18.04.1963
Neðri deild: 75. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

227. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta mikla frv., sem hér liggur fyrir, hefur þegar hlotið afgreiðslu í hv. Ed.

Þar voru gerðar á því nokkrar breytingar eftir till. meiri hl. fjhn. Hins vegar er það svo, að meiri hl. fjhn. í þessari hv. d. flytur engar brtt. við frv. Ekki mun það vera fyrir það, að þeir sjái ekki eða hefðu séð við nánari athugun ástæðu til þess, en það var bara enginn tími til að afgreiða málið á viðunandi hátt. Ég er ekki hér að ásaka mína meðnm. í fjhn. fyrir þetta. Sökin er hjá hæstv. ríkisstj., sem lagði þetta stóra mál svo seint fyrir, að ómögulegt er fyrir Alþingi að gera á því þá athugun, sem þurft hefði og þetta stóra mál verðskuldar.

Höfuðbreytingin, sem þetta frv. felur í sér frá núv. fyrirkomulagi, er sú, að eldri tollar eru færðir saman í eitt gjald. Vörumagnstollur á að mestu að falla niður. Fyrst þegar farið var að innheimta tolla ríkissjóðs hér á landi, mun það eingöngu hafa verið vörumagnstollur, sem á var lagður, og stóð svo um marga tugi ára. Þessi vörumagnstollur á nú aðeins að haldast á örfáum vörutegundum. Mér skilst, að það eigi að vera áfram vörumagnstollur á salti, 1 kr. á smálest, og kolum; 2 kr. á smálest. Einnig 3 jarðolíu, gasolíu og brennsluolíu, 35 aurar á hver 100 kg. Vörumagnstollur á að haldast á kartöflum, 20 aurar á kg, og á kvikmyndafilmum, 50 kr. á kg. Ég held, að þetta séu einu dæmin um vörumagnstoll, sem finnast í frv.

Tollur miðaður við vöruverð, eða svonefndur verðtollur, mun fyrst hafa verið upp tekinn hér á landi eftir fyrra stríðið. Verðtollur hefur farið ört hækkandi með hækkandi vöruverði. T.d. má nefna, að á valdatíma núv. ríkisstj., næstliðnum 4 árum, hafa verðtollar, þ.e. aðflutningsgjöld, sem miðast við vöruverð, en það eru verðtollurinn, söluskattar og innflutningsgjald, hækkað í heild um 203% eða því sem næst. Hluti jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er hér ekki meðtalinn. En vörumagnstollurinn hefur staðið í stað á þessu tímabili, vegna þess að hann miðast við magnið, en ekki verð vörunnar. Sameining aðflutningsgjaldanna í einn verðtoll þýðir, að framvegís taka þau öll breytingum með vöruverðinu alveg sjálfkrafa. Verðtollurinn hefur reynzt miklu betri mjólkurkýr fyrir ríkissjóðinn heldur en vörumagnstollurinn gamli. Þess vegna er sá síðarnefndi nú sleginn af, en hinn settur á. En það má búast við því, að miklar hækkanir á tollum komi innan skamms. eins og veríð hefur að undanförnu, ef haldið verður óbreyttri stefnu í efnahagsmálum, sem vel má nefna verðhækkunarstefnuna.

Árið 1960 var lögfestur sérstakur söluskattur á innfluttar vörur til viðbótar þeim eldri, og var þessi nýi skattur 8.8% af innflutningnum. Hann var talinn eiga að gilda til bráðabirgða, hefur þó verið framlengdur siðan um eitt ár í senn, og nú er endanlega horfið frá að telja hann bráðabirgðaskatt. Um það bil 2/3 af þessum viðbótarsöluskatti eru nú innlimaðir í verðtollinn til frambúðar, aðeins um 1/3 felldur niður, og er það túlkað af hæstv. stjórn sem lækkun á tollum. Þegar á það er litið, að á valdaskeiði núv. stjórnar hafa verðtollar til ríkisins hækkað um 203%, má segja, að þessi tilslökun, að sleppa 1/3 af þeim viðbótarsöluskatti, sem upphaflega átti aðeins að gilda til bráðabirgða, sé svo lítil, að hún sé naumast umtalsverð. Í aths. er áætlað, að lækkanir séu samtals 97 millj. á ári eða um 8.3%.

