04.04.1963
Neðri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1454)

186. mál, sala Vatnsenda og Æsustaða

Frsm. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Hv. forseti. Ég get ekki mælt með samþykkt þessa frv. Hv. frsm. meiri hl. landbn. hefur hér gert grein fyrir þörfum á því að flytja prestssetur úr stað. Ekki mótmæli ég neinu af því, sem hann hefur í þeim efnum að segja. En sem betur fer, vænti ég, er íslenzka ríkið ekki svo á vonarvöl, að það hafi ekki efni á að flytja prestssetur úr stað, án þess að til þess þurfi að koma til sölu á jörðum, enda hygg ég, að ríkissjóður eigi ekki í vonum þær fjártekjur af sölu þeirra jarða, sem hér eru nefndar, með þeim takmarkaða húsakosti, sem á þeim er, að það muni draga stórt til eða frá um fjárhag íslenzka ríkisins. Ég hef þess vegna ekki talið ástæðu til að taka afstöðu til málsins á þeim grundvelli, að hér væri um neina nauðsyn að ræða til þess að geta flutt þessi prestssetur. Hitt tel ég vera aðalatriði þessa máls, að hér er í frv. lagt til, að ríkisstj. fái heimild til að selja tvær ákveðnar prestssetursjarðir fyrir ótiltekið verð og til ótiltekinna kaupenda. M.ö.o.: frv. gerir ráð fyrir því, að ríkisstj. fái heimild til að selja þessar jarðir út eða suður eftir eigin geðþótta og á ótilteknu verði. Hér er því greinilega verið að heimila að taka vissar eignir ríkisins og setja þær út í hið almenna brask.

Hv. 1. þm. Vestf. hefur fyrr á þessum fundi lýst einni sölu af því tagi, sem hér gæti komið til greina að færi fram, eða er a.m.k. heimiluð, ef þetta frv. væri samþ. Ég vil alveg sérstaklega taka undir það sjónarmið og þau orð, sem hann lét falla um slíka kaupmennsku í sinni ræðu, og þá um leið ítreka hans mótmæli gegn því, að hér séu hafðar uppi vítur um það, þótt sagt sé hispurslaust frá því, hvað gerzt hefur í slíkum jarðabrasksmálum, því að það er vissulega hlutur, sem hv. alþm. hafa gott af að heyra að hér sé rifjað upp. Ég get að vísu hvorki hrakið né staðfest frásögn hv. 1. þm. Vestf. af slíku máli í Barðastrandarsýslu. En þó að okkur greini á um ýmislegt, hv. 1. þm. Vestf. og mig, þá hef ég aldrei reynt hann að því að fara hér með ósatt mál og tek þess vegna Frásögn hans fullkomlega trúanlega í þeim efnum. Ég tel þess vegna, að hans ræða um það mál geti að verulegu leyti komið hér í staðinn fyrir mörg orð af minni hálfu, en ég hef sem minni hl. í landbn. lagt til í nál. á þskj. 519, að þetta frv., sem annars gerir ráð fyrir að heimila ríkisstj. sölu á jörðunum Vatnsenda í Suður-Þingeyjarsýslu og Æsustöðum í Austur-Húnavatnssýslu á ótilteknu verði til ótiltekinna kaupenda, verði fellt.