22.10.1962
Neðri deild: 6. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

32. mál, landshöfn í Keflavíkurkaupstað og Njarðvíkurhreppi

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en vegna þessa frv. og þess, sem fram kom hjá hv. 1. þm. Vestf., vil ég segja þetta: Við, sem erum í nefnd þeirri, sem fer með landshöfnina í Rifi, höfum átt margar viðræður við hæstv. ríkisstj. um málefni Rifshafnar. Unnið hefur verið að því á s.l. ári og yfirstandandi ári að undirbúa það mál, svo að framkvæmdir gætu hafizt við fyrsta tækifæri, og hefur alltaf verið á það treyst, að þegar málið væri fullkomlega undirbúið tæknilega, þá mundi ekki standa á því, að hæstv. ríkisstj. legði málinu lið hvað fjármálum viðvíkur.

Ég leit svo á, að þegar þetta frv. kom fram hér á hv. Alþingi, þá sannaði það, að um jákvæða afstöðu væri að ræða hjá hæstv. ríkisstj. Ég dreg ekkert í efa, að þetta frv. er auðvitað flutt í samráði við hæstv. sjútvmrh., sem þessi hv. þm. situr hér á Alþingi fyrir og er auk þess form. í þeim þingflokki, sem hv. þm. tilheyrir. Þess vegna fagna ég því, að það er fram komið, og það er mér fyrirboði þess, að okkur Rifshafnarnefndarmönnum mun vel ganga, þegar við förum á slóð um það að koma málefni Rifshafnar áfram, sem verður vonandi á yfirstandandi Alþingi.