05.04.1963
Neðri deild: 66. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

156. mál, bændaskólar

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Ég hef lagt fram till. til rökst. dagskrár í máli þessu, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að frv. þetta er á ýmsan hátt ófullkomið og eigi til þess fallið, ef að lögum verður, að efla bændaskólana og auka veg búnaðarfræðslunnar í landinu, svo sem nauðsyn ber til, og þar sem æskilegt er, að búnaðarþing eigi þess kost að gera rökstuddar till. um breytingar á búnaðarfræðslunni, áður en sett er ný heildarlöggjöf um bændaskóla, og í trausti þess, að ríkisstj. hlutist til um, að mál þetta verði endurskoðað af n., er skipuð sé m.a. einum manni eða fleirum úr bændastétt, telur d. ekki rétt að lögfesta þetta frv. og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þessi afstaða mín til frv. er byggð á því, að ég tel frv. ekki gera ráð fyrir nógu rismikilli breytingu til að efla og auka búnaðarfræðslu við bændaskólana. Það skal vel vanda, sem lengi á að standa, segir forn málsháttur. Ég held, að það sé ekki enn þá almennt nægilega ljóst fyrir mönnum, að starf bóndans á okkar dögum er að verða mjög margþætt, og sífellt eru að opnast ný svið til þekkingar, sem nauðsynlegt er fyrir bændur að tileinka sér. Þetta gildir um alla þætti búskaparins, jarðræktina, fóðrun búpenings, nýtingu og meðferð áburðar, varðveizlu eða geymslu fóðursins, þekkingu á hinum margvíslegu vélum, sem til búskaparins þarf, og réttri notkun þeirra, og síðast, en ekki sízt, má nefna, hversu nauðsynlegt það er fyrir bændur að hafa meira en sitt eigið brjóstvit á að byggja um hina hagfræðilegu þætti í búskapnum, eins og nú er komið. því að nú er svo að segja hvert bú rekið með daglegum viðskiptum við ýmsar viðskiptastofnanir. Enn fleira mátti nefna af sérfræðilegum atriðum, sem nauðsynlegt er fyrir bændur að bera skyn á, en ég mun ekki drepa á fleiri atriði en ég hef þegar gert. En svo er þar að auki mikil nauðsyn fyrir beendur að hafa aflað sér almennrar þekkingar á unga aldri, m.a. vegna þess, að þeir verða að hafa með höndum alls konar félagsleg og opinber störf hver í sínu héraði, eftir því sem þeim er falið af þeirra samtíðarmónnum. Þegnlegar og borgaralegar skyldur í nútímaþjóðfélagi verða ekki ræktar, svo að vel sé, nema til komi allvíðtæk almenn menntun.

Fyrir nokkrum missirum heyrði ég einn af skólastjórum unglingaskóla úti á landi segja, þegar hann setti skóla sinn, að i nútímaþjóðfélagi yrðu þeir unglingar eins konar öryrkjar, sem ættu ekki völ á góðri menntun á þeim sviðum, er þeir vildu starfa á. Ég tel, að þessi setning hins reynda skólamanns hafi að geyma rétta mynd af því, sem verða mun, þar sem hin mikla tækniþróun og vísindi hafa í raun og veru tekið við af striti genginna kynslóða.

Við viljum öll stefna að því á sem flestum sviðum að láta vit koma í staðinn fyrir strit. Um það er auðvitað enginn ágreiningur, hvorki hér á Alþingi né yfirleitt annars staðar. Mjög ör bylting er nú að gerast í íslenzkum landbúnaði á sviði alls konar nýrrar tækni, bæði í vinnubrögðum og daglegum rekstri. Bændur framtíðarinnar þurfa því, eins og ég hef nokkuð drepið á, mjög á aukinni og fjölbreyttri þekkingu að halda, og við þá þörf þarf auðvitað og á að miða uppbyggingu þeirra bændaskóla, sem við Íslendingar eigum, og þeirra, sem reistir kunna að verða í framtíðinni.

Ég viðurkenni það, að nokkur bót er að þessu frv. frá því, sem verið hefur, og ég vil einnig taka það fram, að sú breyting, sem á frv. var gerð í Ed. um að gera ráð fyrir þriðja bændaskólanum á Suðurlandi, er til báta og er sjálfsögð endurböt á frv., eins og það kom frá mþn. En úr því að ekki var gert ráð fyrir svo sjálfsögðum hlut og því, að Suðurland með 1/4 af öllum bændum landsins og þar sem eru beztu skilyrði hér á landi til landbúnaðar, fengi búnaðarskóla, þá finnst mér, að ekki sé ólíklegt, að ýmislegt fleira kynni nú að vera í þessu frv., sem athugunar þyrfti við. Ég tel óeðlilegt, að svo þýðingarmikil lög eins og lög um búnaðarfræðslu séu endurskoðuð og sett án þess að fagfélag bændastéttarinnar, Búnaðarfélag Íslands, eða búnaðarþingið væri haft með í ráðum um þá endurskoðun, — og þess vegna legg ég til, að málið verði betur athugað, og þarf þá bændastéttin að koma sínum sjónarmiðum að. Það var auðvitað í alla staði eðlilegt, að skólastjórar bændaskólanna væru í þeirri nefnd, sem endurskoðaði lögin um bsendaskóla, og fjármálaeftirlitsmaður skólamála, sem er merkur embættismaður með mikla og góða fortið og reynslu í skólamálum, en ég hygg, að bændastéttin hefði mátt og átt að eiga þar starfandi bændur til umráða við þá ákvörðun um form búnaðarfræðslunnar á næstu tímum. Ég býst t.d. við, að iðnaðarmönnum þætti það heldur óviðfelldið, ef lög um iðnfræðslu væru endurskoðuð og þeir fengju ekki að taka þátt í slíku, og svo hygg ég að væri um fleiri stéttir.

Með þessum fáu orðum, sem ég hef hér sagt um þetta, vildi ég hafa lýst í stórum dráttum minni afstöðu eða mínu viðhorfi til þessa máls.