Þessi litla lækkun á tollabyrðinni nú í bili mun þó hafa átt að vera skrautfjöður í hatti ríkisstj. í komandi kosningum. En sú fjöður er ákaflega lítil, og verði stefnu núv. stjórnar í efnahags- og fjármálum fylgt áfram, mun sú litla fjöður endast aðeins örskamma stund. Tollalækkunin í heild er svo lítil, að það er ekki hægt að vega hana á reizlu framfærsluvísitölunnar. En þrátt fyrir það að breytingin á tollunum í heild samkv. frv. sé svona lítil, eru allmiklar breytingar á tollum á einstökum vörutegundum. Nefndin, sem samdi frv., fékk m.a. þau fyrirmæli frá ríkisstj., að hér eftir skyldi ekki reikna hærri toll en 125% af neinni vöru. Undanfarið hafa nokkrar vörur verið með hærra tollaálagi og þá fyrst og fremst þær, sem ekki teljast nauðsynjavörur, þó að þar hafi flotið með fáeinir gagnlegir hlutir. Í nál. mínu er birtur listi yfir slíkar vörur, sem áður báru hærri toll en 125%. Sá listi hefst á hömum og öðrum hlutum af fuglum og endar á tálflautum og mekaniskum söngfuglum. Þá birti ég einnig í nál, mínu lista yfir vörur, sem nú eru í lægri tollflokkum, en eiga að lækka í tolli, og annan yfir vörur; sem tollur hækkar á samkv. frv. í upptalningunni hef ég sleppt mörgum vörum, aðallega þeim, sem tollur breytist mjög lítið á, ýmist til lækkunar eða lækkunar.

Við þá athugun á frv., sem unnt var að gera á þeim skamma tíma, sem bað var hjá fjhn., hef ég komizt að þeirri niðurstöðu, að brýn þörf sé að gera breyt. á því til lagfæringar. Ég hef því leyft mér að flytja nokkrar brtt. á þskj. 679. Mörgu fleira hefði verið ástæða til að breyta, þó að ekki séu fluttar till. um það að sinni.

Ég vil þá, herra forseti, fara nokkrum orðum um brtt. mínar. Brtt. eru flestar við 1. gr. frv. og um lækkun tolla á einstökum vörum.

A-liður 1.. brtt. er við IX, kafla. Það er um, að te verði gert tollfrjálst eins og kaffi. Mér finnst það sanngjarnt, að þeir, sem heldur kjósa að drekka te en kaffi, njóti sömu kjara að því er tollfrelsi snertir.

Næst eru nokkrar brtt. við 59. kafla. Þar legg ég til, að nokkrar nauðsynjar til útgerðar, þ.e.a.s. færi og línur til fiskveiða, kaðlar, öngultaumar, fiskinet úr gerviefnum og fiskinet úr öðrum efnum, verði gerðar tollfrjálsar. Samkv. frv. á að greiða af þessu 4% toll.

Næst flyt ég brtt. við 73. kafla. Í þeim kafla eru m.a. girðingarnet. Samkv. frv. á að greiða af þeim 20% toll, en hins vegar er tollur á gaddavír samkv. frv: aðeins 15%. Mér finnst alveg sjálfsagt, að þessar vörur séu í sama tollflokki. Það hefur verið mjög varandi notkun á vírnetum í sveitum, því að það eru traustart og varanlegri girðingar í netum heldur en eingöngu úr gaddavír; svo að bændur hafa tekið upp að nota meira af netum. En það er ósanngjarnt, að það sé hærri tollur af þeim en af vír.

Þá er næst d-liður í brtt. minni. Þar eru till. um breyt. á 84. kafla. Fyrst er þar till. um dísilhreyfla, 200 hestöfl eða stærri. Samkv. frv. á að greiða af þeim 10% toll, en ég legg til, að þeir verði tollfrjálsir. Þetta eru svo nauðsynleg tæki, að mér finnst eðlilegt, að menn sleppi við að greiða toll af þeim.

