18.12.1962
Efri deild: 31. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

58. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. minni hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Í 1. gr. þessa frv., sem hér er til umr.; segir, að á árunum 1962—1965 að báðum meðtöldum skuli greiða 1/2% viðbótargjald af söluvörum landbúnaðarins, sem um ræðir í 2. gr., og rennur það til Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda til að reisa hús félaganna við Hagatorg í Reykjavík yfir starfsemi þeirra. Þetta mun vera sama orðalag, að ég hygg, eins og haft var á lagaákvæðum 1959, sem hér er meiningin að framlengja með þessu frv. En ég tel, að þarna séu verulegar blekkingar hafðar í frammi og það sé í rauninni naumast viðeigandi að leggja svona orðalag fram fyrir Alþingi, þar sem segir, — eins og ég las áðan, að fénu skuli verja eða gjaldinu til að reisa hús félaganna við Hagatorg í Reykjavík yfir starfsemi þeirra.

Nú er það á allra vitorði og hefur sennilega verið 1959 líka, að það er aðeins örlítill hluti þessarar byggingar, Bændahallarinnar, sem á að nota fyrir starfsemi Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands. Þessi samtök munu ætla að nota aðeins eina hæð af þessari byggingu, en það eru 8 hæðir, og ef miðað er við rúmtak, þá mun þessi hæð ekki einu sinni vera 1/8 af byggingunni, og jafnvel þó að gert væri ráð fyrir, að samtökin færðu eitthvað út kvíarnar, notuðu meira húsnæði síðar meir, þá er það sjálfsagt ríflega áætlað að segja, eins og ég hef gert í mínu nál., að um 1/8 hluti af húsrými þessarar byggingar muni vera ætlaður til nota fyrir starfsemi Búnaðarfélagsins og Stéttarsambandsins, og því tel ég það algerlega óviðeigandi, þetta orðalag, sem hér er haft, að gjaldið eigi að renna til húss félaganna við Hagatorg í Reykjavík, yfir starfsemi þeirra. Þetta er eitthvað hliðstætt því eins og maður fengi leyfi til þess að byggja bílskúr og byggði svo í staðinn íbúðarhús með innbyggðum bílskúr. Þannig er það ljóst, þegar verið er að skattleggja bændastéttina til þessarar byggingar, þá er þeirrar skattlagningar engin þörf lengur vegna byggingar yfir starfsemi bændasamtakanna, heldur er þessarar skattlagningar þörf vegna byggingar hótels, Hótels Sögu, og vegna byggingar á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, sem meiningin mun vera að leigja út og þegar hefur að sjálfsögðu að nokkru leyti verið gert í Bændahöllinni.

Ég hefði haldið, að bændur væru sú stétt manna í landinu, sem notaði einna stærstan hlutann af tekjum sínum til fjárfestingar í eigin þarfir. Það er vitað mál, að það þarf mikið fé til fjárfestingar í landbúnaði, bæði ræktun, vélum og húsakosti og öðru slíku, og ég tel það þess vegna ekki koma til mála, að á bændurna sé verið að leggja skattgjald til að byggja lúxushótel og verzlunarhúsnæði í Reykjavík, enda koma bændur sjálfsagt aldrei til með að búa á þessu hóteli. Og raunar tel ég, að það sé ekki hægt að leggja svona skattgjald á eina stétt manna, nema það liggi ljóst fyrir, að þessi stétt vilji samþykkja álagninguna, en hér tel ég engu slíku vera til að dreifa. Það hafa að vísu legið fyrir samþykktir frá Stéttarsambandi bænda og frá búnaðarþingi, en mér er ekki kunnugt um, að það liggi fyrir neinar samþykktir frá hreppabúnaðarfélögunum eða frá búnaðarsamböndunum, og þegar þetta mál var til meðferðar hér á þingi fyrir 4 árum, var felld till. um að láta fara fram allsherjaratkvgr. meðal bænda um afstöðu til þessa máls. Og a.m.k. hef ég ekki heyrt frá því skýrt í umr. um þetta mál hér á Alþ., að nú að þessu sinni hafi nokkuð verið leitað til bænda í héruðunum til þess að kanna afstöðu þeirra til þessa máls.

