08.04.1963
Efri deild: 69. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

227. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Fimmtudaginn 28. f. m, var frv. til laga um tollskrá o. fl., sem hér er til umr., útbýtt síðdegis hér á Alþingi. Þennan sama dag kom Morgunblaðið út árla að venju, og í því mátti lesa frásögn af því, hvað tollskrárfrv. bæri í sér. Á forsíðu Morgunblaðsins var þversíðufyrirsögn með forkaletri: „Stórfelld endurbót á tollskránni.“ Neðan undir þessari miklu fyrirsögn stóðu fyrirsagnir, undirfyrirsagnir, með vænu letri líka, — öðrum megin: „Lækkun tolla nemur 100 millj. kr.“ — hinum megin alveg samsíða: „Miklar jarðhræringar hér á landi.“ Þetta var dálítið skemmtileg tilviljun í augum þeirra, sem gamanskyn hafa. Stundum hafa þau atvik, sem kölluð eru tilviljanir, orsakarök á bak við sig og eru ekki algerlega tilviljanir. Mennirnir við Morgunblaðið höfðu heyrt húsbændur sína tala um útgáfu nýrrar tollskrár sem stórkostlegan viðreisnarviðburð, og ef til vill þess vegna skipuðu þeir ósjálfrátt fréttinni um útkomu nýrrar tollskrár með fréttinni um miklar jarðhræringar. Þetta var samhliða í hugum þeirra og hvort tveggja stórvaxið og miklar fréttir.

Vísir sagði, seinna að vísu, um tollskrána: „Sannleikurinn er sá, að hið nýja tollafrv. er stórfellt hagsmunamál og raunhæf kjarabót.“

En því er nú miður, að með þessu frv. gerist enginn stórviðburður til hagsmunalegra umbóta. Með tilliti til fréttarinnar í Morgunblaðinu og þeim til réttlætingar, sem að henni stóðu, má segja, að fjallið hafði að vísu talið sig vera með jóðsótt, en lítil mús hafi fæðzt, eins og segir í dæmisögunni.

Stærð tollskrárinnar sem bókar er mikil, og það er mikið verk, sem stendur að baki þeirrar bókar. Til þess voru kvaddir tollfróðir menn að semja bókina, og það tók þá rúmlega 3 ár að ganga frá henni. Ég efast ekki um, að þessir menn hafi unnið verk sitt samvizkusamlega, og ég er þeim þakklátur fyrir að hafa gefið mér margar mikilsverðar upplýsingar um innihald þessarar bókar, þegar þeir mættu á fundi fjhn., eins og hv. frsm. meiri hl. gerði grein fyrir hér áðan. En þrátt fyrir þetta er það sjálfsögð skylda Alþ. að athuga vel frv. þetta, þó að alþm. viti, að að því hafi verið unnið samvizkusamlega. Til þess er það lagt fyrir Alþ., og í sjálfu sér bera ekki þessir embættismenn, sem unnu að tollskránni, ábyrgð gagnvart þjóðinni á þessu verki, heldur er það Alþingi, sem ber ábyrgðina. Og það er mikið tillitsleysi við Alþ. og við þingræðið að hafa lagt frv. svo seint fram á Alþ., að enginn tími er til að athuga það með þeirri gaumgæfni, sem ætlazt er til að Alþ. athugi slík frv. Þetta er ekki aðeins tillitsleysi við stjórnarandstöðuna, — við skulum segja, að það sé eðlilegt kannske, að stjórnin leggi ekki sérstaklega mikið upp úr því að gefa stjórnarandstöðunni langt ráðrúm til athugunar, — en þetta er tillitsleysi við stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. Og það mátti heyra það á hæstv. frsm. meiri hl., að hann hafði þetta fullkomlega á meðvitundinni, því að hann bað fyrir hönd n., sem átti að gaumgæfa málíð, afsökunar og hafði þann fyrirvara, að hún gæti ekki borið fyllstu ábyrgð á afgreiðslu málsins, vegna þess að henni hafði ekki gefizt tími til að vinna að athuguninni. Ég vitna í þetta af því, að ég tel það vera fulla sönnun fyrir því, að það sé ekki stjórnarandstöðuádeila ein, sem leggur þennan skilning í málið, og ég get þess líka vegna þess, að mér finnst verðugt, að hv. frsm. meiri hl. fái lof fyrir það að hafa sýnt þá samviskusemi að flytja fyrirvarann.

