17.04.1963
Neðri deild: 72. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (1130)

215. mál, Tækniskóli Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég mælti nokkur orð við 1. umr. þessa máls og lét þá í ljós, að ég teldi vel farið, að því máli, sem hér er um að ræða, þ.e.a.s. stofnun tækniskóla á Íslandi, væri nú hreyft á Alþ.

Þegar ég lét þau ummæli falla, hafði ég ekki kynnt mér til hlítar það frv., sem hér liggur fyrir, enda er það seint fram komið, nr. 215 á málaskrá, eða með allra síðustu málum, sem flutt hafa verið í þinginu. En eigi að síður, þó að ég hefði verið búinn að kynna mér frv. til hlítar, mundi ég hafa sagt það sama, að ég teldi það vel farið, að stofnun tækniskóla væri hreyft hér á hinu háa Alþ. Hitt er svo það, að það er eins og hv. frsm. menntmn. sagði hér áðan í umr., að stofnun tækniskóla eða kennsla í tæknifræðum er mikið mál, þetta er stórmál, eins og hann sagði. Þetta er mál, sem nú er til athugunar í mörgum nágrannalöndum okkar og á mótunarstigi, t.d. í Danmörku, Noregi og Þýzkalandi, þar sem einmitt um þessar mundir, eða á undanförnum árum, hafa farið fram athuganir á tæknifræðslunni, eins og hún er, og undirbúningur að tillögugerð um frambúðarfyrirkomulag tæknifræðslunnar.

Ég hef nú nýlega haft undir höndum ýmsar upplýsingar um þessa hluti í þessum löndum, m.a. um álit þýzkrar nefndar, sem starfað hefur að þessum málum og skilaði áliti, að ég ætla, seint á árinu 1962, og sömuleiðis upplýsingar um gang þessara mála nú síðustu árin í Danmörku og Noregi. Út frá þessum sjónarhól séð, að tæknimenntunin er í athugun og í mótun í nágrannalöndum okkar, mætti í rauninni þykja eðlilegt, að einhver tími liði, þangað til tekin yrði ákvörðun um það, hvernig tæknikennslu skuli hagað hér á landi.

Það er kunnugt, að þessir skólar, sem í rauninni er átt við hér eða virðist vera í þessu frv., eru með nokkuð mismunandi móti. Í Noregi t.d. hafa aðallega verið tveggja ára skólar, sem útskrifa menn, sem ganga undir stéttarheitinu „tekniker“ þar í landi. Flestir norsku skólarnir eru með því móti, en tveir eða þrír skólar munu nú vera að rísa þar á legg, sem eru þriggja ára skólar, og er ætlunin, að þeir, sem útskrifast úr þeim skólum, beri stéttarheitið eða menntunarheitið „ingeniör“, sem á okkar máli er útlagt tæknifræðingur.

Þegar málið var hér til 1. umr., spurðist ég fyrir um það hjá hæstv. menntmrh., hvort samráð hefði verið haft við stéttarfélag tæknifræðinga hér á Íslandi, og það var vegna þess, að ég sá í grg., að þetta félag hafði ekkí verið til þess kvatt eða tilnefnt mann í þá n., sem hafði með höndum undirbúning frv. Ég spurði um það vegna þess, að ég veit, að þessir menn í Tæknifræðingafélagi Íslands, sem sjálfir hafa yfirleitt stundað nám í tækniskólunum á Norðurlöndum, Þýzkalandi og víðar, eru manna kunnugastir þessari kennslu og þessum skólum annars staðar. En í þessu félagi munu nú vera, ef ég man rétt, um 90 manns, Tæknifræðingafélagi Íslands, og eru það bæði menn, sem hafa stundað nám og lokið prófum í þriggja ára skólunum, sem útskrifa ,.ingeniöra“, sem nú heita tæknifræðingar á íslenzku, og aðrir, sem lokið hafa námi í tveggja ára skólum eða kannske styttri.