Ég tel, að það sé engan veginn byggjandi á því, þó að það liggi fyrir samþykktir frá búnaðarþingi og þingi Stéttarsambands bænda. Þær þurfa raunverulega ekki endilega að sýna öruggan vilja bændastéttarinnar. Ég vil aðeins minna á það, að í fyrra, þegar voru til meðferðar lögin um stofnlánadeild landbúnaðarins, lá fyrir, hvaða afstöðu búnaðarþing og stjórn Stéttarsambands bænda tóku til þess máls. Meiri hl. Alþ. hafnaði algerlega að taka tillit til óska þessara aðila. En nú virðast það vera helztu rökin fyrir málinu, að úr því að búnaðarþing og Stéttarsamband bænda eru með því, þá sé sjálfsagt að verða við því, en það þótti ekki eðlilegt að taka undir sjónarmið þessara aðila hér á þingi í fyrra, þegar l. um stofnlánadeild landbúnaðarins voru til umr., og meira að segja hv, frsm. meiri hl. landbn. hér var þá þeirrar skoðunar, að það væri ekki rétt að taka tillit til vilja búnaðarþings og Stéttarsambandsins og að þessi þing túlkuðu ekki í raun og veru vilja bændastéttarinnar.

Í samþykkt búnaðarþings um afstöðuna til stofnlánadeildar landbúnaðarins sagði svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Búnaðarþing mótmælir eindregið þeirri sérstöku skattlagningu á bændastéttina og gjaldi á útsöluverð landbúnaðarvara, sem kveðið er á um í 4. gr. frv. um stofnlánadeild landbúnaðarins o.fl., sem nú liggur fyrir Alþ.“

Það er þess vegna alveg ljóst, að búnaðarþing í fyrra mótmælti því, að bændur væru látnir greiða 1% gjald í sjóði sem eingöngu á að verja í þeirra eigin þágu, og voru þó ýmsir aðrir tekjustofnar, sem sá sjóður fékk, heldur en framlagið frá bændum. Það var m.a. framlag frá ríkinu og framlag frá neytendum, þannig að bændur áttu alls ekki að borga þetta allt, þó að sjóðurinn kæmi hins vegar þeim einum að gagni. Þetta búnaðarþing, sem taldi fráleitt að leggja 1% gjald á bændastéttina til þess að stofna sjóði, sem síðar yrðu notaðir í þágu landbúnaðarins, til ræktunar og uppbyggingar í sveitunum — þetta sama búnaðarþing taldi hins vegar mjög eðlilegt, að bændur væru skattlagðir til þess að byggja lúxushótel í Reykjavík og skrifstofu og verslunarhúsnæði, sem þeir höfðu enga þörf fyrir.

Á fundi í fyrra samþykkti stjórn Stéttarsambands bænda, sem fékk til umsagnar áðurgreint frv. til l. um stofnlánadeild landbúnaðarins, svofellda ályktun, sem ég vil leyfa mér að lesa hér, með leyfi forseta:

„Stjórn Stéttarsambands bænda hefur tekið til athugunar frv. frá Alþingi um stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Stjórn Stéttarsambandsins viðurkennir, að með frv. er reynt að bæta aðstöðu byggingarsjóðs og ræktunarsjóðs frá því, sem nú er, en telur hins vegar, að sú leið, sem gert er ráð fyrir í frv., að skattleggja bændur í þessu skyni, sé neyðarúrræði.”

Þannig er stjórn Stéttarsambands bænda staðin að því að álíta það neyðarúrræði að þurfa að leggja 1% gjald á bændur til þess að leggja í stofnlánadeild landbúnaðarins, sem, eins og ég hef áður tekið fram, á að verja til ræktunar í sveitum og uppbyggingar þar og er eingöngu í þágu bændanna eða landbúnaðarins, — það telur stjórn Stéttarsambandsins neyðarúrræði, að leggja slíkt gjald á bændurna. En það kemur allt annað hljóð í strokkinn, þegar á að fara að taka afstöðu til þess, hvort bændurnir eigi að byggja ferðamannahótel og verzlunar- og skrifstofuhúsnæði í Reykjavík. Þá er ekki minnzt á, að það sé neyðarúrræði. Nei, nei, nei, það er bara alveg sjálfsagður og eðlilegur hlutur og alveg nauðsynlegt fyrir baendastéttina að fá þennan skatt. Það mætti í sjálfu sér alveg eins halda áfram að skattleggja bændastéttina til þess að gera út togara eða byggja bifreiðaverkstæði eða reisa súkkulaðiverksmiðju eða eitthvað slíkt. Það væri sjálfsagt eðlilegt áframhald á þessu.

