09.04.1963
Neðri deild: 69. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

227. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er árangur af rúmlega 3 ára starfi nokkurra embættismanna og sérfræðinga. Frv. var lagt fyrir Ed., og fylgdi ég því úr hlaði með allýtarlegri framsöguræðu, sem ég tel ekki ástæðu til að endurtaka hér, en vil fyrst og fremst vísa til hinnar mjög ýtarlegu grg. og fylgiplagga með frv. og minna hér aðeins á örfá meginatriði frv.

Tilgangur frv. eða samningar þess var í fyrsta lagi að gera allt tollakerfið einfaldara en það nú er. Það hefur verið þannig alla stund síðan tollskráin var sett 1939, að ýmis gjöld hafa hlaðizt upp á innflutninginn, og er nú svo komið, að af ýmsum vörutegundum þarf að greiða frá 7 upp í 9 eða 10 tegundir aðflutningsgjalda, og ekki aðeins það með mismunandi prósentum og af mismunandi stofni, þar sem sumt er reiknað í prósentum af cif-verði, annað af cif-verði að viðbættum vissum gjöldum o.s.frv. Þetta skapar ákaflega mikinn rugling og óvissu um gjöldin, þannig að í rauninni er það ekki nema á fárra manna færi að vita um það með vissu, hver heildargjöldin eru nú á hverri vörutegund. Þetta kostar að sjálfsögðu mjög mikla vinnu, skriffinnsku, bæði fyrir hið opinbera og fyrir innflytjendur.

Fyrsta atriðið við þessa endurskoðun var því að gera aðflutningsgjöldin einfaldari í sniðum og í stað þessara margvíslegu gjalda, sem reiknuð eru af margvislegum grunni, komi einn verðtollur. Í öðru lagi var tilgangurinn með þessari endurskoðun sá að samræma gjöldin, en það hafði farið svo um margs konar vörur, að þó að þær ættu samkv. eðli máls að vera í sama tollflokki eða bera sömu aðflutningsgjöld, voru gjöldin orðin mjög mismunandi á þeim, stundum beinlínis af tilviljun eða fyrir mistök, en stundum að vísu vitandi vits, þegar verið var að mismuna skyldum vörum. Tilgangur þessa frv. er því m.a. sá að samræma gjöldin, og skal ég aðeins nefna eitt dæmi, sem valdið hefur miklum erfiðleikum í framkvæmd.

Nú er það þannig, að varahlutir til bifreiða, til dráttarvéla og til báta, sem oft og tíðum eru alveg sams konar í hverja af þessum þremur tegundum, sem á að nota þá, eru tollaðir mismunandi: 77%, ef það eru bifreiðavarahlutir, 34–35%, ef það eru varahlutir í dráttarvélar, en 21%, ef þeir eiga að fara til báta. Tollyfirvöldin hafa lýst yfir, að orðið sé gersamlega óframkvæmanlegt að greina þarna sundur og sannreyna það, í hvað varahlutirnir eiga að fara, misnotkun orðin mikil og freisting til hennar ákaflega mikil. Það er því ein af umbótunum í þessu frv. að ákveða einn og sama toll, sem er 35% fyrir alla varahluti, til hvers sem á að nota þá, hvort sem er í báta, dráttarvélar eða almennar bifreiðar. Þetta er mjög mikil umbót til samræmingar fyrir alla í framkvæmd og dregur úr hættu á misnotkun eða eyðir henni. Má þannig nefna fjölmörg önnur dæmi, þó að þetta sé eitt hið stærsta.

Í þriðja lagi var ákveðið að semja hins nýju tollskrá eftir alþjóðlegri fyrirmynd. Það voru gerðar tilraunir á dögum Þjóðabandalagsins gamla að samræma tollskrár ýmissa landa í uppbyggingu þeirra, en sú viðleitni bar lítinn árangur. En árið 1950 var haldinn fundur margra þjóða í Brüssel í Belgíu, og þar var ákveðin og samþykkt ákveðin tollskrárfyrirmynd eða „Brüssel-nafnaskráin“, eins og hún hefur verið nefnd. Ísland var aðili að þessum samningi og undirritaði hann, en hefur ekki enn fullgilt þennan samning. Hins vegar hafa, að ég ætla, allar þjóðir Vestur-Evrópu og nokkrar fleiri, nema Ísland, staðfest og fullgilt þessa Brüssel-samþykkt og samið sín tollskrárlög eftir henni. Það þótti því sjálfsagt við endurskoðun tollskrárinnar að miða alla uppbyggingu hennar þannig, að hún væri samin eftir Brüssel-nafnaskránni. Þetta kostaði auðvitað gífurlega mikla vinnu, en er til mikils hægðarauka að öllu leyti og ekki sízt í öllum viðskiptum okkar við önnur lönd, sem búa við þessa sömu gerð tollskrár.

