09.04.1963
Neðri deild: 69. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (1277)

243. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Á undanförnum árum hafa komið í ljós ýmsir annmarkar á framkvæmd gildandi laga um skemmtanaskatt. Undan því hefur mjög verið kvartað, að skemmtanaskatt skal greiða af samkomum ýmissa félaga og félagssamtaka, ef þar fer fram einhver dans. Hefur þetta verið til trafala starfsemi ýmissa félaga, sem hafa viljað nota tekjuafgang af rekstri slíkra skemmtana til eflingar menningarstarfsemi sinni. Þá hafa leikfélög hér í Reykjavík og víðs vegar úti um land einnig kvartað undan því, að greiða hefur þurft skemmtanaskatt af aðgangseyri að leiksýningum. Og sömuleiðis hafa þeir, sem hljómleika hafa haldið, borið sig illa undan því að þurfa að greiða skemmtanaskatt af aðgangseyri að slíkum hljómleikum. Þá hafa af hálfu hins unga íslenzka kvikmyndaiðnaðar einnig verið uppi óskír um að létta greiðslu skemmtanaskatts af sýningu íslenzkra kvikmynda.

Ríkisstj. hefur talið rétt að ganga til móts við þessar óskir, sem á undanförnum árum hafa orðið æ háværari. En ef það er gert, mundi það þýða nokkra lækkun á skemmtanaskatti. Hins vegar eru þeir aðilar, sem njóta tekna af skemmtanaskatti, mjög fjárþurfi, en hann skiptist, sem kunnugt er, til helminga milli félagsheimilasjóðs og Þjóðleikhúss, en 10% álag á skemmtanaskatt gengur til rekstrar sinfóníuhljómsveitar. Sérstaklega þarfnast félagsheimilasjóður mjög aukinna tekna til þess að geta styrkt byggingu félagsheimila víðs vegar um landið, eins og gert er ráð fyrir í lögum um félagsheimilasjóð.

Ef gera á hvort tveggja, annars vegar að sniða þá annmarka af skemmtanaskattheimtunni, sem ég gat um áðan, þ.e.a.s. að undanþiggja þær tegundir skemmtana, sem ég nefndi, skemmtanaskatti, en hins vegar auka tekjur félagsheimilasjóðs og Þjóðleikhúss, er einsætt, að nauðsynlegt er að finna nýjan skattstofn, þ.e. auka skemmtanaskattinn með einhverjum hætti. Hefur verið á það bent, að mikið misræmi hafi undanfarin ár verið i innheimtu skemmtanaskatts að því leyti, að heimtur hefur verið skemmtanaskattur af inngangseyri að dansleikjum, þar sem vín hefur ekki verið haft um hönd, jafnvel á unglingaskemmtunum, en hins vegar hafa þeir, sem sækja þau skemmtihús hér í Reykjavík og annars staðar, sem hafa vínveitingaleyfi, engan skatt þurft að greiða, af því að ekki hefur verið seldur aðgangseyrir að þessum vínveitingahúsum. Þannig hafa starfað svo að segja hlið við hlið hér í Reykjavík hús, sem annast vínsölu og láta dansa, en einskis aðgangseyris krefjast af þeim, sem húsin sækja, þannig að þar er ekki um neina skemmtanaskattheimtu að ræðs, en á hinn bóginn hafa starfað hús, sem verða að krefjast aðgangseyris að sínum dansleikjum, af því að þar er ekki um vínveitingaleyfi að ræða, og þá hefur orðið að greiða skemmtanaskatt af aðgöngumiðum að þessum dansleikjum. Þetta er misrétti, sem mjög æskilegt er að bæta úr. Þess vegna hafa verið uppi þær hugmyndir, að þeir, sem reka vínveitingahús, krefjist nokkurs aðgangseyris fyrir inngöngu í þau hús og sá aðgangseyrir skiptist síðan í skemmtanaskatt og almennan aðgangseyri að húsinu.

Það er lagt til í þessu frv., að þessi leið verði farin, og hefur það verið gert í samráði við samtök veitingamanna, og eru þær reglur, sem hér er gert ráð fyrir að teknar verði upp varðandi innheimtu aðgangseyris að vínveitingahúsum, settar í samráði við samtök veitingamanna. Er gert ráð fyrir, ef þetta frv. verður að lögum, að heimtur verði 15 kr. aðgangseyrir að vínveitingahúsum, þar sem er dansað. 10 kr. af þessum 15 kr. skulu vera skattur, skemmtanaskattur og menningarsjóðsgjald, en 5 kr. skulu renna til hússins sjálfs sem greiðsla á þeim kostnaði, sem þessi aðgöngumiðasala og almennt eftirlit hefur í för með sér.

Það er nokkrum erfiðleikum bundið að áætla, hversu mikil lækkun skemmtanaskatts muni hljótast af því, að frv. gerir ráð fyrir að undanþiggja skemmtanaskatti, eins og ég sagði áðan, klassíska hljómleika, leiksýningar, íslenzkar kvikmyndir og vínlausar danssamkomur. Þó hefur verið talið, að áætla mætti þessa lækkun skattsins um 1 millj. kr. Á hinn bóginn hefur verið áætlað, að skattaukinn vegna aðgangseyris að skemmtihúsum, sem hafa vínveitingaleyfi, muni geta numið 4—5 millj. kr., þannig að nettóaukning skattsins, ef þetta frv. nær fram að ganga, mundi verða 3—4 millj. kr. Mundi þá félagsheimilasjóður og Þjóðleikhúsið fá í tekjuauka samkv. frv. 11/2—2 millj. kr. hvort. Ætti þessi tekjuauki að stórbæta hag félagsheimilasjóðs og gera honum kleift í stórauknum mælí að sinna því mikilvæga verkefni, sem honum er falið. Enn fremur mundi þetta bæta mjög rekstraraðstöðu Þjóðleikhússins, sem um mörg undanfarin ár hefur barizt nokkuð í bökkum og verið rekið með halla umfram það, sem skemmtanaskattur hefur numið, en samþykkt þessa frv. mundi aftur koma rekstri Þjóðleikhússins í eðlilegt og heilbrigt horf, án þess að það þyrfti á beinum ríkisstyrkjum að halda.

Ég læt þetta nægja til skýringar á þessu frv. og leyfi mér að leggja til, herra forseti, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.