17.04.1963
Neðri deild: 72. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

215. mál, Tækniskóli Íslands

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Þegar þetta mál var til 1. umr., gerði ég nokkrar stuttar aths. við frv., þó að ég annars fagnaði því, að það væri fram komið. Og ég get endurtekið það, að ég tel, að það sé mikilvægt spor í tæknimálum okkar. En sú aths., sem ég taldi einna veigamesta, varðaði staðsetningu skólans. Frv. gerir, eins og það kom fram frá hæstv. ríkisstj., fortakslaust ráð fyrir því, að Tækniskóli Íslands skuli vera staðsettur í Reykjavík, og þannig er frv. með því sama marki brennt, sem nú er raunar alsiða og hefur kannske lengi verið, að allar ríkisstofnanir, menningar- og menntastofnanir ekki sízt, skuli vera í Reykjavík. Þetta Reykjavíkursjónarmið er að verða nærri algilt; á hvaða sviði sem er. Maður verður nálega aldrei var við það, að ráðamenn þjóðarinnar láti sér annað til hugar koma en hnappa öllu, sem einhvers er virði, saman í höfuðborginni.

Ég tel eðlilegt og sjálfsagt, að höfuðborg landsins sé að flestu leyti efld miklu meira en aðrir einstakir staðir á landinu. En hitt er fráleitt, að efla hana um of á kostnað allrar landsbyggðarinnar samanlagt. Það er ofrausn við Reykjavík, jafnvel þótt hún sé höfuðborg landsins, að láta hana gína yfir öllu án þess að leiða hugann að því, hvort ekki sé um fleiri staði að gera, sem geta gegnt sama hlutverki. Vaxtarskilyrði Reykjavíkur eru svo geysimikil, að hana munar í rauninni ekkert um, þótt nokkuð sé reynt að spyrna við fótum í sambandi við útþenslu hennar. Aftur eru ýmsir staðir aðrir á landinu, sem ástæða væri til að efla sem nokkurt mótvægi gegn þessu sjálfkrafa aðdráttarafli höfuðborgarinnar. Það er sífellt verið að bæta við ríkisstofnunum og það nærri árlega, m.a. skólum og öðrum menningarstofnunum. Oft er nauðsynlegt, að slíkar stofnanir séu í Reykjavík, en þó hvergi nærri eins oft og virðast mætti eftir framkvæmdum að dæma. Í allt of mörgum tilfellum er hugsunar- og undirbúningslítið gengið út frá því sem gefnu, að Reykjavík skuli vera aðsetursstaðurinn, annað er varla rætt, og sé það rætt, þá eru undantekningarlitið fundin rök fyrir nauðsyn þess að hafa starfsemina einmitt í Reykjavík.

En þessi rök eru ekki alltaf óyggjandi. Þannig tel ég, að það sé enginn sjálfsagður hlutur, að Tækniskóli Íslands sé í Reykjavík. Aðrir staðir kunna að vera alveg jafngóðir sem aðsetur slíks skóla. Þeirri röksemd er oft beitt, að nauðsynlegt sé að hafa skrifstofur og stofnanir í Reykjavík, vegna þess að hún sé miðstöð allra samgangna og þangað liggi allra leiðir, og þetta er alveg rétt í mörgum tilfellum, en alls ekki alltaf. Einkum er þessi röksemd lítils virði, þegar um er að ræða að finna stað undir skóla, að ég tali nú ekki um sérskóla. Það er áreiðanlega engin knýjandi nauðsyn, að skólar séu endilega staðsettir í höfuðborg. Ég held jafnvel, að það hafi ýmsa verulega ókosti, sem yfirgnæfa kostina, sem kunna að vera fyrir hendi. Okkur er gjarnt að bera okkur saman við aðrar þjóðir, og við gerum okkur oft far um að læra af öðrum þjóðum, ef eitthvað gagnlegt er af þeim að læra. Ég held, að við getum lært það m.a. af öðrum þjóðum, að ekki sé brýn nauðsyn, að allir skólar, æðri sem lægri, séu staðsettir í höfuðborginni. Ýmsir telja, að það gefist jafnvel mun betur að dreifa skólunum, það hafi í för með sér betri skálaanda, meiri einingu, samheldni og aðhald. Og ég held, að þetta sé rétt og þess vegna sé það í grundvallaratriðum röng stefna að miða skólastofnanir nær eingöngu við Reykjavík, svo sem gert hefur verið við undirbúning þessa frv. og raunar svo margra annarra.

Nú vill svo til, að á Akureyri hefur verið hreyfing uppi um að koma á fót tækniskóla þar í bænum. Þessi hreyfing hefur fyrst og fremst verið meðal iðnaðarmanna og forráðamanna iðnskólans, en jafnframt notið fyllsta skilnings og fylgis meðal ráðamanna í bænum, fyrst og fremst bæjarstjórnarinnar. E.t.v. hefur þessi hreyfing ekki farið nógu hátt og e.t.v. ekki náð eyrum æðstu ráðamanna hér í höfuðstaðnum, og svo virðist sem þeir hafi undirbúið sams konar mál án verulegrar vitneskju um það, sem var að gerast norður í landi. Það er a.m.k. nokkuð augljóst, að þeir, sem valdir hafa verið til þess að undirbúa þetta frv., sem hér liggur fyrir, hafa ekki leitað langt út fyrir Reykjavík í undirbúningsvinnu sinni, því að varla hefðu þeir komizt hjá því að verða að einhverju leyti varir við þann áhuga, sem fyrir hendi var — og er — norður á Akureyri á þessu máll.

