26.02.1963
Efri deild: 49. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (1425)

126. mál, sala Bakkasels í Öxnadalshreppi

Frsm. (Bartmar Guðmundsson) :

Herra forseti. Þetta mál var nokkuð reifað og rætt við 1. umr., svo að það er ekki ástæða til að fara miklu nánar út í það. Það verður að teljast eðlilegt, að hreppsnefnd Öxnadalshrepps leiti eftir kaupum á jörðinni Bakkaseli, sem er innsti bær í hreppnum, stendur alllangt frá öðrum bæjum og er kominn í eyði og taldar mjög litlar líkur til, að jörðin byggist aftur. Hins vegar mun sveitin eða hreppsbúar hafa fulla þörf fyrir land jarðarinnar, beitiland, og vilja þess vegna tryggja sér það með kaupum á jörðinni. Hins vegar er á það að líta, að það hefur verið á það bent, að það sé vinningur að því, að þarna sé byggt ból, vegna mikillar umferðas um Öxnadalsheiði á vetrum. Landbn. leitaði því sérstaklega eftir áliti vegamálastjóra, sem þessum málum er einna handgengnastur, áður en hún gaf út sitt álit, sem er shlj. meðmæli með sölu þessarar jarðar, en einn nm. var ekki viðstaddur afgreiðsluna, eins og segir í álitinu, hv. 1. þm. Vesturl.

Vegamálastjóri ritaði n, alllangt bréf um þetta efni og rakti þar sögu Bakkasels um allmörg ár, síðan vegamálastjórnin hafði afskipti af því að halda þar við byggð vegna ferðamanna. Það kemur fram í bréfi vegamálastjóra, að vegagerðin hefur haft allmikinn kostnað af þessu í mörg ár, þar til loks enginn maður fékkst til að búa á jörðinni þrátt fyrir talsvert miklar meðgjafir frá ríkinu nú fyrir tveimur árum. Það kemur einnig fram í bréfi vegamálastjóra, að jarðarhús eru svo léleg, að þau eru ekki til neinnar frambúðar fyrir búanda, sem kynni að fást á jörðina, og þá sennilega ekki nema með miklum meðgjöfum, og þess vegna yrði að leggja í stórkostnað við að byggja upp íbúðarhús og peningshús, til þess að jörðin gæti verið frambúðarjörð fyrir sveitabúskap. Hins vegar liggur ekki vegamálastjóri á því áliti sínu, að þarna sé nauðsynlegt að sé hús eða skýli, ferðamannaskýli í einhverri mynd. En hans álit er það, að miklu skynsamlegra sé að byggja þar skýli með aðstöðu fyrir ferðamenn, síma og einhverjum tækjum eða sæluhús heldur en að leggja í kostnað við að halda þarna við bændabýli.

Landbn. leitaði einnig álits landnámsstjóra, Pálma Einarssonar, um þetta efni, og það var mjög samhljóða. Hann lýsti því allgreinilega með tölum, hversu búskaparafkoma í Bakkaseli sé erfið, bæði vegna þess að jörðin er langt frá öðrum bæjum og þó einkanlega fyrir það, hvað húsakostur sé þar lélegur nema með stórkostnaði, og þó enn mest fyrir það, að jörðin sé ekki framtíðarjörð fyrir búskap, vegna þess að ræktunarmöguleikar séu þar litlir. Að þessu öllu athuguðu og því, að hreppsnefnd Öxnadalshrepps hefur tjáð sig reiðubúna að byggja jörðina, ef einhver bóndi fengist til að flytjast á hana, og að því athuguðu, að eðlilegt er, að hreppurinn fái umráð á beitilandi jarðarinnar; þegar þar er ekki búið, og þó einkum að því athuguðu, að vegamálastjórnin telur ekki vinning að því að halda þarna við byggð, eins og á stendur, heldur séu aðrar leiðir eðlilegri að koma þarna upp aðstöðu fyrir ferðamenn á ódýrari hátt. hefur landbn. lagt til, að frv. verði samþykkt.