Nú sé ég það ekki í áliti hv. menntmn., að rætt hafi verið við stjórn þessa félags, og ég vil enn spyrjast fyrir um það hjá hv. frsm. n., ef hann má mál mitt heyra, — ég sé nú ekki hv. frsm. Já, hann er hér nú mættur, hv. frsm. menntmn. — Ég vil spyrjast fyrir um það hjá honum, hvort hv. menntmn. hefði við meðferð þessa frv. rætt við stjórn Tæknifræðingafélags Íslands um málið eða leitað þeirra álits um það. Sumt í þessum till., sem n. ber fram, virðist mér að vísu bera þess vott, að það hafi verið gert. En ég vildi taka undir það, sem hv. frsm. n. sagði, að hér er um stórt mál að ræða, — ekki aðeins stórt mál, heldur einnig mjög vandasamt mál og um mál, sem mjög skortir reynslu í hér á landi af eðlilegum ástæðum. Meðferð þessa máls í hv, n. ber þess líka vott, að málið hefur ekki í n. þótt nægilega undirbúið og á nægilega traustum grundvelli byggt.

Í brtt. n., sem liggja fyrir á þskj. 651, er frv. umskrifað, eins og hv. frsm. komst að orði, og það er mjög vægilegt orðalag hjá hv. frsm. um það, sem gerzt hefur í n., að frv. hafi verið umskrifað. Það er ekki bara rað, að það hafi verið tekið eftirrit af frv., heldur er efni þess breytt mjög verulega, enda eru brtt. n. við þessar 18 frvgr. og ákvæði til bráðabirgða hvorki meira né mínna en 13 talsins, og lagt er til, að fjórar gr. úr frv. falli niður. Þannig hefur frv. í n. tekið mjög miklum breyt., og ég geri ráð fyrir, að þær séu til bóta, þannig að á ýmsum sviðum sé ekki lengur reynt að taka ákvarðanir um atriði, sem ekki er að svo stöddu skilyrði til að taka ákvarðanir um í sambandi við þessa fræðslu.

Frv. er nú allt fært í heimildarform, — heimildarform til skólastofnunar og heimildarform til að setja reglugerð um störf skóla. Ákvæðin um stjórn skólans, sem voru allflókin í frv., hafa verið felld niður. Ákvæðin um, að skólinn skuli taka til starfa í haust, hafa verið felld niður. Ákvæðin um deildir skólans hafa verið felld niður. Nú er aðeins sagt, að það sé heimilt, að skólinn starfi í deildum og skuli deildaskiptingin þá ákveðin með reglugerð. Og eftir atvikum, eins og þetta mál liggur fyrir á því stigi, sem það er, og athugun á tilgangi tæknifræðslunnar og því, sem er að gerast í öðrum löndum, — á því stigi, sem þetta allt saman er, þá hygg ég, að það sé fremur til bóta, sem n. hefur lagt til og ég nú hef drepið á.

Það er enginn vafi á því, eins og ég sagði hér áðan, að það er mjög vandasamt mál, hvernig tæknifræðslunni á að haga hér á landi, hver á að vera tilgangur hennar, og að hve miklu leyti þörf kann að verða á því eftirleiðis, að íslenzkir menn sæki tæknimenntun til annarra landa, eins og verkfræðingar. Ég vil leyfa mér að benda á það, að við munum ekki treysta okkur til þess enn þá að setja