Næstu tvær till. undir þessum stafl. eru um kælitæki til heimilisnotkunar. Ég legg til, að þau lækki úr 80% í 40%. Til samanburðar má geta þess, að frystivélasamstæður eru í 35% tolli í frv., og ég sé ekki ástæðu til, að þessi kælitæki, sem heimilin nota, borgi meira en helmingi hærri toll en greiddur er af frystivélasamstæðu. Þá legg ég til, að mjólkurskilvindur verði tollfrjálsar.

Næsti liður þarna eru uppþvottavélar til heimilisþarfa, sem eru í frv. í 80% tolli. Ég legg til, að þær færist niður í 50% toll, en í frv. eru einmitt aðrar slíkar uppþvottavélar en til heimilisnotkunar í 80% tolli, — og hvaða ástæða er til að gera þennan mun á vélunum eftir því, hvort þær eru notaðar á veitingahúsum t.d. eða á einstökum heimilum? Ég sé ekki ástæðu til að gera þann mun, legg til, að vélar til heimilisþarfa v erði færðar niður í 50%, svo að af þeim verði jafnhár tollur og af hinum.

Þá koma næst ýmis nauðsynleg tæki til landbúnaðar. Það er áberandi í þessu frv., að yfirleitt er hærri tollur settur á rekstrarvörur og nauðsynleg tæki til landbúnaðar en til sjávarútvegs. Ekki er þó hlutur sjávarútvegsins gerður of góður að mínu áliti. En það er engin sanngirni að láta landbúnaðinn búa við verri hlut. Ég legg því til, að nokkur tæki og vélar til landbúnaðar, sem nú eru í 10% tollflokki, verði gerð tollfrjáls. Það eru plógar, herfi, áburðardreifarar, aðrar jarðræktarvélar, sláttuvélar, upptökuvélar fyrir kartöflur, rakstrar- og snúningsvélar, aðrar uppskeruvélar og mjaltavélar. Ég tel óhjákvæmilegt að gera þessa lagfæringu á frv. Um leið og ég legg til, að fleiri nauðsynjar sjávarútvegsins verði gerðar tollfrjálsar, flyt ég þessar till. um, að ýmis tæki til landbúnaðar verði einnig gerð tollfrjáls.

Eins og ég sagði, er það yfirleitt þannig í frv., að tollur af vélum og tækjum til landbúnaðar er hærri en af nauðsynjum til sjávarútvegsins. Ég get nefnt um þetta þau dæmi, að margt af nauðsynlegum hlutum til sjávarútvegs er samkv. frv. í 2–4% tolli. Þannig eru netjakúlur, lóðarbelgir, fiskkassar, botnvörpuhlerar og bobbingar, nautshúðir í botnvörpur, staurar og spýtur í fisktrönur, síldartunnur, netja- og nótakork, fiskinet, færi og línur, kaðlar, öngultaumar, akkeri og drekar, sökkur og þess konar, skipsskrúfur, ratsjár, þetta er allt í 2–4% tolli. En hins vegar eru ýmis nauðsynleg tæki til landbúnaðar og rekstrarvörur til þess atvinnuvegar, eins og t.d. pappaumbúðir um mjólk, í 15% tolli, mjólkurbrúsar í 10% tolli, grafvélar og vélskóflur og jarðýtur í 25% tolli og þau tæki, sem ég var að nefna áðan, plógar, herfi, áburðardreifarar, sláttuvélar og aðrar heyvinnuvélar, mjaltavélar og upptökuvélar, í 10% tolli. Þarna er gert upp á milli atvinnugreinanna á þann hátt, að ég tel nauðsynlegt, að á því verði gerðar breytingar. Ég legg enn fremur til; að tollur af mjólkurvinnsluvélum og öðrum mjólkurbúsvélum, sem eru í þessum sama skala, verði lækkaður úr 35% í 15% og einnig af öðrum Landbúnaðarvélum.

