18.04.1963
Efri deild: 77. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

246. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Snemma árs 1960 lagði ríkisstj. til, að Alþingi samþykkti að fá sveitarfélögum landsins nýjan tekjustofn, hluta af söluskatti. Var lögfest á því þingi, að renna skyldi til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fimmtungur af 3% smásöluskattinum og fimmtungur af 8% innflutningssöluskatti. En úr jöfnunarsjóðnum skyldi fé þessu skipt milli sveitarfélaganna eftir íbúatölu. Það fé, sem þannig hefur runnið til sveitarfélaganna af hinum nýja tekjustofni um jöfnunarsjóð, nam á árinu 1960 56 millj., árið 1961 71 millj., árið 1962 83 millj. og árið 1963 samkv. áætlun fjárl. 104 millj., eða samtals á þessum 4 árum 314 millj. kr.

Með frv. til nýrrar tollskrár er gert ráð fyrir m.a., að innflutningssöluskatturinn falli niður. Þarf því að gera sérstakar ráðstafanir til þess, eins og sagt er í grg. með tollskrárfrv., að bæta jöfnunarsjóði þann tekjumissi. 3% smásöluskatturinn og hluti jöfnunarsjóðs af honum stendur áfram, en bæta þarf jöfnunarsjóði missi fimmtungsins af 8 % innflutningssöluskatti. Þar voru tvö viðfangsefni, annað að ákveða, hvað gera skyldi fyrir árið 1963, og hitt, hvað gera skyldi framvegis. Varðandi árið 1963 þurfti sérákvæði, vegna þess að nýja tollskráin tekur gildi væntanlega 1. maí og kemur því í jöfnunarsjóðinn á þessu ári nokkur hluti af innflutningssöluskattinum fyrir það ár, eða fyrir 4 fyrstu mánuði ársins. Um petta var sett sérákvæði í tollskrárfrv. og þar ákveðið, að greiða skuli í jöfnunarsjóð á árinu 1963 það, sem á vantar, að hann fái á því ári 104 millj., en það er sú upphæð, sem fjárl. hafa gengið út frá.

Ég tók fram í framsöguræðu i þessari hv. d. fyrir tollskránni, að varðandi framtíðarlausn þessa máls væru einkum þrjár leiðir, sem ræddar hefðu verið, og hefði ríkisstj. ekki ákveðið, þegar tollskráin var lögð fram, hverja af þessum þrem lefðum ætti helzt að velja. Hins vegar tók ég það fram þá við 1. umr. tollskrárinnar, að ég teldi rétt, að áður en þessu þingi ljúki, verði lagðar fram frá ríkisstj. ákveðnar till. um frambúðarlausn þessa máls. Niðurstaðan hefur orðið sú að velja þá leiðina af þessum þremur, er ég nefndi, að ákveðinn hundraðshluti af verðtollstekjum ríkissjóðs renni í jöfnunarsjóðinn. Það er efni þessa frv. að gera þá breyt. á l. um jöfnunarsjóð, sem er hluti af löggjöfinni um tekjustofna sveitarfélaga, að þetta verði lögfest.

Þegar ákveða skyldi, hvaða prósentu af verðtollstekjum skyldi ákveða, ber að hafa það í huga, að á árinu 1962 nam hluti jöfnunarsjóðs af innflutningssöluskattinum um það bil 4.3% af þeim aðflutningsgjöldum, sem gert er ráð fyrir að verðtollurinn hefði orðið samkv. frv. um tollskrá miðað við innflutninginn 1962. Rétt hefur þótt að hækka þessa prósentu nokkuð og ákveða 5%, og er það gert með 1. gr. frv. Það er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, þar sem ákvæði í tollskránni gildir fyrir þetta ár, að þetta frv. taki gildi 1. jan. 1964 og frá þeim tíma renni í jöfnunarsjóð fimmtungurinn af 3% smásöluskattinum, eins ag verið hefur, og auk þess 5% af verðtollstekjum ríkissjóðs.

Ég vænti þess, að hv. þd. geti fallizt á að láta þetta mál, sem er mjög einfalt í sjálfu sér og ég ætla að enginn ágreiningur sé um, ganga gegnum þessa hv. d. í dag og án þess að því verði vísað til n. Ég legg til, að því verði vísað til 2. umr.