05.04.1963
Neðri deild: 66. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (1482)

156. mál, bændaskólar

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Þegar það frv., sem hér er til umr., var lagt fyrir þingið, fól það í sér m.a. þá breytingu frá gildandi lögum um þetta efni, að bændaskólar í landinu áttu að verða aðeins tveir, eins og þeir eru, í staðinn fyrir það, að í gildandi lögum er gert ráð fyrir þremur bændaskólum i landinu, þótt aldrei hafi einn þeirra komizt á fót. Starfandi bændaskólar eru nú á Hólum í Hjaltadal og á Hvanneyri í Borgarfirði, svo sem alkunnugt er, en gildandi lög um þetta efni gera ráð fyrir því, að bændaskóli eigi einnig að vera starfræktur í Skálholti. Sá bændaskóli hefur aldrei komizt á, og Alþingi hefur haft til meðferðar allt aðra ráðstöfun á Skálholti en þau lög gerðu ráð fyrir. Máske hefur sú nefnd, sem undirbjó þetta lagafrv., haft eitthvert veður af því, hvað til stæði um Skálholt, og í samræmi við það tekið það út úr þeim lagabálki, sem þeir voru að semja, að einn bændaskóli skyldi vera á Suðurlandi. Að því leyti var frv., eins og það var upphaflega lagt fyrir þingið, nokkru rislægra en sú löggjöf, sem gildandi er nú um bændafræðsluna. Þessu hefur hv. Ed. breytt, og í frv., eins og það kemur fyrir þessa deild, er gert ráð fyrir bændaskólum á Hólum, á Hvanneyri og á Suðurlandi, án þess að það sé nánar tiltekið, á hverjum stað á Suðurlandi sá skóli eigi að rísa.

Ég get verið sammála ýmsum þeim, sem hér hafa talað um þetta frv., um það, að þetta frv. markar engin sérstök tímamót í bændafræðslunni. Það er ekki af þeirri stærð. Engu að síður ber að játa það, að gildandi löggjöf um bændafræðsluna er þegar sprungin, þ.e.a.s. sú löggjöf gefur ekki það olnbogarúm, sem nauðsynlegt hefur reynzt til starfsemi bændaskólanna, og þar af leiðandi hafa bændaskólarnir nú tekið upp kennslu, sem er umfram það, sem gildandi löggjöf gerir ráð fyrir. Að því leyti er það rétt, sem aðrir menn hafa hér haldið fram, talsmenn þessa frv., að það beri nokkra nauðsyn til að breyta þessum lögum, þótt ekki sé nema til samræmis við það, sem í reyndinni er. Ég er þeim um það sammála og hef tekið afstöðu um það í landbn., að ég mæli með samþykkt þessa frv.

Ég vil að lokum aðeins víkja að því, að búnaðarþing mun hafa lagt þetta mál til hliðar, vegna þess að þeim fannst ekki það ris yfir málinu, sem þeir gjarnan hefðu viljað hafa. Síðan búnaðarþingi lauk, hefur verið sett það ris á málið til viðbótar við það, sem fyrir lá, að hv. Ed. hefur, eins og áður er á minnzt, bætt inn i þetta lagafrv. möguleikanum til þess að reisa hinn þriðja bændaskóla, sem frv. upphaflega gerði ekki ráð fyrir. Ég tel, að þar hafi verið verulega bætt úr. Ég virði það mjög við búnaðarþing og þá fulltrúa bændastéttarinnar, sem þar halda á málum, að þeir eru hvað mestir höfðingjar í þessu landi um þessar mundir að því er varðar reisn yfir byggingum og máske rekstri, og ég vænti þess þá, að búnaðarþingið og fulltrúar bænda eigi þess fullan kost innan ramma þess frv., sem hér liggur fyrir, að koma á stofn hinum þriðja bsendaskóla, sem nú er ekki til, að beita áhrifum sínum að því, að komið verði á stofn hinum þriðja bændaskóla, sem nú er ekki til, bændaskóla á Suðurlandi, og sá skóli geti þá verið með þeirri reisn, sem bændasamtökunum er samboðin og bændastéttinni nauðsynleg.