Loks er brtt. við þann kafla um lækkun tolls á prjónavélum, strokvélum og fataþvottavélum. Sú skekkja er nú í frv., að strokvélar, sem svo eru nefndar, og fataþvottavélar til heimilisnotkunar eru settar í 80% toll, en slíkar vélar til þvottahúsa eiga að bera aðeins 50% toll. Hvers eiga heimilin að gjalda? Ég legg til, að tollur af heimilisvélunum verði sá sami og af vélum til þvottahúsanna. Það er alveg sjálfsagt mál.

Þá eru brtt. við 85. kafla, en í þeim kafla eru ýmis rafmagnstæki. Brtt. eru aðallega um tolllækkun á ýmsum heimilisvélum, svo sem ryksugum, hrærivélum, öðrum rafknúnum eldhúsvélum og rafmagnsknúnum búsáhöldum, rafmagnseldavélum, rafmagnsofnum, rafmagnshellum, rafmagnsstrokjárnum og rafmagnsvatnshitunartækjum. Þessar till. mínar eru í samræmi við till. í frv., sem flutt var á þessu þingi af tveim þm. Framsfl., hv. 7. þm. Reykv., Þórarni Þárarinssyni, og hv. 3. þm. Vesturl., Halldóri E. Sigurðssyni. Það frv. er á þskj. 55, en það hefur ekki fengizt afgr. í d. Í grg. með því frv. er vakin athygli á því, að ein stærsta stétt þjóðfélagsins, húsmæðurnar, hafi yfirleitt mjög langan vinnutíma. Nú sé miklu örðugra fyrir heimilin að fá vinnuhjálp en áður, en hins vegar hafi störf húsmæðranna orðið á ýmsan hátt fjölþættari en áður var, og afleiðing þessa sé sú, að húsmæðurnar gegni erfiðum störfum og vinnutími þeirra sé langur, en þeim sé hins vegar ætlað að annast þær stofnanir, sem þjóðfélaginu er mikilvægast að reynist vel og raunverulega eru þýðingarmesta undirstaða allra annarra stofnana þess, en það eru heimilin. Þá er á það bent í grg., að á síðustu árum hafi komið til sögu ýmsar heimilisvélar, sem bæði draga úr vinnu og erfiði. Hins vegar hafi löggjafinn litið svo furðulega á, að þessar vélar ætti að tollleggja sem lúxusvörur, og þess vegna séu nú mörg heimill alls ekki búin eða verr búin þessum vélum en vera skyldi, og það oft þau, sem hafa einna mesta þörf fyrir þær. Og að lokum segja þeir í sinni grg., að því beri að treysta, að Alþ. telji störf húsmæðra svo þýðingarmikil, að hætt verði að tollleggja sem lúxusvörur vélar og tæki, er létta þeim erfiðustu störfin og stytta hinn langa vinnutíma þeirra. Þetta tel ég allt rétt vera, sem fram kemur í grg. með frv. þeirra tveggja hv. þm.

Ég vil vekja athygli á því, að samkv. frv. er til þess ætlazt, að 35–40% tollur verði greiddur af mörgum rafmagnstækjum, en hins vegar eru þessi nauðsynlegu heimilistæki og vélar tolllögð með 80%, og ég legg til í mínum brtt., að sá tollur verði lækkaður niður í 40% .

Í þessum sama kafla eru ratsjár fyrir skip og radíómiðunartæki. Af þeim á að greiða 4% toll. Ég legg til, að þau verði tollfrjáls.

