18.04.1963
Efri deild: 75. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

242. mál, fasteignamat

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað frv. þetta, eftir því sem tök hafa verið á, en frv. var mjög seint fram komið og þess vegna hefur ekki gefizt kostur á að athuga það sem skyldi. Aftur á móti er lögð á það áherzla af yfirfasteignamatsnefndinni, að frv, fáist afgr. á þessu þingi, með hliðsjón af því, að n, telur, að nauðsynlegt sé að fastmóta þá starfshætti, sem hún telur þörf að hafa í sambandi við matið, en mjög vanti á í núgildandi löggjöf að séu nægilega skýrt markaðir, auk þess sem í núgildandi l. séu ýmis atriði, sem beinlínis eigi ekki við lengur og sé því þörf á að breyta.

Enda þótt allshn. hefði talið, að æskilegt hefði verið að hafa þetta frv. lengur til athugunar, hefur n: samt orðið sammála um að leggja til, að málið yrði afgreitt, ekki hvað sízt með hliðsjón af því, að frv. er undirbúið af yfirfasteignamatsnefndinni sjálfri, og má því ætla, að þar sé um þá sérþekkingu að ræða, sem nauðsynleg er til þess að marka þá stefnu, sem eðlilegt er að fylgja við grundvöll matsins. Engu að síður eru alltaf viss atriði í löggjöf sem þessari, sem geta orkað tvímælis, og allshn. hefur við athugun málsins talið nauðsynlegt að leggja til, að á því verði gerðar vissar breytingar, sem að vísu eru ekki stórvægilegar, en þó sumar hverjar þess eðlis, að þær breyta nakkuð um efni málsins. Skal ég víkja aðeins örfáum orðum að þessum brtt., sem eru fluttar á sérstöku þskj., nr. 672.

Fyrsta brtt., við 8. gr. frv., er eingöngu orðalagsbreyt. til þess að taka af vafa um það, hvað átt er við í gr., en breytir ekki efnisniðurstöðu.

11. gr. frv. felur í sér allverulegar breyt. frá þeim reglum, sem nú gilda um mat fasteigna. Þar er gert ráð fyrir, eins og greinin er í frv., að undanþegnar fasteignamati séu tilteknar opinberar eignir. Að vísu geta þar einnig verið til einkaeignir eða félagseignir, svo sem dæmi eru til um sjúkrahús, barnaheimili og elliheimili og raunar einnig kirkjur, en eins og gr. er í frv., er hún í samræmi við ákvæði um það, hvaða eignir séu undanskildar fasteignaskatti. Allshn. gat ekki fallizt algerlega á það sjónarmið, sem þarna kemur fram, og taldi eðlilegt, að yfirleitt allar húseignir væru metnar til fasteignamats, enda þótt ekki væru greidd af þeim fasteignagjöld, auk þess sem í ýmsum sérlögum eru ákvæði, þar sem er einmitt miðað við fasteignamat eigna í sveitarfélögum, og þess vegna raunverulega nauðsynlegt að hafa slíkar eignir metnar. N, leggur því til í sinni brtt., að þessari grein frv. verði breytt á þann veg, að allar húseignir verði metnar, þ.e.a.s. kirkjur, skólahús, vitar, sjúkrahús, elliheimili, barnaheimili og þinghús, en telur hins vegar ástæðulaust að vera að meta almenn þjónustufyrirtæki, sem raunverulega að dómi yfirfasteignamatsnefndarinnar eða formanns hennar, sem allshn. ræddi við, er illgerlegt eða næsta ógerlegt að meta eftir hinum venjulegu reglum, sem gert er ráð fyrir að fylgt sé. Er því lagt til af hálfu allshn., að auk þess sem vegir og torg og almenningsgarðar séu ekki metnir, þá verði ekki heldur metin almenn þjónustutæki, svo sem rafveitur, vatnsveitur, skolpveitur og hafnargerðir. En í reynd munu þessi fyrirtæki ekki hafa verið metin, þannig að hér er ekki um efnislega breytingu að ræða frá því, sem framkvæmt hefur verið um fasteignamatið.

Brtt. við 20. gr. er einnig formlegs eðlis og felur ekki í sér neina efnisbreytingu, en n. telur, að hún sé heppilegar orðuð á þann veg, sem hún leggur til.

4. brtt. er einnig ekki bein efnishreyting, heldur orðalagsbreyting, sem n. telur að betur fari, eins og hún leggur til, að sú mgr. hljóði.

Aftur á móti er 22. gr. frv., eins og hún hljóðar í frv., þess efnis, að gert er ráð fyrir, að fasteignamatsnefndir allar starfi áfram. Í yfirfasteignamatsnefndinni var ágreiningur um það efni, svo sem hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir, þegar hann lagði frv. hér fyrir, og það er niðurstaða allshn. að leggja til, að þessari gr. verði breytt á þann veg, að hin fyrri regla gildi áfram, að það séu úttektarmenn hver í sínum hreppi, sem annist þessi störf, eins og verið hefur. Úttektarmenn þurfa hvort sem er að vera til eftir sem áður, og þar sem þeir eru ekki til staðar, þá verði tilnefndir menn á þann sama hátt sem gert hefur verið.

Það má auðvitað færa rök fyrir því, að það sé heppilegt að hafa n. starfandi áfram með hliðsjón af því, að það geti gætt meira samræmis í því mati. En hins vegar er því ekki að leyna, að það er nokkurn veginn öruggt, að af því mun leiða verulega aukinn kostnað, enda er gert ráð fyrir því í grg. frv., að svo kunni að vera, og enn fremur minnkar það þörfina á því að hafa þessar nefndir, að nú er gert ráð fyrir því, að yfirfasteignamatsnefnd sé permanent stofnun, þannig að hún starfar áfram og á þá að geta séð um það að gefa út

þær reglur, sem hægt er að hafa til hliðsjónar, þannig að mikið misræmi verði ekki í mati á hinum einstöku stöðum. Það er því niðurstaðan að leggja til, að sú skipan verði á þeim málum, sem verið hefur.

B-liður 5. brtt. er fluttur eftir ósk yfirfasteignamatsnefndarinnar, sem er nauðsynlegt ákvæði vegna þess, að fasteignamatið mun standa yfir í alllangan tíma, og talið, að það muni ekki taka gildi fyrr en kannske eftir 3–4 ár.

Í frv. er gert ráð fyrir, að yfirfasteignamatsnefnd leggi úrskurð á kærur út af mati, en það þykir óeðlilegt, að það komi til framkvæmda fyrr en aðalmatið hefur verið framkvæmt, og gildir sú skipan þangað til, sem verið hefur, og er hér því raunverulega aðeins um bráðabirgðaákvæði að ræða.

Svo sem kemur fram í nál. allshn., hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til þess að flytja eða styðja frekari brtt., sem fram kunna að koma, en það er hins vegar skoðun n., að eftir atvikum sé hægt að fallast á að samþykkja frv. með þeim breytingum, sem n. hér sameiginlega leggur til að á því verði gerðar, enda þótt það skuli tekið fram, að það kunni að vera ýmis önnur atriði, sem einstakir nm. hefðu haft áhuga á að hafa á annan veg. En flest þeirra atriða eru þannig, að þau hafa ekki mikla efnislega þýðingu, og miðað við þann skamma tíma, sem til umráða var, þótti ekki ástæða til þess að hreyfa frekari breytingum.