18.12.1962
Efri deild: 32. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

58. mál, búnaðarmálasjóður

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. mikið. Ég vildi aðeins á þessu stigi leyfa mér að leggja fram brtt., sem ég held að allir hv. þdm. ættu að fallast á. Í frv. er gert ráð fyrir, að þessi skattur á bændur skuli gilda næstu 4 árin. En er nú nokkur þörf á því að ákveða með lögum 4 ár fram í tímann þessa skattlagningu? Ég hefði talið heppilegra og nærgætnara við bændur að ákveða þetta svo að segja eftir hendinni, t.d. eitt ár í senn eða í mesta lagi 2 ár. Ég legg til í minni brtt., að það verði bundið við 2 næstu árin. Þá má taka málið aftur til athugunar og ákvörðunar. Í öðru lagi legg ég til, að Alþingi skeri úr um það, til hvers þessu fé sé varið, að því skuli varið til þess að reisa hús félaganna við Hagatorg í Reykjavík og ekki til annarra hluta. Það virðist hafa komið fram hér í umr., að fé bænda sé varið til annarra hluta, því sé varið nú í dag til hótelrekstrar, til að standa undir halla af hótelrekstri. Þetta tel ég, eins og ég sagði áðan, algerlega ótækt. Ég legg því til, að skotið sé inn í setningu þess efnis, að þessu fé, sem um er að ræða, verði ekki að neinu leyti varið til hótelrekstrar né annarra annarlegra framkvæmda.

Ég vil þá aðeins að lokum lesa brtt., eins og hún er orðuð. Hún er á þessa leið: ,.Ákvæði til bráðabirgða í 1. gr. orðist svo:

Á árunum 1962 og 1963 skal greiða 1/2% viðbótargjald af söluvörum landbúnaðarins, sem um ræðir í 2. gr., og rennur það til Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda til að reisa hús félaganna við Hagatorg í Reykjavík yfir starfsemi þeirra, enda verði fénu ekkí að neinu leyti varið til hótelrekstrar né annarra annarlegra framkvæmda. Skal fénu skipt milli þeirra eftir hlutfallinu 2:1. Um álagningu og innheimtu gjaldsins gilda sömu reglur og um búnaðarmálasjóðsgjald.“

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja þessa till. fram, þótt hún sé skrifleg, og vænti þess, að hv. deild veiti afbrigði.