Næst vil ég nefna brtt. mína við 87. kafla. Hún er um hjóladráttarvélar. Af þeim á samkv. frv. að greiða 10% toll. Ég legg til, að þær verði tollfrjálsar eins og skipin. Það er svo komið nú um atvinnuhætti hér, að dráttarvél er bóndanum jafnnauðsynleg og skipið útgerðarmanninum, en dráttarvélarnar hafa tvöfaldazt í verði á því kjörtímabili, sem nú er að enda. Fyrst og fremst er sú mikla verðhækkun vegna gengisbreytinganna 1960 og 1961. Um leið hækkaði verðtollur af sjálfu sér og söluskatturinn mjög mikið í krónutölu, og svo lagði núv. ríkisstj. á þær nýtt aðflutningsgjald, þ.e.a.s. viðbótarsöluskattinn, 8.8%, og þar að aukí smásöluskattinn 3%. Tollar og söluskattur á dráttarvélum hafa allt að því þrefaldazt að krónutölu siðan 1958, eða hækkað um nálægt 185%. Nú er lagt til í frv., að tollur á dráttarvélunum lækki niður í 10%. Það er út af fyrir sig veruleg tilslökun, en þó er hér of skammt gengið. Þrátt fyrir tollalækkunina samkv. frv. verða dráttarvélarnar nú um 66% dýrari en þær voru 1958. Þetta er miklu meiri hækkun en orðíð hefur á afurðaverði bændanna á sama tímabili. Bóndinn þarf nú eftir tollalækkunina, ef samþ. verður, að láta fast að 20% meira magn af sauðfjárafurðum og um 23% meira magn af mjólk til kaupa á dráttarvél heldur en hann þurfti að láta til kaupa á vélinni 1958. Og þó að brtt. mín um að gera dráttarvélarnar tollfrjálsar verði samþ., þurfa bændur að láta til muna meira af sínum afurðum til kaupa á dráttarvél nú en 1958.

Næsta brtt. mín er við 90. kafla í 1. gr. frv. Ég legg þar til, að bergmálsdýptarmælar, asdictæki o.fl. verði tollfrjálst, en af því á að reikna 4% toll samkv. frv. Og loks er síðasta brtt. við þessa gr., 97. kafla, um, að fiskiönglar verði tollfrjálsir.

2. brtt. mín er við 3. gr. frv. og er í tveimur liðum. Sá fyrri, a-liðurinn, er um það, að 30. tölul. gr. breytist. Harm er þannig nú í frv., með leyfi hæstv. forseta, það er endurgreiðsluheimild: „Að endurgreiða gjöld af hreyflum minni en 200 hestöfl, sem settir eru i báta eða notaðir til raflýsingar á sveitabæjum, sem svari því, að af vélunum sé greiddur 10% verðtollur.“ — Ég legg til, að heimildin nái til endurgreiðslna á öllum tollinum. Það verður að teljast mjög sanngjarnt, að tollfrjálsir mótorar fáist til þessara nota. Ég vil segja það um bátana, útvegsmenn mega gjarnan fá tollfrjálsa mótora í þá, og ég vil vekja athygli á því, að hlutur þeirra manna í sveitum landsins, sem ekki hafa fengið rafmagnið frá samveitunum og e.t.v. hafa litla von um að fá það þaðan, er sízt of góður, þátt þeir þurfi ekki að borga tolla til ríkisins af mótorum til ljósastöðvanna.

B-liður 2. brtt. minnar er um það, að á eftir 30. lið komi nýr liður, sem hljóði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Að endurgreiða hluta innflutningsgjalda af byggingarefni í íbúðarhús eftir stærð þeirra. Skal endurgreiðslan nema 110 kr. á hvern rúmmetra íbúðar. Endurgreiðsla nær þó ekki til þess hluta íbúðar, sem er umfram 360 rúmmetra. Ráðh. setur nánari ákv æði um endurgreiðslu þessa.“.