hér upp kennslu fyrir verkfræðinga. sem dugi til prófs í verkfræði. Hér er aðeins um að ræða fyrrihlutakennslu í námsgreinum verkfræðinga, en siðari hlutann verða þeir að sækja til annarra landa enn sem komið er. En það er nú svo, eins og hv. þm. hafa vafalaust kynnt sér nokkuð í sambandi við sérstakt mál, sem hér hefur verið á ferðinni í þinginu í vetur, að ýmsir voru farnir að líta svo á, að þetta tvennt, að mennta verkfræðinga, sem kallaðir eru nú á voru máli, og tæknifræðinga sé nokkuð hliðstætt. En undirbúningur þeirra, sem verða tæknifræðingar, er oft og tíðum öðruvísi. Það eru faglærðir íðnaðarmenn, oft og tíðum, þó ekki ævinlega, sem fara í þá skóla, sem útskrifa tæknifræðinga, en hitt eru stúdentar, sem að jafnaði sækja þá skóla, sem útskrifa verkfræðinga. Námstíminn er einnig nokkuð mismunandi. Hann er öllu lengri hjá verkfræðingunum en tæknifræðingunum erlendis, en þar mun þó ekki vera orðinn mjög mikill munur á sums staðar og að því stefnt að minnka þann mun.

Hér er mikið verkefni fyrir höndum, þrátt fyrir þetta frv., sem nú liggur hér fyrir til samþykktar og er orðið að eins konar þáltill., og verður vonandi að því unnið í samráði við fróða menn, en í brtt. n. er svo fyrir mælt, að menntmrh. skuli skipa n. til að semja reglugerð um starfsemi skólans og í þeirri n. skuli eiga sæti menn, sem hafa þekkingu á tæknifræði, verkfræði, iðnnámi og skólamálum. Þetta er að vísu nokkuð teygjanlegt orðalag, að hafa þekkingu á þessum fræðum, en ætla má, að það verði framkvæmt þannig, að í þessari n. eigi sæti menn, sem eru a.m.k. að einhverju leyti sérfróðir um þessi efni:

Ég veitti því athygli í nál., að þar segir, að nm. áskilji sér rétt til að fylgja öðrum brtt., sem fram koma, heldur en þeim, sem n, hefur sjálf lagt fram. Ég vona þá, að hv. nm. telji sér, þó að þeir hafi ritað undir þetta nál., heimilt að fylgja brtt. okkar hv. 4. þm. Norðurl. e. á þskj. 609 um aðsetur tækniskólans.

Hv. fyrri flm. till., hv. 4, þm. Norðurl. e., hefur nú þegar gert ýtarlega grein fyrir henni, og þarf ég í rauninni ekki að bæta neinu við það, sem hann sagði um það, því að grg. hans var mjög utarleg og glögg og þar dregin fram meginatriði þess máls, sem hér er um að ræða. Það þurfti að sjálfsögðu ekki að koma á óvart, að þessi brtt, yrði flutt, því að hv. fyrri flm. till., hv. 4. þm. Norðurl. e., vakti einmitt máls á þessu strax við 1. umr., að honum þætti til mála koma að staðsetja þennan skóla á Akureyri. Síðan hv. þm. flutti þá ræðu og vakti máls á þessu hér í hv. d., hefur það gerzt, sem hann skýrði frá í ræðu sinni áðan, að bæjarráð Akureyrar hefur á fundi sínum hinn 4. apríl samþykkt að skora á Alþ. að breyta frv. á þá lund, að tækniskólinn verði staðsettur á Akureyri. Það væri vissulega fullt tilefni til þess að flytja um þetta mál langa ræðu og það fleiri en eina, en eins og ég sagði, þá hefur hv. 4, þm. Norðurl. e. lagt hér fram þá grg., sem nauðsynleg er vegna þessara brtt. út af fyrir sig nú í þessu máli.

Það er sjálfsagt rétt, sem kom hér fram í umr., að það geta verið vissir erfiðleikar á því, að menn úr Reykjavik sæki tækniskóla norður á Akureyri. En það er jafnlangt fram og aftur, segir einhvers staðar í frægu verki, og það er jafnlangt frá Reykjavík til Akureyrar og frá Akureyri til Reykjavíkur. Og ef það er erfitt fyrir reykvíska nemendur að sækja skóla á Akureyri, þá er það líka erfitt fyrir akureyrska nemendur að sækja skóla í Reykjavík. Og eins og hv. 1. flm. till. sagði, eru það fleiri en Akureyringar og Reykvíkingar, sem sækja slíka skóla. Hér er nú menntaskóli í sveit á Suðurlandi og annar a.m.k. að nokkru leyti starfandi á Vesturlandi í kaupstað, og iðnskólar eru viða, iðnaðarmenn í námi, og úr öllum þessum stofnunum verða menn að koma inn í tækniskólann, hvort sem hann væri í Reykjavík eða á Akureyri.