Hv. fjmrh. tilnefndi þá embættismenn, sem sömdu þetta frv. Hann skipaði þá nefnd. Og eins og eðlilegt má telja, gaf hann út með tilnefningu sinni fyrirsagnir til n. um það, hvað hún skyldi hafa sem höfuðreglur við samningu nýrrar tollskrár. Þessar reglur er að finna á bls. 140, í upphafi athugasemda við frv. um tollskrána. Með leyfi hæstv. forseta, ætla ég að lesa þessar reglur:

„a) Að núgildandi aðflutningsgjöld ásamt viðaukum væru yfirleitt sameinuð í eitt heildargjald (verðtoll) á hverja tollskylda vörutegund.“ Þessi regla eða fyrirskipun var mjög eðlileg. Því hefur verið haldið fram, að þessi sameining gjaldanna sýni mikla ráðdeild. Ég hygg, að hvaða stjórn sem hefði látið gera endurskoðun hefði, eins og komið var málum, gefið út þessa fyrirskipun. Hún verðskuldar því ekkert einstakt lof.

„b) Að samræmdur verði eftir föngum tollur af skyldum vörum.“ Þetta er sjálfsögð regla.

„c) Að verðtollur skv. a væri ekki hærri en 125% á neinni vöru.“ Þetta er mjög umdeilanlegt atriði. Það hefur verið talið tollum til gildis, eða réttara sagt hefur það verið talið til réttlætingar óbeinum sköttum, að með þeim væri talsvert hægt að fylgja þeirri reglu, með því áð hafa þá mismunandi, að þeir, sem hafa breiðu bökin, beri þyngri byrðarnar. Vegna þess að það eru þeir, sem hafa kaupgetuna til að kaupa hinar dýrari vörur. Annar sá stjórnarflokkur, sem stendur að núverandi hæstv. ríkistj., Alþfl., hafði á stefnuskrá sinni lengi vel skatta eftir efnum og ástæðum sem höfuðskattareglu. Nú hefur hann í þessu stjórnarsamstarfi horfið mjög frá þeirri reglu. Og eitt sinn, þegar umr: voru um þetta hér á Alþingi og málið var á dagskrá hjá þjóðinni, verið var að lækka háskatta, beina, þá sagði flokkurinn í Alþýðublaðinu, að þetta væri réttmætt, að lækka beinu skattana og hækka óbeinu skattana, því að það væri hægt að gera þannig, að óbeinu skattarnir kæmu mjög niður eftir efnum og ástæðum. Með því að hafa hátolla, þá væri verið að „gildra fyrir þá ríku“. Með sama rétti á grundvelli þessarar hugsunar er nú hægt að segja, að þegar hæstv. fjmrh. fyrirskipar endurskoðunarnefndinni að hafa engan toll hærri en 125%, fella niður tollprósentu þar fyrir ofan, þá sé verið að taka upp gildrurnar og fjarlægja þær. Alþfl. hlýtur að viðurkenna þetta. Hann hefur þá enn breytt um skoðun, ef hann er þessu samþykkur.

d) í fyrirmælunum err „Að heildartekjur ríkissjóðs af aðflutningsgjöldum rýrnuðu ekki um of.“ Engin regla er eðlilegri af hálfu þess manns, sem þarf að sjá um, að tekjur séu til á móti gjöldum hjá ríkissjóði. Engin regla er eðlilegri en þessi, eins og hún er sett fram í almennum orðum. En svo er hitt. Hvað er rýrnun um of? Og mér virðist, að með tollskrárfrv. sé þess mjög gætt, að ekki rýrni tekjur um of, og svo langt er gengið í því meira að segja, að fyrirheit, sem gefin hafa verið um niðurfellingu, bein og óbein fyrirheit um niðurfellingu álagna, svo sem eins og niðurfellingu bráðabirgðasöluskatts, þau eru ekki efnd.

