06.12.1962
Efri deild: 27. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

88. mál, almannatryggingar

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Eins og hæstv. félmrh. sagði í framsöguræðu sinni við 1. umr. þessa máls, er þess vænzt, að lög um almannatryggingar, endurskoðuð af þeirri nefnd, sem nú s.l. tvö ár hefur unnið að því, verði lögð fyrir Alþingi, áður en þessu þingi lýkur. Það þótti þó rétt að taka þau tvö atriði, sem í þessu frv. greinir, sérstaklega og setja um þau lög þegar fyrir áramót. Það er sérstaklega til þess, að þær breytingar, sem verða við það á lögunum, geti tekið gildi um áramót. En breytingarnar eru, eins og hv. alþm. vita, þær, að horfið er frá verðlagssvæðaskiptingunni, sem löngu var orðin úrelt og ég hafði fyrir löngu lagt til að væri hætt, lagði það til, þegar lögin voru endurskoðuð 1956, en þá var það ekki gert, því að svo margar sveitarstjórnir, sem voru þá aðspurðar, mæltu á móti því. En nú munu menn hafa skilið það betur en þá, að þetta er alger óhæfa, að skipta landinu í verðlagssvæði, eins og gert hefur verið til þessa.

Hin breytingin er sú, að ellilífeyrir og örorkulífeyrir megi greiðast með 7% hækkun frá 1. júní 1962. Þá hefur það verið meiningin, að þessi hækkun yrði greidd með ellilífeyrinum fyrir desember, þannig að öryrkjarnir og gamalmennin fengju þessa uppbót fyrir jólin.

Ég vil því mælast til þess, að hv. þm. greiði fyrir því, að þetta geti gengið fljótt. Eins og segir í nál. n., áskildu þeir hv. 9. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Norðurl. e. sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. Það hefur komið fram brtt. um að vikka nokkuð út þessa heimild til að greiða 7%. En ég vildi nú mælast til þess, að þeir létu það bíða þangað til síðar á þessu þingi, þegar almannatryggingalögin væntanlega koma til umr., að flytja bæði þær og aðrar breytingar, sem þeir kynnu að vilja gera á lögunum, til þess að það yrði ekkert til hindrunar því, að öryrkjarnir og gamalmennin gætu fengið núna fyrir jólin þessa bót, sem þeir eiga að fá, en það er sama upphæð og opinberir starfsmenn hafa fengið.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta meira að svo stöddu.