25.03.1963
Neðri deild: 59. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í B-deild Alþingistíðinda. (1117)

215. mál, Tækniskóli Íslands

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þegar litið er á þann sæg frv., sem hæstv. ríkisstj. ber fram hér á síðustu dögum þingsins í sambandi við skólamál og bókmenntir, þá verður það að viðurkennast, að það sé æðimikil gróska í menntamálum þjóðarinnar, og ber ekki að harma það, nema siður sé, því að það mun almennt nú viðurkennt, að bókvitið er látið í askana. En að sjálfsögðu þarf þar að vera hóf á öllum málum hjá jafnfámennri þjóð og við erum, að það verði ekki eingöngu meðal þjóðarinnar menntamenn, langskólagengnir menn, sem gera ekki neitt annað en stunda þá atvinnugrein, og stofnaðar verði síðan utan um þann flokk manna nýjar og nýjar stofnanir, eins og átt hefur sér stað undanfarin ár, og skal ég ekki heldur víta það á þessu stigi málsins og tók ekki heldur til máls hér til þess að ræða það mál neitt alvarlega. En ég stóð upp vegna ýmissa ummæla frá hæstv. menntmrh. í sambandi við iðnlöggjöfina, verknámsskólana og iðnskólana.

Ég get strax bent á í sambandi við þetta frv., að nokkuð verður það torvelt fyrir menn, sem ætla að ljúka a.m.k. 7–8 ára námi, áður en þeir fá inngöngu í þennan skóla, að eiga svo síðan að sitja í 3 ár í þessum nýja skóla og því sé nauðsynlegt að vinda að því bráðan bug og jafnvel engu síður nauðsynlegt en að koma þessari stofnun upp, að rýmka allmikið til á inngangsskilyrðunum í forskólann. Og þá komum við einmitt að þessu margumtalaða atriði, hvernig hægt sé að breyta iðnaðarlöggjöfinni án þess að rýra þekkingu nemendanna.

Ég held, að það hafi verið árið 1946, sem iðnskólalöggjöfin var til athugunar, og við bárum þá fram í Ed. till. um það, að sett væri það ákvæði inn í löggjöfina, að hér mættu verknemar ganga undir próf og ljúka því, þó að þeir hefðu ekki verið 4 ár í verknámi, alveg eins og menn mega í öðrum skólum, menntaskólum, gagnfræðaskólum og öðrum skólum landsins, taka próf þaðan, þó að þeir hafi aldrei setzt þar á skólabekk. En það var einmitt flokkur hæstv. menntmrh., sem beitti sér gegn þessu ákvæði. Nú vildi ég gjarnan, að hæstv. ráðh. vildi athuga það, hvort ekki sé kominn tími til þess að taka þetta ákvæði til alvarlegrar athugunar, því að það er langsamlega erfiðasti þröskuldurinn á iðnaðarnáminu að banna mönnum, sem hafa eins mikla þekkingu og margir hverjir, sem setið hafa í iðnskóla í 4 ár, að ganga undir sveinspróf, en þeim er algerlega bannað samkv. iðnaðarlöggjöfinni að ganga undir próf, þó að þeir geti sýnt, að þeir geti leyst af hendi það verkefni engu síður en aðrir, sem setið hafa á verknámsbekk í 4 ár.