„e) Að um flokkun og niðurröðun vara í nýju tollskránni væri fylgt hinni alþjóðlegu tollskrárfyrirmynd, Brüssel-skránni svonefndu.“ Ekkert hef ég að athuga við þau fyrirmæli.

Heildarlækkun þessi, sem mátti ekki vera um of, er sniðin við það samkv. frv. að mega vera 97 millj. kr. Það er lítil upphæð, það er litið, sem fjallið fæðir þar af sér, þegar miðað er við þá heildarhækkun, sem orðið hefur síðan 1958 eða í tíð núverandi hæstv. stjórnarflokka á álögum til ríkissjóðs, því að þær hafa vaxið, eftir því sem næst verður komizt, um nálega 1400 millj., og vantar þá lítið á, að segja megi, að þær hafi þrefaldazt. Það eru einar 97 millj., sem telst ekki rýrnun um of. Og þessari lækkun er þannig fyrir komið í tollskránni, að vísitala framfærslukostnaðar lækkar ekki, svo að teljandi sé, að sögn. Það er talið, að reikningsvélar taki ekki þá heildarlækkun, sem verða kynni á framfærsluvísitölunni. Vélarnar ná henni ekki. Samt er það svo, að ég tel ekki rétt að fella eða gera tilraun til að fella þetta frv. Ég tel, að allt, sem horfir í lækkunarátt miðað við það álögufargan, sem hvílir á þjóðinni, sé til bóta og það sé rétt að styðja. Og í öðru lagi tel ég, að með sameiningu aðflutningsgjaldanna, eins og hún hefur verið gerð samkv. frv., þá sé gerð umbót og þetta sé vinnuhagræði, bæði fyrir þá, sem eiga að annast tollalækkanirnar, og líka fyrir þá, sem fara með verzlun aðflutningsvara í landinu.

Hæstv. ríkisstj. og hennar talsmenn fara miklum lofsorðum um þá íramtakssemi að hafa stofnað til endurskoðunar á tollskránni. Það er rétt, að endurskoðun á tollskránni hefði mátt hefja fyrr. En hitt er líka rétt, að það varð óumflýjanlegt að hefja hana, eftir að efnahagsaðgerðir ríkisstj. komu til sögunnar og umturnuðu tollagrundvellinum. Eftir gengisfellingarnar 1960 og 1961 varð gífurleg röskun á undirstöðum tollanna, enn fremur urðu viðbætur skatta, eins og söluskattsviðbótin og hinn nýi almenni söluskattur. Og allt þetta rak eftir með að hefja þetta verk, svo að ég tel það ekki sérstaklega þakkarvert, þó að til þess hafi verið stofnað, ekki bera vott um neina sérstaka framtakssemi. (Gripið fram í.) Ég sagði, að það hefði mátt hefja þessa endurskoðun fyrr, en það var óumflýjanlegt að hefja hana, þegar þarna var komið, og það, sem knýr að því, að það er óumflýjanlegt, er þess eðlis, að sá, sem er knúinn, á ekki sérstakar þakkir persónulega fyrir að hafa látið undan.

Ég flyt nokkrar brtt. við tollskrárfrv. á sérstöku þskj., þskj. 561. Ég tel, að þessar brtt. séu hófstilltar og það sé rangt, ef hv. frsm. meiri hl. í fjhn. hefur átt við þær áðan, þegar hann talaði um áróðurstill. Þetta eru till., sem flestar hafa verið fluttar af framsóknarmönnum á Alþ. að undanförnu, en ekki fengið jákvæðar undirtektir og verið felldar af stjórnarflokkunum. Ég hefði talið rétt að flytja miklu víðtækari og fleiri brtt., ef það hefði verið hægt að vinna að athugun á tollskránni rækilegar en aðstaða var til að gera nú, og enn fremur ef við hefðum talið nokkrar líkur til þess, að slíkar viðtækar till. yrðu samþ. hér, eins og sakirnar standa. Og loks er líka á það að líta, að það er ekki hægt að gera á tollskránni út af fyrir sig þær brtt., sem orka því að breyta því efnahagskerfi, sem hæstv. núverandi ríkisstj. hefur sett upp. Tollskrárbreytingar einar saman geta ekki náð þeirri niðurstöðu. Og þær þurfa að vera fluttar í sambandi við aðrar till. um breyt. á efnahagskerfinu, svo sem eins og um vaxtalækkun, lánsfjáraukningu o.s.frv. Það verður því að bíða seinni tíma að flytja slíkar till., — tímans, þegar aðstaða er til þess á Alþ. að gera heildarlegar og samfelldar nauðsynlegar breytingar á þessu tilbúna efnahagskerfi hæstv. ríkisstj.