Eftir að ég hafði lítillega minnzt á þetta atriði við 1. umr. málsins, upplýsti hæstv. menntmrh., að honum hafi verið kunnugt um áhuga Akureyringa á tækniskólamálinu, en taldi þó fyrir sitt leyti, að tækniskólinn væri bezt kominn í Reykjavík, enda ekki fullkomin skilyrði til skólahaldsins á Akureyri. Og það má vel vera, að eitthvað skorti á, eins og sakir standa, til þess að fullkominn tækniskóli megi rísa í Akureyrarbæ. En ég held þó, að hæstv. ráðh. og aðrir, sem undirbúið hafa þetta frv., mikli það allt mjög fyrir sér. Vissulega eru erfiðleikar fyrir hendi á stofnun tækniskóla á Íslandi. Hvort þeir eru að öllu samanlögðu miklu meiri á Akureyri en í Reykjavík, skal ég alveg láta ásagt. Þó efast ég um það. Ég hygg, að byrjunarörðugleikar tækniskóla verði að ýmsu leyti engu minni í Reykjavík en annars staðar. Má vera, að hér sé þægilegra að grípa til kennslukrafta, en ég efast um, að húsnæðismál skólans t.d. verði fyrr leyst í Reykjavík en verða mundi á Akureyri. Án efa þarf skólinn á sérstöku húsnæði að halda og sennilega nýju húsnæði. Ef skólinn væri staðsettur á Akureyri, er auðvelt að ætla honum stað í nýja iðnskólahúsinu, sem ætlunin er að hefja smíði á á þessu ári. Kennaraskortur á Akureyri er auðvitað mjög handhæg viðbára, en ekki haldgóð. Auðvitað mundu kennarar fást að skólanum á Akureyri, ef vel væri að þeim búið, enda er nokkurt kennaralið þegar fyrir hendi þar. Sem iðnaðarbær er Akureyri í langfremstu röð hér á landi og gefur Reykjavík þar alls ekki eftir. Fjölbreytni iðnaðarins er mjög mikil, bæði handiðnaður og verksmiðjuiðnaður. Miðað við íslenzkar aðstæður er því ekki verið að skáka tækniskólanum út á neinn útkjálka tæknimenningarinnar, þótt hann yrði staðsettur á Akureyri, það er síður en svo. Þar yrði hann áreiðanlega vel í sveit settur.

Eftir að frv. kom fram á Alþ., hefur það gerzt, að bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt að skora á Alþingi að breyta frv. á þá lund, að skólinn verði staðsettur á Akureyri. Þessi samþykkt var þegar í stað send menntmn. bessarar hv. d. Í bréfi, sem mér hefur borizt frá bæjarstjóranum á Akureyri, Magnúsi Guðjónssyni, er þess getið sérstaklega, sem raunar er áður kunnugt, að á málinu er mikill áhugi í bænum, enda Akureyri bæði iðnaðarog skólabær og aðstaða góð til slíks skólahalds, eins og bæjarstjóri segir í bréfi sínu. Jafnframt segir bæjarstjóri, að Akureyrarbær heiti fyllsta stuðningi við málið og allri fyrirgreiðslu við framkvæmd þess. Brtt. sú, sem við hv. 3. þm. Norðurl. e., Gísli Guðmundsson, flytjum við 1. gr. frv. um staðsetningu skólans, er ekki sízt flutt, eftír að okkur barst vitneskja um þessa samþykkt bæjarráðs Akureyrar. Samþykktin ber með sér, að brtt. er ekki órökstudd, því að hún á einróma fylgi allra flokka í bæjarstjórn Akureyrar, og ég þori að fullyrða, að þar fylgir hugur máli. Hér gefst hv. Alþingi því óvenjulegt tækifæri til að sýna hug sinn til þeirra menningarathafna, sem ráðizt er í af áhuga og einlægni í stærsta bæjarfélagi utan Reykjavíkur. Verð ég að treysta því, að hv. þdm. telji sér sóma að því að styrkja þessa viðleitni og þeir geri sér það ljóst, að hér er um mikilsvert mál að ræða og veltur á talsverðu um úrslitin. Mjög margir af þeim þm., sem sæti eiga í þessari hv, þd., hafa sótt menntun sína til Akureyrar, og ég veit, að þeir vantreysta í engu þeim möguleikum, sem fyrir hendi eru um gott skólastarf á Akureyri. Þeir þekkja það af eigin raun, að skólastarf hefur gefizt vel þar í bæ, og það mun eins gera það í framtíðinni sem hingað til, hvort heldur er um að ræða þá skóla, sem nú eru þar starfandi og þegar hafa hlotið góða og mikla viðurkenningu, eða aðra, sem síðar verða stofnaðir.

