17.04.1963
Neðri deild: 72. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

215. mál, Tækniskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af brtt. á þskj. 609 um, að tækniskólinn skuli staðsettur á Akureyri. Ég vil þó fyrst þakka hv. menntmn. fyrir skjóta og góða afgreiðslu á þessu mikilvæga frv. og láta í ljós sérstaka ánægju yfir því, að n. skuli hafa afgreitt málið einróma, orðið algerlega sammála. Ég skal staðfesta það, sem raunar kemur fram í nál. menntmn., að ég fyrir mitt leyti er samþykkur þeim brtt., sem n. flytur og eru að efni til þannig, að frv. er breytt í heimildarfrv. til þess að stofna á Íslandi tækniskóla, en það er meginefni brtt. Eins og málum er komið, tel ég það vera heppilegra en setja lög, sem beinlínis kveða á um stofnun skólans. Sérstaklega hefur athugun á allra síðustu vikum leitt í ljós, að erfiðleikar mundu verða á því að starfrækja 1. bekk tækniskólans sjálfs frá og með næsta hausti, en framhaldsathugun í sumar mundi leiða í ljós, hvort það yrði kleift eða ekki, og þá æskilegra, að stjórnarvöld séu ekki bundin í þeim efnum, heldur hafi heimild til að gera það, sem undirbúningur leiðir í ljós að fært sé í málinu.

Að því er það snertir, hvort breyta eigi ákvæðum 1. gr. og skólinn skuli vera á Akureyri í stað Reykjavíkur, vildi ég upplýsa eftirfarandi: Eftir að frv. hafði verið útbýtt hér, kom til mín nefnd manna frá Akureyri til að ræða um hugsanlega breyt. á frv. í þessa átt. Við áttum allýtarlegar viðræður saman. Þar voru einnig staddir nokkrir þm. Norðurl. e. Þá varð niðurstaða, að mælt skyldi með því við hv. menntmn., að frv. yrði breytt þannig, að heimilt væri að starfrækja undirbúningsdeild einnig á Akureyri. Ég gat ekki skilið þá n., sem við mig ræddi, öðruvísi en þannig, að hún teldi þá breyt. út af fyrir sig vera nægilega, eins og málum væri nú háttað, og mundi fyrir sitt leyti sætta sig við þá niðurstöðu og telja það jákvæðan árangur af för sinni hingað til Reykjavíkur og viðræðum um þetta mál. Þess vegna hefur hv. menntmn. tekið það upp í sínar brtt., að gert er ráð fyrir, að undirbúningsdeild megi starfa bæði í Reykjavík og á Akureyri, og ég vil alveg taka undir það, sem segir í nál. hv. menntmn., að á starfrækslu undirbúningsdeildar á Akureyri beri að líta sem vísi að tækniskóla á Akureyri.

Ég geri ekki ráð fyrir því, að á næsta vetri muni hvort eð er vera unnt að starfrækja nema undirbúningsdeild að tækniskólanum. Slík deild starfaði hér á s.l. vetri og slík deild mun að sjálfsögðu starfa einnig næsta vetur hér í Reykjavík, og eigi ég að hafa með framkvæmd þrasara mála að gera, mundi ég einnig gera ráðstafanir til þess, að slík deild starfaði á Akureyri, eins og gert er ráð fyrir í brtt. hv. menntmn. Ég geri sem sagt ekki ráð fyrir því, vil ekki slá því föstu, að unnt verði í sumar að ljúka undirbúningi undir stofnun tækniskólans sjálfs, þannig að 1. bekkur hans geti tekið til starfa á næsta vetri. Ég vil ekki slá því föstu að svo stöddu, og ef svo fer, sem mér segir hugur um, að enn næsta vetur verði að láta við það sitja að starfrækja undirbúningsdeild, mun einmitt reynslutími undirbúningsdeildar í Reykjavík og undirbúningsdeildar á Akureyri leiða í ljós, hvort Akureyringar, að þeirri reynslu fenginni, halda fast við ósk sína um að starfrækja t.d. 1. bekk tækniskólans sjálfs á Akureyri.

Ég get lýst því yfir, að ef starfræksla undirbúningsdeildar á Akureyri gæfist vel næsta vetur og ef bæjarráð Akureyrar og aðrir málsmetandi Akureyringar óska þess, að í framhaldi af undirbúningsdeildinni starfi t.d. 1. bekkur tækniskóla á Akureyri, og eigi ég að hafa með framkvæmd málsins að gera, mundi ég stuðla að því, að svo yrði, og er það í samræmi við það, sem ég lýsti yfir sem minni skoðun við 1. umr. málsins, enda er 1. bekkur tækniskólans ráðgerður sem almennur bekkur, ef svo mætti til orða taka. Þar er um að ræða fræðilegt nám fyrst og fremst, en ekki verklegt nám að neinu verulegu leyti. Það byrjar í 2. bekk tækniskólans sjálfs.

Mér er til nokkurs efs, að hægt sé að efna til hins verklega hluta námsins á Akureyri, a.m.k. á alveg næstu árum, en ef reynslan leiðir annað í ljós, mundi ég fyrir mítt leyti ekkert hafa við það að athuga, að það yrði gert, og vil raunar taka undir það, sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, hv. 2. þm. Norðurl. e. (JR), að eflaust verður innan skamms þörf fyrir tvo tækniskóla hér á Íslandi. Eins og nú eru starfandi fjórir menntaskólar og sá fimmtí í sköpun, kennaraskólinn, geri ég ekki ráð fyrir, að langur tími liði, þangað til hér verði þörf fyrir tvo tækniskóla, og tel ég þá Reykjavík og Akureyri vera sjálfsagða skólastaði fyrir slíka skóla.

Að svo mæltu vildi ég aðeins endurtaka, að ég fagna niðurstöðu hv. menntmn. í þessu máli og hef staðið í þeirri meiningu, að málsvarar Akureyrar væru ánægðir með þá niðurstöðu, sem fékkst í brtt. n. A.m.k. vil ég láta það koma alveg skýrt fram, að meðan ég hef með þessi mál að gera, mun ég ekki verða meinsmaður þess, í fyrsta lagi, að undirbúningsdeild starfi á Akureyri, og ekki heldur, að 1. bekkur tækniskólans starfi þar, ef yfirvöld Akureyrar halda fast við þá ósk, að svo verði.