04.02.1963
Efri deild: 36. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (1423)

126. mál, sala Bakkasels í Öxnadalshreppi

Björn Jónsson:

Herra forseti. Hv. fyrri flm. þessa frv. sagði, að það væri ekki meining þeirra flm. að draga neitt úr öryggi fyrir ferðamenn á þessari leið, og ég er alveg sammála honum um það, og það efast sjálfsagt enginn um þeirra heilindi varðandi það. En hitt sýnist mér alveg ljóst, að þegar búið er að sundra einni jörð þannig, að einn aðili á hús og mannvirki á jörðinni og annar á landið sjálft, þá er torveldara um leigu á jörðinni. Og ég vil líka benda á, að það er auðvitað allt annað, þó að það standi í bréfi, einkabréfi frá oddvitanum eða sveitarstjórninni til hv. flm., að sveitarstjórnin mundi verða fús til að leigja land jarðarinnar á hverjum tíma, ef einhver ábúandi fengist, — það er auðvitað allt annað en það séu einhver fastákveðin skilyrði. Hvergi stendur í frv., að það eigi að selja landið með þeirri kvöð. Og jafnvel þó að áhugi kynni að vera mikill hjá núv. hreppsnefnd Öxndæla á ábúð í Bakkaseli, er alls ekki víst, að það verði svo í framtíðinni. Það gætu orðið allt önnur viðhorf þá uppi, og þar gætu ráðið menn, sem alls ekki vildu leigja jörðina.

En meðal annarra orða, þá vildi ég spyrja hv. flm. að því, hvaða hagsmunir það eru fyrir bændur í Öxnadal að kaupa jörðina, ef gert er ráð fyrir því, að jörðin fari í ábúð. Hverju breyta kaup þeirra á jörðinni um þá hagsmuni, sem þeir hafa þarna að gæta? Er leigan, sem vegamálastjórnin tekur fyrir jörðina, svo há, að þar sé um óhæfilega leigu að ræða, eða hver er hún? Getur það verið, að þessi leiga sé svo mikil, að það sé nauðsynlegt fyrir bændur að kaupa jörðina af þeim sökum til þess að firra síg svo þungri leigu? Ef leigan er lág eða kannske því nær engin, — ég skal ekkert um það segja, hv. flm, mun e.t.v. geta upplýst það, — hverju eru þeir þá bættari, þegar þeir hafa í báðum tilfellum landið, sem um er að ræða, til ráðstöfunar? Er ekki stutt í það, — það fer auðvitað eftir því, hvernig svör við þessu verða, — að áhugi sé ekki mjög mikill fyrir því hjá þessum bændum, að jörðin sé byggð, og þeim þyki betra að hafa svolítið rýmra fyrir sitt sauðfé? Er ekki stutt í það?