19.11.1962
Neðri deild: 16. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

8. mál, öryggisráðstafanir gegn geislavirkum efnum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Hæstv. forseti. Þetta frv. hefur þegar hlotið samþykki Ed. Það er samið að frumkvæði Kjarnfræðinefndar Íslands og hefur hlotið rækilegan undirbúning sérfræðinga og meðmæli landlæknis.

Þau efni, sem hér er um að ræða, hafa alllengi verið í notkun hér á landi, hafa sérstaklega komið til greina varðandi röntgentæki. Nú eru þau notuð í víðtækara mæli en áður, og þess vegna þykir sérstök nauðsyn til þess að gera varúðarráðstafanir gegn þeim. En allt er þetta svo flókið, að það er í raun og veru ekki nema fyrir sérfræðinga að átta sig til hlítar á, hvers eðlis þessi hætta er eða þær varúðarráðstafanir, sem gera þarf. En þess skal getið, að fyrir hendi er frv. að reglugerð, sem setja skal samkv. þessum lögum, og ef nefnd óskar að kynna sér það frv. nánar, þá er sjálfsagt, að hún fái það til athugunar.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta mál, heldur legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn. En um það varð enginn ágreiningur í Ed., að málið skyldi ná fram að ganga.