19.04.1963
Neðri deild: 77. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

246. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Árið 1960 var svo ákveðið, að hluti af söluskatti skyldi renna til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og því fé varið til þess að skipta milli sveitarfélaganna eftir íbúatöla þeirra. Það var svo ákveðið, að fimmtungur af 3% smásöluskattinum skyldi renna í jöfnunarsjóð og enn fremur fimmtungur af 8% innflutningssöluskattinum. Með tollskránni nýju, sem væntanlega verður afgreidd sem lög nú í dag, er gert ráð fyrir, að einn verðtollur komi í stað þeirra aðflutningsgjalda, sem verið hafa. Af því leiðir, að innflutningssöluskatturinn fellur niður.

Eins og tekið er fram i grg. tollskrárfrv. og ég skýrði í framsöguræðu fyrir þessu máli, var nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að bæta jöfnunarsjóði upp þennan tekjumissi. Þar var um tvennt að ræða: annað, hversu skyldi ráðstafa þessu fyrir árið í ár, og hins vegar til frambúðar. Fyrir árið í ár fær jöfnunarsjóðurinn fimmtung 8% innflutningssöluskattsins fram til 1. maí, þá er gert ráð fyrir, að tollskráin gangi í gildi, en að öðru leyti er svo ákv eðið með bráðabirgðaákvæði eða með ákvæði síðustu gr. tollskrárinnar, að til viðbótar skuli greiða í jöfnunarsjóð það, sem á vantar til þess að náist sú upphæð, sem fjárlög gera ráð fyrir, 104 millj. Varðandi framtíðina, þ.e.a.s. þá skipun, sem skuli taka gildi um næstu áramót og gilda framvegis, voru þrjár leiðir, sem til greina komu: í fyrsta lagi að hækka hluta sveitarfélaganna af smásöluskattinum, í öðru lagi að ákveða hverju sinni í fjárl., hversu stóran hluta jöfnunarsjóðurinn skyldi fá, og í þriðja lagi að ætla honum ákveðinn hundraðshluta af verðtollstekjum ríkissjóðs.

Þegar ég lagði tollskrárfrv. fyrir hv. Ed., gerði ég ýtarlega grein fyrir því, að þessar þrjár leiðir kæmu til greina og að á þessu þingi mundi verða lagt fram frv, til frambúðarlausnar ú málinu. Niðurstaðan hefur orðið sú að velja síðastnefndu leiðina, þannig að ákveða vissa prósentu af verðtollstekjum. Ef miðað er við tekjur jöfnunarsjóðs af innflutningssöluskattinum árið 1962, þá reiknast hagstofunni svo til, að samsvarandi upphæð ætti að vera 4.3% af verðtollstekjunum, eins og þær mundu verða samkv. nýju tollskránni miðað við innflutninginn 1962. Rétt hefur þótt að hafa þennan hundraðshluta heldur ríflegri, og er því í þessu frv. gert ráð fyrir, að jöfnunarsjóður skuli hljóta 5% af verðtollstekjum ríkissjóðs, eins og þær verða á hverjum tíma, sem komi i stað fimmtungsins af 8% innflutningssöluskattinum.

Ég vænti þess, að um þetta mál verði full samstaða i þessari hv. d., eins og var í Ed. Í Ed. var málið látið ganga áfram, án þess að því væri vísað til n., og geri ég ekki till. um, að því sé vísað til n. í þessari hv. d., legg til, að því sé vísað til 2. umr., og vænti þess, að það fái skjóta afgreiðslu og greiða í þessari d. eins og hinni efri.