22.11.1962
Neðri deild: 20. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

88. mál, almannatryggingar

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins segja það í sambandi við það frv., sem hér er á dagskrá nú, að ég tel, að það hefði gjarnan mátt vera búið að breyta þessum 1. fyrr í þá átt, sem reynt er í þessu frv. Það hefur verið mikil þörf á því að breyta ákvæðunum um verðlagssvæði almannatryggingalaganna. Við þm. Alþb. höfum flutt á mörgum þingum till. í þessa átt, en það hefur því miður ekki fengizt fram til þessa. En nú er orðið við þessu, og ber auðvitað að fagna því.

Annað efnisatriði þessa frv. fjallar um hækkun á ellilífeyri og örorkulífeyri til samræmis við aðrar kauphækkanir. Þar er líka auðvitað aðeins um lágmarkshækkun að ræða, því að mikil þörf hefði verið á því að hækka þessar bætur enn þá meira en gert er ráð fyrir í þessu frv., enda hafa komið fram á Alþingi hvað eftir annað till. um það.

Ég sem sagt fagna því, að nú virðist vera að takast að koma þessu máli fram.

En ég vil svo, um leið og ég kem hér upp í ræðustólinn til að minnast á þetta, lýsa yfir óánægju minni við hæstv. forseta yfir því, hvernig unnið er að dagskrármálum hér á þingi nú. Ég gat út af fyrir sig skilið það, að hann hefði leyft hæstv. viðskmrh. að ryðja úr sér þeim reiðilestri, sem hann gerði hér áðan í lok fundartímans, án þess að menn fengju aðstöðu til þess að svara þar fyrir sig og hrekja þau firn af vitleysum, en tækifæri mun gefast hér síðar til að sýna, hversu lítið hann veit um það, sem hann er að tala í þessum efnum. Það var út af fyrir sig að leyfa honum að ljúka hér fundartíma á þennan hátt. En þegar svo tekið er fyrir á dagskrá annað mál, þá er sýnilegt, að leikurinn er gerður aðeins til þess að leyfa mönnum að halda fram slíkri rakaleysu og vitleysu eins og ráðh. gerði hér, án þess að hægt væri að koma vörnum við. Ég ætla mér auðvitað ekki undir þeim dagskrárlið, sem hér er nú, að fara að ræða það, en það mun gefast tími til þess síðar, en ég vil aðeins í leiðinni, um leið og ég ræði þetta mál, sem hér er á dagskrá, mótmæla slíkum vinnubrögðum hjá hæstv. forseta að haga umr. hér á þinginu á þennan hátt.