Í fjórða lagi var það tilgangur með endurskoðun þessarar tollskrár að lækka aðflutningsgjöld, þar sem þau voru orðin algerlega úr hófi. Í því sambandi má geta þess, að í nóv. 1961 lagði ríkisstj. fyrir Alþ, frv. til l. um lækkun allmargra tolla, og var þá gert ráð fyrir, að ef löglegur innflutningur héldist óbreyttur á þessum vörum, mundi sú tollalækkun rýra tekjur ríkissjóðs um 40—50 millj, kr. á ári. Ríkisstj. taldi hins vegar, að það væri upplýst mál, að svo mikill ólöglegur innflutningur væri á mörgum þessum vörum vegna of hárra tolla, að lækkun þeirra og lagfæring mundi ekki valda ríkissjóði tekjutapi, heldur gæti hann komið jafnsléttur út eða jafnvel hagnazt á því. Það þótti því sjálfsagt að gera þessa tilraun á árinu 1961, sumpart til þess að reyna að draga úr hinu mikla smygli, sem öllum var vitanlegt að átti sér stað, og um leið að lækka vöruverð á þessum vörum að verulegu marki fyrir allan almenning í landinu. Reynslan af þessari tilraun varð eins og hinir bjartsýnustu höfðu vonað. Það dró svo stórlega úr hinum ólöglega innflutningi, að í stað þess að ríkissjóður biði tekjutap af þessu, fékk hann á árinu 1962 af þessum vörum, sem lækkuð voru gjöld á, um 15 millj. kr. meiri tekjur en árið 1961.

Í tollskrárfrv., sem nú liggur fyrir, er haldið áfram á þessari sömu braut og færður niður tollur d tollháum vörum, þannig að algert hámark samkv. þessu frv. er 125%, en tollar hjá okkur eru hærri eða hafa verið hærri en þekkist meðal annarra frjálsra þjóða, þannig að tollar hafa verið iðulega milli 200 og 300% af vöru og komizt upp í 344% af einni vörutegund. Nú verður sem sagt hámarkið 125%. Og ég vil taka það fram, að því fer að sjálfsögðu fjarri, að þessar vörur, sem nú lækka verulega í tolli, séu allt saman munaðarvörur eða lúxusvörur. Í þeim er fjöldi vörutegunda, sem allur almenningur notar og þarf að nota, þó að ekki séu þær taldar með í vísitöluútreikningi, þannig að þessar lækkanir koma að sjálfsögðu allar fólkinu í landinu til góða.

Það eru þessi meginatriði, sem höfð voru til hliðsjónar við samningu tollskrárinnar. En um leið var auðvitað kostað kapps um að endurskoða ýmis þau ákvæði tollalaganna, sem reynslan hafði sýnt að væru úrelt eða þyrftu breyt. við, enn fremur að taka upp nýjungar og nýmæli, þar sem þess þótti þörf, miðað við okkar reynslu og reynslu annarra þjóða. En í sambandi við þessa endurskoðun alla varð suðvitað að hafa það í huga, að ekki yrði slíkt tekjutap fyrir ríkissjóð, að afkomu hans yrði hætta búin.

Niðurstaðan af þessari endurskoðun hefur orðið þessi varðandi fjárhag ríkisins: Ef við byggjum á innflutningi til landsins árið 1962 og reiknum út tolltekjur eftir núgildandi aðflutningsgjöldum og eins og þau mundu verða eftir nýju tollskránni eða við sama innflutning, þá mundi nýja tollskráin gefa nær 100 millj. kr. minni tekjur en núgildandi aðflutningsgjöld. Er nánari grein gerð fyrir þessu í aths. við frv.

