18.12.1962
Efri deild: 31. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1322)

58. mál, búnaðarmálasjóður

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég er meðal þeirra, sem fagna því, að bændasamtökin skyldu ráðast í þessa byggingu við Hagatorg, og mér vex það ekkert í augum, að þau skyldu hafa hana svo stóra og veglega sem raun ber vitni um. Ég held, að það sé frekast bændum og samtökum þeirra til sóma að hafa byggt þannig, ekki aðeins fyrir bráðustu þarfir í nútíð, heldur langa framtíð. Vitanlega er þeim mikil nauðsyn á því að hafa nægilegt fjármagn til þess að ljúka þessari byggingu.

En ég stend nú ekki upp til þess að láta aðdáun eina í ljós, heldur til þess að minnast á atriði, sem ég ber svolítinn kvíðboga fyrir í þessu efni. Og það er hótelreksturinn, sem þegar er hafinn í þessari byggingu. Ég veit ekki, hvort ég skil það rétt, en ég hef grun um, að sá hótelrekstur, sem hafinn er þar, sé á ábyrgð bændasamtakanna að miklu leyti eða öllu leyti. Ég hef heyrt, að þessi rekstur hafi ekki farið sérlega vel af stað og hingað til hafi verið um taprekstur að ræða. Er nú ástæða til þess að óttast, að þessi baggi verði til frambúðar lagður á bændastéttina án samþykkis hennar. Þetta finnst mér skipta mjög miklu máli. Það var eðlilegt, að bændasamtökin leigðu út hluta af þessari miklu byggingu, en það er ekki eðlilegt, að þau taki að sér neins konar annarlegan rekstur við þessa byggingu, eins og hótelrekstur. Ég veit ekki til, að það hafi verið komið á stofn neinum ábyrgum aðila að þessum rekstri, og þess vegna tel ég alls ekki áhættulaust fyrir bændurna að halda áfram. Og ég er því mótfallinn algerlega, að bændur séu skattlagðir fyrir þennan hótelrekstur og að húsbygginganefnd sé leyfilegt að láta svo og svo mikið af mörkum, ekki aðeins fyrir hótelbúnað, heldur einnig í sjálfan reksturinn. Þetta er henni algerlega óheimilt.

Ég verð að láta í ljós undrun mína á því, að samtök bænda skuli hafa reynzt jafneinhuga í þessu máli um framlengingu gjaldsins til 4 ára og raun ber vitni um. Mér er þá ekki grunlaust um, að þetta muni alls ekki vera vinsælt meðal bændanna sjálfra, og þess vegna dettur mér í hug: Er ekki þörf á því einmitt hér og nú að vernda bændur fyrir sínum eigin fulltrúum í þessu efni? En hvað sem um það er, þá tel ég þetta mál ekki nógu vel upplýst, sérstaklega með tilliti til skuldbindingar bændasamtakanna gagnvart hótelrekstrinum, og teldi vera æskilegt, að einhver hér inni gæti upplýst það nánar, þau tengsl og þær skyldur, sem bændasamtökin kunna að hafa tekizt á hendur um þennan rekstur. Sé það ætlunin að binda þann bagga á herðar bændasamtökunum, þá er ég mótfallinn þessu frv. í því formi, sem það er lagt fram.