Ég sé það og gleðst yfir því, að þær till., sem við framsóknarmenn höfum á undanförnum þingum og á þessu þingi flutt um afnám tolla á ýmsum tækjum vegna landbúnaðar, hafa haft áhrif á stjórnarstuðningsmenn og hæstv. ríkisstj., þó að þær hafi stöðugt verið felldar og svæfðar, því að nú hefur hæstv. ríkisstj. tekið sig til og fært niður í till. sínum tolla á þessum tækjum. Við höfum gert kröfu til þess, framsóknarmenn, að þessi tæki til landbúnaðarins nytu hins sama í álagningu aðflutningsgjalda og sambærileg tæki til sjávarútvegsins. Við höfum ekki talið, að sjávarútvegurinn væri ofhaldinn í styrkjum vegna aðflutningsgjalda, en víð höfum gert kröfu til þess, að landbúnaðurinn nyti sams konar aðstoðar. Á þetta hefur ekki verið fallizt, og sýnilegt er, að á þetta er ekki enn fallizt samkv. till., því að þar sé um lækkun tolla á landbúnaðartækjunum að ræða, því að þau á yfirleitt eftir till. að tolla með 10%, þó að hins vegar séu tollfrjáls skip og vélar, sem eru alveg hliðstæður við þessi tæki. Dráttarvélarnar eru skip bóndans og þau tæki, sem þeim fylgja.

Ég flyt till. um það, að þessi tæki til landbúnaðarins séu tollfrjáls, eins og skipin og vélarnar eiga að vera, og þar að auki flyt ég till. um það, að létt sé af sjávarútveginum 4% tolli á vissum tækjum, eins og radartækjum og fisksjám og bergmálsdýptarmælum, svo og á nokkrum efnivörum vegna sjávarútvegsins. Ég vil, að þessir gömlu undirstöðuframleiðsluatvinnuvegir þjóðar okkar njóti tollfrelsis í þessum efnum og búi við alveg sömu kjör í því. Framsóknarmenn hafa flutt till. á Alþingi um lækkun tolla á búsáhöldum. Þessi búsáhöld má segja að séu vélvæðing á starfssviði húsfreyjanna á heimilunum. Þau eru yfirleitt eftir frv. sett í 80% tollflokk. Ég legg til, að þau verði færð niður í 40%. Ef það yrði samþykkt, tel ég, að það væri töluverð lagfæring, sem almenningur nyti. Þessi tæki, og sérstaklega ef þau eru rafknúin, eru orðin bráðnauðsynleg á hverju heimili.

Ég legg til á þskj. 561, að te verði gert skattfrjálst eins og kaffi. Þetta var rætt í hv. fjhn. Yfirleitt litu nm. svo á, að það væri rangt að skattleggja te með 70% tolli., þegar kaffi er tollfrjálst, því að vitanlega er það svo, að þó að kaffi sé meira drukkið, þá eru margir menn, sem drekka te í kaffistað, og meira að segja af því, að þeir þola ekki að drekka kaffi. Það er því rangt að gera svona mikinn mun á þessari vöru, sem hefur sams konar hlutverki að gegna hjá þjóðinni. Að vísu varð ekki samstaða um það í n. að fella tollinn niður, en meiri hl. aðhyllist það að lækka hann ofan í 50%. Það er til bóta, en ég tei það of lítið og flyt till. um, að tollurinn af tei verði felldur niður.