Ég er alveg viss um, að ef skipulagt yrði í sambandi við verknámið prófverkefni, sem menn mættu inna af hendi, þá væru það ótrúlega margir Íslendingar, sem gætu leyst þennan vanda á mjög stuttum tíma, svo hagir eru Íslendingar almennt, að þeir mundu ekki þurfa nein 4 ár til þess að læra, hvorki að greiða kvenmannshár, raka karlmannsvanga né ýmis önnur verk, sem heimtað er í iðnaðarlöggjöfinni, að menn sitji við að læra í 4 ár. Ef hins vegar ríkið ætlar sér að setja upp verknámsskóla, t.d. járnverknámsskóla, eins og talað er um í frv. því, sem hv. 4. landsk. bar hér fram, þá er sýnilegt, að því verður einnig að fylgja stórkostlegur járniðnaður, því að annars gæti ekki slíkur skóli tekið á móti öllum þeim nemendum, sem hann mundi fá, nema hafa mjög mikil verkefni. Það mundi kosta ríkissjóðinn stórkostlegar fjárfestingar að reka þá skóla og þær stórkostlegu framkvæmdir, sem þeim yrðu að fylgja, í samkeppni við aðra þegna þjóðfélagsins. Það er kannske ekkert við það að athuga, en ég teldi, að það væri ekki heppilegasta leiðin til þess að leysa þennan vanda. Langheppilegasta leiðin í þessu máli er sú, frá mínu sjónarmiði, að leyfa hverjum þeim, sem getur sýnt, að hann er fær um að leysa af hendi ákveðið verkefni, og hefur náð fullri þekkingu, hvar sem hann hefur náð henni, að ganga undir próf og gefa honum full réttindi, ef hann leysir það verkefni eins vel af hendi og þeir, sem setið hafa á skólabekk, og samtímis að fá samvinnu við verkstæðin, hvort heldur það er við skipabyggingar, viðgerðarverkstæði, vélaverkstæði eða tréverkstæði, að fá samkomulag við þá meistara og eigendur, sem reka slik verkstæði, til þess að hafa eina ákveðna deild hjá sér í verkstæðunum, þar sem þeir bókstaflega kenna þessum mönnum og leyfa þeim að ganga undir próf, þegar þeir hafa nægilega þekkingu til þess. Á þann hátt mundum við fá fjölda af mönnum fullnuma í greinunum á 6–12 mánuðum í staðinn fyrir að sitja 4 ár. Og ég vildi mjög vænta þess, að hæstv. menntmrh. léti nú athuga þessi mál, hvort ekki væri hægt að flýta fyrir náminu án þess að rýna kunnáttuna með því að fara þessa leið.

Í sambandi við iðnskólann sjálfan vildi ég aðeins benda á, að mér lízt, að hann sé kominn á þá braut nú að eyða mjög miklum tíma og mjög miklu fé til þess að kenna hluti, sem alls ekki ætti að kenna í iðnskóla. Hér er verið að kenna mönnum hreina barnafræðslu, neyða þá til þess að leysa verkefni, sem ætlazt er til að séu leyst í barnaskólum eða á gagnfræðastiginu, og það ætti að breyta þeim skóla þannig, að það væri ekkert kennt af þeim fögum þar, heldur gert að skilyrði, að menn hefðu lært þessi fög, áður en þeir kæmu í þennan skóla. Ég veit um allmarga menn, sem koma inn í iðnskóla með ágætlega góða menntun sem gagnfræðingar. Þeir koma aldrei til þess að sitja í þeim tímum, sem þeir eru samt sem áður neyddir til að sitja í, af því að lögin ákveða, að þeir skuli sitja svo og svo langan tíma í skólanum, að það sé ákveðið, að þeir verði að ganga í gegnum ákveðna bekki, sem, kenna það, sem þeir hafa lært, áður en þeir komu í þennan skóla, — hins vegar fjöldi annarra manna, sem aldrei hafa lært þetta og eru látnir lesa þetta í þessum skóla, af því að það hefur verið vanrækt að kenna þeim það, sem á að kenna þeim í þessum fögum. Og það er mjög vafasamt, hvort ætti ekki einnig í öðrum skólum, bæði vélstjóraskólanum og öðrum skólum, að nema meira í burt af þeirri fræðslu, sem menn eiga að vera búnir að læra í öðrum skólum, en eru neyddir til þess að læra þar, stytta þannig annaðhvort námstíma eða gefa þeim enn meiri fræðslu í þeim fræðum, sem þeir raunverulega þurfa að læra. Hvers vegna eiga þessir menn, sem eiga að vera gagnfræðingar eða hafa lokið landsprófi, að fara að byrja á frumatriðum í stærðfræði, frumatriðum í mörgum öðrum fræðigreinum, sem á að kenna í öðrum skólum landsins, og láta þá sitja við það allan tímann, en geta ekki sinnt þeim málum, sem þeir raunverulega eiga að sinna?

Mér þótti rétt að láta þetta koma fram hér, úr því að farið var að ræða um iðnfræðsluna í landinu almennt, og ég vænti þess, að hæstv. menntmrh. láti athuga þessi mál öll niður í kjölinn, því að það er engu siður nauðsyn að fá fast og gott skipulag á þau mál heldur en koma upp þeim tækniskóla, sem ætlazt er til að verði settur á stofn með því frv., sem liggur hér fyrir á þskj. 449, og tek ég þó undir það, að það sé mjög nauðsynlegt, að þeirri stofnun verði komið á.