Árið 1960 var ákveðið að útvega sveitarfélögunum nýjan tekjustofn. Var það gert með lagasetningu um jöfnunarsjóð sveitarfélaga og þá ákveðið, að sveitarfélögin skyldu fá fimmtung af smásöluskattinum, sem er 3% að upphæð, og sömuleiðis fimmtung af 8% innflutningssöluskattinum. Síðan hefur jöfnunarsjóður sveitarfélaganna haft þessar tekjur og þessum upphæðum síðan jafnað út meðal sveitarfélaganna eftir íbúatölu. Hefur þetta að sjálfsögðu orðið mikill fengur og lyftistöng fyrir sveitarfélögin og getað gert mögulega lækkun útsvara. Þegar þessi tollskrá var í undirbúningi, þurfti að sjálfsögðu að athuga, með hverjum hætti ætti að bæta það upp, að 8% innflutningssöluskatturinn fellur niður með gildistöku þessarar nýju tollskrár, en hluti sveitarfélaganna af þeim skatti hefur numið svipaðri upphæð og af 3% söluskattinum, eða um það bil. Samtals er gert ráð fyrir í fjárl. fyrir 1963, að jöfnunarsjóður sveitarfélaga fái um 104 millj. kr. að hluta sínum af þessum sköttum báðum. Í þetta tollskrárfrv, var sett bráðabirgðaákvæði fyrir árið 1963, hvernig með skyldi fara, þannig að greiða skyldi úr ríkissjóði til jöfnunarsjóðs það, sem á kynni að vanta, að næðust inn þessar 104 millj. Þetta ákvæði var við það miðað að sjálfsögðu, að hluti jöfnunarsjóðs af 3% söluskattinum kemur í hann fyrir allt árið, en hluti af 8% innflutningssöluskatti aðeins frá 1. jan. og fram til gildistöku tollskrárinnar, sem væntanlega verður 1. maí. Þurfti því að baeta það upp, sem þarna vantaði á, og var þetta gert með bráðabirgðaákvæðinu í frv. Þegar frv. fór í prentun, var hins vegar ekki ákveðið, hvaða aðferð skyldi hafa til frambúðar við að bæta jöfnunarsjóði sveitarfélaganna upp þetta afnám innflutningssöluskattsins, og var í rauninni aðallega um þrjár leiðir þar að ræða: Í fyrsta lagi að ákveða, að jöfnunarsjóður skyldi fá þeim mun meira af smásöluskattinum en hann fær nú og þá væntanlega 40% í staðinn fyrir 20% nú. Önnur leið er sú, að hann skyldi fá vissa prósenttölu af verðtollinum, eins og hann verður á hverjum tíma. Og í þriðja lagi sú aðferð að ákveða í fjárl. hverju sinni, hverjar skyldu vera tekjur jöfnunarsjóðs.

Um leið og það lá ljóst fyrir frá upphafi, að jöfnunarsjóði yrði séð fyrir a.m.k. sömu tekjum og honum voru áætlaðar og hann hefur samkv. gildandi lögum, þá var ekki endanlega ákveðið í ríkisstj., hverja af þessum þrem leiðum skyldi fara. Nú liggur það fyrir, að eðlilegast er að velja þá leiðina að taka ákveðna prósentu af verðtollinum, eins og hann verður, og verður núna á þessu þingi flutt og væntanlega lögfest frv. til l. um breyt. á l. um tekjustofna sveitarfélaga, en þar er kafli um jöfnunarsjóðinn, á þá leið, að hann skuli frá og með 1. jan. 1964 fá tiltekna prósentu af verðtollinum. Hins vegar þótti ekki ástæða til þess í tollskránni sjálfri að hafa ákvæði um þetta efni, því að ráðstöfun á tekjum ríkisins af verðtolli til frambúðar á náttúrlega ekki heima í tollskránni sjálfri, heldur ýmist í öðrum lögum eða fjárlögum.

Ég ætla, að ég þurfi ekki í þessari framsögu hér í síðari d. að viðhafa öllu lengri grg., en vísa til hinnar ýtarlegu grg. og aths. við frv., — legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.