Ég flyt till, um það, að girðingarnet verði lækkuð í tolli, úr 20%. niður í 15% toll, og gerð jafnálöguþung og gaddavír. Það kom erindi til hv. fjhn. frá skógræktarstjóra, sem benti á misræmið í því að tolla girðingarnet hærra en gaddavír. Ég álít, að sú aths. hafi haft við rök að styðjast. Fjhn. féllst ekki á þetta í heild, en ég legg til, að girðingarnetin verði færð niður í 15% toll, gjaldið það sama af þeim og gaddavír. Girðingarnet eru vara, sem bændur brúka mikið og jafnvel fleiri en bændur, og það er engin ástæða til þess að skatta þau í aðflutningsgjöldum meira en gaddavírinn.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að lesa upp þá vöruflokka eða þær vörur, sem ég flyt sundurliðaðar till. um tollalækkanir á. Ég hef nefnt aðalflokka þeirra í því, sem ég er búinn að segja. Þó vil ég nefna prjónavélar, sem ég flyt till. um að verði lækkaðar úr 35% tolli niður í 15%. Þær hafa verið hækkaðar frá því, sem áður var, um 14%, og ég skil ekki, hvers vegna það hefur verið gert. Mér finnst, að það sé ósamræmi í því að hækka þessar heimilisnotavélar, þegar sumar aðrar vörur eru lækkaðar.

Ég vil benda á, að þó að aðalregla mín í tillöguflutningnum hafi verið að leggja til, að landbúnaðarverkfærin væru lækkuð svo mjög, að felldur væri niður af þeim tollur, eru það einstakar stærri vélar, og vélar, sem eru ekki eins almennt notaðar, sem hafa verið settar í till. þeim, sem liggja fyrir, í 35% skala, sem ég legg til að verði færðar niður í 15%, og hygg, að það sé sanngjarnt.

Þá flyt ég till. um það, að í 3. gr. breytist 30. liður þannig, að niður falli orðin: „sem svari því, að af vélunum sé greiddur 10% verðtollur“. Hér er um að ræða vélar í báta, sem eru ekki nýsmíði, og enn fremur vélar til rafmagnsframleiðslu á sveitabæjum. Heimild er til að lækka þær vélar með endurgreiðslu niður í 10% toll. Ég legg til, að heimild sé til að fella niður tolla af þeim, og tel það vera til samræmis við það, að toll má fella niður af nýsmiðum og vélum í sambandi við þau, þegar um báta er að ræða. Og framleiðsla rafmagns með dísilvélum á heimilum er svo nauðsynleg, að ég álit, að það eigi að taka þetta tillit til hennar, ekki sízt þegar til hennar þurfa að grípa þeir, sem eru þannig illa settir í sveitum, að samveitur ná ekki til þeirra, þ.e. þeir geta ekki komizt í félag samveitna.

Þá flyt ég till. um það, að á eftir 30. lið 3. gr. komi nýr liður, svo hljóðandi, að heimilt sé að endurgreiða hluta innflutningsgjalda af byggingarefni í íbúðarhús eftir stærð þeirra. Skal endurgreiðslan nema 110 kr. á hvern rúmmetra íbúðar. Endurgreiðslan nær þó ekki til þess hluta íbúðar, sem er umfram 360 rúmmetra. Ráðh. setur nánari ákvæði um endurgreiðslu þessa.

Framsóknarmenn hafa flutt till. hvað eftir annað um það, að lækkaðir væru vextir af lánum, að aukin væru lán til íbúða. Þessar till. hafa ekki verið teknar til greina af meiri hl. þingsins. Ég skal játa, að ég álit, að þeir erfiðleikar, sem húsbyggjendur hafa komizt í og eru illkleifir eins og sakir standa, væru betur leiðréttir og eðlilegar leiðréttir með því að lækka vexti af lánum þessara manna og auka lánsfé til þeirra, heldur en bæta við í framkvæmd endurgreiðslu til þeirra. En af því að till. okkar um það, sem ég nefndi, hafa ekki verið teknar til greina, þá flyt ég þessa tili., því að ég lít svo á, að fólki því, sem vantar húsnæði, sé í mörgum efnum algerlega ofviða, eftir að gengisfellingarnar hafa átt sér stað og ýmiss konar efnahagsráðstafanir, svo sem vaxtahækkun, frysting sparifjár komin til framkvæmda, — sé þetta þeim ókleift og í mörgum tilfellum algerlega ofviða að leysa þessa þörf sina. Og með því að gera svo torveit að koma upp húsnæði, þá er sérstaklega lagður steinn í götu uppvaxandi fólks, og sú þjóð, sem gerir það, er að stofna til kyrkings í þjóðlífi sínu.

