19.04.1963
Efri deild: 80. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

243. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Núgildandi lög um skemmtanaskatt eru frá árinu 1927, en nokkur breyting var á þeim gerð á árinu 1957.

Með því frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til, að þær breyt. verði gerðar á núgildandi lögum um skemmtanaskatt annars vegar að undanþiggja skemmtanaskatti ýmsar tegundir af samkomum, sem þó eru skattskyldar, og hins vegar að taka upp nýja skattheimtu í þessum efnum.

Aðalbreytingar frá gildandi lagaákvæðum, sem þetta frv. hefur að geyma, eru þær í fyrsta lagi, að hvers konar klassískir tónleikar skulu vera undanþegnir skemmtanaskatti, í öðru lagi skulu allar leiksýningar án undantekningar vera undanþegnar skattinum, í þriðja lagi sýningar á íslenzkum kvikmyndum og í fjórða lagi dansskemmtanir félaga og annarra aðila, ef vin er ekki haft þar um hönd, en samkv. núgildandi l. hefur þurft að greiða skemmtanaskatt af hvers konar skemmtunum, ef einhver dans hefur farið þar fram. Þó nær undanþágan samkv. frv. ekki til stærstu danskemmdihúsanna, sem halda að staðaldri dansskemmtanir í eigin nafni. Þá er í fimmta lagi það, að lagt er til, að tekinn sé sérstakur skemmtanaskattur af gestum vínveitingahúsa, en eins og nú er er enginn sérstakur skattur af þeim tekinn, sem sækja þessi vínveitingahús, ef ekki hefur verið seldur aðgangur að staðaldri. Lagt er til, að þessi skattur nemi 8 kr. á hvern þann, sem fær aðgang að húsinu eftir þann tíma að kveldi, sem ákveðinn verður nánar í reglugerð, og auk þess skuli innheimtar 2 kr. til viðbátar, sem renni í menningarsjóð, 10% álag á skemmtanaskatt samkv. l. frá 1927 er innifalið í gjaldinu, af hverjum þeim, sem sækir vínveitingastaðina eftir þann tíma, sem lög mæla fyrir að skuli ákveða. Þá er ráðh. heimilt samkv. frv. að láta haldast að einhverju eða öllu leyti þær undanþágur frá skemmtanaskatti, sem þær skemmtanir hafa notið, sem haldnar eru til ágóða fyrir góðgerðar-, líknar- og björgunarstarfsemi, sjúkrasjóði og fleiri aðila, svo sem nánar er upp talið í frv. Loks hefur ráðh. heimild til að undanþiggja skemmtanaskatti dansstaði, sem unglingar frá 16–21 árs aldurs eiga einir aðgang að, enda sé aðgangseyri stillt í hóf og öðrum skilyrðum fullnægt, sem ráðh. kveður nánar á um. Þá er ráðh. heimilt að undanþiggja skemmtanaskatti dansskemmtanir, þar sem fram fara minni háttar skemmtiatriði, enda sé ekki haft vín um hönd á þeim skemmtunum og þær ekki haldnar í danshúsum, sem eru yfir ákveðna stærð. Enn fremur eru skilyrði um það, hve oft í hverjum mánuði til jafnaðar slíkur dansstaður skuli hafa opnar dansskemmtanir, til þess að það verði talið danshús í þessu sambandi.

Það liggur í augum uppi, að það er mikill hagur fyrir ýmsa aðila að slíkum undanþágum frá skemmtanaskatti, ef lögfestar verða. Má þar nefna t.d. þá, sem að leiklistarstarfsemi standa víðs vegar um landið. Það ætti að geta orðið til mikils framdráttar fyrir alla leiklist í landinu, ef sýningar eru undanþegnar greiðslu skemmtanaskatts, og sama má segja um tónlistarstarfsemi, ef allir klassískir tónleikar eru undanþegnir skatti. Hins vegar nær undanþágan ekki til danshljómsveitar- eða dægurlagaskemmtana, þar sem fer fram djass- og dægurlagasöngur og tónlist.

Frv. hefur, eins og ég hef þegar greint, einnig að geyma undanþágur frá skemmtanaskatti fyrir sýningar á íslenzkum kvikmyndum, og má sama um kvikmyndaiðnaðinn segja og leiklistar- og tónlistarstarfsemi, að slik undanþága ætti að geta orðið honum til mikils framdráttar.

Auk þessarar starfsemi er, eins og við vítum, mikið af áhugamannafélögum, sem starfa að ýmsum líknar- og menningarmálum og gengur oft erfiðlega að afla fjár til sinnar starfsemi og grípa mjög mikið til þeirrar fjáröflunaraðferðar að halda skemmtanir af ýmsu tagi, og ættu undanþágur þær, sem í frv. felast, að geta orðið þeim allmikil fjárhagsleg stoð.

Eins og kunnugt er, rennur skemmtanaskatturinn að hálfu til Þjóðleikhússins og að hálfu til félagsheimilasjóðs. Það er samkv. grg. þeirri, sem frv. fylgir, nokkuð erfitt að áætla með nokkurri vissu, hvað undanþágurnar mundu nema miklu í lækkuðum tekjum af skemmtanaskattinum, og það er ekki heldur hægt að fullyrða með vissu, hvað hinn nýi skattur á gesti vínveitingastaðanna mundi gefa af sér. Í grg. með frv. er lauslega áætlað, að sá skattur muni skila 4–5 millj. kr. á ári, og það er líklegt, að hann muni gera meira en hrökkva fyrir þeirri lækkun, sem af nýjum undanþágum mundi leiða.

Þá er einnig að því vikið, að hin nýja skattheimta muni þrátt fyrir það, þó að á móti komi nýjar undanþágur, gefa menningarsjóði auknar tekjur frá því, sem nú er.

Menntmn. hefur athugað frv., og mælir hún einróma með því, að það verði samþykkt óbreytt. Einn nm., hv. 5. þm. Reykn., var fjarstaddur, þegar málið var afgr. úr nefndinni.