19.04.1963
Efri deild: 80. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

243. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég tel, að það frv., sem hér er til umr., stefni tvímælalaust í rétta átt og að því sé mikil bót. Með því eru þeim aðilum, sem njóta skemmtanaskattsins, tryggðar verulega auknar tekjur. T.d. mun félagsheimilasjóður væntanlega fá 11/2–2 millj. kr. í tekjuauka af þessum lögum á ári. Er sjóðnum að sjálfsögðu mjög mikill styrkur að þeim tekjuauka. En svo mikil og aðkallandi er þörfin í þessum efnum, að ég tel brýna nauðsyn vera til frekari aðgerða, eins fljótt og unnt er, til eflingar sjóðnum.

Síðan árið 1948 hefur hluti skemmtanaskatts runnið í félagsheimilasjóð, sem stofnaður var það ár til stuðnings við byggingu félagsheimila og samkomuhúsa um land allt. Fram til ársloka 1962 nam skemmtanaskattur samtals 74 millj. kr., þar af til félagsheimilasjóðs um 32 millj. kr. Tekjur sjóðsins af skemmtanaskatti árið 1962 hafs verið áætlaðar um 3.6 millj. kr. Frá því að félagsheimilasjóður tók til starfa, hefur hann veitt styrki til mikils fjölda samkomuhúsa og félagsheimila um land allt. Ég hef ekki nákvæmlega tölu félagsheimilanna, en ég hygg, að þau muni orðin

nær 100 talsins, sem nú er ýmist lokíð við að byggja eða eru í byggingu og styrks hafa notið.

En mikið brestur á, að félagsheimilasjóður geti staðið undir lögbundnum greiðslum á þeim 40% stofnkostnaðar, sem honum hefur borið að greiða af byggingarkostnaði félagsheimilanna. Nemur nú áætluð krafa 77 félagsheimila til sjóðsins um 49.9 millj. kr. Þessar gífurlegu skuldir sjóðsins við félagsheimilin valda þeim aðilum, sem að þeim standa, að sjálfsögðu miklum erfiðleikum. Stendur getuleysi sjóðsins jafnframt eðlilegu og heilbrigðu félagslífi fólksins í mörgum byggðarlögum ákaflega fyrir þrifum. Til þess ber því að mínu áliti brýna nauðsyn, að félagsheimilasjóði verði séð fyrir nýjum tekjustofnum, sem geri honum fært að gegna hlutverki sínu með eðlilegum hætti.

Félagsheimilin hafa stuðlað að stórbættum skilyrðum í félags- og menningarlífi fólksins um land allt. Þau hafa að sjálfsögðu orðið fyrir barði þeirrar óreglu og upplausnar, sem leiðir af varandi drykkjuskap, eins og önnur samkomuhús í landinu í þéttbýli sem strjálbýli. En það afsannar ekki nytsemi þeirra og þýðingu fyrir félags- og menningarlíf í sveit og við sjó. Þvert á móti hygg ég, að óhætt sé að fullyrða, að bætt húsakynni til samkomuhalds og félagsstarfsemi hafi átt ríkan þátt í því að skapa aukinn menningarbrag og halda aftur af siðleysi og uppvöðslu óaldarlýðs, sem alls staðar reynir að valda spjöllum og vandræðum. Þar að auki hafa félagsheimilin veitt almenningi úti um land tækifæri til þess að njóta beztu listamanna þjóðarinnar, bæði á sviði leiklistar og hljómlistar. Ég tel því, að óhjákvæmilegt sé, að látin verði fram fara frekari athugun á því, hvernig félagsheimilasjóði verði tryggðir nýir tekjustofnar, þannig að hann verði fær um að gegna hinu mikilvæga hlutverki sínu í þágu félags- og menningarlífs í landinu. Má hugsa sér til þess ýmsar leiðir, t.d. að allur kvikmyndahúsarekstur í landinu verði látinn greiða skemmtanaskatt, en eins og kunnugt er gilda nú viðtækar undanþágur frá greiðslu skattsins gagnvart kvikmyndahúsarekstrinum. Enn fremur kemur til greina að auka hluta félagsheimilasjóðs af skattinum og jafnvel hækka hann verulega. Árlegt framlag ríkissjóðs á fjárlögum tel ég einnig koma til greina. Fleiri nýjar leiðir til eflingar félagsheimilasjóði tel ég að mjög geti komið til athugunar.

Það er skoðun mín, að heilbrigt félagslíf fólksins sé svo þýðingarmikið atriði, ekki sízt fyrir æskuna, sem margvíslegir miður hollir straumar leika nú um, að eigi megi láta undan fallast að gera þær ráðstafanir, sem hér voru nefndar. Æskan er fjöregg þjóðarinnar. Hún verður að alast upp við sem þroskavænlegust skilyrði á heimilum sínum, í skólum og við félags- og skemmtanalíf. Fólkið í strjálbýlinu, sveitum og sjávarþorpum og kaupstöðum úti um land, hefur lengstum búið við erfið og ófullkomin skilyrði til félagslífs. Félagsheimilin, sem þegar eru risin, hafa stórbætt þau, en mikið og aðkallandi verk er óunnið á þessu sviði.

Ég vildi leyfa mér að láta þessar ábendingar koma fram við 2. umr. þess frv., sem hér liggur fyrir og ég tel að stefni í rétta átt. Ég vil jafnframt beina því til hæstv. menntmrh. að taka til athugunar þau atriði, sem ég nefndi hér og ég tel að athuga beri í sambandi við áframhaldandi viðleitni til þess að efla félagsheimilasjáð og þá merkilegu og þjóðnýtu starfsemi, sem hann stendur undir.