05.04.1963
Neðri deild: 66. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

156. mál, bændaskólar

Frsm. meiri hl. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Í marzmánuði 1960 skipaði hæstv. landbrh. nefnd til þess að endurskoða núgildandi lög um bændaskóla. Enn fremur var það verkefni þeirrar n. að gera till. um framkvæmdir á bændaskólasetrunum með hliðsjón af þeim breytingum, sem n. lagði til að gerðar yrðu á búnaðarfræðslunni. Árangur af starfi n. er m.a. það frv. til l. um bændaskóla, sem hér er nú til 2. umr. í þessari hv. d. Frv. er að finna á þskj. 285 eins og það var lagt fyrir þingið, en það er á þskj. 468 eins og það var afgreitt frá hv. Ed.

Í frv. v ar ráð fyrir því gert, að bændaskólarnir yrðu tveir, svo sem nú er, á Hólum í Hjaltadal og á Hvanneyri í Borgarfirði, en hv. Ed. samþ. þá breyt. á frv., að skálarnir skyldu áfram vera þrír, eins og raunar er í núgildandi lögum, og skyldi sá þriðji vera staðsettur á Suðurlandi og byggður þar, þegar það þætti tímabært.

Landbn. var ekki sammála um afgreiðslu málsins. Við fjórir nm., sem skipum meiri hl., leggjum til, að frv. verði samþ. eins og það var afgr. frá Ed., en einn nm., hv. 2. þm. Sunnl. ( ÁÞ), leggur til, að frv. verði vísað frá þinginu með rökstuddri dagskrá.

Gagnstætt því, sem hv. minni hl. heldur fram og reynir að rökstyðja í dagskrártillögu sinni, þá er það skoðun okkar, sem erum í meiri hl., að frv. miði að því að efla og auka búnaðarfræðsluna í landinu frá því, sem nú er, og sýnist okkur því einsýnt, að samþ. beri frv: Það er á því mikil og tímabær þörf, að búnaðarfræðslan sé aukin. Einkum á þetta við um kennslu í notkun og meðferð véla og verkfæra, sem nú er mjög faríð að nota á hverju búi og segja má að enginn bóndi geti búið án: Að þessu er miðað í frv., og er þar ætlazt til, að við bændaskólana starfi kennarar með sérþekkingu i véla- og verkfærafræði, en til þess að slík kennsla verði fullnægjandi, þurfa skólarnir að eignast sín eigin verkstæði, búin fjölbreyttum kennslutækjum, áhöldum, vélum og verkfærum, sem nauðsyn er að hafa tiltæk við slíka kennslu.

Í áliti bændaskólanefndarinnar er talið, að hús að stærð um 500—600 fermetrar nægi til kennslu í vélfræði, verkfærafræði og smíðum; og mundu slík hús kosta um eina milljón króna við hvern skóla, og sjálfsagt kostar það talsvert mikið fé að búa þessi hús nauðsynlegum tækjum. En ég lít svo á, að í slíkan kostnað megi ekki horfa um of, svo nauðsynlegur þáttur sem kennsla í vélfræði og allri meðferð véla er orðinn í sjálfri búnaðarfræðslunni.

Ég er og mjög sammála því, sem fram kemur í grg. n. með frv., að gagnlegt geti verið að efna til stuttra námskeiða við búnaðarskólana í hinum ýmsu greinum búfræðinnar. Slík námskeið gætu stuðlað að því, að bændaefni og jafnvel ýmsir bændur gætu sótt sér gagnlega fræðslu til skólanna, þótt annarra aðstæðna vegna gætu ekki stundað þar fullt nám. Og það ætti líka að stuðla að því, að það væri hægt að gera þessi námskeið og raunar allt námið við skólana fjölbreyttara og gagnlegra, að ákveðið er með frv. að fjölga kennurum við skólana, fjölga þeim um tvo við hvorn skóla. Slík fjölgun kennara ætti að geta tryggt, að það sé hægt að bæta við nýjum námsgreinum, eftir því sem nauðsynlegt er talið og eftir því sem tímans kröfur krefjast, ef fleiri sérmenntaðir menn en nú mundu starfa við þá.

Ég vil svo aðeins segja það, að ég get ekki neitað því, að ég er dálítið hissa á afstöðu þeirri, sem hv. þm. Framsfl. hafa tekið til þessa máls hér í þinginu. Þeir rökstyðja sitt mál með því, að frv. sé lítils háttar, gangi of skammt. Samt hef ég ekki orðið var við, að þeir hafi gert neina tilraun til þess að bera fram breyt. á frv. til bóta á því, sem þeir telja því áfátt um, og mér er nær að halda, að frsm. hv. minni hl. í Ed. hafi ekki í sínum ræðum þar komið með neinar ábendingar um það, hvernig hann vildi láta haga búnaðarfræðslunni. Úr því að það er óskað áframhaldandi endurskoðunar á þessum lögum, þá hefði það að sjálfsögðu verið nokkurs virði fyrir þá n., sem það starf ætti að vinna, að hún hefði héðan frá hv. Alþingi fengið einhverjar ábendingar um þetta efni.

Þá er að því fundið í rökstuðningi dagskrártill., að enginn bóndi skyldi hafa átt sæti í þeirri n., sem undirbjó frv. og endurskoðaði lögin um búnaðarskólana. Vissulega hefði ég ekki haft neitt á móti því, að í þeirri n. hefði átt sæti einhver bóndi eða hændur, en mér finnst nú samt þessi ástæða vera tylliástæða, þegar á það er litið, hverjir áttu sæti í endurskoðunarnefndinni. Þar áttu sæti m.a. báðir skólastjórar bændaskólanna, og auk þess sem þessir menn þekkja öðrum mönnum betur þarfir bsendaskólanna og búnaðarfræðslunnar, þá eru þeir mjög kunnugir öllum sjónarmiðum bænda, enda má raunar segja, að þeir séu bændur sjálfir, þótt þeir beri ekki það starfsheiti, menn, sem árum saman eru búnir að veita forstöðu einhverjum stærstu búum, sem til eru í landi okkar. Ég verð að segja það, að mér finnst alveg ómaklegt það vantraust, sem kemur fram í þessari dagskrártillögu, sem var flutt í Ed. og nú aftur hér í þessari d., alveg ómaklegt vantraust á þessum mætu mönnum, sem fram kemur í þessum aðfinnslum og raunar kom fram í umsögn búnaðarþings um frv. Ég sé ekki neina ástæðu til þess, að það sé verið að gefa það í skyn, að þessir menn þekki ekki eins vel sjónarmið bændanna og raunar bændurnir sjálfir, því að það er eins og ég segi, þeir eru bændur, þótt þeir beri ekki það starfsheiti.