27.11.1962
Efri deild: 23. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1385)

105. mál, dýralæknar

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það er fjarri mér, að ég vilji mæla gegn þessu frv. Mér virðist hv. frsm. færa góð og gild rök fyrir því, að þessi breyting sé gerð, sem, hér er farið fram á. En hinu er ekki að neita, að það er meiri vandi á ferðinni en þetta í máli dýralæknanna í landinu. M.a. er svo, að í vesturhluta Vestfjarðakjálkans eiga að vera 2 dýralæknar, en þar er enginn. Og þó að ætla mætti, eins og hv. frsm. drap á, að fyrst ætti að fullnægja slíkum héruðum, þá er það rétt hjá honum, að það verður ekki leystur þeirra vandi, þótt neitað væri um þessa breytingu, sem hér er farið fram á. En ég vil beina því til hv. n., sem athugar þetta mál, að hún gefi því gætur, hvort ekki eru einhver ráð til að leysa vanda þeirra héraða, sem engan dýralækni hafa. Það má segja, að hér sé ekki ólíku saman að jafna og um venjulega héraðslækna, það þarf líka að leysa þennan vanda.

Eins og kunnugt er, þá er viða á Vestfjörðum allveruleg framleiðsla í dreifðum byggðum á mjólk, sem síðan er flutt til bæjanna, og fer hún varandi. Það er því alveg sama nauðsyn á því fyrir bændur þessara héraða að geta náð til dýralækna eins og annarra héraða þessa lands. En hvernig þetta verður gert, því er ekki auðsvarað, það skal ég játa. En þessum tilmælum vil ég beina til hv. n., að hún athugi, hvort ekki sé unnt að gera eitthvað til að leysa vanda þessara héraða, þessara bænda, sem búa við öryggisleysi hvað þetta snertir, eins og öllum er kunnugt um.