Tækniskóli Íslands hefur jafnmikla möguleika til vaxtar og þroska á Akureyri sem í Reykjavík. Þar sem um nýja ríkisstofnun er að ræða, er því fyllilega tímabært að velja slíkum skóla stað á Akureyri. Það getur ekki haft þá erfiðleika í för með sér, sem e.t.v. eru fyrir hendi, þegar flytja á gróna stofnun úr stað, og þess vegna er gullið tækifæri til þess nú að koma við sanngjarnri dreifingu menntastofnana um landið einmitt í sambandi við þetta mál, og það mætti því verða upphaf frekari aðgerða ríkisvaldsins í þá átt í náinni framtíð.

Ég verð að harma það, að hv. menntmn. hefur ekki treyst sér til að gera þær umbætur á frv., þó að hún hafi gert margar umbætur á því, sem nálgast vilja Akureyringa, eins og hann kemur fram í samþykkt bæjarráðs, þótt ekki væri honum fullnægt að öllu leyti. Það hefði e.t.v. mátt una því, ef frv. hefði gert ráð fyrir heimild til þess að starfrækja með fjárstuðningi ríkisins einhverjar af fyrirhuguðum deildum tækniskólans með það fyrir augum, að smám saman risi upp á Akureyri sjálfstæður tækniskóli. En brtt. n. — þrátt fyrir yfirlýsingar hennar í nál. og þrátt fyrir orð hv. frsm. hér áðan — ganga svo sárastutt, að það eru næsta litlar líkur til, að þær valdi neinu verulegu í sambandi við þróun til sjálfstæðs tækniskóla á Akureyri. Heimild til þess að starfrækja undirbúningsdeild á Akureyri er ekki mjög mikils virði, enda er þessi undirbúningsdeild að margra dómi næsta vafasöm eða kannske með öllu óþörf, eða svo telja a.m.k. margir og álíta, að nægilegt sé að setja skilyrði um lágmarkseinkunnir á gagnfræðaprófi eða slíkum prófum til inngöngu í 1. bekk tækniskólans og sleppa þá undirbúningsdeildinni sem óþarfri námslengingu. Mundi það stytta námstíma tækniskólanemenda um eitt ár, ef þessi undirbúningsdeild væri skorin af. Ég skal viðurkenna, að mig brestur alla þekkingu til að dæma um þetta, en ég hef þó heyrt of marga tæknifræðinga minnast á þetta, til þess að ég geti alveg sleppt að segja frá því hér í þessum umr.

Ég mun láta máli mínu lokið. En ég vænti þess, að hv. þd. taki til athugunar þá brtt., sem við hv. 3. þm. Norðurl. e., Gísli Guðmundsson, flytjum við petta mál un; það, að skólinn starfi á Akureyri, verði þar staðsettur. Það er sýnilegt, að undirbúningi þessa máls er verulega áfátt. Það kemur greinilega fram í nál., þótt stutt sé, og það kom fram í ræðu hv. frsm. n. hér áðan. Og að mínum dómi mundi það ekki skaða þetta mál neitt, jafnvel þó að málið dagaði uppi hér algerlega, þó að það frestaðist til næsta þings, eins og að því hefur verið unnið, því að það er greinilegt, að það á eftir að vinna þar enn mikla undirbúningsvinnu, til þess að það sé í sómasamlegu horfi.

Ég gerði líka hér um daginn nokkrar fleiri aths. eða spurðist fyrir um fiskideildina, vegna þess að það kom ekki greinilega fram, hvernig hún er hugsuð. Við höfum nokkrir þm., í samráði við ýmsa fiskiðnaðarmenn, flutt þáltill. um stofnun fiskiðnaðarskóla í landinu. Og um þessa till. hefur allmikið verið rætt, og menn hafa verið sammála um nauðsyn hennar. Í sjálfu sér er eðlilegt, að fiskideild starfi við íslenzkan tækniskóla. Það er mjög eðlilegt. En það má ekkí verða til þess, að frestað verði að stofna annan fiskiðnaðarskóla, styttri fiskiðnaðarskóla, í líkingu við það, sem t.d. Norðmenn hafa hjá sér, í líkingu við það, sem Japanir reka í sínu landi og fleiri fiskveiðiþjóðir. Og mér kemur þá sérstaklega í hug norski fiskiðnaðarskólinn, sem ég hef dálítil kynni af, skólinn í Varðey í Norður-Noregi. Hann hefur starfað nú mr: alllangt skeið, a.m.k. nokkra áratugi, að ég hygg, og hefur lengst af verið þriggja og fimm mánaða skóli, en nú er fyrirhugað að lengja hann upp í a.m.k. 12 mánaða skóla og breyta skipulagi hans allverulega, en lengri verður skólinn ekki. Ég tel, að íslenzkan fiskiðnað vanti einmitt slíkan skóla, og það má ekki verða töf á því, að hann rísi upp, jafnvel þótt fiskideild verði stofnuð við íslenzka tækniskólann, sem eðlilegt er, vegna þess að fiskiðnaður er svo mikilvægur þáttur í iðnaði okkar.