Nú vil ég út af fyrir sig taka fram, að ég er á engan hátt andvígur því, að það sé reist hótel í Reykjavík, og það er sjálfsagt nauðsynlegt. En það á fyrst og fremst að gera af þeim aðilum, sem hafa reynslu og þekkingu í hótelrekstri, og ég geri ráð fyrir því, að það hefði verið byggt hér hótel, ef Hótel Saga hefði ekki risið, en það kann vel að vera, að það hefði verið með öðru sniði en Hótel Saga. En það réttlætir ekki, að það sé verið að skattleggja eina stétt. Þó að það vanti hótel í Reykjavík, þá er það ekki nein réttlæting fyrir því, að bændastéttin sé skattlögð, og ég tel í raun og veru, að það hafi verið fari algerlega út fyrir heimild Alþingis með þess, skattlagningu, þar sem í heimildinni frá 1959 segir einungis, að það megi leggja þennan skatt á til þess að byggja hús við Hagatorg í Reykjavík yfir starfsemi Búnaðarfélagsins og Stéttarsambandsins, en ekki til annarra hluta. En svo kom það á daginn, þegar þetta hús var byggt, að það var aðeins örlítill hluti af því, sem á að notast í framtíðinni yfir þessa starfsemi, þannig að það má mjög undarlegt heita, að það skuli vera af stjórn Stéttarsambandsins talið, eins og ég sagði áðan, neyðarúrræði að safna eða láta bændurna leggja í sjóð til þess að kosta ræktun og vélakaup, byggingu peningshúsa og íbúðarhúsa, mjólkurvinnslustöðva og annarra slíkra í þágu landbúnaðarins, en það sé hins vegar ekki minnzt á neyðarúrræði, heldur talið sjálfsagt og eðlilegur hlutur, að bændasamtökin í landinu séu að byggja skrifstofuhúsnæði yfir Flugfélag Íslands og Upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna og svo að lokum yfir erlenda ferðamenn,

Ég tel þess vegna, þegar litið er á afstöðu búnaðarþings og Stéttarsambandsins til skattlagningar á bændur í sambandi við stofnlánadeild landbúnaðarins og þegar litið er á það, að meiri hl. Alþ. tók ekkert mark á þessum samþykktum í fyrra, þá sé ekki heldur nein ástæða til að gera það að þessu sinnt og miklu síður ástæða til þess nú.

Í sjálfu sér væri hægt að hugsa sér það, að þessi mikla fjárfesting hjá bændasamtökunum við skrifstofu- og verzlunarhúsnæði og hótelbyggingu gæti að lokum orðið þeim til hagnaðar, þannig að reksturinn á hótelinu og byggingunni yrði hagfelldari og þarna skapaðist ágóði og bændastéttin gæti aftur fengið sér bætt upp þetta skattgjald, sem á hana hefur verið lagt. En ég held, að þeir, sem málum eru kunnugastir, telji því miður ákaflega litlar líkur til þess, að málin snúist á þann veg, heldur séu líkurnar miklu meiri fyrir hinu gagnstæða, að þarna geti um langt árabil orðið um varanlegan rekstrarhalla að ræða, og þá yrði þetta ekki einungis eins og upphaflega var gert ráð fyrir, að þetta skattgjald yrði framlag til byggingar Bændahallarinnar, heldur yrði þetta skattgjald til þess í framtíðinni að standa undir rekstrarhalla af byggingunni, og þá má sjálfsagt gera ráð fyrir því, að það verði oft farið fram á það við Alþingi, að þetta gjald verði framlengt.

Ég held svo, að ég hafi ekki fleira fram að taka um þetta mál á þessu stigi, en ég legg til, eins og ég hef tekið fram í mínu nál., að frv. verði fellt.