03.12.1962
Neðri deild: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (1309)

58. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Þetta mál var hér til 2. umr. í hv. d. þann 19. f.m. Hæstv. forseti frestaði þá umr. og tók málið út af dagskrá, vegna þess að óskir komu fram um fyllri upplýsingar varðandi byggingu Bændahallarinnar svonefndu.

Landbn. hefur enn tekið þetta mál fyrir á fundi sínum og sér sem áður ekki ástæðu til þess að gefa út sérstakt nál. um málið. Málið er flutt af n. samkv, beiðni þar um. Hins vegar hafa n. borizt nokkrar upplýsingar frá framkvstj. byggingarnefndar búnaðarbyggingarinnar, og hefur n. falið mér að lesa upp þessar upplýsingar hér í hv. d., og vil ég gera það, ef hæstv. forseti leyfir. En skýrsla framkvstj. byggingarnefndarinnar, Sæmundar Friðrikssonar, er á þessa lund:

„Eftir tilmælum form. landbn. Nd. Alþ., séra Gunnars Gíslasonar, í tilefni af umr. og fsp. á Alþ. 19. þ.m. um breyt. á L um búnaðarmálasjóð, þ. e. um framlengingu á gjaldi til búnaðarbyggingarinnar, skal hér gerð tilraun til að skýra byggingarmál þetta að nokkru:

1) Þegar sótt var um byggingarleyfi á árunum 1956–1958, var áætlað, að byggingin mundi kosta um 25–30 millj. kr. Var þá ráðgert, að stærð hennar yrði um 25 þús. rúmmetrar. Nú hefur húsið verið mælt upp af byggingarfulltrúa borgarinnar og er talið vera um 42 þús. rúmmetrar að stærð. Stækkunin orsakast að nokkru leyti af því, að bætt var ofan á bygginguna einni hæð, sem i upphafi var ekki gert ráð fyrir, og auk þess voru sumar hæðir hennar hækkaðar verulega frá því, sem áætlað var í byrjun. Samkv. áætlun þeirri, er áður var nefnd, sem miðuð er við þáv. byggingarkostnað, hefði kostnaður orðið 1000–1200 kr. á rúmm. árið 1957. Þá var byggingarvísitalan 904 samkv. útreikningi hagstofunnar. Nú er þessi vísitala 1744. Svarar það til þess, miðað við 1100 kr. að meðaltali á rúmmetra 1957, að nú kosti einn rúmmetri um 2120 kr. Sé rúmmetratal hússins margfaldað með þeirri tölu, þ.e. 42 þús. sinnum 2120, verður upphæðin 89 millj. 40 þús. kr. Að vísu hefur talsverður hluti byggingarinnar verið unninn á ódýrari tíma en hér um ræðir, en þó hefur langmestur hluti komið á árin 1961 og 1962. Og þess má einnig geta, að samkv. upplýsingum byggingarfróðra manna hefur vísitala hagstofunnar ekki náð til stóraukinnar eftirvinnu, sem átt hefur sér stað á síðustu árum. Í fyrstu áætluninni er ekki minnzt á húsbúnað, enda þá ekki ráðið að fullu, hvernig húsið yrði nýtt. Á s.l. vetri var reynt að gera heildaráætlun um byggingarkostnað og innbú. Var hún milli 90 og 100 millj. kr., þar af um 20 millj. í innanstokksmunum, vélum, borðbúnaði o.fl. þess háttar. Nú síðustu mánuðina hefur verið gert ráð fyrir heildarkostnaði um 100 millj. kr. Engu skal um það spáð, hvort sú ágizkun stenzt, en engan þarf að undra, þótt áætlanir um byggingarkostnað standist ekki í krónutali, ef verkið stendur yfir í fleiri ár, þegar gengislækkanir og kauplækkanir skiptast sífellt á. Byggingarvísitölurnar, sem nefndar eru hér að ofan, sýna þetta greinilega og jafnframt, að fyrsta áætlunin hefur ekki verið eins röng og í fljótu bragði sýnist.

2) Framlög og lán til byggingarinnar eru nú orðin sem hér segir: Það eru fyrst framlög Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda 15 millj. 800 pús. kr. Annað: frá búnaðarmálasjóði 10.1 millj. kr. Þriðja: leigu- og vaxtatekjur 2.1 millj. Fjórði liður: fast erlent lán 35 millj. kr. Og í fimmta lagi eru það lausaskuldir 13 millj. Samtals er þetta 76 millj. kr. Þessari upphæð hefur nú verið varið til byggingarinnar.

3) Fullgerðar eru nú fjórar hæðir hússins, þ.e. 4., 5., 6. og 8., og 7. hæð mjög langt komin, einnig fullgerður suðurhluti 1. hæðar og syðsti hluti 2. hæðar. Suðurhluti kjallara er að mestu fullgerður. Eftir er að innrétta norðurhluta kjallara og að mestu leyti norðurhluta 1, og 2. hæðar. Einnig er eftir að innrétta 3. hæðina. Mestan hluta húsbúnaðar er búið að kaupa. Lyftur hússins, 5 að tölu, eru frágengnar.

