05.04.1963
Neðri deild: 66. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

156. mál, bændaskólar

Óskar Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst eðlilegt, áð menn segi skoðun sina á þeim till., sem liggja frammi í frv, til l. um bændaskólana: Ég ætla ekki að fara að leggja neinn dóm á það, hvort það frv. muni verða til mikilla hagsbóta fyrir bændastéttina. Ég geri ráð fyrir, að svo sé. En ég get ekki annað en tekið undir þá rökstuddu dagskrá, sem 2. þm. Sunnl. hefur flutt hérna, og ég geri það sérstaklega með tilliti til þess, að hér hafa verið flutt frv. um aðra skóla, sem skal koma hér á stofn, svo sem um kennaraskóla og um tækniskóla, og ég sé ekki betur af flutningi þeirra frv. en mjög hafi verið leitað til þeirra manna, sem þar fara með þau mál, til þess að undirbúa þá skólalöggjöf, mjög verið leitað til þeirra á öllum sviðum. Þess vegna tel ég, að það hefði verið eðlilegt, að sama aðferð hefði verið höfð við undirbúning laga um bændaskóla, að leitað hefði verið einnig mjög til bændastéttarinnar um till. um, hvernig hún óskaði eftir, að sá skóli væri úr garði gerður. Mér finnst þetta ekki nema eðlileg og rétt afstaða, af því að ég sé ljóslega, að það hefur verið allt annar háttur hafður á um undirbúning að frv., svo sem um kennaraskólann og tækniskólann.

Ég ætla ekki að segja fleira um þetta, en ég vil aðeins láta þessa skoðun mína í ljós, og ég tel eðlilegt, að þegar jafnmikið vandaverk er að vinna eins og að koma á löggjöf um skóla, sem eiga að vera til menningar og uppbyggingar heilli stétt í þjóðfélaginu, þá fái þessi stétt óskoraðan rétt til þess að fjalla um málið og vinna að því, að það geti orðið sem bezt úr garði gert. Að þessu athuguðu finnst mér eðlilegt og ég mun styðja það, að rökst. dagskrá verði samþykkt.