Þessi till. um endurgreiðslu aðflutningsgjalda af efni til íbúðabygginga er vel framkvæmanleg, og ég veit, að Norðmenn hafa haft þann hátt á að endurgreiða aðflutningsgjöld af byggingarefni, svo að fordæmi eru til. Hér er lagt til, að endurgreiðslan verði ákveðin 110 kr. á hvern rúmmetra og greiðist á íbúðir upp í 360 rúmmetra stærð. M.ö.o.: allar íbúðir, sem fullgerðar eru, njóta þessa, en þær, sem eru stærri en 360 rúmmetrar, fá ekki endurgreiðslu á þá rúmmetra, sem eru fram yfir það mark. Við 360 rúmmetra er miðað vegna þess, að húsnæðismálastofnunin miðar við þá stærð, þegar hún veitir lán, miðar við, að það sé stærð, sem sé eðlilegt að taka til greina fyrir fimm manna fjölskyldu. Samkv. skýrslu Efnahagsstofnunar ríkisins voru fullgerðar íbúðir í landinu að meðaltali á ári 1954—1961, 8 árum, 1350 talsins. Þær voru fæstar fyrsta árið, þá voru þær 883, þær voru flestar 1957, þá voru þær 1618. Síðasta árið, sem er tekið í þennan reikning, voru þær 1209. Samkv. skýrslu hagstofunnar kostaði rúmmetri í íbúð í febrúar í vetur, þ.e.a.s. 1963, kr. 1689.16. Samkv. útreikningi húsnæðismálastjórnar 1960 um innflutningsgjöld af byggingarefni til íbúðarhúsa reyndust þau vera um 7.8% af fullnaðarverði íbúðar. Ef reiknað er nú með 8%, nema innflutningsgjöldin á hvern rúmmetra 135 kr. 110 kr. endurgreiðsla, eins og ég legg til að tekin verði upp á hvern rúmmetra íbúða, nemur þá um 81.5% af innflutningsgjöldum, og ef litið er á hússtærðir, mundi þessi endurgreiðsla nema: á 250 rúmmetra .íbúð, ef menn létu byggja svo þröngt, 27 500 kr., á 275 rúmmetra íbúð 30 250 kr., á 300 rúmmetra íbúð 38 þús. kr., á 325 rúmmetra íbúð 35 750, en á 360, það er mesta stærðin, sem á að veita endurgreiðslu út á, nemur hún 39 600 kr.

Sé nú gert ráð fyrir því, að meðalstærð íbúðar sé 320 rúmmetrar og að byggðar séu 1350 íbúðir, sem þá njóta endurgreiðslna á ári, þá mundi sú upphæð nema 47 millj. 520 þús. kr. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir, að allir, sem byggja íbúðir, hvar sem þeir eru á landinu, nytu þessara endurgreiðsluréttinda. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvort hann á mikið eftir af ræðu sinni, því að mér skildist á formanni fjhn. áðan, að hann þyrfti helzt að skjóta á fundi núna rétt fyrir fjögur.) Ég skal reyna að vera stuttorður, mig langar ekki til þess að tefja málið. (Forseti: Annars verður áframhaldandi fundur seinna í dag.) Já, ég held, að ég geti lokið mér af á stuttum tíma.