Enn þá er ekki meiri hluti þjóðarinnar hér í höfuðstaðnum sjálfum, þótt að því komi fljótlega, a.m.k. ef það á komandi árum þykir alltaf sjálfsagt að fella till. eins og þessar, sem hér liggja fyrir. Það getur verið ódýr munaður fyrir hv. þm., þegar kosningar eiga að fara fram um land allt, að telja sig hlynnta jafnvægi í byggð landsins, en það að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, það eru ekki bara orð. Það er líka fólgið í athöfnum. Og það er alltaf hugsanlegt, að þær athafnir, sem þeirri stefnu hljóta að fylgja, verði ekki að allra skapi fullkomlega eða í samræmi við allra hagsmuni, allra gróðavonir o.s.frv. Þá er að velja. Nú vil ég út af fyrir sig ekki hafa á móti því, að reynt sé að koma málum í höfn í áföngum. Það er oft, eða a.m.k. stundum, það eina, sem hægt er að gera. En ekki kann ég við þá tegund samúðar við málstað Norðlendinga, sem fram kemur í brtt. n. Þessa tegund samúðar, segi ég, af því að hv. frsm. n. komst þannig að orði, að í n. væri rík samúð með þessum sjónarmiðum.

Í brtt. n. er komizt að orði á þá lund, að það skuli vera heimilt að starfrækja undirbúningsdeild við skólann, bseði í Reykjavík og á Akureyri, undirbúningsdeild við Tækniskála Íslands, sem ekki er heimilt að stofna nema í Reykjavík. Samkv. till. n. má þessi Tækniskóli Íslands ekki vera staðsettur á Akureyri, það er ekki heimilt, heimildin nær ekki til þess. En það á að vera heimilt að stofna undirbúningsdeild á Akureyri, undirbúningsdeild við Tækniskóla Íslands í Reykjavík. Það er ekki smáræðislausn, sem hér er á ferðinni, ekki lítil samúð við hinn norðlenzka málstað á þingi í þessu máli, að það skuli eiga að vera heimilt að stofna á Akureyri undirbúningsdeild við Tækniskóla Íslands í Reykjavík. Nú er það sýnilegt, að siðan þetta nál. var gefið út, hafa menn hugsað sitt ráð og e.t.v. einmitt á þessum fundi, eftir að hv. 4. þm. Norðurl. e. hafði haldið sína ræðu og skýrt þau sjónarmið, sem hér um ræðir. Og nú er verið að tala um það, að líklega megi ganga út frá því, að þetta leiði til þess, að stofnaðar verði fleiri deildir á Akureyri og svo sennilega annar skóli, þegar tímar liði. En hvers vegna þessa aðferð? Hér er þó ekki nema um heimild að ræða. Og hvers vegna má ekki, ef menn hafa þetta í huga, ef menn hafa nú í raun og veru í huga, að það eigi að rísa upp annar tækniskóli á Akureyri, — hvers vegna þá ekki að heimila stofnun slíks skóla, um leið og heimilað er að stofna tækniskólann í Reykjavík?

Ég varpa þessu fram og skal svo að öðru leyti ekki lengja mál mitt frekar; en vil í fyrsta lagi vænta þess, að till. okkar hv. 4. þm. Norðurl. e. verði samþ. við þessa umr. En fari svo, að hún yrði það ekki, þá tek ég undir það með hv. meðflm. mínum, að mér þykir það góð yfirlýsing hjá hv. frsm. n., að hann sé reiðubúinn til að athuga málið nánar milli umr., og vil þá vænta þess, að úr því verði.