26.11.1962
Neðri deild: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

93. mál, jarðræktarlög

Flm. (Valtýr Kristjánsson):

Herra forseti. Í fáum löndum munu atvinnuvegir eins háðir árferði og hér á landi. Á ég þar fyrst og fremst við landbúnað og sjávarútveg. Oft blása naprir vindar um þetta eyland við heimskautsbaug. Enn í dag mun fátt almennara umræðuefni, þar sem tveir eða fleiri mætast, en tíðarfarið. Bændur og sjómenn hafa um aldir látið það verða eitt sitt fyrsta verk morgun hvern að gá til veðurs. Glöggir menn og framsýnir sáu fyrir veðrabrigði, sem oft og einatt varð til þess að koma í veg fyrir eignatjón og mannskaða. Bændur þessa lands hafa lengst af átt allt sitt undir sól og regni. Þó hefur það breytzt á síðari árum hjá mörgum þeirra vegna ræktunarframkvæmda og vélvæðingar, sem gerir þeim mögulegt að afla heyja á skemmri tíma en áður og haga heyskap sínum meira eftir veðurfari, einkum þó þeir bændur, sem sett hafa upp súgþurrkun og byggt votheysgeymslur. Enn í dag standa menn þó næstum ráðþrota gegn kalinu, þeim mikla tjónvaldi. Vitað er, að orsakir eru margar til kals, köld veðrátta, snöggar hitabreytingar og svellalög eru algengar orsakir, en fleira kemur til. Erlendar grastegundir, sem notaðar hafa verið, hafa reynzt mjög misjafnlega. Þær, sem fluttar voru inn í síðasta stríði, dóu margar hverjar út á skömmum tíma, og ýmsar grastegundir, sem notaðar hafa verið á síðari árum, deyja eftir nokkur ár eða rýrna að miklum mun. Það er því augljóst, að mjög þarf að vanda til vals á grasfræi, sem flutt er inn, og reyna að kaupa það frá þeim stöðum, sem líkast hafa veðurfar og er hér á landi, eins og t.d. skógræktin gerir, þegar hún velur trjáfræ. Þá er og nauðsynlegt að blanda grasfræið með tilliti til þess, hvar á landinu á að nota það. Mætti hugsa sér, að ráðunautar leiðbeindu bændum í því efni að fengnum till. sérfræðinga og að undangenginni rannsókn á því, hvaða tegundir eiga bezt við á hverjum stað. Þá hafa þær raddir komið fram meðal baenda og búvísindamanna, að aukin notkun áburðar, einkum köfnunarefnis, geti átt sinn þátt í því, að jurtirnar hafa minna þol og deyi af þeim sökum, ef kaldara blæs.

Á árunum 1951 og 1952 gerði dr. Sturla Friðriksson athuganir á kali á vegum Atvinnudeildar háskólans. Hann telur, að tjónið af völdum kals þessi tvö fyrrnefndu ár hafi verið um 50 millj. kr. Þessi ár voru þó ekki meðal þeirra verstu. Kal taldi hann aðallega verða með fernum hætti: frostkal, svellkal, klakakal og rotkal. Meira bar á kali á flatlendum túnum en þeim, sem voru í halla. Verst fóru þær sléttur, sem höfðu halla mót norðri, og þar næst austri. Gróður, sem kom í kalslétturnar, reyndist slæmur til fóðurs og erfitt að þurrka hann. Auk þess urðu slétturnar ósléttar og erfiðar af þeim sökum til heyskapar. Dr. Sturla athugaði um 250 sléttur alls sunnan- og norðanlands. Síðan er liðinn fullur áratugur. Á þeim tíma hefur verið byrjað á jarðvegsrannsóknum, og margt fleira gerir það að verkum, að auðveldara ætti að vera fyrir okkar búvísindamenn að rannsaka orsakir kalskemmdanna nú, enda gert í smáum stíl 1951 og 1952 og á takmörkuðum svæðum á landinu.