4) Leigutekjur af húsinu hafa verið áætlaðar um 8,5 millj. kr. á ári. Flugfélag Íslands flutti inn á 4. hæð í apríl s.1., sem þá var fullgerð. Upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna hefur á leigu suðurhluta af 2 hæðum, þ.e. 1. og 2. hæð, og flutti þangað seint í sumar. Hótelreksturinn, sem hófst snemma í júlí, hefur enn sem komið er verið á vegum byggingarnefndar, því að ekki eru tök á að semja um leigu á húsnæði, sem er að smákomast í ganginn. Annars hefur verið gert ráð fyrir að leigja hótelið, þegar það er fullgert. Allt húsnæði, sem ekki hefur þegar verið tekið í not, er fyrir löngu búið að leigja fyrir fram, svo sem búðir á 1. hæð og húsrúm í kjallara, sem haft verður til ýmissa nota. 3. hæðin er þar undanskilin, en þar mundu bændasamtökin hafa skrifstofur sínar.

Ástæðan til þess, að nauðsynlegt er að framlengja gjaldið til búnaðarbyggingarinnar, er einkum sú, að ekki eru líkur til, að kjör á lánum til byggingarinnar verði svo hagstæð, að unnt verði að standa undir afborgunum og vörtum fyrstu árin nema með tilstyrk þessa framlags. Fulltrúar bænda í helztu landssamtökum þeirra hafa líka sýnt afstöðu sína með því að óska eftir framlengingunni með ákveðnu fylgi við málið, bæði á búnaðarþingi og aðalfundi Stéttarsambands bænda.

Reykjavík, 20. nóv. 1962,

Sæmundur Friðriksson.“

Þetta var þá sú skýrsla, sem landbn. Barst frá framkvstj. byggingarnefndarinnar. Ég hef engu i rauninni við hana að bæta. Ég vil aðeins segja nokkur orð til skýringar á síðustu orðum þessarar skýrslu, af því að það var alveg sérstaklega um það spurt hér við fyrri hluta umr., hvernig atkvgr. hefði fallið á búnaðarþingi og stéttarsambandsfundi um till, þær, sem þar komu fram og snertu framlengingu viðbótargjaldsins.

Eins og sjá má á fskj., sem birt er með frv., var flutt á stéttarsambandsfundi hinum síðasta till., sem fór fram á, að Alþ. framlengdi þetta gjald. Þessi till. var samþ. á þeim fundi með 37:1 atkv., en á þessum fundi munu eiga sæti 47 fulltrúar, sem rétt eiga til þátttöku í atkvgr., og hafa því 9 fulltrúar setið hjá við atkvgr. eða verið fjarverandi.

Fyrir síðasta búnaðarþingi lá erindi frá byggingarnefnd Bændahallarinnar um framlengingu á bráðabirgðaákvæði laga um breytingu á lögum um stofnun búnaðarmálasjóðs. Fjárhagsnefnd búnaðarþings hafði þetta erindi til meðferðar og lagði til, að það yrði afgreitt með eftirfarandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Búnaðarþing ályktar að skora á Alþingi að framlengja um 4 ár, frá 1962-1965 að báðum árum meðtöldum, bráðabirgðaákvæði l. nr. 10 17. marz 1959 um breyt. á l. nr. 38 15, febr. 1945, um stofnun búnaðarmálasjóðs, og felur stjórn Búnaðarfélags Íslands og byggingarnefnd að flytja málið við Alþingi, er nú situr.“

Það kom fram á búnaðarþingi till. um rökst. dagskrá þar sem lagt var til, að þessari ályktunartill. fjhn. yrði vísað frá þinginu. Dagskrártill. var felld á búnaðarþingi með 20:2 atkv., 1 greiddi ekki atkv. og 2 voru fjarverandi. Enn fremur kom fram á þinginu till. þess efnis að leggja erindi byggingarnefndarinnar fyrir öll búnaðarfélög í landinu og leita álits þeirra um framlengingu. Sú till. var felld á búnaðarþingi með 18:5 atkv., 2 fulltrúar voru fjarverandi. Enn kom fram á búnaðarþingi brtt. við ályktunina á þá lund, að framlengingin næði aðeins til 2 ára í stað fjögurra. Sú brtt. var felld með 17:4 atkv., 2 greiddu ekki atkv. og 2 voru fjarverandi. Síðan var ályktun fjhn. borin upp, og var hún samþykkt með 18:4 atkv., 1 greiddi ekki atkv. og 2 voru fjarverandi.

Þetta, sem ég hef nú stuttlega rakið hér, sýnir, að mikill meiri hl. fulltrúa bænda á stéttarsambandsfundi og búnaðarþingi hefur óskað eftir því, að hv. Alþingi samþykkti það frv., sem hér er flutt að beiðni þessara samtaka.