19.11.1962
Neðri deild: 16. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (1307)

58. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. (Gunnar Gíslason): Hæstv. forseti. Það er sjálfsagt, að ég óski eftir því, að umr. verði frestað og það verði athugað, hvort ástæða er til þess að gefa út nál. í þessu máll. Ég skal gjarnan verða við þeirri ósk hv. 1. þm. Vestf. Hann sagði í ræðu sinni, að það kæmi ekki fram í þeirri grg., sem fylgdi frv., hver vilji hefði verið t.d. á síðasta stéttarsambandsfundi í þessu máli. Þetta er nú ekki alls kostar rétt hjá hv. þm., því að það kemur fram einmitt í grg., að sú till., sem fram kom á stéttarsambandsfundinum um það, að þetta viðbótargjald yrði framlengt, var samþ. þar með 37:1 atkv., sem sjá má á 2. bls. frv.

Yfirleitt er það svo, eins og ég hef tekið fram, að það hefur verið vilji fyrir þessu, bæði hjá Búnaðarfélagi Íslands og á fundum stéttarsambandsins. Hins vegar skal ég ekkert um það fullyrða, hversu ríkur vilji er fyrir þessu meðal bændanna í landinu yfirleitt. Því miður hefur þessu máli aldrei verið vísað til þeirra til atkvgr. En sem sagt, þá skal ég gjarnan verða við ósk hv. þm. og láta athuga, hvort nokkur ástæða er til að gefa hér frekari skýringar á þessu máli.