Ég hef ásamt þremur öðrum þm. lagt fram hér á hv. Alþingi till. til þál. um rannsókn á kali í túnum o.fl. í þessari till: er lagt til, að hafnar verði á vegum Atvinnudeildar háskólans víðtækar rannsóknir á kalinu og orsökum þess og að því loknu gefnar út niðurstöður rannsóknanna og leiðbeiningar um það, hvernig helzt sé að verjast þessum vágesti, og bent á ráð til úrbóta, sem að gagni mætti koma. Rannsóknir í þágu atvinnuveganna eru að sjálfsögðu erfiðleikum bundnar hjá smáþjóð vegna kostnaðar. En ég held, að þrátt fyrir það höfum við alls ekki efni á því að telja eftir þann kostnað, sem fer til þess að undirbyggja okkar atvinnuvegi, ef svo mætti að orði komast. Kal hefur þjáð íslenzkan landbúnað um aldir. Áraskipti eru að því. Stundum kemur eitt og eitt slæmt ár með nokkru millibili, í annan tíma fleiri saman. En bændur hafa ekki nema að litlu leyti getað safnað í hlöður, þegar betur áraði, og geymt það til vondu áranna. Það getur hver og einn gert sér ljóst það efnalega áfall, sem bændurnir verða fyrir vegna kalskemmda í túnum sínum, fyrir utan það vonleysi og uppgjafartilfinningu, sem grípur þá víð að horfa upp á eyðileggingu þeirra framkvæmda, sem kostað hafa þá mikið fé og erfiði. Það mundi þykja t.d. tíðindum sæta, ef hálfur heyfengur mörg hundruð bænda, auk minni heyskaða, brynni, og þó er það engu meira tjón en það, sem orðið hefur í ár af völdum kalskemmda. Í mörgum tilfellum er ekki um annað að ræða en endurvinnslu á mestu kalsvæðum túnanna, en vegna hins mikla kostnaðar, sem orðinn er við alla jarðrækt, reynist það mörgum bóndanum erfitt viðfangsefni til viðbótar öðrum afleiðingum, sem tjóninu eru samfara. Til skýringar máli mínu vil ég gera grein fyrir sundurliðun á kostnaði við ræktun á mólendi án jöfnunar, sem er auðunnasta land, sem tekið er til ræktunar. Samkv. upplýsingum frá landnámi ríkisins er kostnaðurinn sem hér segir á hektara:

Plæging 1590 kr., tæting 763, áburður 2254, fræ 2200, sáning, dreifing, völtun og flutningskostnaður 1155 kr. og söluskattur 105 kr. Samtals er þetta 8067 kr., kostnaður við ræktun á hektara. En þess má geta, að ef um mýrlendi er að ræða, er þessi kostnaður yfir 12 þús. kr. Í ár er jarðræktarstyrkurinn á hvern hektara kr. 1223.60 til þeirra bænda, sem hafa stærra tún en 10 hektara. Hann er með öðrum orðum liðlega helmingur fræverðsins, sem er, eins og fyrr segir, 2200 kr. Þar sem ég þekki bezt til, var mikið kal líka árið 1961. Þar við bættist óþurrkasumur og gjaffrekur vetur. Segja má, að ástæður sumra bænda séu mjög slæmar og óvíst, hvort þeir ráða við þær skuldir, sem myndazt hafa á síðustu árum, bæði af þessum ástæðum og öðrum, sem ég mun ekki rekja hér.

Er þá mikill skaði skeður, þó að nokkrir bændur flosni upp, þar sem vöntun er á vinnuafli, kunna einhverjir að hugsa? Mér kom í hug undir ræðum hér á hv. Alþ. um styrjaldarhættu, hervarnir, brottflutning fólks af hættusvæðum o.fl., hvort ráðamenn þjóðarinnar hefðu hugleitt, hverja þýðingu landbúnaðurinn hefur fyrir þjóðina, ekki sízt á styrjaldartímum. Ég leyfi mér að draga í efa, að þorri manna geri sér þetta nægilega ljóst, en það mun sannast, ef landið t.d. einangrast í styrjöld, að landbúnaðurinn er einn fær um að fæða og klæða þjóðina. Bretar sáu það bezt í síðustu styrjöld, að þeir höfðu ekki sinnt sínum landbúnaði sem skyldi, og supu seyðið af því. Eftir styrjöldina hafa þeir lagt mikið kapp á að efla landbúnað sinn með opinberri aðstoð, vel minnugir þess, hvað skilningsleysi á þýðingu hans fyrir þjóðina kostaði, þegar mest kreppti að henni í hörmungum styrjaldarinnar.

Mér finnst, að því hafi furðulítið verið haldið á lofti, hvert verðmæti landbúnaðarframleiðslunnar í raun og veru er. Árið 1958 nam það 830 millj. kr. Það hefur ekki unnizt tími til að reikna út til fulls verðmæti áranna 1959, 1960 og 1961, en talið er, að heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar 1961 muni nema um 1000–1100 millj. Það lítur stundum út fyrir, að svo sé litið á, að framleiðsla sé lítils virði, nema fyrir hana komi erlendur gjaldeyrir, en minna að því gætt, hversu mikill gjaldeyrir sparast vegna þess, sem neytt er í landinu sjálfu. En söm er þýðing atvinnuvegar fyrir þjóðina, hvort hann framleiðir vöru, sem aflar gjaldeyris eða sparar hann.

Ég hef hér á undan leitazt við að færa rök að því, að þjóðin hafi ekki efni á því, að landbúnaðurinn dragist saman, bæði öryggis vegna og til að fullnægja þörfum ört varandi þjóðar á landbúnaðarvörum. Frv., sem hér liggur fyrir til umr., er flutt í því skyni, að þeir bændur, sem nauðbeygðir eru til að endurvinna tún sín vegna kalskemmda, njóti styrks á framkvæmdina. Þótt styrkurinn sé lágur, er hann þó nokkur hjálp, en ég þori að fullyrða, að hann freistar ekki nokkurs bónda til þess að reyna að misnota hann.

Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.