26.02.1963
Efri deild: 49. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

126. mál, sala Bakkasels í Öxnadalshreppi

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Það var einkanlega út af fsp. hv. 5. þm. Norðurl. e. um það, hvort sú leiga, sem Öxnadalshreppur greiðir fyrir þetta land, sé svo há, að það sé verulegt hagsmunaatriði fyrir hreppinn að kaupa jörðina. Ég hygg, að leigan sé ekki há, svo að það út af fyrir sig sé ekki verulegt atriði í málinu. Hitt er aðalatriðið, eins og ég drap á, að hreppsnefndin mun telja sig hafa miklu meira öryggi í því að geta notað þetta land, ef hún eignast það, heldur en ef það er í eigu ríkisins, því að það geta verið fleiri en hreppsbúar á þessum stað, sem vilja gjarnan komast yfir landið til að nota það sem beitarland. Þetta er ekkert aðalatriði í málinu, eins og ég held að hafi komið fram í minni framsöguræðu, heldur er aðalatriðið í málinu það, hvort þarna sé betur séð fyrir þörfum ferðamanna með því að reyna að halda þessu býli í byggð heldur en með því að fara þá leið, sem vegamálastjóri telur eðlilegasta og ódýrasta. Hann hefur í bréfi til n. rakið það, hvað kostað hafi á undanförnum árum, meðan vegagerðin hélt við byggð í Bakkaseli með því að styrkja bændur til að búa þar. Þessi listi nær yfir nokkur ár. 1949 hefur kostnaður þarna orðið til að viðhalda byggðinni um 38 þús., 1950 18600, 1951 26 þús., 1952 27400, 1953 10500, 1956 er kostnaðurinn 33 þús. kr. og 1957 56 þús. Þetta eru nokkrar tölur af handahófi. En síðan byggðin lagðist niður, hefur vegagerðin einnig haft ofur lítinn kostnað af því að halda þarna við húsum, til þess að það v æri hægt inn í þau að fara, ef ferðamenn þyrftu á að halda, og það kostaði 1961 2700 og 1962 4700 kr. En aðalatriðið í málinu er það, að þarna er þannig aðstaða, að það er talið útilokað að fá nokkurn mann til að búa þar nema með mjög miklum styrkjum, og ekki aðeins það, heldur þurfi einnig að byggja húsin upp, og það kostar náttúrlega mikið fé, og svo í þriðja lagi, að þarna sé aðstaðan slík, að því er landgæði snertir, einkum ræktanlegt land, að þarna verði ekki búið til frambúðar.

Viðkomandi því, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. spurðist fyrir um, hvort það hefði komið fram í svari vegamálastjóra, að þarna hefðu tveir eða þrír bændur beðið um jarðnæði eða óskað eftir að fá jarðnæði, þá er því til að svara, að hann hefur hiklaust látið það uppi, að það hafi enginn maður fengizt til að búa á Bakkaseli síðan 1960.

Ég vildi láta þetta koma fram sem skýringar á þeirri afstöðu n. að taka það fyllilega til greina, sem þessi trúnaðarmaður vegaumferðarinnar í landinu telur skynsamlegt í þessu efni. Og ég er ekki persónulega í neinum vafa um það, að framtíðin þarna er ekki búskapur með svo og svo miklum styrkjum, heldur á að byggja þarna sæluhús með allri þeirri aðstöðu, sem nútíminn hefur yfir að ráða, til öryggis fyrir ferðamenn. Hitt kann að vera rétt, að það væri hægt að fá einhverja menn með því að styrkja þá svo og svo mikið til þess að búa þarna, en þó tæplega nema mjög stuttan tíma í einu hvern um sig, og það er held ég áreiðanlega hin eina rétta lausn í þessu, að þarna verði byggt sæluhús. Ég vænti þess, að þó að jörðin sé seld hreppsnefndinni, þá verði engin vandræði að fá þar lóðarréttindi til að byggja þar skýli fyrir ferðamenn, enda gengið út frá því í greinargerð frv.