18.12.1962
Efri deild: 31. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (1321)

58. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm, meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 9. landsk., þar sem hann vék að því, að gætt hafi ósamræmis í afstöðu minni til ályktana búnaðarþings, þar sem ég hefði í fyrra hér á Alþingi ekki viljað gera neitt með ályktun búnaðarþings, þar sem það mótmælti því gjaldi, sem þá var lögfest af afurðum bænda til stofnlánadeildar landbúnaðarins, en vildi nú taka undir óskir búnaðarþings um þetta mál. Búnaðarþing 1962 óskaði eindregið eftir, að sú lagabreyting, sem hér liggur fyrir, yrði gerð á þinginu í fyrra, en málið var aldrei tekið fyrir á því þingi. Síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið og bændur búnir að halda sinn stéttarsambandsfund s.l. haust og samþykkja nær einróma að óska þess, að þetta gjald verði framlengt, svo sem eftirfarandi samþykkt sýnir — með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur Stéttarsambands bænda, haldinn að Bifröst 4. og 5. sept. 1962, felur stjórn Stéttarsambandsins að vinna að því, að Alþingi framlengi um 4 ár, frá 1962–1965 að báðum árum meðtöldum, bráðabirgðaákvæði l. nr. 10 17. marz 1959, um breyt. á l. nr. 38 15. febr. 1945, um stofnun búnaðarmálasjóðs.“

Á þessu stéttarsambandsþingi kom það eins greinilega fram og orðið getur, að fulltrúar á því þingi voru svo til hver og einn einasti því fylgjandi, að þetta lagaákvæði yrði framlengt. Og þó að þetta hafi ekki verið borið undir bændur almennt í landinu, þá verður að álíta svo, að þessir fulltrúar þeirra, sem sátu stéttarsambandsþingið í haust, hafi haft það gild umboð og vitað það vel hug bænda í landinu almennt, að þeir hefðu ekki farið að samþykkja þetta, ef þeir teldu það ekki nauðsynlegt og þeir teldu, að þeir hefðu bændur á bak við sig í þessu máll. Ég tel, að þessi ályktun Stéttarsambandsins í haust ráði úrslitum um það, að Alþ. geti ekki neitað samtökum bændanna um það að framlengja þetta gjald, úr því að svona ákveðnar óskir hafa komið fram um það og jafnframt studdar mjög föstum rökum um það, að þetta hús, sem er í byggingu og ekki lokið, þurfi nauðsynlega á þessu fé að halda, ef bændasamtökin eigi ekki að missa málið úr höndum sér og verða að ráðstafa byggingunni öðruvísi en ætlað var.

Þess vegna er mín afstaða sú, að Alþ. geti ekki neitað svona ákveðnum óskum fulltrúa bændanna um það að fá þetta gjald framlengt, eins og á stendur, án tillits til þess, hvaða afstöðu einstakir menn eða einstakir þm. hafa haft í upphafi um það, þegar út í þessa byggingu var farið. En málið er komið á það stig, að ekki verður aftur snúið með bygginguna, og að láta bygginguna úr höndum sér, tel ég vera svo óaðgengilegt fyrir bændastéttina, að hún geti alls ekki unað við það, ef því er að skipta, sem allar líkur bendir til, ef bændasamtökin verða ekki studd með því að fá þetta gjald, þá skapist þar ástand, sem ég fyrir mitt leyti vil ekki styðja að því að skapist.