Allir vita, hve kostnaðurinn við byggingar hefur aukizt stórkostlega síðustu árin, sem afleiðingar af gengisbreytingum núv. ríkisstj. og öðrum ráðstöfunum hennar, svo sem vartahækkuninni. Hámark láns frá húsnæðismálastjórn til byggingar íbúðarhúsa er nú 150 þús. kr. á íbúð. Láta mun nærri, að öll þessi lánsupphæð fari til að borga þá hækkun á kostnaði við að koma upp íbúð af meðalstærð, sem orðið hefur á valdatíma núv. ríkisstj. Það mun láta nærri, að allt lánið fari til þess að borga aðeins þessa verðhækkun. Svo kuldalega er nú búið að unga .tólkinu, sem er að erfa landið og þarf að byggja upp heimili sín, og að öðrum, sem þurfa að byggja yfir sig. Framsóknarmenn hafa undanfarið flutt till. á Alþ. um lækkun varta og auknar lánveitingar til íbúðarhúsabygginga. Við hefðum kosið að létta vandræði fólksins eftir þeim leiðum, en stjórnarflokkarnir hafa beitt sér á móti þessu. Því gerum við nú tilraun til þess að fá samþykkta endurgreiðslu á hluta af aðflutningsgjöldum af byggingarefni í íbúðarhús af hóflegri stærð. Það mun láta nærri, að þetta séu um 4/5 hlutar af tollinum af byggingarefninu, sem við viljum veita heimild til að endurgreiða. Enginn fær endurgreiðslu samkv. till. okkar fyrir þann hluta íbúðar, sem er umfram 360 rúmmetra, en þeir, sem byggja stærra, fá hins vegar endurgreiðsluna að því marki. En þetta stærðarmark mun ákveðið við lánveitingar frá húsnæðismálastjórn. Víst mundi þetta létta töluvert þær óheyrilegu byrðar, sem lagðar hafa verið á þá, sem þurfa að koma upp íbúðarhúsum, og þess er mjög brýn þörf.

Síðasta brtt. mín á þskj. 679 er við 40. gr. frv. Þegar viðbótarsöluskatturinn var á lagður 1960, var ákveðið, að hluti af honum skyldi renna til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Síðar var fastákveðið í lögum, að hluti jöfnunarsjóðs skyldi vera 20% af skattinum. Nú er viðbótarsöluskatturinn innlimaður í verðtollinn, eins og áður segir. Í frv. þessu er ákveðið, að greiða skuli af innheimtum aðflutningsgjöldum til jöfnunarsjóðs á árinu 1963 það, sem á kann að vanta, að sjóðurinn fái alls 104 millj. á því ári samtals af bráðabirgðasöluskattinum, sem gildir til 1. maí þetta ár skv. frv., og af smásöluskattinum. Ég vek athygli á því, að engan veginn er víst, að jöfnunarsjóður fái á þessu ári skv. þessu ákvæði í frv. jafnmikið og hann hefði fengið að óbreyttum lögum, en skv. l. frá síðasta þingi átti hann að fá 20% af viðbótarsöluskattinum. Það er ekki trygging fyrir því, að hann fái þetta allt skv. þessu ákvæði frv. á þessu ári. Þó er hitt athugaverðara í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir, að jöfnunarsjóður sveitarfélaga fái neitt af aðflutningsgjaldatekjum eftir næstu áramót. Eftír að frv. þetta kom fram og athygli var vakin á þessu, hefur þó hæstv. fjmrh. látið þess getið, að hann teldi, að jöfnunarsjóður þyrfti að fá þetta bætt á einhvern hátt. En engar tillögur hef ég séð frá hæstv. stjórn enn um það mál. Ég tel því rétt að ákveða hlut jöfnunarsjóðsins til frambúðar, um leið og þetta frv, er samþ., og flyt því brtt. við 40. gr. um þetta, en hún er þannig, með leyfi hæstv. forseta, að aftan við næstsíðustu málsgr., sem er einmitt um þessa greiðslu til sjóðsins á þessu ári, komi svo hljóðandi viðbót: „Greiða skal síðan, eftir 1963, árlega til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 5% af innheimtum aðflutningsgjöldum skv. tollskrá.“

Ég hef ekki; herra forseti, að svo stöddu lagt fram fleiri brtt. Margt hefði þó þurft að taka til nánari athugunar en mögulegt hefur verið á þeim allt of skamma tíma, sem þinginu hefur verið skammtaður til afgreiðslu á þessu stóra máli. Trúlega verður lögunum breytt innan skamms. Ég legg svo til, að frv, verði samþ. með þeim breyt., sem ég flyt till. um á þskj. 679.