstv. ráðh., hvort þetta mál hafi verið sérstaklega athugað með fiskideildina og hvort það hafi orðið niðurstaðan eftir gaumgæfilegar athuganir, að væntanlegum fiskiðnaðarskóla, sem flestir munu sammála um að þurfi að rísa í landinu, verði bezt fyrir komið í sambandi við þennan almenna tækniskóla, — og eins hvort það hafi verið haft samráð við fyrirsvarsmenn fiskiðnaðarins og fiskmat ríkisins um þetta mál. Eins langar míg til í þessu sambandi að vekja athygli á ákvæðum til bráðabirgða, þar sem talað er um, að stofnun skólans skuli fara fram í áföngum. Að mínum dómi getur það skipt afar miklu máli, hvernig framkvæmd þessa ákvæðis verður. Það er ekki víst, að allir séu á einu máli um það, hvaða deildir beri að leggja höfuðáherzlu á og hvaða deildir skuli sérstaklega hefja starf fyrr en aðrar, og ég vil sérstaklega undirstrika, að fiskideildin, ef hún verður upp tekin við skólann og verður að fiskiðnaðarskóla, verði ekki látin mæta afgangi, heldur verði hún með því fyrsta, sem framkvæmt verður af ákvæðum þeim, sem í þessu frv. felast.

Þá vil ég einnig minnast örlítið á staðsetningu skólans. Það er gert ráð fyrir í þessu frv., að skólinn verði staðsettur í Reykjavík. En ég býst við, að margir mundu telja, að það væri ekki endilega nauðsynlegt, að skóli sem þessi væri staðsettur í Reykjavík, heldur mætti vel hugsa sér aðra staði til þeirra hluta, t.d. Akureyri, sem hefur áreiðanlega mjög góð skilyrði til að vera staður slíks skóla. Og ég held, að mér sé óhætt að upplýsa hér, að það er hreyfing á Akureyri einmitt í þessa átt, að stofnaður verði sérstakur tækniskóli þar, og hefur verið um nokkurt skeið. Og sérstaklega hefur þessi hreyfing vaxið nú undanfarið, eftir að séð er fyrir endann á því, að byggður verði iðnskóli á Akureyri, . og þá hafa margir látið sér það til hugar koma að gera þennan skóla þannig úr garði, að hann geti líka hýst tækniskóla. Mér þykir rétt, að þetta komi fram, og ég vona, að þetta frv. verði ekki til þess að tefja það mál eða koma í veg fyrir, að svo mætti verða, að Akureyringar fengju sinn tækniskóla.

Í því sambandi er ástæða til þess að vekja athygli á því, að í öðrum löndum, að því er ég bezt þekki, eru til tækniskólar, sem eru einmitt staðsettir utan höfuðborganna, og mér skilst, að þeir skólar hafi gefið sízt verri raun en höfuðborgarskólar, og ég hygg, að við gætum vel farið út á sömu braut og ættum einmitt að fara að stinga við fótum í sambandi við stofnun nýrra ríkisstofnana, skálastofnana og menntastofnana yfirleitt, stinga við fótum og leita eftir því að finna þeim stað annars staðar en hér í Reykjavík. Það er áreiðanlega hægt að dreifa slíkum stofnunum meira, og einmitt ætti að gera það, þegar um nýjar stofnanir er að ræða, og taka það mál þá alveg sérstaklega til athugunar.