18.04.1963
Neðri deild: 75. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

227. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. l. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Það eru aðeins fá orð til viðbótar út af ræðu hæstv. fjmrh.

Hann var að segja, að frsm. minni hl., eins og hann orðaði það, og ýmsir fleiri hefðu deilt á stjórnina fyrir undirbúning þessa máls, í fyrsta lagi fyrir það að skipa embættismenn til þess að undirbúa málið. Ég kannast alls ekki við þetta hvað mig snertir, að ég hafi deilt nokkurn hlut á ráðh, fyrir að velja þessa 4 embættismenn, sem hann valdi til þess að undirbúa málið. Ég minntist ekkert á það í minni framsöguræðu. En það, sem ég segi um þetta í nál., er þannig, með leyfi hæstv, forseta:

„Tollskráin er búin að vera rúmlega 3 ár í smíðum. Það var 8. des. 1959, sem fjmrh. skrifaði fjórum embættismönnum og fól þeim að endurskoða tollalöggjöfina. Það er vel skiljanlegt, að þetta tæki langan tíma. Tollskráin er mikill smíðisgripur. Smiðirnir hafa unnið mikið verk og þeir hafa gengið vel frá gripnum að formi til.“

Hver getur fundið einhverja ádeilu í þessum ummælum, sem ég hef um þetta haft? Og ég skal lýsa yfir því, að ég tel, að þetta hafi verið mjög færir menn, þessir embættismenn, einmitt til að undirbúa tollskrá, sem ráðh. hitti á að velja til þess. Ég get því ekki tekið þessi ummæli hæstv. ráðh. til mín. Ég hef ekkert deilt á hann fyrir þetta.

Þá segir hann í öðru lagi, að það hafi verið deilt á stjórnina fyrir það, að kaupmenn og iðnrekendur hafi fengið málið til athugunar. Um þetta segi ég í upphafi nál. míns á þskj. 662:

„Loks er hún komin, tollskráin nýja, í frv. formi. Hún var lögð fyrir Alþingi 27. marz. Sagt er, að hún hafi áður verið til skoðunar hjá kaupsýslumönnum og iðnrekendum, til þess að þeir gætu kynnt sér málið og komið aths. á framfæri. En alþm. er ætlaður allt of skammur tími til að íhuga þetta stóra mál.”

Nú hefur einmitt hæstv. ráðh. í ræðu sinni staðfest, að þetta er rétt, sem ég hafði heyrt. Það væri réttur sá orðrómur, að hann hefði sent þessum aðilum o.fl. tollskrána til athugunar, meðan hún var á undirbúningsstigi. Ég hef ekkert deilt á hann fyrir þetta, ekki einu orði. Þarna er bara sagt frá því, sem ég hef heyrt og ráðh. hefur staðfest að er rétt, en engin ádeila í þessu.

Svo er það í þriðja lagi þetta með ræðuna í stjórnmálafélaginu Verði. Ég hef nú ekkert nefnt hana, mér hefur ekki þótt taka því, þó að hún hafi sennilega verið merkileg. Það er ekkert að henni vikið, hvorki í mínu nál, né í framsöguræðu, — ekki með einu orði vikið að því. Það má náttúrlega um það tala og um það deila jafnvel, hvaða hátt ráðh. eigi að hafa á í þessum efnum, en ég hef látið það alveg kyrrt liggja. Það, sem ég hef fundið að í sambandi við þetta mál, er það, hvað Alþ., er skammtaður naumur tími til að íhuga það. Þetta er vítavert, og ég hef fundið að því, bæði í mínu nál. og minni framsöguræðu, og þetta er aðfinnsluvert. Það er það, sem ég hef fundið að í sambandi við málið, og þetta er viðurkennt alveg eins af stuðningsmönnum stjórnarinnar og öðrum, að hér hafi verið hafður á allt annar háttur en átti að vera. Þeir segja það, stuðningsmenn stjórnarinnar, hver um annan þveran, að þetta sé svo stórt mál, að þingið hefði þurft að hafa miklu lengri tíma til að íhuga það, til þess að afgreiðslan gæti verið forsvaranleg. Þetta er alveg rétt, og það er þetta sem hæstv. ríkisstj. er ámælisverð fyrir. Hér liggur hennar sök.

Ég þarf í raun og veru ekki að hafa þessi orð fleiri. Það lítur út fyrir, að hæstv. ráðh. sé þannig orðinn, að honum finnist alltaf verið að deila á sig, jafnvel þó að ekki sé snefill af ádeilu í ummælum manna, hvorki í ræðu né riti. Það stendur einhvers staðar: „Illur á sér ills von.“ Ég veit ekki, hvort má heimfæra þetta undir það, ég skal ekki segja um það.

En svo sagði hæstv. ráðh., að ég hefði einu sinni verið formaður í nefnd, sem hefði átt að undirbúa skattamál, skattalagabreytingar, og eftirtekjan hefði orðið lítil. Ég læt mig litlu skipta hans dóm um það, því að það eru aðrir, sem sögðu sitt álit um það á sínum tíma. Það er rétt, að ég var með öðrum mönnum á tímabili að undirbúa breyt. á skattalögum, og af þeirri vinnu spruttu ný skattalög, þar sem voru gerðar mikilsverðar lagfæringar á skattamálunum, bæði fyrir einstaklinga og félög. Það getur verið, að hæstv. ráðh. sé búinn að gleyma þessu. Það eru ýmsir aðrir, sem muna eftir því og kannast við það.