Við 40. gr. flyt ég brtt. Hún er um það, að aftan við næstsíðustu mgr. komi svo hljóðandi viðbót: „Greiða skal síðan eftir 1963 árlega til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 5% af innheimtum aðflutningsgjöldum samkv. tollskrá.“ Þessi 40. gr. gerir ráð fyrir því, að til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði greitt vegna niðurfellingar söluskattsins, viðbótarsöluskattsins, sem jöfnunarsjóður hefur fengið 20% af, þá verði greitt það, sem á vantar, að hann — jöfnunarsjóðurinn — fái það, sem honum hefur verið áætlað samkv. fjárl, á árinu 1963. En í frv. er ekkert séð fyrir því, að sveitarfélögin fái þetta tillag í jöfnunarsjóðinn áfram. Till. mín er til að tryggja það, því að 5% af heildartolltekjunum svara til þess, sem sjóðurinn hefur haft að undanförnu, og sveitarfélögin mega á engan hátt við því, að þessi tekjustofn þeirra falli niður. Hæstv. fjmrh. gat þess, að hann vildi, að fyrir því væri séð, að sveitarfélögin fengju tekjustofn, sem svaraði til þess, sem þau hafa haft. Ég vil með þessari till. minni tryggja það, því að ég sé enga ástæðu til þess, að það sé dregið að ganga frá því.

Ég hef þá minnzt á aðalatriði þessara till. minna. Ég hef ekki flutt þær án þess að gera mér grein fyrir því, að sá, sem till. flytur, verður að gera það. meira en í áróðursskyni. Ég sagði áðan, að ég tæki ekki til mín það, sem hv. frsm, meiri hl. sagði um ábyrgðarlausar áróðurstillögur.

Ég hafði áður getið þess, að endurgreiðslan á byggingarefni mundi gera, eftir því sem hægt væri að áætla, því að hér verður aldrei nema um áætlunarupphæðir að ræða, — mundi gera 47.5 millj. í útgjöld. Mér skilst, að tollalækkun búsáhalda, eins og ég legg til að hún verði, geti kostað um 20 millj. og tollalækkun vegna landbúnaðartækja um 5 millj., að tollalækkun á tei geti kostað 1 millj. og aðrar till. mínar geti kostað einar 7 millj., svo að þarna gæti orðið um 80 millj. kr. tolltekjulækkun að ræða. Greiðsluna til jöfnunarsjóðs, sem mundi vera um 54 millj. miðað við áætlun 1963, tel ég ekki ástæðu til að tala um í þessu sambandi. Ég tel svo sjálfsagt, að það verði að sjá fyrir því, að sveitarfélögin haldi þessum tekjum. Þó að ég leggi til, að það sé strax tryggt, þá tel ég ekki að þurfi að reikna með þeim í þessu sambandi sérstaklega, af því að till. mín auki útgjöldin. Nú er það svo, að bráðabirgðasöluskatturinn, sem rennur inn í tollinn, er miklu hærri en lækkun þeirra gjalda, sem ég legg til. Ég skil ekki í öðru en hæstv. fjmrh. telji sig siðferðislega nokkuð bundinn því að skila þessum skatti í tollalækkunum, þessum gamla bráðabirgðaskatti, því að þannig hafa orð fallið áður.

Í framsöguræðu sinni drap hæstv. ráðh. drjúgt í, að hann sæi mikla möguleika til þess að láta ríkissjóð standast nokkra aðflutningsgjaldalækkun. Hann sagði búmannlega, að hann ætti fyrningar frá fyrri árum. Þessar fyrningar eru, sagði hann, tekjuafgangar frá 1960 35 millj., frá 1961 72 millj. og frá 1962 væntanlega fullar 100 millj. Nú er vitanlega ekki hægt að margnota slíkar fyrningar, en fyrningarnar tryggja það, að þetta ár, ef þær eru rétt taldar, stenzt vel, þó að heildartollalækkunin verði eins og ég legg til. En svo sagði hæstv. ráðh. meira, sem snertir framtíðina í þessu sambandi. Hann taldi, að smygl mundi minnka. Hann lagði áherzlu á, að tollalækkanir vegna atvinnuveganna örvuðu þá til framleiðslu og þá ykjust þjóðartekjur og sjálfkrafa um leið tekjur ríkissjóðsins. Og enn benti hann á það, að innflutningur til landsins færi að sjálfsögðu árlega vaxandi og gæfi tolltekjur meiri og meiri frá ári til árs. Ég vona, að ég hafi ekki ofboðið bjartsýni hæstv. ráðh. með mínum hóflegu tillögum.